Saga Vestmannaeyja II./ VI. Afgjöld og skattar, 2. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. ágúst 2011 kl. 20:36 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. ágúst 2011 kl. 20:36 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <br> <br> <big><big><center>Kirkjugjald (kirkjufiskur).</center></big> <br> Vestmannaeyjaprestarnir munu hafa að miklu leyti kostað sjálfir viðhald kirknanna að Kirkjubæ og Of...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Kirkjugjald (kirkjufiskur).


Vestmannaeyjaprestarnir munu hafa að miklu leyti kostað sjálfir viðhald kirknanna að Kirkjubæ og Ofanleiti, er munu hafa verið litlar torf- eða timburkirkjur, en kirkjutíundanna nutu prestarnir. Hin nýja Landakirkja var reist 1573 og var timburkirkja allstór. Prestarnir greiddu tillag til hennar í eitt skipti fyrir öll. Þessi kirkja hafði engan fjárhagslegan stuðning nema það, sem henni barst í frjálsum gjöfum, fyrr en hinn svonefndi „kirkjufiskur“ var lögleiddur sem sérstakt kirkjugjald í Vestmannaeyjum.
Til þess að bæta hag kirkjunnar, sem eftir 1573 var orðin sameiginleg sóknarkirkja fyrir bæði prestaköllin í eyjunum, var það loks tekið til ráðs fyrir forgöngu prestanna og sennilega einnig konungsfógeta og helztu bænda, að ákveðið var með héraðssamþykkt, að kirkjunni skyldi goldið sérstakt gjald, er ákveðið var í fiski, kirkjufiskur. Samþykkt konungsfógeta, presta beggja og alls almúga í Vestmannaeyjum frá 11. okt. 1606, um að leggja skuli einn fisk til Landakirkju í hverjum útróðri um vertíðina, er einn fiskur fáist í hlut af hverju skipi, sem gengur til sjóar úr Vestmannaeyjum.¹) Nefndan dag og ár var allur almúginn í Vestmannaeyjum, bæði bændur og húsmenn samansafnaðir í kóngs Majestatis Dönskuhúsum, eins og segir í samþykktinni, til þess þar á sama stað „að repetera, yfirskoða og umhugsa af kristilegri aumkvun um Landakirkju, hennar fátækdóm og stóru neyð. Hún, sem þar hefir verið sett, sem hún enn stendur þennan tíma á því ári, sem menn skrifuðu anno 1573 og síðan og til þess fyrrnefnda dags hefir enga hjálp, forsvar, aðstoð eða uppeldi haft í nokkurn máta. Þykir oss, fátækum almúga, þetta ókristilegt og harðlegt og vissulega óttumst við, að Guð muni og kunni taka fiskinn héðan í burtu fyrir slíkt annað fleira og meira“. Hafði konungsfógeti lýst því yfir, að konungi bæri sá 1/3 hluti prestatíundarinnar, er honum galzt, og prestarnir kváðust heldur eigi geta misst neitt af þeim 1/3 hluta nefndrar tíundar, er þeir fengu hvor. Þessu treystist enginn til að mótmæla, og úr því ekkert tillag gat fengizt frá prestatíundinni, en í henni var hin forna kirkjutíund fólgin, varð að leita annarra ráða. Var svo samþykkt gerð hér um í 11 greinum. Samþykktin ber vott um alveg einstæðan áhuga og umhyggju Vestmannaeyinga fyrir kirkju sinni og djörfung til að koma þessu máli fram.
Það hefir verið talið sennilegt,²) að samþykkt þessi um kirkjufisksgjaldið til Landakirkju hafi verið borin fram í lögréttu á Alþingi þegar á næsta sumri, 1607, og verið samþykkt þar, en áður hafi hún hlotið staðfestingu og samþykki biskups og höfuðsmanns. Alþingisbækur frá þessum tímum eru glataðar, svo að eigi verður þetta sagt með fullri vissu. En víst er, að samþykktin var haldin í ströngu gildi lengi og myndi það tæplega hafa verið, ef hún hefði eigi hlotið samþykki æðri yfirvalda. Gegn staðfestingunni gæti ef til vill mælt það, að samþykktin innihéldi ákvæði, sbr. 11. gr., er gerir undantekningu frá einokunarbréfi konungs frá 20. apríl 1602, og gengur því allnærri eða fer í bága við þágildandi verzlunarlöggjöf, en hér var að vísu um svo smávægilegt atriði að ræða, að harla litla þýðingu gat haft, og aðgætandi er, að konungsfógetinn í eyjunum stóð að samþykktinni, sjálfsagt með samþykki kaupmanna, einnig, að í tilskipuninni frá 20. apríl 1602 eru Vestmannaeyjar eigi nefndar. Konungsfógeti eða undirkaupmaður lét veita móttöku kirkjufiskinum, er var látinn saman við verzlunarfiskinn, og andvirði hans svarað út í vörum eða fært kirkjunni til reiknings með „innskrift“. Hefir þessu verið þannig varið lengstum. Ekki sést, að til ágreinings hafi nokkurn tíma komið út af 11. gr.
Um framkvæmd kirkjusamþykktarinnar er það að segja, að hún hefir verið haldin í aðalákvæði sínu, sbr. 1. gr., og til kirkjunnar greiddur 1 fiskur í hverjum róðri af hverju skipi á vertíð, er 1 fiskur var í hlut á mann. Hefir þessu farið þannig fram frá því að samþykktin komst á og fram yfir 1700, sbr. Reikningsbók Landakirkju 1631—1704.
Samþykktin um kirkjufiskinn var staðfest síðar af Jóni biskupi Vídalín, 13. ágúst 1717. Kirkjan var síðar studd með framlögum úr konungssjóði, sbr. tilsk. frá 1748. Fyrir fé konungssjóðs var hin veglega steinkirkja byggð 1774—1778 og kostaði 5147 rd. Sú venja hafði og komizt á í eyjunum, að menn gáfu til kirkjunnar fiskgjafir viss ár, svo sem þriðja hvert ár og því um líkt. Þessi venja hefir verið forn og gjafir gefnar á nafndögum kirknanna, en mun hafa verið fallin niður að miklu leyti á síðari hluta 16. aldar eða fyrr; hefir svo vakist upp aftur eftir 1606 og hélzt svo lengi.
Hinn löggilti kirkjufiskur nam árlega í meðalári 200—300 fiskum. Af gjafafiski barst kirkjunni 5—20 f. frá hverjum bónda þau árin, sem gefið var, og frá tómthúsmönnum 2—5 f. Frá skipurum og sjómönnum á kaupskipum bárust oft gjafir.
Með reglug. 25. marz 1778³) var staðfest ákvæðið um kirkjufiskinn, sbr. samþykktina 1606, og svo fyrir mælt, að greiða skuli kirkjunni einn góðan fisk af hverjum báti, sem gangi í eyjunum til róðra, hvort sem það sé á vertíð eða utan vertíðar, ef til skipta kemur 1 fiskur eða meira í hlut. Gengur ákvæðið því hér lengra en það náði með samþykktinni 1606, að nú máttu menn og greiða af bátum, er gengu utan vertíðar. Segir, að téð greiðsla skuli koma í stað hinna fornu tíunda til kirkjunnar, og mun þar vera átt við fiskatíundina, er fyrir löngu var runnin saman við prestatíundina. Nú var og lögfest það ákvæði, að sóknarmenn skyldu greiða fyrir stólasæti í kirkjunni. Gjöld fyrir stólasæti munu hafa þekkzt hér áður, a.m.k. frá því á 18. öld og hélzt hér lengi. Greiðsla fyrir sæti í kvennastólum niðri í kirkjunni, smávægileg að vísu, hélzt hér fram um aldamótin síðustu.
Í reglugerðinni frá 1778, 6. gr., voru og ákvæði um skyldu útróðrarmanna af landi til að greiða sérstakt gjald til Landakirkju fyrir að hafa sæti í kirkjunni. Vermenn höfðu kirkjusæti á Haustmannaloftinu, er svo var kallað. Var ákveðinn einn fiskur fyrir vertíðina af hverjum vermanni af landi, er sjóróðra stundaði hér. Sætisgjald vermanna til Landakirkju hefir þó verið komið á áður en reglugerðin var gefin út, sbr. vísitasíu kirkjunnar frá 1749, er talar um sætagjöldin meðal tekna kirkjunnar. Sams konar gjald og þetta þekktist víðar í sjóplássum hér á landi. Þannig var vermönnum gert að greiða til Hvalsnesskirkju og Útskálakirkju í Gullbringusýslu sætagjald, sbr. reglug. 1. des. 1752.⁴) Kirkjan á Einarslóni á Snæfellsnesi átti og rétt til að fá einn fisk af hverjum útróðrarmanni í Einarslóni og Dritvík, sbr. kansellíbr. 13. júní 1778.⁵)
Legkaup og ljóstollar eru nú ákveðnir kirkjunni á sama hátt og annars staðar gilti.
Reikningsbók kirkjunnar áttu prestarnir og sýslumaður að endurskoða, og lögð skyldi hún fyrir héraðsprófast, er hann kom að vísitera.
Vísitasíulaun prófasts, er voru greidd af fé kirkjunnar, voru ákveðin 2 rd., sbr. kansellíbr. 18. marz 1786,⁶) og var það nokkru hærra en áður hafði verið. Gjald þetta var hækkað upp í 5 rd. 1834 með tilliti til þess, hversu þessar ferðir prófasts til eyja gætu verið kostnaðarsamar, sbr. rentuk.br. 26. apríl 1834.⁷) Við úttektir á prestssetrum var prófasti greidd „fri Fortæring“ og 1 rd. fyrsta daginn, 64 sk. annan daginn, 32 sk. þriðja daginn og eigi meira, sbr. tilsk. 24. júlí 1789.⁸) Um aldamótin síðustu voru vísitasíulaunin kr. 8,20.
Um kirkjugarðinn við Landakirkju, sem, eins og áður segir, er nokkuð austur af kirkjunni, eru og að finna ákvæði í nefndri reglug., 10. gr., þess efnis: Umboðsm. skal sjá um, að sóknarbændur hlaði upp kirkjugarðinn og endurbæti eftir þörfum, og öllum íbúum eyjanna er skylt að inna þess konar störf af hendi, ókeypis utan vertíðar og sláttar, og sömuleiðis mönnum af landi, ef þeir dvöldu í eyjum.
Ákvæðin um greiðslu hinna sérstöku fiskgjalda til kirkjunnar voru upphafin á 19. öld; sætagjald vermanna, sbr. reglug. 23. des. 1829, og hinn almenni kirkjufiskur frá 1. jan. 1879 að telja, sbr. lög 14. des. 1877. Eftir þennan tíma voru í Vestmannaeyjum greidd venjuleg lögboðin kirkjugjöld sem annars staðar. Sjá og lög nr. 40, 30. júlí 1909, 5. gr., um upphaf hinna almennu kirkjugjalda og lögleiðingu á einu almennu gjaldi til kirkjunnar, kirkjugjaldinu.


Sýslumannslaun (sýslumanns-, salarii- eða hundraðsfiskur).


Sýslumannsumdæmi fyrir sig urðu Vestmannaeyjar eigi fyrr en allseint. Lágu þær áður lengi til dómgæzlu undir sýslu á landi, lengstum undir Rangárvallasýslu, er þær hafa heyrt undir til forna, stundum og undir Árnessýslu og jafnvel undir Skaftafellssýslu. Fyrrum hafa verið tekin venjuleg laun fyrir innheimtu skatta héðan til konungs og tolla. En eyjarnar urðu, eins og lýst hefir verið hér á undan, snemma konungseign, og hefir þá orðið breyting á í þessum efnum, sem svo mörgum öðrum. Flest eða allt var miðað við það, að eigi skertust tekjur konungs af eyjunum. Margt af þeim störfum, er sýslumönnum tilheyrðu, kom síðar — einkum eftir að konungsverzlunin var stofnuð hér — undir konungsfógetann og umboðsmanninn, svo sem skatt- og tollheimta. Fógetarnir höfðu og dómsvald í þeim málum, er risu út af brotum á fyrirskipunum og bönnum konungs gegn verzlun og útgerð útlendinga, er mikið var um, meðan verið var að festa konungsverzlunina í sessi. Einnig í landhelgismálum, er hér komu fyrir löngu fyrr en annars staðar á landinu, eða undir lok 16. aldar.
Fógetar konungs hér, er voru danskir menn, höfðu hér lögreglustjóravald og dómsvald í mörgum málum, eins og sést af erindisbréfum þeirra. Í sumum þeirra beinlínis tekið fram, að kaupsveinninn hér, er jafnframt sé fógeti konungs, skuli láta dóma ganga yfir þá, sem óhlýðnist skipunum konungs og hegna þeim, sjá t.d. erindisbréf Paul Pedersens 13. nóv. 1590, sbr. bréf 26. nóv. 1592.⁹) Vísast og til reglna um landhelgi við Vestmannaeyjar 10. maí 1598.¹⁰) Í málum, sem báðir eða annar aðili voru útlendingar, var fógeti dómari eða meðdómari. Afgjöld, skatta og tíundir innheimti konungsfógetinn, sjá konungsbréf 15. apríl 1561, og tolla af erlendum skipum, sbr. opið bréf 9. apríl 1570. Áður munu sýslumenn samt hafa annazt hér tollinnheimtu. Sýslumanns var því lítil þörf og látið nægja, að hann kæmi hingað einu sinni á ári til að þinga og dæma í almennum málum. Þannig varð komizt hjá að mestu að greiða sýslumanni, en að vísu voru hin eiginlegu sýslumannslaun, er þau fyrst komu fram, lögð á fiskahluti eyjamanna og landmanna, en skipshlutum konungs með öllu hlíft.
Kristján konungur fjórði gaf út tilskipun til Herluf Daa höfuðsmanns 1609 um stofnun sýslumannsembættis hér.¹¹) Í tilskipuninni segir, að sýslumennirnir hafi af ferðum til eyjanna, er þeir voru vanir að fara á vissum tíma á ári, mikinn tilkostnað og óþægindi, og komi það oft fyrir, að þeir teppist hér um langan tíma sökum óveðra og brima. Eigi er samt í tilskipuninni ákveðin nein borgun til sýslumanna fyrir þessar ferðir.
Í tilskipuninni er gert ráð fyrir því, að höfuðsmaður velji mann, hér heimilisfastan og hæfan, í sýslumannsstöðuna og sverji hann konungi eið. Eigi mun þó hafa verið til þess ætlast beinlínis, að maðurinn væri löglærður. — Af sýslumannsskipuninni í Vestmannaeyjar varð samt ekkert í bráðina, enda ekkert í tilskipuninni tekið fram um laun handa eyjasýslumanninum, og það eigi fyrr en 1633, er önnur tilskipun var gefin út 22. okt. 1633 um stofnun sýslumannsembættis í eyjunum, svo framarlega sem þess sé nauðsyn og þörf. Hljóðar launaákvæðið um, að sýslumanni skuli greiddir einn eða tveir fiskar af hverju fiskhundraði, er menn afli, er fiskveiðar stundi, og tekið fram, að þessi greiðsla komi sem endurgjald fyrir kostnað við ferðir sýslumanns til eyjanna fram og aftur í dómgæzluerindum.¹²) Tilskipunin gerir ekki ráð fyrir því, að sýslumaður sé hér búsettur. Ákvæðið um sérstaka þóknun fyrir eyjaferðir sýslumannanna í dómaraerindum mun nú fram komið vegna þess, að eftir Tyrkjaránið gerðust störf eyjasýslumanna miklu umsvifameiri en verið hafði áður, eins og sjá má af dómum frá þessum tímum um arfa- og umboðstökur eftir hina herleiddu, um hjónabandsmál eyjabúa og ýmsa skipun á málefnum manna eftir ránið, sbr. hin mörgu biskupsbréf frá þessum tímum, er að téðum málum lúta.¹³) Auðsætt er, að eftir Tyrkjaránið hefir verið lögð meiri áherzla á að fá sérstakan sýslumann, sbr. Alþingisályktun 30. júní 1632.¹⁴) Segir í ályktun þessari, að í Vestmannaeyjum beri að hafa yfirvald, er hafi löglega lagastjórn á hendi. Árangurinn af téðri þingsályktun er sá, er kom fram í tilsk. 22. okt. 1633 um skipun sýslumanns í eyjarnar, sbr. og konungsbr. 20. marz 1634, þar sem þetta er ítrekað.¹⁵) Kláus Eyjólfsson lögsagnari á Hólmum var nú settur fyrir sýsluna í eitt ár. Launin eða þóknunin, er sýslumanni var ákveðin, var 1—2 fiskar af hundraði, og því kallaður hundraðsfiskur, einnig skattfiskur o.fl.
Í tilsk. frá 1633 var undirstöðuákvæðið um greiðslu hundraðsfiskjarins og vísað til hennar í dómum í málum út af ágreiningi um téða greiðslu, er fljótt hafa risið upp, því að bæði var það, að ákvæðin hér um voru nokkuð óljós, t.d. hvort greiða skyldi af öllum fartækjum og af hlutum vermanna, og tregða hjá mörgum við að inna þessa nýju gjaldkvöð af hendi. Var dæmdur dómur að Stórólfshvoli 1655 af Hákoni Ormssyni sýslumanni, um greiðslu sýslumannsfiskjarins. Var með dómi þessum dæmt, að skylt væri heimamönnum og aðkomusjómönnum að greiða sýslumannsfiskinn af hendi í síðasta lagi fyrir vertíðarlok, en þeir, er eigi gjaldi, verði brotlegir við „kgl. maj.“ skipan. Dóm þennan kom Magnús Bjarnason eyjasýslumaður með í lögréttu á Alþingi 30. júní 1655. Magnús hafði Vestmannaeyjasýslu eina, en sat þó á landi. Dómurinn var staðfestur í lögréttu með tilvitnun Árna lögmanns Oddssonar til konungl. majest. bréfs hér um. Er þar átt við konungsboðskapinn frá 1633.¹⁶) Þessar reglur hafa gilt um greiðslu sýslumannsfiskjarins samkvæmt tilsk. 1633, sbr. amtsúrskurði 8. sept. 1761 og 24. júlí 1800. Umrætt gjald af hverjum fiskahlut, bæði mannshlutum og skipshlutum, dauðum hlutum, (hundraðsfiskurinn) skyldi greiðast með 1—2 fiskum af hverju hundraði, stóru, er á skip aflaðist í Vestmannaeyjum, hvort sem það voru eyjaskip eða landskip, hverjir sem áttu og á hvaða tíma árs sem var. Gjaldafiskurinn, góður málsfiskur, hausaður og flattur, blautfiskur, skyldi vigta 9—10 pd., væri einn fiskur greiddur, annars tveir fiskar, er samsvöruðu þessari þyngd.¹⁷) Af smáu hundraði skyldi greiða, þegar hlutur náði eigi stóru hundraði, eða þegar hlutur var svo hár, að tíutíu eða tíutíu og tíu voru fram yfir eitt eða fleiri stór hundruð.¹⁸) Upphaflega mun hafa verið ætlazt til, að greitt væri að afloknum róðri með blautfiski, eftir hundraðstölu afla á bát, og skyldi formaður tilkynna sýslumanni afla úr hverjum róðri. Sýslumaður hélt bók eða skrá yfir alla báta, er héðan gengu, hásetatölu og skipseigendur. Formenn og skipseigendur og húsbændur fyrir vinnumenn sína báru ábyrgð á greiðslu gjaldafiskjarins til sýslumanns. Sú venja mun og hafa komizt fljótt á, að menn greiddu fiskinn í vertíðarlokin með verkuðum harðfiski, eða að greitt var eftir verðlagsskrá eða í innskrift til kaupmanna.¹⁹) Í úrskurðinum frá 1761 segir, að í öllum þeim sökum, er hljótist út af téðum málum, gildi í Vestmannaeyjum eins dags stefnufrestur fyrir þingdaginn, jafnhliða 14 daga stefnufresti. Dómur um lögheimili í verum, einnig í Vestmannaeyjum, vetur og vor, dæmdur í Lambey 1592, staðfestur á Alþingi.²⁰)
Þótt svo héti, að greitt væri af öllum skipshlutum, voru skipshlutir af konungsskipunum undanþegnir. Út af þessu varð ærin óánægja. Þótti landmönnum hart að verða að greiða af sínum skipshlutum til að launa sýslumann eyjamanna, og prestar báru sig undan því að verða að greiða af sínum hlutum, en þrátt fyrir umkvartanir fékkst engu hér um þokað.
Sýslumennirnir áttu afkomu sína eins og prestarnir undir árferðinu, hversu vel aflaðist. Hafa sýslumennirnir eigi síður en hinir oft mátt ganga fast eftir réttilegri greiðslu og leita úrskurðar æðri yfirvalda. Létu sýslumenn birta úrskurði hér um bæði úti í eyjum og á landi. Þannig var umgetinn úrskurður frá 1761 tilkynntur að Teigi í Fljótshlíð 8. okt. nefnt ár og við Landakirkju 25. s.m. Úrskurðurinn frá 1800²¹) var svar við fyrirspurn Jóns sýslumanns Guðmundssonar 5. júlí s.á. um greiðslu sýslumannsfiskjarins.
Sýslumenn eyjanna héldu áfram að búa á landi, þar til undir lok 17. aldar. Ólafur sýslumaður Árnason, klaki, af Laxamýrarætt, — kona hans var Emerentíana, dóttir séra Péturs Gissurarsonar á Ofanleiti og konu hans Vilborgar Kláusdóttur Eyjólfssonar, — var fyrstur sýslumanna búsettur í eyjunum, líklega 1696 eða fyrr. Hefir eigi þótt annað fært eftir að morðmál systranna Ingibjargar og Ingveldar Oddsdætra kom upp 1692, en þær voru sakaðar um að hafa myrt mann Ingibjargar, Gísla Pétursson.²²) Morðmál þetta var umsvifamikið og stóðu rannsóknir lengi yfir í því. Sýslumaður eyjanna þá búsettur á landi og lögsagnarar hans, er rannsóknina höfðu á hendi. Málið upplýstist aldrei fyllilega vegna ófullnægjandi rannsókna, er sýslumaður var eigi á staðnum, og vegna þess, hve seint það var tekið fyrir. Af máli þessu má fá mikinn fróðleik um réttarfar hér á landi á þessum tímum, og þykir því ástæða til að lýsa málinu og rekstri þess hér.
„Líkami Gísla Péturssonar (Gissurarsonar prests á Ofanleiti) fannst dysjaður grjóti²³) með ærið illri verkun, 12 áverkum á höfði, annað eyrað rifið af, hausskelin brotin og mikið útfall af heilanum þann 20. júlí 1692“.²⁴) Pilturinn, sem líkið fann, hét Páll Jónsson. „Var fyrst haldið, að álfar myndu hafa myrt Gísla, og sá orðrómur barst út, að hann hefði átt að hafa kunnugleika við þá og til þeirra að vitja, og að hann hefði trúlofazt álfkonu, en með því að hann hafði gifzt fyrir 6 vikum, þótti sumum trúlegra, að kærleiki hans konu hefði venzt til heiftar við hann“.²⁵) Piltur einn, Halldór Árnason, hafði séð tvær konur með grjótkasti áður mannsins var saknað, og var síðan leitað eftir tilvísun piltsins við helli nokkurn. Fannst líkið þarna svo á sig komið, sem að ofan er lýst, og var miklu grjóti hrundið fyrir hellismunnann. Málið mun hafa legið niðri í næstum eitt ár, en það tók að rifjast upp aftur sumarið eftir 1693. Þingsvitni voru fyrst tekin í málinu í apríl 1693, og lagðist sá orðrómur á, að eiginkona Gísla, Ingibjörg Oddsdóttir, er hann hafði verið giftur í aðeins 6 vikur, væri völd að morðinu. Hafði Ingibjörg eignazt barn með danska umboðsmanninum í Vestmannaeyjum, Peter Wibe, og var nú af flestum talið, að hún hefði gripið til þess óyndisúrræðis að myrða mann sinn, til þess að geta betur notið samvista umboðsmannsins. Ingibjörg Oddsdóttir átti heima í Skanzinum, Kornhól, 1692. Þar var Wibe og nefnt ár.²⁶) Mun Peter Wibe hafa komið því til leiðar, að Gísli giftist Ingibjörgu, til þess að losna sjálfur við hana. Var Ingibjörg af allmerkri ætt. Mun hún hafa verið fríð sýnum, en ofsafengin og harðlynd í skapi. Wibe sigldi héðan af landi burt þegar sumarið 1693 „með ófögrum orðróm margra kvenna um illan þátt í morðmálinu“, eins og segir í Vallaannál. Peter Wibe getur í Vestmannaeyjum 1687 í sambandi við kærumál.²⁷) Peter Wibe mun hafa verið af ætt Mikkel Wibe, er var einn af fjórmenningunum, er leigðu Vestmannaeyjar og verzlunina þar árið 1600.
Hófst rannsókn í málinu 1693 og var Einar lögsagnari Eyjólfsson skipaður af amtmanni til að rannsaka morðmálið ²⁸) og Ólafur lögsagnari Árnason.²⁹) Ólafur Árnason þingaði í málinu í Vestmannaeyjum 27. apríl 1693. Voru þrjár aðrar kvenpersónur riðnar við mál þetta með Ingibjörgu og taldar henni samsekar eða í vitorði með henni: Yngveldur Oddsdóttir systir hennar og vinnukona Ingibjargar, Steinunn Steinmóðsdóttir, og einnig móðir þeirra systra, Guðrún Sveinsdóttir. Málið hófst fyrst gegn Steinunni eftir vitnisburðum nefndra pilta, Páls og Halldórs, og fyrir tilverknað bræðra hins myrta, séra Gissurar og séra Arngríms Péturssona. Steinunni var tildæmdur eiður með 7 kvenpersónum, nefndarvottum 1793. Sóru þær, að þær hyggðu Steinunni ósæran dæmdan tylftareið í þessu máli sakir lýsingar hennar um meðverknaðinn með þeim systrum.³⁰) Einar Eyjólfsson dæmdi í málinu 25. ágúst 1693 og síðar 14. apríl 1694. Var Steinunn ályktuð til Alþingis. Á þinginu í Vestmannaeyjum sóru 12 að vætti Yngveldar þann eið ósæran, að hún væri saklaus³¹) í morði Gísla Péturssonar. Bar það heimilisstúlka Yngveldar, er Herdís hét, að Yngveldur hefði lengstum verið heima sunnudaginn, sem Gísli var myrtur, en að áliðnum degi hefði hún eigi séð hana. Hún sagði líka frá klæðnaði þeim, er Yngveldur hafði borið, og bar því saman við framburð Steinunnar um klæðnað Yngveldar við dysina. Var Yngveldur dæmd lögfallin á eiði sínum til Alþingis, og voru þær systur báðar og Steinunn, er var aðalvitnið í málinu, fluttar til lands.
Meðal þeirra vitna, er yfirheyrð voru í málinu, var Brynjólfur Magnússon, er hafði boðizt til að leita að Gísla heitnum, er hans var saknað, en kona Gísla latti; svo og Sturla Einarsson og Magnús Erlendsson.³²) Sturla Einarsson mun vera sami maður og Sturla Einarsson, er bjó í Þorlaugargerði 1704.³³) Magnús Erlendsson er bóndi á Vilborgarstöðum 1704. Brynjólfur Magnússon bjó sem húsmaður í Þorgerðarhjalli 1704.
Steinunn Steinmóðsdóttir var færð til Alþingis og lýsti hún því yfir í áheyrn lögréttumanna, að Ingibjörg Oddsdóttir hefði falað að sér alvarlega að fyrirkoma Gísla Péturssyni, „því hún gæti það ekki gert, hún gæti ekki séð hann, þó hún væri rekin í gegn“. En vildi Steinunn eigi gera þetta, skyldi hún láta drepa Steinunni, er hún réði yfir, af því hún væri sinn þénari. „Bar Steinunn, að Ingibjörg hefði gefið sér 2 ríkisdali. Áttu þær þetta tal saman á sunnudegi, en sunnudaginn næstan á eftir hefði Gísli gengið heiman að til að athuga fisk sinn, er verið hefir í fiskigörðum til þurrks. Hafi Ingibjörg kona hans síðan farið eftir honum og sent sig til Yngveldar systur sinnar, og hefði Yngveldur mætt sér, og þær svo báðar gengið til þess þær fundu bæði hjónin við steinkró eina, er geymdur var í harðfiskur. Hefði þá Gísli verið orðinn drukkinn af brennivíni því, sem Ingibjörg hafði haft með sér. Síðan hefðu þau öll saman gengið að annarri kró, og þau þrjú, Gísli heitinn og þær systur báðar, gengið þar inn, en Ingibjörg skipað sér að vera á vaðbergi. Síðan hefði Ingibjörg tekið upp brennivín og þau öll drukkið að sér ásjáandi, en sem Gísli heitinn hefði verið orðinn mjög drukkinn, hefði hann hallað höfðinu upp að hlið konu sinnar Ingibjargar, en hún hefði þá sagt, að hann skyldi þar bíða, því að hún ætlaði að huga að lambi sínu þar í hrauninu umhverfis króna. Í þessum svifum hefði Yngveldur tekið stein og slegið honum í höfuð Gísla. Síðan hafi þær gengið út og hrundið krónni ofan á hann og hefði hún verið í verkum með þeim að dysja hann“. Þess má geta, að topphlaðnar steinkrær voru á þessum tímum margar í eyjunum og sums staðar hlaðið fyrir hellismunna.
Þær systur Ingibjörg og Yngveldur voru færðar til Alþingis 1694. Til að rannsaka mál þetta og dæma voru útnefndir 3 sýslumenn og 9 lögréttumenn. Um mál eyjasystra, en svo voru þær systur nefndar í málsskjölum, segir svo: Voru þær fyrir dómi, en vildu eigi meðkenna. Voru þær teknar afsíðis og skildar að. Einnig áminntar hvor um sig alvarlega, af ýmsum andlegrar stéttar og veraldlegrar, með margháttuðum fortölum að auglýsa sannleikann í því máli, en það kom allt fyrir ekki. Neituðu þær þverlega og þrálega að vera valdar að morðvígi Gísla Péturssonar. Þóttust þó svaramenn þeirra „ekki hafa þeim til forsvars“. Fékkst ekki meira af þeim. Svaramenn þeirra höfðu engar varnir fram að færa í málinu fyrir þeirra hönd. Voru þær þá ályktaðar af alþingismönnum innan vébanda lögfallnar á tylftareiðum sínum. En með því að þær systur meðgengu ekki og rannsókn málsins var ábótavant, þótti eigi fært að dæma þær, heldur voru þær og allt þeirra mál dæmt undir konungs náð eða ónáð.
Steinunn Steinmóðsdóttir hafði strokið úr varðhaldi hjá Ólafi Árnasyni lögsagnara, meðan stóð á rannsókninni, og komst hún alla leið austur í Fljótshverfi og var tekin þar og flutt aftur til eyja. Steinunn tók sótt mikla, er hún átti að færast til Alþingis. Var hún þjónustuð, og lýsti hún því yfir undir úthlutun sakramentisins, að hún stæði við allan fyrri framburð sinn í málinu. Steinunn var flutt til Alþingis sumarið eftir og reidd í kláf, því að talið er, að hún hafi verið kreppt og væri hún borin til lögréttu. Hún var dæmd af lífi, en hegningunni frestað fyrir tilhlutun amtmanns.³⁴) En henni tókst að strjúka af Alþingi, hljóp um nótt úr tjaldi lögsagnarans í Rangárþingi, tók sér hest til reiðar og komst vestur á land og náðist eigi. Sást þá eigi á, að kreppt væri. Var hún úrskurðuð rétttæk hvað sem hún næðist og skyldi tekin af lífi.³⁵) Steinunn komst, eins og áður segir, vestur undir Jökul og var þar mjög lengi og gekk undir gervinafni, að því er sagt er, og deyði háöldruð.³⁶)
Bræður hins myrta, séra Gissur Pétursson á Ofanleiti og séra Arngrímur í Kirkjubæ, mættu í lögréttu á Alþingi sumarið 1694 vegna morðmálsins. Þeim eyjasystrum, Ingibjörgu og Yngveldi, var komið fyrir í varðveizlu Einars Eyjólfssonar að Traðarholti og beið svo til frekari álykta um mál þeirra.
1695 voru þær aftur færðar til Alþingis. Auglýsti amtmaður skipun háyfirvaldsins, að frekari dómsályktun skyldi gerast um mál þeirra. Kom það enn í lögréttu. Lýstu lögþingismenn því, að þeir létu óbreyttan standa dóm þann, er dæmdur var fyrra sumar um mál þetta. Voru þær enn sem fyrr alvarlega áminntar um að segja sannleikann, en þær létu eigi annað til sín heyra en þrjózkufull andsvör og þverlega neitun.
Móðir þeirra systra, Guðrún Sveinsdóttir, dó vorið 1694 af illkynjuðu brjóstmeini, er talið var, að hún fengi snögglega. Lék ekki lítill orðrómur á, að hún hefði ráðið dóttur sinni til að drepa mann sinn.³⁷)
Ingibjörg og Yngveldur Oddsdætur voru hýddar stórhýðingu á Alþingi 1695 og dæmdar útlægar af landinu og öllum þess eyjum og skyldu sjálfar útvega sér far til útlanda hið fyrsta. Ingibjörg skyldi sigla með Keflavíkurskipi, en Yngveldur af Eyrarbakka, en er til kom vildu skipstjórar eigi veita þeim far. Struku þær vestur á land og höfðust mest við í Barðastrandarsýslu. Átti Ingibjörg þar barn með manni einum, er Árni hét Jónsson. Voru þær á Alþingi dæmdar rétttækar og skyldu færast til Alþingis undir frekari lagaaðgerðir 1698, en þá komust þær undan í franskar hvalveiðaduggur fyrir Vestfjörðum. Er sagt, að Ingibjörg hafi gifzt síðan í Englandi.
Þetta illræmda morðmál ýtti undir það, eins og áður segir, að loks komst til framkvæmda fyrirheitið í konungsbréfi frá 1609, um að Vestmannaeyjar fengju sinn eigin sýslumann. Bjó fyrsti sýslumaðurinn hér, Ólafur Árnason, er upprunninn var úr Reykjadal nyrðra, á jörðinni Dölum, 2/3 hlutum jarðarinnar. Galt hann fullt afgjald eftir ábúð sína.
Hundraðsfiskurinn hefir, meðan útgerðin stóð í fullum blóma og aflabrögð voru góð á síðari hluta 17. aldar, getað náð 1½—2 lestum fiskjar, eða um 60—80 rd. og meira á beztu árunum. Þegar fiskaflinn minnkaði, er komið var fram á 18. öld, voru sýslumannslaunin mjög rýr, svo að eigi varð hjá því komizt að bæta upp launin. Hinir fyrri sýslumenn eyjanna, er bjuggu á landi, höfðu verið efnamenn og átt þar góðar bújarðir. En fyrsti sýslumaðurinn, er settist hér að, hafði eigi fría ábúð á jörð, en eftirmanni hans, Sigurði sýslumanni Stefánssyni, er tók við Vestmannaeyjasýslu 1722, var veitt þar frí jörð til ábúðar, sbr. tilsk. 29. marz 1727, og var það virt honum til tekna á 6 slétta dali árlega. Þessi jörð, er sýslumaður fékk til ábúðar, voru hálfir Oddsstaðir, er lengi voru sýslumannssetur í eyjunum, sbr. rentuk.br. 5. apríl 1789.³⁸) Í bréfi frá rentuk. 24. apríl 1734 segir um Sigurð sýslumann, að hann kvarti mjög yfir afkomu sinni, með því að tekjur sýslunnar séu svo rýrar og hann hafi þunga ómegð, og megi hann því vinna jafnt vetur og sumar sem óbreyttur verkamaður til sjós og lands, til þess að geta alið önn fyrir sér og sínum, og krefst hann því að mega vera laus við þá skyldu, er á sýslumönnum hvíldi, að þurfa að yfirlíta og meta vörur þær, er kaupmenn fluttu inn, og gefa upp álit sitt um þær, sem og um fyrirliggjandi vörubirgðir. En kvöð þessari var komið á árinu áður, sbr. rentuk.br. 5. maí 1733, og Vestmannaeyjasýslumanni einnig fyrirskipað að taka við leigubátum konungs, Inventariibátunum, úr höndum fráfarandi kaupmanns, skoða þá og meta og gefa rentukammerinu skýrslu þar um,³⁹) og þetta án nokkurs sérstaks endurgjalds. Hafði Sigurður sýslumaður í hótunum um að segja af sér, nema hækkuð væru við hann launin eða hann losaður undan nefndri kvöð. Rentukammerið lét það álit uppi, að eigi væri völ á jafnfærum manni sem Sigurði sýslumanni í embætti, og féllst stjórnin á að bæta laun sýslumannsins að nokkru frekar en búið var. Mun stjórnin hafa óttazt, að sýslumaður fengist ekki til að búa í Vestmannaeyjum, nema kjörin væru bætt, en það talið skaðlegt, að sýslumaður sé búsettur utan sýslu sinnar, sjá úrsk. 29. marz 1727.⁴⁰) Launahækkunin, sem Sigurði sýslumanni var ákveðin, var 10 rd. árlega; hafði hann og, eins og áður segir, fengið fría bújörð. Sigurður hafði og sótt um að fá einn hlut af innstæðubátunum, en í þess stað var honum ákveðin nefnd þóknun, er hélzt síðan, sbr. konungsúrskurð 28. marz 1769,⁴¹) og eru þetta fyrstu föstu launin, er sýslumanni Vestmannaeyja voru ákveðin. Sigurður Stefánsson þótti góður lagamaður, stóð hann stundum fyrir málum á Alþingi. Sigurður var einn af þeim fáu sýslumönnum, er hélt með djörfung fram hlut landsmanna gegn einokunarkaupmönnunum, sbr. það, er áður segir. Kona Sigurðar sýslum. var Þórunn Jónsdóttir Ólafssonar sýslum. Einarssonar á Felli í Mýrdal Þorsteinssonar sýslum. Magnússonar.⁴²) Af eyjunum höfðu sýslumennirnir engar innheimtutekjur af landsskyldum né af öðrum tekjum konungs, vissum og óvissum, svo sem skatti og sakeyri, og hélzt svo fram yfir 1800, eða alla tíð meðan kaupmennirnir höfðu umboðið. Tekjur umboðsins mátti í engu skerða. Þannig neitaði stjórnin Jóni sýslumanni Eiríkssyni 1792 um sölulaun af uppboðsandvirði innstæðubátanna. Uppboðslaun af sölu fasteignar hafði sýslumaður fyrst 1/2% er Garðsverzlun var seld, sjá rentuk.br. 15. des. 1838.⁴³) Þrátt fyrir það, þótt sýslumennirnir hefðu engar aukatekjur, máttu þeir samt uppfylla að sínum hluta ýmsar kvaðir sem aðrir sýslumenn, sjá alþingissamþykkt 30. júní 1631, sbr. tilsk. 5. maí 1593 og konungsbr. 10. maí 1651.⁴⁴) Um landsþingisskrifaralaunin segir svo í amtsmannsbr. 1. sept. 1760, að eigi komi til mála að heimta þetta gjald af sýslumanninum í Vestmannaeyjum, eins og hagi til um tekjur hans af sýslunni, en hins vegar sé eigi hægt að undanskilja Vestmannaeyjar þessu gjaldi, er því hljóti að leggjast á afgjöldin sjálf, þ.e. á konungstekjurnar. Hefir Þorlákur sýslumaður Guðmundsson sennilega hafið umkvörtun í þessu efni og leitað ásjár amtmanns. Var svo ákveðið í téðu rentuk.br. frá 1761, að undirkaupmaðurinn skyldi greiða þetta gjald, er nam 1—2 rd., 1759 og framvegis frá verzluninni, meðan hún væri rekin fyrir konungsreikning, konungsverzlunin fyrri 1759—1763,⁴⁵) en ella dregið frá afgjöldum, og var Hofagent Ryberg, er var umsjónarmaður konungsverzlunarinnar, falið að koma þessu í kring.⁴⁶) — Lögþingisskrifaralaun og lögréttumannalaun voru upphafin með 1. 14. des. 1877, 3. gr., og lögjafnaðargjald með l. 2. nóv. 1877.
Á síðasta þriðjungi 18. aldar var, eins og áður segir, mesta fiskileysi hér, svo að útgerð lagðist nær niður. Voru þá tekjur sýslumanns harla litlar. Þessi árin voru prestunum af stjórninni veitt uppbót á laun sín, prestatíundina, og nokkur uppgjöf á verzlunarskuldum sökum harðærisins. Varð eigi hjá því komizt heldur, að veita sýslumanni uppbót á fastalaunin, er voru einir 10 rd., eins og áður segir. Hundraðsfiskurinn hljóp um þessar mundir oft eigi meira en 6—10 rd. árl.⁴⁷) Hér var þá sýslumaður Sigurður Sigurðsson frá Flatey og átti hann við mjög þröngan kost að búa. Bætt var við laun hans 1773 20 rd. og árlega upp frá því, og enn 10 rd. 1778, sbr. tilsk. 7. des. 1778.⁴⁸) Föstu launin voru nú komin upp í 40 rd., en þau voru og síðar hækkuð um 15 rd. Voru föstu launin 1788 57 rd. 48 sk., auk afgjaldslausrar ábúðarjarðar. Í nefndri upphæð eru taldir 2 rd. 8 sk. Sp., sem var mismunurinn á eftirgjaldi Stakkagerðis, þar sem sýslumaður Jón Eiríksson nú sat og Sigurður sýslumaður Sigurðsson hafði búið um tíma, og Oddsstaðajarðarinnar, er var sýslumannsjörðin í Vestmannaeyjum og hélt áfram að vera það, þótt sýslumaður um tíma byggi í Stakkagerði. Hálfir Oddsstaðir voru útlagðir sýslumanni fram yfir fyrsta fjórðung 19. aldar, sbr. umboðsskjöl Vestmannaeyja, sjá og rentuk.br. 5. apríl 1728 og tilsk. 30. apríl 1788.⁴⁹)
Jón Eiriksson fékk leyfi rentukammersins til að búa í Stakkagerði, og ákvað rentukammerið, að hann skyldi fyrst um sinn laus við að greiða mismun á afgjaldi Stakkagerðis og Oddsstaða, 2 rd. 28 sk., sbr. rentuk.br. 5. apríl 1788.⁵⁰) Jón Eiríksson sýslumaður var bróðir Jóns Eiríkssonar konferenzráðs.
Jón sýslumaður Þorleifsson var síðasti sýslumaðurinn, er bjó á Oddsstöðum. Honum var veitt lausn frá embætti 1812 með 30 rd. árlegum eftirlaunum. Er hann fyrsti sýslumaður eyjanna, er fékk eftirlaun. Eftir að Jón Þorleifsson lét af embætti, vildi Castenskjold stiftamtmaður, að Vestmannaeyjasýsla yrði nú aftur sameinuð Rangárvallasýslu. Þetta fannst stjórninni samt eigi ráðlegt, sökum hinna erfiðu samgangna milli sýslnanna. Um þessar mundir var árferði slæmt í Vestmannaeyjum, eins og verið hafði oftast frá því á síðari hluta 18. aldar, útgerð lítil og afli rýr.⁵¹) Ákvað stjórnin nú, að fyrst um sinn skyldi sýslumaður aðeins settur í eyjarnar, og tók sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu, Vigfús Þórarinsson, nú við Vestmannaeyjasýslu með sinni eigin um stuttan tíma. Á Alþingi 1887 kom fram tillaga um það, að sameina aftur Rangárvallasýslu og Vestmannaeyjasýslu. Töldu sumir þingmannanna, að fresta yrði þessari samsteypu, unz loftferðir kæmust á milli lands og eyja, sem þó myndi seint verða. Það kom mjög fram í umræðum um þetta mál, að eigi mætti vera sýslumannslaust í eyjunum vegna mikillar skipakomu þangað, svo að ef úr samsteypunni yrði, hlyti sýslumaður beggja sýslna að sitja í eyjum, en eigi á landi.
Sýslumaður var aftur skipaður 1821: Johan Nikolai Abel, danskur maður. Þegar Abel tók við embættinu voru sýslumannslaunin þessi: Úr jarðabókarsjóði 57 rd. og 48 sk. silfurs. Hundraðsfiskurinn nam þá 6 skpd. og hljóp 144 rd. í seðlum. Abel tók við jarðaumboðinu og hafði sem umboðsmaður jörðina Yztaklett til leigulausrar ábúðar, sbr. rentuk.br. 30. sept. 1823. Til launanna taldist og afgjaldið af annarri Oddsstaðajörðinni til fardaga 1830, þótt sýslumaður byggi þar nú ekki. Afgjaldið af þessum tveim jörðum samtals var 2 skpd. og 5 lspd. af fiski.
Fyrir 1820 var útgerðin farin að aukast töluvert mikið. Nam hundraðsgjaldið (sýslumannsfiskurinn) 144 rd. árið 1821, en lækkaði aftur árin 1827—1828 og komst niður í 50 rd.; hafði fiskverð þá og fallið. Abel sýslumanni varð vel ágengt hjá stjórninni um hækkun á launum. Var Hoppe stiftamtmaður honum ætíð mjög meðmæltur og hrósaði honum við stjórnina fyrir dugnað í löggæzlu- og dómarastarfi, sbr. rentuk.br.
Abel lét mjög til sín taka um jarðamálin, og eftir tillögum hans bauð stjórnin jarðagóssið hér falt. Yfirleitt gerði Abel sér mikið far um að auka jarðabókartekjurnar. Fólk sótti til eyjanna allmikið um hans daga og tómthúsum fjölgaði mjög. Hér var þá allrysjungssamt, eins og sjá má af hinum mörgu sakamálum á þessum tímum. Abel var sæmdur kammerráðsnafnbót. Abel lét framkvæma hér vegabætur og endurbætti Skanzinn.⁵²)
Abel sýslumaður hafði sótt um það 1829, að fá hundraðsfiskinn greiddan með vissri tölu af verkuðum saltfiski, en þessu vildi stjórnin eigi sinna, sbr. rentuk.br. 29. ágúst 1829. En nokkrum árum áður, eða 1822, þegar á öðru ári eftir að Abel tók við sýslumannsembættinu, hækkaði stjórnin hin föstu laun hans með 50 rd. á ári, og seinna, 1827, var sýslumanninum veitt 100 rd. uppbót. Með konungsúrsk. 10. marz 1829 voru laun sýslumannsins í Vestmannaeyjum samkv. tillögum rentukammersins — er taldi nauðsyn bera til þess að hafa þar sérstakan sýslumann og launa hann sómasamlega — ákveðin 242 rd. og 48 sk. silfurs, er greiðast skyldi árlega úr jarðabókarsjóði frá 1. jan. 1829 að telja. Í sama konungsúrsk. var Abel ákveðin 200 rd. aukauppbót á laun sín í eitt skipti fyrir öll.⁵³) Voru sýslumannslaunin nú orðin nær fimmfölduð frá því, sem þau höfðu verið. Verður eigi annað sagt en að Abel sýslumaður hafi komið ár sinni vel fyrir borð við stjórnina, er og seinna hækkaði laun hans enn betur. Voru launin samkv. 5 ára meðaltali 1843—1848⁵⁴):

Umboðslaun 1/5 af tekjum 145 rd.
Aukatekjur 260 —
Af Yztakletti 163 —
Sýslumannsfiskur 214 —
Föst launaupphæð 300 —
Samtals 1082 rd.


Greiðsla hundraðsfiskjarins sem laun til sýslumannsins í Vestmannaeyjum hélzt þar til gjald þetta var með lögum upphafið 14. des. 1877, lög um laun sýslumanna og bæjarfógeta, 3. gr., frá 6. júní 1878 að telja. Komust eyjasýslumennirnir nú loks undir venjuleg laun. Voru þeim ætluð laun í 4. og lægsta launaflokki, 2000 kr. á ári. Sýslumannsembættið varð bæjarfógetaembætti, sbr. lög 22. nóv. 1918, um bæjarstjórn í Vestmannaeyjum. Launalög 28. nóv. 1919 og 12. marz 1945.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Alþb. IV, 326.
2) Sbr. athugasemdir útgefanda Alþingisb.
3) Lovs. IV, 443-47; Kirkjus. P.P. 130—132.
4) Lovs. III.
5) Canc. Brevb.; Lovs. IV, 451.
6) Lovs. V, 246.
7) Lovs. X, 480—481.
8) Lovs. III, 650.
9) Canc. Brevb. 1588—1592.
10) Canc. Brevb. 1596—1602.
11) M. Ketilsson: Forordn. og aabne Breve I—III, II, 246; Lovs. I, 171; Norske Tegn. III, 325 b.
12) Norske Tegn. V, 359; M.K. II, 376. Hjá M.K. er tilskipunin heimfærð undir 20. marz 1634; aðrir heimfæra hana til 29. marz eða 20. maí.
13) Bréfabækur Gísla biskups Oddssonar.
14) Alþingisbók 1632; Tyrkjaránssagan 412.
15) M.K. II, 376—377.
16) Alþingisb. 1655, nr. 5.
17) Sbr. gömul norsk lög.
18) Sýsluskjöl V.E., Þjóðskjs.
19) Sjá Alþingissamþykkt 1608 um gildingu peninga fyrir landaura í ýms skyldugjöld.
20) Alþingisb. IV.
21) Amtsúrskurður, nr. 3, 24. júlí 1800.
22) Alþingisb. 1694, nr. 31; Smæf. IV, 543.
23) Lögþ.b. 1694.
24) Vallaannáll, 419; Ísl. annálar.
25) Fitjaannáll.
26) Reikningsb. Landakirkju 1631—1701.
27) Lögþ.b. 1687, nr. 24.
28) Lögþ.b. 1693, nr. 47.
29) Lögþ.b. 1694, nr. 31.
30) Vallaannáll, Ísl. annálar, 426.
31) Mun eiga að standa, að sýknueiður væri henni ósær.
32) Lögþ.b. 1693 og 1694.
33) Sbr. Jarðabókina.
34) Vallaannáll.
35) Fitjaannáll, 317—318.
36) Vallaannáll, 431, viðbætir.
37) Vallaannáll, 428.
38) Isl. Kopieb., Litr. X, nr. 743; Lovs. 1784—1791, V, 517.
39) Rentek. Isl. og Færö. Kopieb., Litra F, nr. 623; Lovs. 1721—1728, II, 161—164.
40) Rentek. Kopieb. for Færö. og Isl., 2003, Litra E, nr. 493; Lovs. II, 64.
41) Lovs. III, 630.
42) Það mun eigi rétt, að Sigurður sýslumaður hafi búið í Nýjabæ, sjá Smæf. IV, bls. 30.
43) Rentek. Relat. Isl. Kopieb.
44) Lovs. I, 214—215, II, 128, 240; M.K. II, 171—172, III, 39.
45) J. Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi, 209.
46) Rentek. Isl. og Færö. Kopieb., nr. 521; Lovs. I, 435.
47) Rentek. Norske Relat. og Resol. Protok., nr. 16; tilsk. 28. marz 1769.
48) Forest. og Resol. 1778, 24, nr. 46; Lovs. IV, 458.
49) Isl. Kopieb., Litra X, nr. 743; Rentek. Norsk Relat. og Resol. Protok., 69, nr. 35; Lovs. V.
50) Lovs. V, 517.
51) Sjá rentuk.br. 27. júní 1812.
52) Í Sýslum.æfum er þessa allmerka og ötula sýslumanns að litlu getið.
53) Lovs. IX, 381—382.
54) Sýsluskjöl V.E. 1826—1854, XXX, III, 4, Þjóðskjs.

3. hluti

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit