Blik 1939, 4. tbl./Er bindindisstarfið afdráttarlaus kristindómur ?

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. desember 2010 kl. 21:28 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. desember 2010 kl. 21:28 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri:


Er bindindisstarfið afdráttarlaus kristindómur?


Hugleiðingar fluttar á útbreiðslufundi bindindismanna í Eyjum 31. jan. '39.


Vitur maður og víðlesinn hefir með eftirfarandi dæmi reynt að gera grein fyrir skilningi sínum á kenningum og starfi þriggja trúarhöfunda:
Maður nokkur hrapaði niður í gljúfur. Þar lá hann limlestur. Konfúsíus hinn kínverski skundar fram á gljúfurbarminn, hrópar til mannsins, hrakyrðir hann fyrir ánaháttinn að álpast fram af gljúfurbarminum, skipar honum að koma upp og hann skuli hjúkra honum.
Buddha hinn indverski gerir betur. Hann klöngrast hálfa leið niður í gljúfrið. Þá hrópar hann til mannsins og býður honum hjálp sína og hjúkrun, ef hann geti komizt upp á stallinn í gljúfrinu, sem Buddha stendur á.
Jesús hefir færri orð, en fórnar meiru í starfi. Hann fer niður til mannsins, lyftir honum á herðar sér, ber hann upp og hjúkrar honum.

——————————————


Í dag eru 25 ár liðin síðan ég vann bindindisheitið. Þá var ég 14 ára. Ég hafði þá byrjað að neyta tóbaks. Sú saga er stutt en gott dæmi um skeytingarleysi og skilningsskort hinna fullorðnu um framtíð æskumannsins og sljóskyggni þeirra á skaðsemi eiturlyfjanautnanna.
Kannske getur þessi stutta saga orðið einhverjum æskumanni til íhugunar og aðvörunar, — og þá er markinu náð.
Sumarið 1914 var ég látinn byrja að stunda sjó, fjórði maður á róðrarbáti. Ég man það, hversu mig, 14 ára unglinginn, syfjaði títt um lágnættið, og kuldahrollur fór um mig í þokufýlu miðnæturinnar, sem tíð er fyrir Austurlandi. Ég réri með Sunnlendingum af Suðurnesjum. Oftast höfðu þeir tóbaksponturnar hjá sér á þóftunum. Ég sé þær enn, þar sem þær liggja við þóftuhnén, nautshyrningar mislitir með fangamörkum á síðum, og útskornum töppum. Ástin á pontunni var ósvikin og áleitin.
Þegar mig syfjaði og ég „dró ýsur“ um lágnættið, gáfu þessir heiðursfélagar mér í nefið. Þá hnerraði ég og vaknaði um stund. Leikurinn endurtók sig. Þetta var allt í góðum tilgangi gert. Eftir nokkrar nætur hætti ég að hnerra af tóbakinu. Líkaminn tók að venjast eitrinu.
Einhvernveginn komst Ingvar Pálmason, núverandi alþingismaður, að þessari tóbaksneyzlu minni.
Dag nokkurn kom hann til mín og tók mig tali. Ég man þann dag vel. Ég var niður við skúra að stokka upp línu. Hann færði talið að tóbaksnautninni. Hann leiddi mér fyrir sjónir, hvílík plága og fjárhagslegt böl tóbaksnautnin væri, og skaðræði heilsu unglinga. Sjálfur kvaðst hann taka í nefið og illa gengi sér að losast við þann löst. Einlægni þessa mæta manns og skynsamlegar fortölur sannfærðu mig.
Ég afréð með sjálfum mér að ganga í stúku, og þó að þar væri aðeins áfengisheit, skyldi tóbaksheitið fylgja með í huga mínum. Þau heit hefi ég haldið síðan, og tel það spor, sem ég þá steig, mitt mesta hamingjuspor, og Ingvar tel ég einn af mestu velgjörðarmönn­um mínum síðan, fyrir þennan drengskap og þessa manngöfgi, sem hann sýndi mér. Svo mikils met ég bindindisheitið. Og ég skyldi það ekki þá, eins vel og ég skil það nú, hvað allt bindindisstarf er mikils virði þjóðarheildinni, hversu mikil menning, hversu mikil manngöfgi, fórnfýsi og mannkærleikur, og afdráttarlaus kristindómur er í því fólgið. Hinn vægi kristindómur birtist m.a. í bænum og óskum án framkvæmda, en í bindindisstarfinu er beðið og starfað. Þar hefir verið og er fórnað miklu starfi í bæn og trú mjög margra fyrir ógæfubarninu mesta, drykkjumanninum.
Minnin um eyðileggingu, tortímingu bjartra framtíðarvona fjölda foreldra, sem hafa orðið að sjá á eftir börnum sínum niður í gljúfur drykkjuskaparins og óhamingjunnar, og minnin um afdrif ýmissa gáfaðra og góðra skólabræðra minna, sem orðið hafa Bakkusi að bráð, ryðjast fram í huga mér. Mörg önnur af sömu rótum fylgja með. Ég drep á nokkur af handahófi.
Skólabróðir minn skrifar mér. Hann hefir fengið stöðu við verzlunarfyrirtæki. Tveim árum síðar er hann orðinn verzlunarstjóri. Hamingjudísin leikur við hann. En það þarf oft sterk bein í þessu mannlífi, ekki síður til að bera gæfu og gengi en andstreymi. Ári síðar er hann rekinn frá stöðunni vegna drykkjuskapar. — Um tveggja ára skeið lifði hann eftir þetta í neðstu þrepum mannlífsins. Þá náði bindindisstarfsemin tökum á honum. Hún bjargaði honum; hún bar hann upp og hjúkraði honum svo að nú nýtur hann fyllsta trausts í störfum og er hinn nýtasti maður.
Ég minnist annars æskuvinar míns. Við unnum saman tvö sumur. Mér reyndist hann þá vandaður piltur í orði og athöfnum. Ég minnist þess sérstaklega hvað móður hans þótti vænt um hann og gerði sér fagrar vonir um framtíð drengsins síns. Nokkrum árum síðar fór hann til sjós. Þar lærði hann að drekka og komst meira að segja undir mannahendur. Hvernig mundi móður hans hafa liðið þá? — Allir foreldrar að minnsta kosti geta gert sér það í hugarlund. Eitt bréf fékk ég frá henni á þeim tíma. Engin orð fá lýst þeirri sorg og þeirri örvæntingu. Með hjálp góðra manna og stúkunnar í sveitinni hefir þessum unga manni verið bjargað, að minnsta kosti í bili.
Ég minnist margra heimilisfeðra, sem drekkt hafa hamingju sinni, kvenna sinna og barna í áfengi og afleiðingum þess.
Minnist þess ungu stúlkur, að engin kona þjóðfélagsins líður meiri kvalir, býr við átakanlegri kröm, en drykkjumannskonan. Hún er sem grafin lifandi í ormagryfju.
Ég minnist hins atvinnulausa heimilisföður. Jólin nálgast og heimilið er bjargarlaust. Konan og börnin klæðlítil og köld. Þar skortir allt. Eina viku fyrir jól fær þessi heimilisfaðir atvinnubótavinnu. Þeir peningar eiga að geta gert svolítinn dagamun hjá þessari fjölskyldu um jólin. En þessi heimilisfaðir er drykkfelldur, og á aðfangadag hefir hann drukkið fyrir helminginn af vikulaununum. Er hægt að sökkva dýpra í ábyrgðarleysi og ræfilshátt. Þennan vesalings mann hefir nú stúkan í byggð hans tekið á herðar sér og vill hjúkra honum og græða hans andlegu mein.
Bindindisstarfið er tvíþætt. Það er starf varðmannsins, sem vill hindra ógæfuna, það varar við gljúfurbarminum; hinn þátturinn er viðreisnarstarfið, hjúkrunarstarfið, sem er í því fólgið að hjálpa drykkjumanninum aftur til heilbrigðs lífs, styrkja hann með bróðurhönd og bróðurhug.
Stúkustarfsemin í landinu gerir hvort tveggja. Hún ver menn óhamingjunni og styður þá ógæfusömu. Það gerir einnig bindindisstarfsemin í sumum skólum landsins, eða þar sem þess þarf með. — Í bindindisfélagi gagnfræðaskólans hér er starfið mestmegnis í því fólgið að vara unglingana við eiturlyfjunum, efla mótstöðuorku þeirra gegn áleitni eiturlyfjanna í ýmsum myndum.
Við kennararnir eigum því láni að fagna að eiga áhugasama nemendur um bindindismál. Við eigum líka samhug margra foreldra í því starfi. Það er okkur ómetanlegur stuðningur og mikil hvatning til meira starfs. Samvinna og samhjálp skóla og bindindisfélaga annarsvegar og foreldranna hinsvegar um bindindismál og yfirleitt öll velferðarmál æskunnar í landinu er lífsnauðsyn. Þessir aðilar eiga að vinna saman að því, að efla mótstöðuorku æskulýðsins gegn eiturlyfjanautnunum og skapa honum meiri og sannari hamingju, meiri þroskamöguleika.

Þ.Þ.V.