Blik 1974/Bréf til vinar míns og frænda, V. hluti
Ég gerist útsölumaður Flokksblaðsins!
Ungi maðurinn í prentsmiðjunni setti bréf fræðslumálastjóra í leynd. Síðan braut hann blaðið og kom bréfinu fyrir á áberandi stað í því. Ég var ekki lítið spenntur. Skyldu þeir komast að þessum brögðum á síðustu stundu og kippa þá bréfinu út úr blaðinu? Hvað skyldi ritstjórinn segja, þegar hann sæi, að efni blaðsins hafði ekki allt verið borið undir hann, áður en það var sett?
Þegar Flokksblaðið var að mestu brotið, tók ritstjórinn að lesa prófarkir af því. Hann var góðglaður við það starf og honum fannst allt leika í lyndi fyrir sér. Hann rakst á bréfið og hló. Hann ræddi um það við piltinn og hélt, að hann Þorsteinn ætti það margsinnis skilið af sér, að hann legði honum þetta lið. Hann hafði alltaf verið honum velviljaður, sagði hann, og það hafði ég sjálfur reynt. En hann réði oft litlu um efni blaðsins. Stundum varð hann að dansa þar nauðugur og vera hlýðinn til þess að fá að vera ritstjóri þessa blaðs. En það var honum metnaðarmál, af því að sonur hans, sem nú var látinn fyrir nokkrum árum, hafði stofnað þetta blað og ritstýrt því, þar til hann lézt. Sjálfur var ritstjórinn gæðamaður og vildi engum illt gera.
Og svo kom þá Flokksblaðið út alskapað með bréfi fræðslumálastjóra.
„Góður og dyggur Flokksmaður“ hafði verið fenginn til þess að annast afgreiðslu blaðsins að þessu sinni í fjarveru hins eiginlega afgreiðslumanns.
Ég arkaði á afgreiðsluna til þess að grennslast eftir, hvernig dreifingin og salan gengi. Mér var það í þetta skiptið mikið áhugamál.
„Hvernig gengur að dreifa blaðinu?“ spurði ég afgreiðslumanninn.
„Allt í þessu fína,“ sagði hann drafandi tungu og baðaði út öngunum.
Hann var þá pöddufullur.
Í ljós kom, að tveir drengir, 8 ára snáðar, höfðu tekið nokkur blöð til sölu í bænum. Það var allt og sumt.
Ég sá mitt óvænna og bauð afgreiðslumanninum að taka að mér sölu á blaðinu fyrir hann. Það boð mitt þáði hann með þökkum. Þarna þaut ég af stað með allan blaðabunkann undir hendinni. Á leiðinni heim fann ég marga stráka á götum bæjarins. Ég bað þá að koma heim með mér og taka af mér blöð til sölu. Ég bauð þeim óvenjulega góð sölulaun. Þeir loguðu af áhuga og blaðið seldu þeir til síðasta blaðs, svo að mikla blaðapeninga færði ég þeim pöddufulla að lokinni sölu. Það er víst og satt. Og ég var auðvitað í sjöunda himni. En hvað þetta allt gat lánazt mér giftusamlega! Og ég þóttist hafa skotið þeim vel ref fyrir rass með lævísi minni og undirferlum. Auðvitað hafði skapari minn alltaf ætlazt til þess, að ég notfærði mér þessa eiginleika, fyrst hann gaf mér þá í svo ríkum mæli, að þeir sáust á andlitinu á mér, eftir því sem skriffinnurinn fullyrti!
Þessari klausu hafði ritstjórinn skeytt aftan við bréfið, þar sem það stóð prentað í blaðinu, svo sem eins og til þess að lina eilítið hugsanlegar þjáningar húsbænda sinna, þegar þeir hefðu lesið bréfið: „Þetta er leiðindamál, sem er jafngamalt gagnfræðaskólanum hér eða hefur lifað í skólanefndinni síðan Þ.Þ.V. var veitt skólastjórastaðan gegn vilja fjögurra nefndarmanna af fimm. En öðrum umsækjendum vel þekktum og meira menntuðum hafnað. Þetta var talin pólitísk veiting, sem tíðkaðist í þá daga ... Reglusemi hefur Þ.Þ.V. í sjálfum sér og áhugasamur er hann. Þá góðu kosti ættu unglingarnir að taka sér til fyrirmyndar. Umræðum um þetta leiðindamál er hér með lokið í blaðinu. Ritstj.“
Þannig vildi hann hafa það. En aðrir vildu annað, svo að konsúllinn hélt áfram að skrifa og það þótti mér vænt um.
Ég svaraði ekki einu orði þeim greinum hans. Ég vildi sjá og heyra, hverju fram yndi, og hvaða áhrif orð prófossorsins og bréf fræðslumálastjóra hefðu á athafnir Flokksforustunnar.
Ösköp var nú annars að hafa svona ritstjóra við Flokksblaðið! Þarna lét hann hina römmustu og fúlustu andstæðinga Flokksins vaða í blaðið með greinar sínar, svo að það vann á þann hátt blátt áfram á móti Flokknum. Var þetta hægt? Voru tök á að nota svona ritstjórasauð til að stjórna pólitísku málgagni? Nei, það var ekki hægt. En hvað var hægt að gera? Ekkert, því að líklega dæmdist honum blaðið, ef í hart færi.
Að tjaldabaki
Eitthvað markvert gerðist eða hafði gerzt að tjaldabaki innan flokksforustunnar, þó að við hinir fengjum ekkert að vita. Svo mikið var víst, að konsúllinn sænski, skriffinnur Flokksins, var látinn hætta að skrifa í blaðið, eins og samvinnuskólapilturinn forðum, eftir gönuhlaupið mikla. í Flokksblaðinu sást eða sést ekki nafn sænska konsúlsins næstu árin. Hvað hafði komið fyrir bak við flokkstjaldið? Var nokkur furða, þó að spurt væri? Öðruvísi mér áður brá. Hver greinin á fætur annarri viku eftir viku. Og svona dásamlegar eins og þær voru! Hafði konsúllinn skrifað sig „í hel“ eins og meðhjálparasonurinn? Var nokkur furða, þó að maður spyrði mann eins og sorastraumurinn var mikill og sterkur til skamms tíma? Og drengskapurinn og vitið flæddi úr konsúlspennanum!
Og svo allt í einu hætti konsúllinn einnig að sækja og sitja skólanefndarfundina, svo að þar féll allt í ljúfa löð. Ekkert heyrðist. Engar skammir. Nei, lífið, það lætur ekki að sér hæða.
Og við bæjarstjórnarkosningarnar 1946 tapaði Flokkurinn fimmta fulltrúanum sínum í bæjarstjórn kaupstaðarins, eins og eftir árásarskrif samvinnuskólapiltsins á gagnfræðaskólann og mig persónulega árið 1933. Ekki kemur mér til hugar að fullyrða, að tapið mikla árið 1946 hafi einvörðungu stafað af árásunum miklu og hundeltingunni á mig og skólann, þó að dómgreind og drengskap Eyjafólks væri stórlega misboðið með skrifum þessum. Þó er þetta óneitanlega sérkennileg tilviljun, að árið eftir 1933 og 1944 (1945), tapast bæjarfulltrúar úr hinni glæstu herfylkingu Flokksins. En Flokksforustinni hafði líka verið klórað eftirminnilega undir uggum. Öll styrjaldarárin hafði innsti hringur og kunnustu gróðahyggjumenn Flokksins skarað eld að sinni eigin köku með því t.d. að kaupa mikinn fisk og selja á enskum markaði við stöðugt hækkandi fiskverð. En bæjarsjóðurinn sjálfur var gjörsnauður eftir þessi miklu gróðaár. Þetta fengu eiginhagsmunamennirnir að heyra og vel það í kosningabaráttunni 1946 og fleira, sem gekk í fólkið og hreyfði við hugsun þess og kenndum.
Sigur Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum var unninn. Og ég var á grænni grein með hugsjónir mínar. Nú þurfti ég heldur ekki að óttast háð og spott, þó að ég minntist á húsnæði handa Byggðarsafni kaupstaðarins, „draslinu“ mínu. Ég hafði ekki þraukað og barizt til einskis.
Og átökin í Flokknum að tjaldabaki vöktu athygli, líka eftir kosningarnar. Flokksforustan vildi hafa G.G. á lista Flokksins, en það vildi hann ekki. Hann neitaði því harðlega, segir Flokksblaðið. Og svo hætti hann að skrifa eins og kaupfélagsstjórinn eða samvinnuskólapilturinn, svo að maður hætti nánast að kaupa Flokksblaðið; það var allt púður úr því!
Eftir fjögur þagnarár sást aðeins ein grein eftir sænska konsúlinn í Flokksblaðinu. Þá virtist hann verða viðþolslaus allt í einu og tók að skrifa skammir um Guðjón Jónsson, bústjóra bæjarins í Dölum. Brátt var tekið fyrir þau skrif, enda var Einar Sigurðsson þá orðinn ritstjóri blaðsins.
Þessi látlausa þögn varð konsúlnum þreytandi. Einar Sigurðsson var húsbóndi á sínu heimili. Í honum varð ekki hrært.
Árið 1947 tók G.G. að gefa út sérstakt blað, sem hann kallaði Heimi. Út komu þrjú tölublöð af því, hógvær og áreitnislaus skrif. Konsúllinn virtist utangátta í Flokknum, svo að við fundum til með honum.
Árið 1949 hóf svo Flokkurinn að gefa út nýtt blað, sem hann kallaði Fylki. Ritstjóri þess var G.G. Ekki man ég eftir skömmum á mig eða skólastarf mitt í því blaði. Skyldu þeir hafa ályktað sem svo, að þeir hefðu ofboðið Eyjafólki með hundeltingunni á mig og skólann og þess vegna tapað meirihlutanum í bæjarstjórninni, sem sé ofboðið dómgreind hins góða og heiðarlega fólks? Hvað hafði gerzt bak við tjöldin, eftir að bréf fræðslumálastjóra birtist almenningi. Eftir það var gjörsamlega klippt á og lokað fyrir.
Múrinn fallinn. Launakúgun lokið.
Ég var á grænni grein með skólann
En hvað um byggingarhugsjón mína eftir kosningasigur vinstri flokkanna í bænum 1946, Alþýðuflokksins og Sameiningarflokks alþýðu, Sósíalistaflokksins? Nú varð ég einvörðungu að treysta á bæjarfulltrúa þeirra, þar sem Framsóknarflokkurinn fékk engan mann kjörinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja 1946. Þessir flokkar fengu samtals fimm fulltrúa kjörna. Og þeir tóku höndum saman um stjórn kaupstaðarins. Við margir hverjir gerðum allt, sem við gátum, til þess að efla og styrkja þá samvinnu. Bölvuð lymskan í mér! Og svo heimskan á hinu leitinu.
Bæjarstjóri vinstri samvinnunnar í bænum var ráðinn Ólafur Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún í kaupstaðnum, mætur drengur og gegn, sem ég þekkti vel.
Forseti bæjarstjórnarinnar var kjörinn Árni Guðmundsson frá Háeyri í Eyjum, gamall nemandi minn og svo samstarfsmaður í Sparisjóði Vestmannaeyja. Betri menn gat ég naumast kosið mér í þessi áhrifasæti, enda þótt við værum ekki samflokksmenn. Bölvuð lymska var þetta! Og svo var kennslumálaráðherra Brynjólfur Bjarnason, flokksbróðir þeirra bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar. Hann vildi þá gjarnan verða þingmaður Vestmannaeyja. Ráðherrann hafði auðvitað brennandi áhuga á byggingarmálum gagnfræðaskólans.
Brátt gerði húsameistari ríkisins teikningar af gagnfræðaskólabyggingunni með fimleikasal, svo að við gætum hafið byggingarframkvæmdir sem allra fyrst.
Skólabyggingin átti að hýsa svo að vel væri 250 nemendur við bóklegt nám, handavinnunám og félagsstörf. Fimleikasalurinn skyldi ekki aðeins þjóna skólanum heldur og knattspyrnufélögunum í bænum. Fullkomið skólaeldhús skyldi vera í byggingunni, svo að ég gæti látið kenna piltum matreiðslu engu síður en stúlkunum. Þannig gat ég þá aftur hafið það starf, sem fulltrúar Flokksins neyddu mig til að hverfa frá með valdníðslu sinni fyrir 7 árum, nefnilega að kenna piltum matreiðslu, svo að þeir treystust til að matreiða á bátum Eyjamanna.
Allir þessir draumar mínir rættust. Ég var sem sé á grænni grein með skólann minn, eins og ég orðaði það. Og nú var hætt að skamma mig! Ekki eitt orð!
Við grófum og grófum
Hinn 21. febrúar 1947 hófum við að grafa fyrir skólabyggingunni, nemendur mínir og ég, „hugsjónaangurgapinn“. Ég beitti hakanum og nemendur mínir rekunni.
Nemendahópar mínir skiptust á að grafa með mér fyrir skólahúsinu það sem eftir var febrúarmánaðar, og svo allan marzmánuð og fram í apríl um vorið.
Mikill var moldargröfturinn þarna á hæðinni suðaustur af Landakirkju austanvert við túnið, sem mér tókst að láta Kolka lækni beita sér fyrir að keypt yrði handa gagnfræðaskólanum árið sem hann flutti úr kaupstaðnum (1934). Þar er nú íþróttavöllur bæjarins. Túnið var 2 1/2 dagslátta að stærð eða tæpur ha. (Sjá annars grein um byggingu Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum í Bliki 1969).
Þriðja árásin
Ekki var allt búið enn. Þegar leið fram í aprílmánuð og við höfðum unnið að því að grafa fyrir skólabyggingunni með nokkrum hléum 67 vikur, hófst þriðja persónulega blaðaárásin á mig. Nú var það veslings „Gamli maðurinn á Tanganum“, Gunnar Ólafsson konsúll og kaupmaður m.m., sem naumast fékk vatni haldið fyrir þeirri ömurlegu staðreynd, sem við blasti, að „lýðnum í bænum“ undir forustu hinna vondu manna hafði tekizt að brjóta niður allar hindranir og skipulagðar hömlur gegn byggingu gagnfræðaskólahúss í bænum, og hinn illræmdi skólastjóri var sjálfur að grafa fyrir byggingunni „með svartan blett á tungunni“.
Það er stundum erfitt að festa svefn eða sofa vært, þegar svona illa árar og búast má við hækkandi útsvörum vegna óþarfa framtaks angurgapa, sem sölsað hafa undir sig opinber völd!
Skammirnar dundu nú á mér viku eftir viku frá 5. apríl til 21. maí (1947). Samtals birti gamli maðurinn 19 dálka í Flokksblaðinu, sem einvörðungu voru helgaðir mér og mannorði mínu. Það var ekki orðið mikið eftir af því, þegar skrifum þessum lauk, að hann sjálfur hélt, gamli maðurinn. En trú Eyjafólks á getu mína og heiðarleik virtist mér aukast að sama skapi.
Satt að segja gat ég naumast í hvoruga löppina stigið fyrir monti, þegar ég las þessi skrif, sem voru ekkert annað en upptugga hinna eldri skriffinna valdníðsluaflanna í bænum, samvinnuskólapiltsins og samstéttarmanns gamla mannsins, sænska konsúlsins. Samt þurfti ég nauðsynlega að standa fast í báða fætur við moldargröftinn og móhellubrotið þarna suður í hæðinni. Mér kom auðvitað aldrei til hugar að svara veslings gamla manninum einu orði, þessum orðumprýdda og skrýdda kaupmanni og konsúl. Við unnum þarna við gröftinn sleitulaust meðan prentararnir streittust kappsamlega við að setja og prenta alla þessa dásemd!
Gamli maðurinn m.m. hætti svo brátt að skrifa, þegar hann hafði létt vel á sér, og tók að búa sig undir flutninginn, því að hann var orðinn 83 ára, þegar hann var að þessu duddi.
Tímarnir höfðu breytzt og mennirnir með. Það var engin von til þess, að öldungur þessi gerði sér grein fyrir því. Og svo höfðu orðið kynslóðaskipti í bænum og þjóðfélaginu, síðan þeir tóku fyrst til að hundelta mig. Nýja kynslóðin hafði notið fræðslu „slæmra kennara“ og afleitra skólastjóra. Ekki var á góðu von!
Ég sníki fé til lána
Þegar byggingarframkvæmdir hófust 1947, var Sparisjóður Vestmannaeyja tekinn að eflast eilítið. Þá gekk ég einnig á milli kunningja minna í bænum og safnaði sparifé, sníkti það inn í stofnunina með þeim orðum, að ég vildi geta eflt hana svo, að hún yrði þess megnug að lána fé til byggingarframkvæmda, þegar til kæmi. Mér varð alveg ótrúlega vel ágengt, og ekki síður hjá „góðum Flokksmönnum“ en hinum. ,„Þetta fer allt á hausinn, allt á hausinn hjá honum“ gall daglega við í tálknum gamla konsúlsins á Tanganum, sem hafði lyklavöldin að hálfu leyti í bænum fyrir ríkisbankanum.
Ég hef ávallt haft þá eiginleika að virða fjármuni og spara þá. Hef ávallt borið virðingu fyrir fé. Þess vegna er mér viss atburður enn í fersku minni frá þessum sníkjutímum. Kvöld eitt fór ég heim til viss manns í bænum, sem ég þekkti lítið en vissi að átti drjúgan skilding í fórum sínum. Hann hét mér því að leggja inn í Sparisjóðinn „nokkrar krónur“ daginn eftir.
Og svo var það þá næsta dag, sem hann birtist fyrir framan afgreiðsluborðið í sal Sparisjóðsins. Mér eru enn í minni larfarnir sem hann gekk í, slorugir og lyktandi, því að hann var í aðgerð og kom til okkar rakleiðis úr aðgerðarkrónni. Hann hafði ekki svo mikið fyrir að þvo sér um hendur, áður en hann lagði leið sína til okkar í Sparisjóðinn. Og enn sé ég fyrir mér sloruga höndina hans, þar sem hann treður henni niður í buxnavasann á útötuðu buxunum sínum og dregur upp tíu þúsund króna bunkt, fleygir því á borðið fyrir framan mig og segir vingjarnlega: „Hana, taktu þetta og leggðu inn hjá þér. Þú skilar mér bókinni seinna.“ Þar með hvarf hann út um dyrnar. Tíu þúsundir króna var ekki lítið fé árið 1947. Mér er þessi atburður hugstæður, því að hann er nokkuð táknrænt dæmi um hug og hjartalag fólksins sjálfs gagnvart starfi mínu í bænum. Áhugi bæjarbúa fyrir því fór greinilega árvaxandi. Ef til vill var aðsókn þeirra að hinni árlegu handavinnusýningu gagnfræðaskólans dálítið dæmi um það. Árið 1928 sóttu aðeins 70 manns sýningu þessa og þannig var það næstu árin þrjú eða fjögur. En árið 1945 og árin fyrr og síðar sóttu sýninguna um 1500 manns í bænum eða rúmlega 40% af öllum bæjarbúum. Ekki fór sá áhugi minnkandi með árunum.
Og Sparisjóðurinn varð brátt þess megnugur að lána fúlgur fjár til byggingarframkvæmdanna. Að öðrum kosti hefðu þær verið fyrirfram dauðadæmdar. Engin lánastofnun önnur gaf þá kost á lánsfé til skólabyggingarinnar, ekki ein einasta, hversu sem á var sótt.
Var þetta allt ekki sérkennileg ráðstöfun? Og svo héldu nokkrir kaupmenn og konsúlar með skriffinna sína, að þeir gætu kaffært þetta afl, kyrkt framtakið í fæðingu!
Eins og ég tók fram, þá birti ég sögu gagnfræðaskólabyggingarinnar í Bliki mínu 1969. Þar gefst þér kostur á að lesa hana í heild og yfirhilmingarlaust, hafirðu hug á því, frændi minn sæll.
Hin duldu öfl
Mig langar til að bæta hér við eilítilli ábendingu til þín, sem lifir stundum og hrærist í sálfræðilegum athugunum og hugleiðingum:
1. Engan þátt átti ég í því, að sóknarpresturinn fann sig knúðan til að skrifa varnargreinina sína, sem var mér ómetanleg í baráttunni. Og hún var og er mér meira.
2. Engan þátt átti ég í því, að samvinnuskólapilturinn skrifaði sig „í hel“ með því að ofbjóða dómgreind og manngæzku Vestmannaeyinga í heild.
3. Engan þátt átti ég í því, að bellibrögð og eiginhagsmunaáróður nokkurra iðnmeistara í bænum urðu þess valdandi, að Gagnfræðaskólinn ávann sér álit og frama við landsprófið 1940 með því að hljóta annað sætið í röðinni af öllum gagnfræðaskólunum í landinu. Ekki gat ég neinu um það ráðið, að sú eiginhagsmunastreita iðnmeistaranna, sem jafnframt voru „góðir Flokksmenn“, varð mér persónulega til ómetanlegs álitsauka með skólamönnum þeim í landinu, sem bezt kynntust þessum þætti fræðslumálanna.
4. Litla eða enga sök átti ég í þeirri staðreynd, að sænski konsúllinn skrifaði sig einnig „í hel“ eins og samvinnuskólapilturinn með því að misbjóða dómgreind og mannlegum kenndum Eyjabúa í níði sínu og atvinnurógi.
Ég get bent þér á staðreyndir, vinur minn. Satt get ég líka sagt þér. En trúna get ég ekki gefið þér. Hún er guðsgjöf. „Forsjónin ein veit skil á löggjöf sinni,“ segir Davíð skáld Stefánsson í skrifum sínum. Þegar ég las þessa fullyrðingu hans, varð hún mér íhugunarefni. Í rauninni fannst mér það sérlegt að rekast á þessa hugsun hjá honum, nákvæmlega sömu hugsun og ég hafði alið með mér árum saman eða síðan ég var við nám í Noregi og las af íhygli suma hugsuðina norsku. Þá urðu mér orð Ásmundar Ólafssonar skálds frá Vinje á Þelamörk hugstæð og hafa verið það síðan. Þau eru þessi á hans eigin máli: „Den, som av gud fekk sitt adelsbrev, han treng ikkje kongens stempel.“
Síðast orða bið ég þig að lesa þetta bréf mitt með léttri lund eins og mér er innanbrjósts, þegar ég pára þér það. Efni þess er mér broslegt fyrirbrigði, sem lengir mér lífið og léttir mér það. Ég er undirniðri þakklátur þessum skriffinnum Flokksins fyrir skrif þeirra og skútyrði. Þau sanna mér hin miklu áhrif uppeldisins, þegar mannskepnan er að vaxa og mótast. Þeir voru fóstursynir hins ríkjandi afls í kaupstaðnum og létu ginnast öðrum þræði af framavon. Þessi kennd er svo rík í mannssálinni. En þeir voru líka sérstæðir og áttu fáa sína líka. Þess vegna var hið ríkjandi vald að leita og bíða stundum árum saman til þess að finna þá gerð mannssálar, að hún hefði eiginleika til þess að láta nota sig til þessara verka. En þessar manngerðir fundust, sem betur fór. Annars hefði þessi kafli ævisögu minnar aldrei orðið til.
Við höldum fram sem stefnir
Hér með slæ ég botninn í þetta bréf mitt. Ég held fram sem stefnir næsta ár, ef ég held lífi og heilsu. Þá mun ég senda þér nokkrar línur skrifaðar í svipuðum dúr. Nóg á ég efnið í fórum mínum.
Í næsta bréfi mun ég greina þér frá málaferlunum miklu, sem brutust út með offorsi á mig, eftir að ég vann kosningasigurinn mikla við bæjarstjórnarkosningarnar 1950. Þá gnæfði líka gagnfræðaskólabyggingin orðið við himin, og sú sýn fór illa með sálarlíf sumra, sem áttu það að lífshugsjón, að hún yrði aldrei til. Eftir þá velgengni mína brauzt út óstjórnlegt ofsóknaræði konsúlaklíkunnar í bænum og nánustu sálufélaga þeirra. Þá var ég svo að segja vikulega í réttarhöldum og safnaði miklu efni til að gleðja mig við í ellinni. Þarna færðu líka um leið dálitla hugmynd um réttarfarið í Vestmannaeyjum á þessum tímum.
Ég kveð þig, kæri frændi og vinur, og óska þér og lesendum okkar alls góðs.