Blik 1973/Bréf til vinar míns og frænda, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. október 2010 kl. 21:37 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. október 2010 kl. 21:37 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda

(2. hluti)


Ég var fermdur


Og þannig ólst ég upp, syndlítill pjakkur, að mér fannst sjálfum, og samdi mig að siðum og kenningum minna lífsreyndu fósturforeldra, sem hvergi máttu vamm sitt vita í viðskiptum sínum við guð og menn. Þó gat út af þessu brugðið hjá mér, veiklunduðum, t.d. þegar ég særði fuglinn með skotinu.
Og mánuðirnir liðu fram á vorið. Svo rann upp fermingardagurinn. Messan hófst kl. 2 e.h., og gert var ráð fyrir, að henni lyki kl. 5 eða eftir þrjá tíma, ef að vanda lét.
Á nóni var ræðu prestsins lokið. Nokkur hluti kirkjugestanna rölti þá heim til þess að fá sér kaffisopa, en við fermingarbörnin urðum nú aðalpersónurnar í athöfninni. Við áttum nú fyrst og fremst að sýna og sanna, hvað við kynnum í hinum kristnu fræðum, þylja greinar úr Kverinu í áheyrn foreldra og annarra aðstandenda¹. Hvenær þeirri þraut lauk, man ég ekki. En við gerðum víst eins og við frekast gátum, þuldum og svöruðum spuringum prestsins svo vel og skilmerkilega, sem okkur var unnt eða eins og vit og næmi hrökk til og við vissum vilja prestsins, skoðanir og óskir, enda var okkur vel til hans, mátum hann og virtum.
Og svo var þá tekið af okkur heitið mikla og við krupum við gráturnar. Þá festist mér í minni visst atriði. Þegar við höfðum kropið um stund, heyrði ég snökt og snipp, og fannst mér það koma frá flestum fermingarsystkinum mínum. Þetta undraðist ég. Voru þau að gráta? Hvað hryggði þau svo skelfilega? Mér sjálfum var allt annað í huga en grátur þessa stundina, — já, alveg hið gagnstæða, aðeins einlæg gleði yfir því að geta nú lokið svona hérumbil skammlaust þessum merka áfanga og mega svo óhindraður takast á við framtíðina.
Stund leið. Enn heyrði ég snipp og snökt. Athafnir voru engar um sinn hjá prestinum. Eftir hverju var hann að bíða? Ég gaut augunum til hægri og vinstri, þar sem ég kraup þarna við gráturnar í Neskirkju. — Enn ekkert lát á harmhljóðinu. Loks lauk athöfninni, og ég var orðinn maður með mönnum, tekinn inn í samfélag kristinna manna. Hvílíkt spor fram á við. Ég hafði staðfest nafn mitt, nafn afa míns og afabróður á sjálfum mér. Og það var mér ekkert sorgarefni. Síður en svo. Lítið annað en þessi hugsun komst að í huga mér.
Já, alveg sæmilega hafði ég þruglað mig fram úr ritningargreinum Kversins þarna frammi fyrir altarinu og í áheyrn safnaðarins. — Já alveg sæmilega, fannst mér, (Eftir 58 ár hugkvæmdist mér að líta í kirkjubókina frá Nesi í Norðfirði (Skorrastaðarsókn). Þar sé ég, að prófasturinn hann séra Jón hefur skráð við nafn mitt þessar einkunnir: Kann dável, skilur ágætlega, hegðar sér ágætlega).
Á leiðinni heim úr kirkjunni færði ég þennan grát fermingarsystkina minna í tal við fósturforeldra mína og spurði þá, hvernig á honum gæti staðið. Ég sjálfur sá aðeins sól og vor við það að vera fermdur. Bæði töldu þau það ofureðlilegt, að unglingarnir eða fermingarbörnin væru viðkvæm fyrir þessum merka áfanga, heiti sínu að reyna eftir megni, og meira en það, að feta sig áfram eftir guðsvegum á lífsleiðinni. — Mér er tjáð nú, að þá hafi það verið skýlaust heit en ekki „eftir megni“. Ekki man ég það sjálfur og ekki veit ég það.
— Fleiri orð höfðu þeir um þetta, fósturforeldrar mínir. En ég þagði, steinþagði. Ég hef ef til vill fundið til blygðunar við þá vitund, að vera öðruvísi skapi farinn en flestir eða allir hinna. Þetta brann fyrir brjósti mér: bar þetta vott um einhverja mannvonzku? Þá var að gæta sín og læra að þekkja sjálfan sig.
— Svo var aldrei á þetta minnzt framar.
Um vorið, fermingarvorið mitt, gekk ég í stúkuna, þar sem fóstri minn hafði starfað mörg ár eða frá stofnun hennar. Hún hét Nýja öldin, enda stofnuð um aldamótin þarna á Nesi. Þar vann ég annað mikilvæga heitið mitt þetta vor. Það heit hef ég haldið síðan afdráttarlaust og tel það spor, sem ég steig þá, annað mesta gæfuspor mitt í lífinu. — Veslings fólk, sem stynur og þjáist. Vissulega er því vorkunn veiklyndið og ginnungagirnin. Við tölum ekki meira um það hér í þessu bréfi. Það var aldrei ætlunin.
Og fram liðu unglingsárin.

¹ Samkvæmt konunglegri tilskipan frá árinu 1744 um fermingar íslenzkra barna.


Hin rauðu áhrif


Aðdragandi byltingarinnar í Rússlandi virtist hafa töluverð áhrif hér heima á litla og afskekkta landinu okkar. Menn gleyptu flugu og tóku að predika: Enginn guð er til. Allt eru falskenningar, blekkingar, lygar. Aðeins guð auðvaldsins er ríkjandi í mannlegu lífi. Viss blöð landsins blésu þessum kenningum í brjóst unglingunum. Ýmsir gerðust trúgjarnir. Miðaldra maður vel kunnur æskuheimili mínu hélt hrókaræðu um blekkingar hins svo kallaða kristindóms, eins og hann orðaði það, í skjóli hans hafði okkur ávallt verið kennt, að algóður og alvitur guð væri alls staðar og í öllu, væri gildur þáttur í lífi okkar mannana. Maðurinn var heitur og ofstækisfullur í málflutningi sínum.
Svo gerðist byltingin mikla og guðsafneitunarkenningin fór sem eldur í sinu um allar jarðir. Þá fannst mér ég fyrst uppgötva fyrirbrigði, sem ég hafði aldrei áður orðið var við eða gert mér grein fyrir: Við áttum reyndar rótlausan unglingaskríl innanum og samanvið, sem gleypti hverja útlenda flugu, sem dýrkendur erlendra kenninga í trúmálum og stjórnmálum þóknaðist að leggja í gin hans. Mér var þá bent á, að svo hefði þetta alltaf verið í meira og minna ríkum mæli, en ég ungur að árum og fávís í íslenzkri þjóðlífssögu vissi þetta ekki.
Og ég, unglingurinn, sem var svo hjartanlega sannfærður um að hafa uppgötvað sjálfan guð í samvizku minni, hugsun og vitund, hvernig átti ég að skilja þessa guðsafneitara? Ég ályktaði, að þeir afneituðu innsta kjarnanum í sjálfum sér í fávizku sinni, hugsunarleysi, þroskaleysi og ofstæki. Þannig hugsaði ég í sannfæringu minni. Þessir jafnaldrar og eldri ungmenni, sem gleyptu umhugsunarlaust beituna rauðu, minntu mig helzt á þyrsklinginn við bryggjurnar okkar, sem við strákarnir fengum til að gleypa ýmislegt óæti, svo sem strokleður, hnappa, eirpeninga og margt fleira.
Svo kom að því, að ég kynntist sjálfur öllu þessu ofstæki gegn kristinni trú og trúarlegum athöfnum. Þá stundaði ég nám úti í Noregi. Ég var nemandi Lýðháskólans að Voss. Hver starfsdagur skólans hófst með því að nemendurnir (um 180 talsins) og kennararnir komu saman í samkomusal skólans. Þar var sunginn sálmur og skólastjórinn (Lars Eskeland) las trúarjátninguna og Faðirvorið. Þegar okkur var hleypt út eftir athöfn þessa, brást það ekki, að færeyski nemandinn og tveir aðrir norskir stóðu á ganginum fyrir framan salardyrnar. Þeir höfðu ímugust á trúarathöfninni. Þeir voru haldnir austrænum trúarkenningum, þó að ótrúlegt sé. Af þeim sökum gátu þeir ekki verið í salnum og hlustað þar á „villukenningar og holtavæl sálmasöngsins.“ Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, heldur nokkrum árum síðar, hversu slíkt sálarlíf hlýtur að vera tómlegt, haldlaust og lokað, — dautt, steindautt.
Og ég þreifaði nokkrum árum síðar á sérkennilegu fyrirbrigði. Ég hafði strjál bréfaviðskipti við einn af þessum skólabræðrum mínum. Hann kvæntist sænskri kennslukonu heittrúaðri. Hún leiddi hann til einlægra trúar í ást sinni, einlægni og guðlegri vizku, ef ég mætti orða það þannig. Og í bréfi til mín viðurkenndi þessi góði drengur og heiðarlegi, eins og hann reyndist, allar yfirsjónir sínar frá þessum skólaárum, þroskaleysi og auðtrúa hugarfar.


Minnisstæður gestur.
Hin barnslega einlægni.
Kjarninn


Nokkru eftir að við hjónin fluttum til Vestmannaeyja haustið 1927, var drepið á dyr hjá okkur. Komumaður var umferðarbóksali. M.a. hafði hann á boðstólum merka bók um athyglisverð efni af mínum sjónarhóli séð. Bókin skyldi koma út um veturinn. Með því að fullyrt var í ávarpsorðum boðlistans, að einn af merkustu fræðimönnum þjóðarinnar þá, P.E.Ó., þýddi bókina, lét ég til leiðast að gerast kaupandi að henni.
Svo liðu vikur og mánuðir fram á veturinn. Þá bar unga stúlku að garði. Hún kom með bókina og fékk hana greidda. — Stúlkan settist inn í stofu hjá okkur og ég tók að ræða við hana um heima og geyma. Brátt komst ég að því, að hún var „limur á líkama Krists“, var í sértrúarflokki. Ég þekkti vel trúarskoðanir þessa fólks frá bernsku — og unglinsárunum og mat margt af því fyrir siðgæði og dyggð í daglegu athafna- og viðskiptalífi. Ég gat af nokkurri þekkingu á trúarskoðunum þessa fólks rætt við stúlkuna um trúmál þeirra, — trúaratriði, sem mér brunnu fyrir brjósti, og svo öðrum þræði eins og til að sanna stúlkunni, að hún kæmi hreint ekki að alveg tómum kofanum hjá mér í þessum efnum. — Æ, við erum svo býsna mannlegir stundum, mennirnir, eins og okkur ber að vera, sagði einhver.
Við ræddum m.a. um upprisuna. Það túaratriði var henni „mjög ljóst og skilmerkilegt samkvæmt kenningum heilagrar ritningar,“ sagði blessuð stúlkan. Á degi dómsins skyldi hinn jarðneski líkami rísa upp úr gröf sinni, og yrði þá jafnframt gengið fram fyrir dómarann mikla. Ég mótmælti engu, sem hún sagði til þess m.a. að særa ekki trúartilfinningar stúlkunnar. Og ég hlustaði á hana alvörugefinn. — En svo allt í einu kom strákurinn upp í mér. Mig langaði til að leggja fyrir hana eina spurningu. Hvernig skyldi hún komast frá henni? Og ég sagði alvörugefinn: „Fyrir tæpum fjórum árum fann bóndi hér austur á Kirkjubæjum gröf séra Jóns píslarvotts Þorsteinssonar. Undir flötum legsteininum fannst örfúin kista og í henni einhver vottur örfúinna beina, sannkallað duft hins mannlega líkama. Enginn vottur höfuðbeina fannst þar.“ Svo spurði ég alvarlegur blessaða stúlkuna: „Hvernig er hugsanlegt, að þessar líkamsleifar prestsins sálaða geti risið upp og hann stigið í þeim alskapaður á nýjan leik fram fyrir dómstól drottins, hress og sjálfumglaður, viss í sinni sök, sem var lítil eða engin, því að séra Jón var grandvar maður, sannkristinn, með sannkristnu hugarfari, guðsmaður, sem leið píslarvættisdauða fyrir trú sína?“
Og nú hlakkaði í mér görnin, skálkinum. Hvernig skyldi hin heitttrúaða og bókstafstrúaða komast frá þessu atriði, hugsaði ég með sjálfum mér. Ég var alvarlegur og hátíðlegur og minntist fóstra míns, hvernig hann með stillingu og jafnaðargeði gat hlustað á það, sem hann kallaði fjarstæður, bæði í trúmálum, og stjórnmálaskoðunum.
Eftir nokkra umhugsun svaraði stúlkan: „Vegna heilsuleysis gat ég ekki stundað nám í norska biblíuskólanum okkar (í skóla sértrúarflokksins) nema þrjár vikur. Ég á þess vegna bágt með að svara þessari spurningu trúfræðilega, en það er einlæg trú mín, að guði sé enginn hlutur ómáttugur. Hann safnar saman á dómsdegi jafnvel hinu ósýnilega dufti, skapar úr því líkama, sem svo rís upp úr gröf sinni á dómsdegi og gengur fram fyrir dómarann mikla.“
Ég varð orðlaus. Heilaga einfeldni, hugsaði ég, en sagði sem sé ekki eitt einasta orð gegn þessari trúarskoðun. Stúlkan sagði þetta svo einlæglega og hjartanlega og meira sagði hún, svo að ég dáðist að henni í þögn minni. Já, meira: Ég fylltist lotningu fyrir þessari saklausu og einlægu sál, sem umfram allt trúði á mátt guðs og algæzku, vizku og vilja í einu og öllu. Og þarna er ég kominn að kjarnanum. Það skiptir ekki svo ýkja miklu máli, hverju við trúum og hverju við höfnum í hinum kristnu fræðum, ef við aðeins ræktum með okkur einlæga guðtrú og allt, sem hans er. Það er mannrækt í dýpsta skilningi þess orðs. Einlægni og hreinleiki sálarlífsins skiptir þar meginmáli. Það er hinn rauði þráður gagnvart siðgæðislegum og trúarlegum kenningum og sannfæringu.
Þetta atriði var það, sem Kristur hafði í huga, er hann benti á sálarlíf barnsins, einlægni þess og trúnaðartraust í daglegu lífi, mönnum til fyrirmyndar og sáluhjálpar. Þetta er kjarninn, sem við verðum að skilja og tileinka okkur og læra að meta, þegar við hugleiðum mannlífið í kringum okkur í öllum myndum sínum og fyrirbrigðum, — líf einstaklinga, jákvætt og neikvætt, eftir því sem til þess er stofnað í daglegri hegðun og breytni okkar mannanna. Í þessu sambandi hefi ég veitt ýmsum fyrirbærum athygli í daglegu lífi manna, þar sem einlægni, lotningarkenndin fyrir algæzkunni, fyrir lífsaflinu mikla og algilda skiptir mestu máli, þegar hjálpar er leitað í sálarlegum nauðum, leitað eftir styrk til þess að betrumbæta líf sitt og sinna. Mér kemur í hug afturhvarf drykkjumannsins, sem leitar æðri máttar til þess að losna undan okinu mikla og skelfilega. Sé sálarlífinu sóttur máttur og styrkur í þeirri baráttu af einlægni, hreinni hugsun og mengunarlausri lotningu, er sigur drykkjumannsins vís honum sjálfum, konu hans og börnum til blessunar og velfarnaðar, hamingju og gengis. Ég þykist einnig hafa veitt því athygli, að sá drykkjumaður, sem leitar eftir þessum styrk eða krafti fyrir siðasakir með hroka í sál eða sérgæzku, yfirborðsmennsku eða sjálfbirgingi, nær aldrei markinu, hlýtur seint bót á drykkjuhörmungum sínum og fjölskyldu sinnar, eins og við vitum nærtæk dæmi hér í kaupstaðnum.
Eftirtektarverð og markverð eru þessi orð indverska göfugmennisins Gandis. Hann sagði: „Mér er það stöðugt kvalræði, hversu fjarlægur ég er guði, sem ég veit þó að ræður yfir hverjum andardrætti mínum og hefur vakið mig til lífsins. Ég finn, að það eru mínar illu ástríður, sem skilja okkur, þó að ég geti ekki losað mig við þær.“ Fyrst hann fann svo sárt til þess, hinn mikli andi, hversu ástríður hans skildu hann frá guði, guðsaflinu í tilverunni, hvað mættum við þá hinir minni og veiklunduðu segja? Og þá dvelur hugur minn fyrst og fremst við þá, sem hafa tortímt gæfu sinni og gengi og hamingju fjölskyldu sinnar með taumlausum drykkjuskap og margvíslegri annarri ómennsku.
Þannig er þetta á öllum sviðum mannlegs lífs, gildir um allt, sem amað getur að mannlegri sál, og varðar alveg sérstaklega það kvalræði, það víti, sem maður sjálfur bakar sér eða ávinnur sér. Það kvalræði hlýtur að fylgja sál hans út yfir gröf og dauða, því að það er samgróið sálarlífinu, er ástríða, sem leynist í kjarna sálarlífsins svo lengi, sem ekki verður sigrazt á þeim fylgifiski. Þessi sannfæring mín og hugsun er ekki eitthvað alveg nýtt, sem ég spinn fram úr hugarfylgsnum mínum. Brezkir spekingar hafa sagt þessi orð fyrir öldum: „Dauðanum fylgja engar aðrar ógnir en þær, sem við höfum skapað okkur í jarðlífinu eða áunnið okkur með veikgeðja lífi okkar.“ — Já, með veikgeðja lífi okkar, segja spekingarnir. Þeir vita. Þeir skilja. Við gerum það líka, ef við viljum eða höfum þrek til.
Svona hlýtur það að vera um allar neikvæðar hneigðir mannssálarinnar, fýsnir hennar í hvaða mynd sem er, séu þær á annað borð samgrónar sálarlífinu, svo sem drykkjuástríðan, eigingirni, heiftin, hatrið, drottnunargirnin, hrokinn, ágirndin, fíknilyfjafýsnin, morðfýsnin o.fl. sem stríðir á sálir mannanna. Um þessi illu öfl, sem heltaka mannlegar sálir, komst rússneskur spekingur vel og skáldlega að orði, er hann sagði: „Allir geta faðmað björninn, en þá fyrst byrja erfiðleikarnir, þegar menn ætla aftur að fara að losa sig úr hrömmum hans.“
Vitaskuld flytur sálin einnig með sér hinar jákvæðu hneigðir, manngæzkuna í öllum myndum sínum, sé hún á annað borð annað en látalæti eða sjónleikur. Hún verður að vera samgróin sálarlífinu, því eiginleg, eigi hún að vera og verða gæfugjafi, líka í öðru lífi, svo sem drenglyndið, hreinleikinn, manndómurinn, einlægnin, — guðsgáfurnar óskertar og lifandi. Hvernig ætti þetta allt að vera öðruvísi? — Einungis allt, sem er efnisins, skilur maðurinn við sig á andlátsstundinni.
Mér var öllum lokið, þegar ég uppgötvaði hina einlægu trú og hreinu trúarlegu hugsun stúlkunnar, sem færði mér bókina, hina einlægu og barnshreinu trú hennar á almætti og algæzku guðs okkar allra. Ég mátti blygðast mín, sem þóttist, — já, þóttist ... — Þarna fékk ég að þreifa á meginatriðunum: trúnni og einlægninni, hreinleikanum, hinni barnslegu einlœgni, sem Kristur benti á til fyrirmyndar heilbrigðu sálarlífi. Ávöxtur þeirra eiginleika er siðgæðislegt mat hlutanna, jákvætt siðgæðismat mannsins í daglegu lífi, - mannrækt í orðsins fyllsta skilningi.
Ég kvaddi þessa einlægu og saklausu sál með virktum. Það hefðu fósturforeldrar mínir líka gert.


Bænheitt fólk


Þessi einlægni, þessi hreinleiki sálarlífsins einkennir fyrst og fremst það fólk, sem reynist öðrum fremur bænheitt. Það fær áheyrn, ef ég mætti orða það þannig, — það fær uppfylling bæna sinna í einni eða annarri mynd. Þar skiptir trúflokkurinn engu máli eða kirkjusöfnuðurinn. Heldur ekki meðfætt vit eða áunnið bókvit. Einlægni þess og trúarhiti verður þess valdandi, að bænir þess eins og leysa úr læðingi hin duldu öfl eða lífsaflið mikla, sem alls staðar er og alls staðar orkar á, ef skilyrðin eru til þess í mannssálinni eða sálarlífinu. — Með bænum sínum, þessari ómenguðu sálarorku, fær þetta hreintrúaða fólk til leiðar komið einskonar kraftaverkum til ómetanlegrar blessunar fjölda manna og málefna hérna megin grafar.
Andstaða þessa hreina og einlæga trúarlífs er hálfvelgjan, hugsun menguð eigingirni, — sem íslenzkan fullyrðir, að sé rót alls ills, — hroki, ágirnd, valdafíkn, drottnunargirni o.s.frv. Hlustum á valdhafa veraldar í dag, hversu fagurt þeir mæla. Hugleiðum svo fréttirnar af hryðjuverkunum af þeirra völdum í öllum sínum óskaplegustu myndum. Þess vegna er hætt við því, að með réttu verði síðar sagt um menningu nútímans eins og Matthías Jochumsson kvað um menningu liðinnar aldar: „Þín gamla soramenning var síngjörn lymskudrög. Hún hlaut að falla í fordæming, því að föst eru drottins lög.“
Mörg eru spakmæli norska skáldsins Hinriks Ibsens í skáldverkum hans. Enga bók hef ég lesið oftar en Pétur Gaut í þýðingu Einars Benediktssonar. Þar hallast ekki á um snilldina hjá þeim stórskáldunum. Hið auðskildasta í Pétri Gaut las ég árlega um 20 ára bil fyrir þroskuðustu nemendur mína í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum. Það hefði ég ekki gert, ef ég hefði ekki sjálfur fundið hin þroskandi áhrif þessa snilldarverks, myndirnar, kenningarnar, dæmin, spekina, hina djúpu þekkingu á mannlegu sálarlífi. Maðurinn, hinn sanni maður, er mikið og voldugt hugtak þessa skálds. Í hinu sanna mannlífi, þar sem birtan, — ljósið, víkur til hliðar ljótleikanum, ástríðunum, hinum mannlegu löstum, þar nálgast hugtakið maður upphaf sitt, eins og guð, skaparinn, hafði upphaflega ætlað því að vera og verða, sannur maður í hugsun, orði og athöfn. En eigingirnin og sjálfselskan gerði manninn og gerir að þurs, grófum heimskingja, sem rær að því öllum árum að fullnægja sjálfum sér, — sér helzt engan nema sjálfan sig, sinn eigin hag í einu og öllu. Þessa áminningu orðar skáldið þannig:

„Þar úti, sem nótt fyrir árdegi víkur,
er orðtakið: „Maður, ver sjálfum þér líkur.“
En meðal vor, þar sem myrk eru öll dægur,
er máltækið: „Þurs, ver sjálfum þér nægur“.“

Og það er sannfæring mín og trúaratriði, að þursinn flytur vítið sitt með sér, er hann kveður þennan heim. Þar, og einungis þar, verður hugtakið helvíti að staðreynd. Annar helheimur hefur aldrei verið til.


Meiri þeim, sem vinna borgir


Þegar ég svo hugleiði þessi mikilvægu atriði, þetta lífslögmál tilverunnar, kemst ég ekki hjá að hvarfla huga og hugsun til þess mæta fólks hér í kaupstaðnum, sem með sameiginlegri hjálp og æðri hjálp hefur á undanförnum árum sigrast á drykkjufýsn sinni á yfirnáttúrlegan hátt, liggur mér við að segja, borið sigur af hólmi í þeirri örlagaríku baráttu sjálfum sér og ástvinum sínum til óumræðilegrar gleði og hamingju. Þetta fólk er meira, sigrar þess stærri en hinna, sem vinna borgir, óendanlega stærri. Stærstir og mikilvægastir eru þeir sigrar, sem við vinnum yfir sjálfum okkur, mennirnir. Það tekst manninum einungis, ef barizt er af heilum hug, einlægni, hreinskilni við sjálfan sig og af ómenguðu trúartrausti. Þar gildir engin hálfvelgja. Þar í felst mannræktin. Og ávextirnir verða andlegur þroski í ríkum mæli og sönn lífshamingja, sem hlýtur að fylgja okkur út yfir gröf og dauða.

III. hluti

Til baka