Blik 1971/Aðalfundur L.Í.Ú í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. september 2010 kl. 20:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. september 2010 kl. 20:23 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1971



Aðalfundur L.Í.Ú. haldinn í Vestmannaeyjum


Samband íslenzkra útvegsmanna (L.Í.Ú.) hélt 31. aðalfund sinn hér í Vestmannaeyjum. Fundurinn var haldinn 5.-7. nóvember s.l. í Akógeshúsinu við Hilmisgötu. Þetta var fyrsti aðalfundur þessara merku landssamtaka, sem haldinn var utan Reykjavíkur. Ekki færri en 82 fulltrúar víðsvegar að af landinu sátu þennan fund, þar af voru 9 kjörnir fulltrúar Útvegsbændafélags Vestmannaeyja.
Við setningu fundarins flutti Björn Guðmundsson, útgerðarmaður, fyrrverandi formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, ræðu þá, sem Blik birtir hér á eftir.
Ýmis atriði í ræðu þessari hafa sögulegt gildi. Jafnframt er þessi aðalfundur hinna áhrifaríku landssamtaka í atvinnumálum landsmanna og þá sérstaklega sjávarútvegsins, sögulegur og menningarlegur viðburður hér í byggðarlaginu. Þess vegna hefur Blik kosið að birta ræðu Björns Guðmundssonar og svo jafnframt nokkrar myndir frá fundarhaldi þessu og gestakomu í bæinn. Þ.Þ.V.


ctr


Farkosturinn sígur að bryggju í Eyjum með fulltrúana innanborðs.



ctr


Velkomnir til Vestmannaeyja.


ctr


Á Básaskersbryggjunni í Eyjum.
Frá vinstri: 1. Hilmar Rósmundsson, Vestmannaeyjum, 2. Sverrir Júlíusson, Reykjavík, 3. Jón Árnason, Akranesi, 4. Tómas Þorvaldsson, Grindavík, 5. Björn Guðmundsson, Vestmannaeyjum.


Góðir landsfundarfulltrúar og gestir.
Þessi landsfundur eða aðalfundur Landssambands ísl. útvegsmanna er 31. aðalfundarsamkoma innan samtakanna, og sú fyrsta að því er ég bezt veit, sem haldin er utan höfuðborgarinnar. Hér er því brotið blað. Þrjátíu aðalfundir samtakanna hafa verið haldnir í Reykjavík. Sá 31. er að hefjast í Vestmannaeyjum.
Af þessu tilefni hefur okkur útvegsmönnum hér í Eyjum, sem buðum Landssambandinu til aðalfundarsetu hér, þótt tilhlýða að ávarpa gesti okkar nokkrum orðum í upphafi fundar, og þá fyrst og fremst bjóða ykkur hjartanlega velkomna. Megi fundarsetan verða ykkur til ánægju og gagns, og dvölin hér þessa fáu daga til fróðleiks og gleði. Þessar óskir eru bornar fram af einlægum hug af því að við vitum, að þið hafið lagt nokkuð á ykkur til þess að sækja okkur heim, sýnið okkur virðingu og velvild um leið og þið afsalið ykkur nokkru af þeim þægindum, er fundarseta á höfuðborgarsvæðinu hefur upp á að bjóða. Hins vegar vonum við, að nokkuð vegi upp á móti, að þið eruð komnir í fiskibæ, sem um margt er sérstæður, bæði að náttúru og sögu. Náttúrufegurð Eyjanna ætla ég ekki að lýsa, þar er sjón sögu ríkari. En það er von mín, að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og Eyjarnar skarti sínu fegursta fyrir gesti okkar, og að vindmælirinn á Stórhöfða snúist ögn hægara þessa dagana, sem þið dveljið hér, heldur en hann gerir stundum á nóvemberdögum.
Hins vegar langaði mig til þess að víkja í fáum orðum að sögunni, og þó einkum einum þætti hennar, það er útgerðarsögu Eyjanna. Í því efni ætla ég að stikla á stóru, annars yrði of langt mál, því af miklu og mörgu er að taka. Rétt er þess að geta, að ekki flyt ég Eyjabúum, er hér eru staddir í dag, nokkurn nýjan fróðleik. En við höfum hér góða gesti, sem komnir eru vel flestir um langan veg í þeim tilgangi að fjalla um málefni útgerðarinnar. Þá þótti mér vel hlýða, að rekja nokkuð þætti hennar í sögu þessa byggðarlags.
Fram yfir aldamótin var sótt á sjóinn héðan úr Eyjum á svipaðan hátt og venja var um allt land, á opnum róðrarskipum. - 16 áraskip reru héðan á vetrarvertíð árið 1900, en með 20. öldinni hefst einnig öld vélbátanna. Þá verða aldahvörf, og framfaraskeið útgerðar og Eyjanna hefst, sem staðið hefur nær óslitið síðan.

ctr


Björn Guðmundsson flytur ræðu sína.
Sitjandi frá vinstri: 1. Gunnar Hafsteinsson, skrifstofustjóri L.Í.Ú., 2. Jón Árnason, fundarstjóri, 3. Sigurður Egilsson, framkvæmdastjóri L.Í.Ú.


Árið 1905 koma fyrstu vélbátarnir til Eyja, og voru fyrst gerðir út á vertíð 1906, þá aðeins tveir að tölu. Ekki þættu þetta merkileg skip í dag, en mönnum hló hugur í brjósti, striti árabarningsins lauk, og þá hófst hæg en markviss þróun vélbátaútvegsins, og þar með byggðarlagsins.
Ekki var hægt um vik að taka stór stökk fyrstu árin, því engir voru hafnargarðarnir, engar bryggjur, fiskurinn seilaður um borð í bátnum og dreginn að landi eða fluttur í land á smákænum. En stór voru stökkin þó, því að 1912 voru vélbátarnir orðnir 58, en vel að merkja smáir. Hafnleysið hafði þar sitt að segja. En svo var hafizt handa um gerð hafnargarðanna 1914. Það mannvirki var Eyjabúum erfitt í skauti, en olli þáttaskilum. Vélbátunum fjölgaði, þeir stækkuðu, og þegar aldarfjórðungur er liðinn af vélbátaöldinni, eða Alþingishátíðarárið 1930, eru þeir orðnir nær 100, sá stærsti þá tæpar 40 lestir.
Heimskreppan 1930 gerði strik í reikninginn. En þróunin heldur þó áfram, bátarnir stækka. Árið 1954 eru hér skráðir um 70 bátar, sá stærsti 85 rúmlestir. Þá færum við okkur fram til dagsins í dag. Á s.l. vertíð voru gerðir hér út tæplega 80 bátar, sá stærsti 264 lestir.
Þegar maður lítur yfir þessa sögu, þá er rétt að við vitum af því, sökum þess að á fundum sem þessum er nú mjög gjarnan talað um útgerðarkostnað, og er gaman til fróðleiks, að geta þess, að árið 1908 er áætlaður útgerðarkostnaður vélbáts 8.185,00 kr. Helztu liðirnir eru salt 600,00 kr., veiðarfæri 500,00 kr., beita 750,00 kr., steinolía 840,00 kr. og kaup 2.000,00 krónur.
Svo sem að líkum lætur hafa aflabrögð verið misjöfn frá ári til árs. T.d. kom ein milljón fiska á land hér árið 1911, og dagsafli á netavertíð hefur komizt upp í 2.000 smálestir á dag. Í ár eða til 15. september s.l., er aflinn orðinn tæpar 49.000 smálestir, 38.400 smálestir veiddust hér á vetrarvertíð og 10.600 smálestir hafa veiðzt hér á sumarvertíð eða fram til 15. september. Að auki hafa borizt hér á land á s.l. vertíð 74.000 smálestir að 1oðnu en af því magni öfluðu Eyjabúar 19.000 smálesta.
Árið 1954 var útflutningsverðmæti framleiðslunnar hér í Eyjum um 100 millj. króna eða þá um tæp 12% af heildarútflutningsverðmæti þjóðarinnar. Þetta hlutfall hefur haldizt nokkuð síðan. Í fyrra var það um einn milljarður króna og í ár er talið að það geti orðið um 1.300 milljónir króna, 1,3 milljarður, einhvers staðar um 12-15% af útflutningsverðmæti landsmanna. Þetta er þó nokkur skerfur, þegar það er haft í huga, að hér búa 2 1/2% af þjóðinni.


ctr


Áheyrnarfulltrúar í fundarsal.


Þessi mikla verðmætasköpun hefði ekki getað orðið, nema miklar breytingar hefðu orðið á í framleiðsluháttum. Það hefur líka verið lagzt vel á árina. Nægir þar að benda á hin stóru fiskiðjuver, sem hér eru, þau stærstu á landinu, og eru þau vissulega einn af hyrningarsteinum útgerðarinnar hér. Á svona löngu tímabili í útgerðarsögunni, eða síðan um aldamót, hafa orðið hér í Eyjum miklar breytingar á útbúnaði skipa og veiðarfæra, sumar valdið stórbreytingum. Árið 1897 er fyrst lögð lína í sjó, en árið 1901 er gjörð fiskveiðisamþykkt, - ,,Reglur á hafinu“. - Árið 1916 er byrjað fyrir alvöru að veiða í þorskanet, þótt tilraunir hefðu verið gerðar áður. Árið 1921 er byrjað með dragnót. Raflýsing og talstöðvar koma hér í báta á árunum 1927 til ársins 1930. Árið 1954 er byrjað hér á humarveiðum og 1952 er fyrst veiddur þorskur í nót af Eyjabáti á vetrarvertíð. Hér eru nokkur dæmi nefnd, og stiklað á stóru.


ctr


Úr Fundarsal.


Þá er rétt að minnast á félagsmál útgerðarinnar. Þau hafa jafnan verið góð, og sum tímabil með miklum ágætum. Má í því sambandi minna á Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja, stofnað 1862, liðlega aldargamalt, en það hefur verið sverð og skjöldur útgerðar hér í Eyjum. Stendur nú hagur þess með miklum blóma. Björgunarfélag Vestmannaeyja var stofnað til að hamla á móti hinum miklu mannfórnum, er Eyjabúar hafa orðið að færa í glímunni við Ægi, en hápunktur þeirrar starfsemi var, er gamli Þór kom hingað árið 1920, og hann er í rauninni grundvöllur að landhelgisgæzlu Íslendinga. Kaupin á Þór voru einstakt afrek fyrir svo lítið byggðarlag.
Þá hafa útgerðarmenn stofnað ýmis félög til hagsbóta útgerð, svo sem netagerð, samlag um lifrarvinnslu, olíusamlag, samlag um flutninga á ísfiski á erlendan markað, og ekki sakar að minnast á Útvegsbændafélagið, sem í dag er rúmlega 50 ára gamalt, því það er stofnað 20. október 1920.

ctr


Vestmannaeyingaborðið.


Það er komið að lokaorðum mínum, en áður en ég lýk máli mínu, vildi ég mega biðja þess, að fundur þessi verði útgerðarmönnum og útgerð allri til heilla og velfarnaðar.
Við hér í Eyjum eigum allt undir útgerð og útgerðarmálum. Leysist þau mál vel og útgerð blómgist, þá er okkar hag borgið. Hugsandi menn og velviljaðir vita, að það sem er gott fyrir útgerðina er gott fyrir þjóðina. Frá heimilum og fólki hér í bæ vil ég mega segja, að til ykkar streyma góðar óskir, að þessi fundur vel takist. - Verið hjartanlega velkomnir.


ctr


Sverrir Júlíusson , fyrrv. formaður L.Í.Ú., afhendir hinum nýkjörna formanni, Kristjáni Ragnarssyni, fundahamarinn, tákn valdsins í samtökunum.


ctr


Formenn útvegsmannafélaga.
Aftari röð frá vinstri: 1. Bjarni Jóhannesson, Akureyri, 2. Víglundur Jónsson, Ólafsvík, 3. Þórður Stefánsson, Hafnarfirði, 4. Svanur Sigurðsson, Breiðdalsvík, 5. Andrés Finnbogason, Reykjavík, 6. Þórður Óskarsson, Akranesi, 7. Tryggvi Sigjónsson, Höfn í Hornafirði, 8. Jón Ægir Ólafsson, Sandgerði.
Fremri röð frá vinstri: 1. Guðmundur Guðmundsson, Ísafirði, 2. Sverrir Julíusson, fráfarandi form. LÍÚ, Reykjavík, 3. Sigurður Egilsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, Reykjavík, 4. Kristján Ragnarsson, núverandi formaður L.Í.Ú, Reykjavík, 5. Ingólfur Arnarson, Vestmannaeyjum.


ctr


Fulltrúahópurinn ferðast um Heimaey og nýtur fegurðar Eyjanna í haustveðri úthafsins.