Blik 1961/Búnaðarskólinn á Stend í Noregi, fyrri hluti
Nemendur hans íslenzkir urðu brautryðjendur og leiðandi menn í íslenzkum landbúnaði.
Sá maðurinn, sem markaði dýpst spor í ræktunarsögu Vestmannaeyja, var nemandi frá Stend.
Einn af kunnustu, dugmestu og áhugasömustu nemendum frá Stend átti drýgstan þátt í stofnun bændaskólans á Hvanneyri. Sýslunefnd Vestmannaeyja vildi gjarnan leggja fram fé til stofnunar hans og starfrækslu, ef önnur sýslufélög í Suðuramtinu gerðu hið sama.
Máltækið segir: „Margt er líkt með skyldum.“ Oft hefur mér komið það í hug, er ég hefi gluggað í sögu norsku þjóðarinnar, kynnzt háttum hennar og lífskjörum, þróun menningar og atvinnulífs á síðustu öld. Þá hefi ég sérstaklega í huga lífskjör og þróun efnahags og menningar í vestanverðum Noregi sunnan Dofrafjalla.
Örlög Íslendinga og Norðmanna eru á ýmsan hátt undralík. Um hundruð ára búa báðar þessar frændþjóðir við ófrelsi og áþján. Atorku þeirra og eðlilegri efnahagsþróun er haldið í viðjum.
Norðmenn öðlast sjálfstæði og um leið aukið þjóðlegt athafnafrelsi árið 1814, er þjóðin tengist konunglegum persónutengslum við Svíþjóð. Við Íslendingar erum í þessum efnum um það bil eitt hundrað árum á eftir þeim og öðlumst svipaðar lífsaðstæður með hinum konunglegu persónutengslum við Danmörku árið 1918. Einnig má minna á, að Norðmenn eignast fyrsta háskólann sinn 1811, — við 1911.
Svo má að orði komast, að allar ófrelsisaldirnar hafi tæknimenning beggja frændþjóðanna staðið í stað. En Norðmenn voru ekki staðsettir á hjara veraldar eins og við, heldur nær umheiminum, nær framþróun hans og þáttaskilum í fræðslumálum, verktækni og athafnalífi. Norðmenn voru tiltölulega fljótari að kippa við sér, eftir að frelsið var fengið, þó að bágur fjárhagur yrði þar lengi hemill og fjötur um fót. Síðar námum við svo Íslendingar ýmis fræði, tækni og athafnatök af Norðmönnum. Má í því sambandi minna á veiðarfæri til þorsk- og síldveiða og síðar hvalveiðitækni. Þá höfum við á síðustu tímum lært af þeim fiskiklak og loðdýrarækt.
En hér er hvergi nærri allt talið. Brautryðjendur íslenzku þjóðarinnar í nútíðar landbúnaði sóttu áhugaeldinn, aukna víðsýni og sinn glögga skilning á þrengingum þjóðarinnar og þörfum einmitt til nánustu frændþjóðarinnar austan Atlantsálanna. Þar lærðu þeir hin verklegu undirstöðuatriði með nokkurri bókfræði í búvísindum.
Norðmenn eignuðust fyrsta búnaðarskólann sinn árið 1825, en við ekki fyrr en 1880, bændaskólann í Ólafsdal í Dalasýslu.
Fáir Íslendingar fylgdust betur með þróun allra framfaramála í Noregi en Jón Sigurðsson, forseti. Skyldleikinn, sagan og sameiginleg örlög frændþjóðanna orkuðu á það.
Veðrátta í Vestur-Noregi, atorka og hugsunarháttur fólksins og staðhættir allir sannfærðu forsetann um það, að til Noregs bæri að hvetja unga og framsækna Íslendinga til búnaðarnáms. Þetta gerði hann ekki án árangurs. Þessi hvatningaorð forsetans leiddu til þess öðrum þræði, að margir og atorkusamir Íslendingar lögðu leið sína til Noregs til búnaðarnáms á síðari hluta síðustu aldar og urðu síðan brautryðjendur íslenzku þjóðarinnar í búnaðarmálum, leiðbeinendur hennar og fræðendur. Margir þeirra munu hafa notið einhvers styrks af opinberu fé til búnaðarnáms í Noregi.
- 1952—1957 eða í tíð núverandi rektors, Asbjörn Öye (sjá mynd síðar við þessa grein).
- Húsið á miðri myndinni, sem vegurinn liggur frá, var byggt árið 1680.
- 1952—1957 eða í tíð núverandi rektors, Asbjörn Öye (sjá mynd síðar við þessa grein).
Þessir ungu Íslendingar sóttu næstum einvörðungu einn og sama búnaðarskólann, skólann á Stend (að Steini) í Fanahéraði, 17—18 km suður af Björgvin.
Á s.l. sumri átti ég þess kost að dveljast á Stend nokkrar vikur. Tóku þá að rifjast upp fyrir mér ýmis fræðsluatriði úr búnaðarsögu íslenzku þjóðarinnar, er ég hafði heyrt og numið í bændaskólanum á Hvanneyri, þegar ég stundaði þar nám innan við tvítugt. Ég tók því að kynna mér lítilsháttar sögu þessa merka búnaðarskóla og nöfn þeirra Íslendinga, sem þar höfðu dvalizt við nám frá fyrstu tíð og orkað síðan til framfara og farsældar íslenzkum landbúnaði. Í þennan skóla höfðu þeir fyrst og fremst sótt nestið sitt. Og þar hafði einn maður öllum öðrum fremur kveikt og glætt: Fyrsti skólastjórinn, Georg Wilson.
Jörðin Stend liggur fyrir botni Fanafjarðar á Hörðalandi, og var fjörðurinn stundum í fornöld nefndur Steindarfjörður. Nafn það hyggja sumir fræðimenn dregið af jarðarnafninu Steini, þó að það sé ósannað mál, og hafi þá afbakazt nokkuð. Saga jarðarinnar veldur þessari hugmynd, þar sem hún var höfðingjasetur um langan aldur, búið þar við rausn, elju og góðan orðstír.
Þessa jörð keypti Hörðalandsfylki árið 1862 með þeirri ætlan, að stofna þar og starfrækja búnaðarskóla. Þá bjuggu þar hjónin dr. fil. Woller Konow og Marie f. Öhlenschlæger, dóttir hins fræga danska skálds Adams Öhlenschlægers. Ættmenn W. Konow höfðu búið á jörðinni undanfarin 50 ár mann fram af manni, en áður hafði Krohn-ættin átt jörðina um aldarskeið.
Búnaðarskólinn á Stend tók síðan til starfa 1866, og var Íslendingur einn af hinum 12 fyrstu nemendum skólans. Það var Ólafur Bjarnarson, síðar
bóndi á Kolbeinsá í Bæjarhreppi. Hann mun þó ekki fyrsti Íslendingurinn, sem stundar búnaðarnám í Noregi, enda þótt hann væri fyrsti íslenzki nemandinn á Stend. Tryggvi Gunnarsson, síðar bankastjóri, mun hafa siglt til Noregs 1864 með styrk frá stjórninni til þess að kynna sér norskan landbúnað, og mun svo hafa ráðizt fyrir áeggjan Jóns Sigurðssonar forseta.
Fyrsti skólastjóri búnaðarskólans að Stend var Georg Alexander Wilson, af skozkum ættum. Hann var fæddur í Skotlandi 1833 en alinn upp í Noregi, þar sem foreldrar hans voru búsettir. Gegndi faðir hans trúnaðarstarfi fyrir norska ríkið á vegum sjálfs konungsins, Karls Jóhanns.
Langar mig að minnast hér á nokkur ákvæði úr fyrstu reglugerð skólans, með því að mér skilst, að sú reglugerð hafi að einhverju leyti verið höfð til hliðsjónar, þegar bændaskólinn á Hvanneyri var mótaður (1889), enda var fyrsti skólastjóri hans nemandi frá Stend. Þessi reglugerðaratriði, sem ég birti hér, eru fremur endursögð en þýdd orðrétt.
Amtstjórnin skyldi afráða árlegan fjölda nemenda í skólanum í samráði við skólastjóra. Námstíminn var 2 ár, og hófst skólaárið í marzmánuði. Nemendur voru skuldbundnir til að vera í skólanum bæði árin og ljúka prófi að þeim loknum. Þessar skyldur urðu nemendur að gangast undir:
1. Vinna að jarð- og garðyrkju
2. Hirða skrúð- og ávaxtagarö skólans.
3. Hirða bústofninn, kýr, sauðfé, hesta og svín.
4. Vinna í smíðaverkstæði skólans og í smiðju.
Fyrir vinnu þessa skyldu nemendur fá húsnæði, ljós, hita og þjónustu og íburðarlaust fæði, næringarríkt og nægilegt.
Enginn fær inngöngu í skólann fyrr en hann er fullra 18 ára. Áður skal hann hafa stundað landbúnaðarstörf. Það er tekið fram, að nemendur skuli vera vel læsir og sæmilega skrifandi og hafa lært hinar fjórar undirstöðuaðferðir reiknings, bæði með heilum tölum og brotum.
Geri nemendur ekki skyldu sína samkv. þessum ákvæðum eða hafi í frammi óviðunandi framkomu, skal þeim vikið úr skóla.
Yfirstjórn skólans, amtstjórnin, getur veitt einstaka nemanda styrk til fatakaupa og annarra þarfa, þegar sérstaklega stendur á.
Öll fjósverk skulu nemendur inna af hendi undir stjórn ,,fjósameistara“ og yfirstjórn skólastjóra.
Í sambandi við hirðingu sauðfjárins, skulu nemendur læra að rýja, baða, marka, skera af klaufum o.s.frv. Þessi verk skulu þeir læra vel, og hvernig standa skuli að þeim.
Nemendur skulu læra að rækta jörðina, læra að plægja, herfa og sá, og önnur þau verk, sem að jarðrækt lúta. Þá skulu þeir sérstaklega læra að rækta rótarávexti, svo sem rófur, kartöflur og gulrætur.
Keyptur skal handa skólabúinu tilbúinn áburður, svo að nemendur læri að nota hann.
Skrúðgarður skólans með ávaxtatrjám og blómaskrúði skal vera til fyrirmyndar. Skulu nemendur vinna þar og kunnáttumaður stjórna verki.
Þá skulu nemendur vinna að skógrækt, læra að gróðursetja skóg, grisja hann, þekkja trjátegundir og mismunandi gæði þeirra. Þeir skulu einnig læra að vinna eldivið úr skóginum.
Að vetrinum skulu nemendur vinna í smíðaverkstæði skólans og smiðju. Jafnframt skal þeim kennt að gera vinnuteikningar af vélum og verkfærum.
Nemendur skulu læra landmælingar og kortagerð.
Í bóklegum greinum skal þetta kennt:
Húsdýrafræði, líffærafræði, áburðarfræði og grasafræði (og þar með um val sáðplantna og uppskeru).
Kenna skyldi nemendum bókfærslu og færslu búreikninga. Þá áttu þeir einnig að læra gerð selja og um rekstur þeirra.
Væru kennslubækur ófáanlegar í vissum greinum, skyldi kenna í fyrirlestrum. Þannig var einnig sá háttur hafður á um bóklega kennslu í íslenzku bændaskólunum fyrstu 30—40 árin eftir stofnun þeirra.
Nemendur skyldu þreyta próf að loknu námi og skipaðir prófdómarar dæma úrlausnir.
Búnaðarskólinn að Stend tók við nýsveinum annað hvort ár.
G. Wilson stjórnaði skólanum fyrstu 20 árin eða frá 1866 til 1886.
Á þessum árum stunduðu samtals 18 Íslendingar nám við búnaðarskólann á Stend, eitt námstímabilið 7 saman og í annað skiptið 4. — 11 luku prófi, en 6 hurfu úr skóla án prófs, sumir gegn vilja skólastjóra eða í óleyfi hans, en sumir með hans samþykki. Einn íslenzki nemandinn stóðst ekki fullnaðarprófið.
Ártölum þeim, sem þetta nám þeirra varðar, ber ekki alltaf saman í búnaðarsögu þjóðarinnar og skýrslum skólans. Ég fer eftir íslenzkum heimildum um fæðingarár nemenda, en námsárin byggi ég á skýrslum skólans. Námsár nemenda set
ég í sviga en get helztu æviatriða þeirra, ef þau eru mér að einhverju kunn, til þess að gefa lesandanum hugmynd um áhrif búnaðarskólans að Stend á þróun og framfarir íslenzkra búnaðarmála á síðustu 8—9 áratugunum.
Nemendatal:
1. Ólafur Bjarnarson (1867— 1869) var síðar bóndi að Kolbeinsá í Bæjarhreppi.
2. Sveinn Sveinsson (1869— 1872), f. 21. jan. 1849 í Firði í Mjóafirði í S.-Múlasýslu. Eftir að hafa lokið námi að Stend, kynnti hann sér fjárrækt í Noregi og Skotlandi. Síðar lauk hann námi við búnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Hann var fyrsti búfræðingur í þjónustu Búnaðarfélags Suðuramtsins og leiðbeinandi bænda á sumrum (1873—1877), áður en hann hóf nám í búnaðarháskólanum, og hafði hann drjúg áhrif á framtak og búskap bænda á þessum fyrstu árum ráðunautanna. Hann var starfsmaður Búnaðarfélagsins samtals um 10 ára skeið.
Sveinn Sveinsson var fyrsti skólastjóri bændaskólans á Hvanneyri, sem var stofnaður 1889, og minna sum ákvæði í fyrstu reglugerð hans á fyrstu mótun og starfsreglur búnaðarskólans á Stend. Hann ritaði á sínum tíma mjög fróðlega grein í Ný félagsrit um skólann á Stend (30. árg. Nýrra félagsrita, 1873, og svo í Andvara 1881).
Þegar Sveinn skólastjóri skrifaði grein þessa, hafði skólinn á Stend starfað í sex ár. Segir hann, að um miðja 19. öld hafi norskur landbúnaður verið tæknilega á lágu stigi. Sömu tæki notuð og starfshættir viðhafðir sem fyrr á öldum. Stærð búa undir höfðatölunni komin en ekki afurðagjöf hverrar skepnu. Þó var það óþekkt fyrirbrigði, að norskir bændur felldu úr hor, segir greinarhöfundur. Nemendur þeir, sem fengu að vinna fyrir sér við skólabúið, hinir reglulegu nemendur, voru venjulega aðeins 12 að tölu. Auk þess voru þar nemendur, en mun færri þó, sem stunduðu námið, en greiddu fyrir sig bæði fæði, þjónustu og húsnæði. Þar mötuðust allir við sama borð: nemendur, kennari, trésmíðameistari, járnsmíðameistari og fjósamaður. Daglegur vinnutími var 11 stundir að sumrinu og 5 að vetrinum. En þá var námið stundað aðra tíma dagsins. Bannað var í skólanum að neyta áfengis, spila og ala á ófriði eða þrætum. Léti nemandi sér ekki segjast eftir áminningar, var honum tafarlaust vikið úr skóla. Svo fór um einn af Íslendingunum í tíð Wilsons skólastjóra. Þessar voru bóklegar kennslugreinar: Stafsetning í norsku bókmáli, reikningur, jarðyrkjufræði, náttúrufræði (efnafræði, eðlisfræði, steinafræði, grasafræði og náttúrusaga), færsla búreikninga, landmælingar og kortagerð, hallamælingar, skógræktar- og fjárræktarfræði, húsdýrasjúkdómar, meðferð mjólkur, osta og smjörs o.fl.
Eftir tveggja ára nám þreyttu nemendur burtfararpróf, og stóð það venjulega 3 daga. Það var í september. Fyrsta prófdaginn var prófað í verklegum greinum svo sem plægingum, hestajárnun, mjöltun, lokræsagerð o.fl.
Piltar lærðu votheysgerð. Voru votheysgryfjur fyrst í stað hlaðnar innan með grjóti og veggir síðan sléttaðir með kalki, svo að þeir yrðu loftþéttir. Rík áherzla var lögð á það við nemendur að hirða vel öll verkfæri.
Torfi Bjarnason, bóndi og skólastjóri í Ólafsdal, taldi Svein Sveinsson skólastjóra á Hvanneyri lærðasta Íslending sinnar tíðar í landbúnaði.
Sveinn Sveinsson lézt 4. maí 1892.
3. Sigurður Einarsson (1875 —1877), f. að Hrafnkelsstöðum í Skógum í S.-Múlasýslu 1854. Hann lauk ekki prófi í búnaðarskólanum. Sigurður var amtsráðunautur á Austurlandi um skeið. Gerðist síðan bóndi að Hafursá í Skógum. Hann var um árabil prófdómari við búnaðarskólann á Eiðum, d. 1905.
4. Franklín Guðmundsson,
(1875—1877), f. 1854. Hann lauk ekki prófi.
5. Halldór Guttormsson (1875—1877), f. 1854. Hann lauk ekki prófi.
6. Páll Jónasson (1875—1877). Hann lauk prófi.
7. Jónas Eiríksson frá Ketilsstöðum (1875—1877), f. 1851 á Skriðuklaustri. Var sýsluráðunautur í Suður-Múlasýslu um skeið, eftir að hann lauk prófi á Stend, og leiðbeindi bændum í jarðrækt með góðum árangri. Jónas Eríksson gekk í Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn 1882—1883 og var síðar skólastjóri búnaðarskólans á Eiðum á árunum 1888 til 1906 eða í 18 ár. Annars
var hann bóndi á ýmsum jörðum á Héraði, lengst á Breiðavaði. D. 1924.
8. Guttormur Vigfússon(1875—1878) frá Arnheiðarstöðum á Héraði, f. 8. ág. 1850. Hann var fyrsti skólastjóri búnaðarskólans á Eiðum, þegar hann var stofnaður 1883. Áður hafði Guttormur Vigfússon kennt búfræði í Möðruvallaskóla einn vetur (1880—1881), en þar áður, eftir að hann lauk námi á Stend, verið leiðbeinandi bænda á Austurlandi og sífræðandi um landbúnað. Guttormur varð búnaðarkandidat við landbúnaðarháskóla Dana vorið 1882. Bóndi var hann í Geitagerði á Héraði í 34 ár 1894—1928 og kenndur við jörð sína jafnan. Hann var þingmaður Sunnmýlinga 1892—1908. D. 1928.
9. Jósef Björnsson (1877—1879), f. 1859 að Torfastöðum í fremri Miðf. Við fullnaðarpróf 1879 var Jósef nr. 2 og aðeins einum hundraðasta lægri en sá hæsti. Eftir nám á Stend ferðaðist Jósef Björnsson til Danmerkur og kynnti sér þar ýmislegt varðandi framleiðslu landbúnaðarins. Eftir heimkomuna leiðbeindi hann bændum sem flestir aðrir búfræðingar, sem á Stend höfðu numið. Þegar búnaðarskólinn á Hólum var stofnaður, varð hann fyrstur skólastjóri við hann. Það var árið 1882. Fyrst gegndi hann því starfi í 6 ár, (1882—1888) og svo aftur 1896—1902. Síðan var hann kennari við Hólaskóla í 32 ár (1902—1934). Jafnframt kennslunni rak hann búskap. Jósef Björnsson var um áraraðir einn af skeleggustu forustumönnum Skagfirðinga í félagsmálum, hreppstjóri og sýslunefndarmaður í Viðvíkurhreppi og oddviti um eitt skeið. Jósef Björnsson var alþingism. Skagfirðinga 1908—1916 og forustumaður í búnaðarsamtökum bænda þar í sýslu og bindindismálum.
10. Bogi Thorarensen Helgason, (1877—1879), f. 27. júlí 1860 að Vogi í Hraunhreppi í Mýrasýslu, sonur Helga bónda þar Helgasonar.
Móðir Boga Helgasonar var Soffía dóttir séra Verharðs Þorkelssonar prests í Hítarnesi og síðar í Reykholti. Móðir Soffíu var Ragnheiður Einarsdóttir frá Svefneyjum á Breiðafirði, alsystir Eyjólfs, hins kunna bændahöfðingja þar, og héraðshöfðingja, „eyjajarls“, sem bjó fyrirmyndarbúi í Svefneyjum yfir hálfa öld, (1814— 1865).
Bogi Helgason ólst upp í Vogi hjá foreldrum sínum fyrstu árin. En 9 ára gamall missti hann móður sína og svo föður sinn rúmlega tvítugur. Bogi var sendur til Noregs 17 ára gamall, og hóf hann þá nám í búnaðarskólanum að Stend. Enginn nemandi hafði áður verið tekinn svo ungur inn í skólann, þar sem reglugjörð mælti svo fyrir, að nemendur skyldu hefja þar nám yngstir 18 ára. Þessi undantekning var veitt aðeins vegna þess, að Íslendingur átti í hlut.
Ef til vill hefur hinn ungi aldur Boga Helgasonar og of lítill þroski af þeim sökum orðið þess mest valdandi, að hann náði ekki prófi við búnaðarskólann eftir tveggja ára nám. Einnig mun of lítil kunnátta í norsku máli hafa valdið þar nokkru um.
Eftir að Bogi Helgason kom heim frá Noregi, gerðist hann ráðsmaður hjá Guðmundi lækni Guðmundssyni í Laugardælum í Árnessýslu, sem síðar var læknir í Stykkishólmi. Þar vann Bogi Helgason að jarðabótum og vöktu þau störf hans athygli vegna vandvirkni hans og samvizkusemi, sem ávallt einkenndu hann í öllum störfum.
Árið 1889 kvæntist Bogi Guðbjörgu Jóhannesdóttur frá Hólakoti í Reykjavík, f. 1855. Þau hófu búskap í Vogi á föðurleifð Boga, en 1892 fluttust þau hjón að Brúarfossi í sömu sveit (Hraunhreppi) og bjuggu þar til dauðadags. Guðbjörg húsfreyja dó 1936 og Bogi bóndi 1942. Síðustu árin, sem hann lifði, eftir að kona hans dó, bjó hann með börnum sínum á Brúarfossi. Hjónin eignuðust 4 börn, 3 sonu og eina dóttur. Tveir synir þeirra hjóna og dóttir búa sambúi að Brúarfossi á föðurleifð sinni.
Bogi Helgason var bjargálna bóndi öll sín búskaparár. Jörðin Brúarfoss er í þjóðbraut og gestkvæmt er þar á stundum, sérstaklega áður en bifreiðarnar komu til sögunnar og ferðast var á hestum. Hjónin á Brúarfossi voru sérstaklega gestrisin og hjálpsöm öllum, sem til þeirra leituðu. Þau voru þannig alltaf veitandi, þó ekki væru þau beint efnuð.
Bogi Helgason gerði jarðabætur á jörð sinni Brúarfossi og vöktu túnasléttur hans athygli bænda þar um byggðir og voru til fyrirmyndar. Svo vel voru þær gerðar.
Bogi Helgason húsaði jörð sína. Fyrst byggði hann á henni íbúðarhús úr timbri 1907 og síðar steinhús (1927), sem enn er búið í.
Bogi bóndi gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í sveit sinni. Meðal annars var hann þar í stjórn búnaðarfélagsins um árabil og vann öll slík störf af fyllstu skyldurækni og samvizkusemi.
11. Ólafur Ólafsson frá Lundum í Stafholtstungum (1877—1879), f. 1857. Eftir að hafa lokið prófi á Stend, starfaði hann fyrir bændasamtökin í Skaftafellssýslu að sandgræðslu og framræslu. Nam síðan við landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn 1883—1884. Eftir háskólanámið tók hann aftur við fræðslu- og leiðbeiningarstörfum á vegum amts og sýslna á Suðurlandi. En árið 1887 gerðist hann bóndi í Lindarbæ í Holtum og bjó þar til æviloka. Ólafur Ólafsson var hreppstjóri í 26 ár. Hann stofnaði búnaðarfélag í sveit sinni og var formaður þess lengi. D. 1943.