Blik 1961/Búnaðarskólinn á Stend í Noregi, seinni hluti
12. Björn Bjarnarson frá Vatnshorni (1878—1880), f. 1856 að Skógarkoti í Þingvallasveit. Eftir nám og próf á Stend fór Björn til Danmerkur og kynnti sér þar mjólkuriðnað og fleira varðandi landbúnað.
Vorið 1881 réðist Björn starfsmaður Búnaðarfélags Suðuramtsins. Vann hann þá að jarðabótum fyrir bændur og leiðbeindi þeim, sérstaklega í Borgarfirði. Starf þetta hafði hann á hendi í 3 sumur.
Björn Bjarnarson hafði mikinn áhuga á fræðslumálum bænda. Hann beitti sér fyrir því, að stofnaður yrði búnaðarskóli á Hvanneyri í Borgarfirði. Í því skyni keypti hann sjálfur þessa stórjörð árið 1882, svo að hún lenti ekki í hendur manna, sem síðan gæfu ekki kost á henni til skólaseturs, þegar skólahugsjónin hefði sigrað hugi ráðandi manna. Kaupverðið var kr. 15.200,00. Sex bændur í Borgarfjarðarsýslu hjálpuðu Birni Bjarnarsyni til þess að festa kaup á Hvanneyri, því að Björn var sjálfur fátækur maður. Þeir létu jarðir sínar að veði fyrir láni, sem notað var til að greiða jörðina. Þegar Björn síðar komst í fjárþröng vegna Hvanneyrarkaupanna, hljóp Þórður bóndi Þorsteinsson á Leirá undir bagga með honum og keypti jörðina í orði kveðnu. Jafnframt var róið að því öllum árum, að sýslurnar í Suður- og Vesturamtinu keyptu Hvanneyri í sameiningu til skólaseturs.
Þá var það, sem leitað var fjárframlags til sýslunefndar Vestmannaeyja í þessu skyni. Mál þetta var tekið fyrir á sýslunefndarfundi 12. ágúst 1888. Sýslunefndin áleit kaupverð jarðarinnar, kr. 16.000,00 ekki of hátt, hinsvegar oflágt áætlaðan annan kostnað við stofnun skólans kr. 6.000,00.
Síðan lét sýslunefnd þetta bókað: ,,Sýslunefndin vill ekki bera á móti því, að slíkur skóli geti orðið Suðurlandinu til gagns, en þar sem, eftir því sem hér í sýslu tilhagar, aldrei getur orðið spursmál um verulegar jarðarbætur hér og einnig heldur eigi um verulega framför í landbúnaði, getur stofnun slíks skóla varla orðið þessari sýslu til verulegs gagns. Samt vill sýslunefndin ekki, þrátt fyrir hinn heldur bágborna fjárhag hreppssjóðsins hér, skorast undan að leggja litla tiltölulega árlega upphæð með skólanum, ef öll sýslufélög Suðuramtsins tækju þátt í fyrirtækinu.“
M. Aagaard,
Stefán Thordersen,
Sigurður Sveinsson,
G. Engilbertsson,
Gísli Stefánsson.
Rétt er að geta þess, að hinn danski sýslumaður Aagaard mun hafa skrifað og þá orðað fundargjörðina.
Hvergi hefi ég fundið heimildir fyrir því, að sýslusjóður Vestmannaeyja greiddi nokkru sinni eyri til Hvanneyrarskólans. Og enginn nemandi hans var úr Vestmannaeyjum a.m.k. fyrstu 50 árin, sem hann starfaði.
Þannig átti þessi nemandi frá Stend, Björn Bjarnarson, drýgstan þátt í því, að búnaðarskóli reis á Hvanneyri árið 1889.
Árið 1898 hóf Björn Bjarnarson að búa í Grafarholti í Mosfellssveit og bjó þar myndarbúi í 21 ár. Þá brá hann búi, en dvaldist þar síðan hjá syni sínum til dauðadags. Hann var mjög riðinn við búnaðarmál og búnaðarframfarir í Mosfellssveit. Sat lengi á búnaðarþingi. Alþingismaður Borgfirðinga um eitt skeið. Hreppstjóri var hann frá 1903 til dauðadags. Ritaði um búskap fjölda greina í blöð og tímarit. D. 15. marz 1951.
13. Halldór Páll Jóakimsson, (1879—1881) frá Árbót í Aðaldal í
Suður-Þingeyjarsýslu, f. 1849. Páll skráðist inn í búnaðarskólann að Stend í október 1879 og fékk leyfi skólastjóra til að hætta þar námi í júlí 1881 af heimilisástæðum. Munu foreldrar hans hafa mælzt til þess, að hann kæmi heim þeim til hjálpar við búskapinn í Árbót.
Páll Jóakimsson lærði áveitugerð og framræslu hjá Wilson skólastjóra að Stend, sem lét ræsa fram mýrarfláka í jarðareign skólans. Páll sýndi einnig mikinn áhuga á þessum þætti jarðræktar, þegar hann kom heim í Þingeyjarsýslu, og vann ötullega og af mikilli fórnfýsi að leiðbeiningum um þurrkun lands og að vatnsveitum í heimasýslu sinni. Hann hafði með sér frá Noregi hallamæli, sem hann hafði lært að nota í skólanum. Með þetta áhald fór hann milli bænda í sýslunni og bauð þeim störf við hallamælingar í sambandi við hugsanlegar áveitur á gróðurlendi og vatnsveitur í bæi og gripahús.
Áburðarskortur bænda háði þá víða grassprettu og heyöflun, enda var sauðatað notað til eldiviðar, þar sem hann skorti algjörlega að öðru leyti. Páll sagði bændum: „Fyrst þarf að þurrka landið, ef það er of blautt, og síðan veita á það vatni. Vatnið fáum við ókeypis. Það þarf aðeins hagsýni og atorku til að hagnýta það.“ Þessa kenningu hafði hann frá Wilson skólastjóra á Stend. Fyrir hana og votheysgerð var Wilson skólastjóri einna nafnkunnastur í búskap og skólastarfi á búnaðarskólanum. Margir bændur í Þingeyjarsýslu notfærðu sér
leiðbeiningar Páls Jóakimssonar frá Árbót. Oft vann hann sjálfur að framkvæmdum hjá bændum af dugnaði miklum og áhuga fyrir lítið kaup. Brautryðjandastarf hans um áveitur og framræslur í sýslunni var áberandi og til mikilla hagsbóta bændum.
Páll Jóakimsson hætti búskap í Árbót árið 1891 og var eftir það á faraldsfæti til æviloka, ferðaðist um hreppa og héruð við leiðbeiningar- og fræðslustörf til hagsbóta bændum í Þingeyjarsýslu.
Um langan aldur höfðu þau vinnubrögð tíðkazt um teðslu túna, að bera áburðinn í rastir eða reinar, mylja hann þar eða mala í taðkvörnum og dreifa honum síðan á túnið með klárum og rekum. Páll kenndi bændum að dreifa áburðinum jafnt og vel um túnið, áður en hann var mulinn. Síðan kenndi hann þeim að gera sér slóða úr hrísi og láta hest draga hann um áborið túnið og mylja þannig áburðinn ofan í rótina. Bændur í Þingeyjarsýslu voru fljótir að tileinka sér þessi vinnubrögð og sjá kost þeirra, enda hrís víðast nærtækt í sýslunni.
Orð er á því haft, hve Páll Jóakimsson var maður vandaður til orðs og æðis og dagfarsprúður maður. Uppeldi og ætterni höfðu mótað hann, svo og skólagangan á Stend og ferðalögin í sýslunni meðal bænda í fremstu röð íslenzkrar menningar.
Páll Jóakimsson dó að Klömbrum í Aðaldal 6. des. 1927, 78 ára að aldri. Hann kvæntist aldrei, en eignaðist eina dóttur, sem hét Kristín, talin greind stúlka og vönduð. Hún er dáin fyrir nokkrum árum niðjalaus.
14. Páll Eyjólfsson frá Stuðlum (1879—1881), f. 1858. Hann lauk ekki prófi.
15. Eggert Finnsson frá Meðalfelli í Kjós (1880—1882), f. 1852. Var bóndi að Meðalfelli, föðurleifð sinni, um tugi ára, forustumaður í hrepps- og félagsmálum í sveit sinni. Árið 1902 skrifaði Eggert Finnsson grein um votheysgerð og notkun þess í Búnaðarritið og hvatti bændur til þess að gera votheysgerð að þætti í búskapnum. Fyrst og fremst kynntist Eggert votheysgerð á Stend og hafði síðan nær 20 ára reynslu af henni, þegar hann skrifaði þessa merku grein. D. 26. jan. 1946.
16. Gísli Gíslason frá Bitru (1881—1883) f. 1855.
17. Halldór Jónsson (1875—1878), f. 1856? Þreytti fullnaðarpróf og var neðstur.
18. Jónasson. Þessum Íslendingi vék skólastjóri úr skólanum 1881. Ástæður ókunnar. Fornafn ekki skráð í skólaskrá.
Þá langar mig að fara nokkrum orðum um fyrsta skólastjórann á Stend, manninn, sem mótað mun hafa brautryðjendur okkar í búnaðarmálum meir en nokkur annar einn maður, enda bjó hann yfir þeim persónuleika, sem orkar á unga menn til framtaks og dáða, eftir því sem Norðmenn greina okkur frá honum og nemendur hans hafa lýst honum.
- Vissa er fyrir því, að 18 nemendur stunduðu nám við búnaðarskólann
- þau 20 ár, sem Wilson var þar skólastjóri.
- Vissa er fyrir því, að 18 nemendur stunduðu nám við búnaðarskólann
Georg Wilson ólst upp í Suður-Noregi til 22 ára aldurs. Í uppvexti naut hann aðeins venjulegrar fræðslu, en gekk aldrei í neinn búnaðarskóla. Hann var því sjálflærður í búfræði, sem hann nam við lestur og á tíðum ferðalögum til annarra landa, þar sem hann kynnti sér reynslu annarra þjóða í búskap og búvísindum. Í því skyni ferðaðist hann til Danmerkur, Svíþjóðar, Englands, Hollands og Ameríku.
Þrítugur að aldri gerðist Wilson skólastjóri búnaðarskólans að Mói í Sunnfjord. Hafði hann þá verið ráðunautur bænda um skeið. Þrem árum síðar tók hann að sér hinn nýstofnaða búnaðarskóla á Hörðalandi, skólann að Stend.
Þegar þangað kom, tók Wilson að sér erfitt forustu- og brautryðjandahlutverk. Á þessum árum voru norsk búvísindi skammt á veg komin eða á lágu stigi. Reynt var að styðjast við erlenda reynslu eins og hér á landi, eftir að búnaðarskólarnir íslenzku voru stofnaðir. Wilson skólastjóri tók til að rannsaka og gera tilraunir, sem leiða mættu til staðreynda og verða að sínu leyti undirstaða að norskum búvísindum.
Þegar á fyrsta ári stofnaði hann við skólann eins konar nautgriparæktarfélag og hóf að bæta kúakynið, rækta það. Það starf hans og kúakyn varð síðan frægt. Hann lét færa nákvæmar mjólkurskýrslur og lét rannsaka fitu í mjólk.
Aukin skógrækt var annað aðaláhugamál hans. Í þeim efnum var hann langt á undan samtíð sinni. Hann stofnaði gróðrarstöð við skólann, og árið 1877 lét hann gróðursetja 70.000 trjáplöntur á lendum skólans. Þær hafði hann alið upp sjálfur. Þá átti hann hálfa milljón skógarplantna í uppvexti. Merkin sýna nú verkin þessa manns. Þar sem áður voru berar hæðir og hrjósturlendi, vex nú nytjaskógur í stórum stíl. Sum trén, sem hann lét gróðursetja, eru nú nær 40 metra há og gild að sama skapi.
Wilson skólastjóri keypti fyrstu sláttuvélina, sem keypt var til Vestur-Noregs. Það var árið 1875. Hún var keypt frá Glasgow í Skotlandi, af Hornsby-gerð, sniðin fyrir tvo hesta og smíðuð að fyrirlagi Wilsons
sjálfs. Hún kostaði 90 sterlingspund.
Þegar á fyrstu árum skólans hóf Wilson að láta ræsa fram land hans í stórum stíl, þurrka upp fen og mýrar.
Wilson beitti sér mjög mikið fyrir votheysgerð í landinu, sérstaklega í vesturhluta Noregs, þar sem veðrátta er votviðrasöm. Fóður þetta kallaði hann súrhey. Mörg fyrstu árin notaðíst hann við hlaðnar súrheysgryfjur, en árið 1883 lét hann steypa votheysgryfju. Það hyggja búfróðir menn norskir vera fyrstu steyptu votheysgryfjuna í landinu. Hún er notuð enn og tekur um 200 smálestir af votheyi. Svo mikil og rík voru áhrif skólastjórans á framtak bænda í Hörðalandi um votheysgerð, að síðan hafa þeir verið leiðandi bændur í þessum efnum og votheysgerð algengari á Hörðalandi en í flestum eða öllum öðrum sveitum Noregs.
Árið 1870 og 1871 gerði Wilson ræktunartilraunir með 62 tegundir af kartöflum.
Þá gerði Wilson tilraun með að rækta gamla norska fjárkynið, sem við Íslendingar höfum og ræktum. Norðmenn höfðu yfirleitt lagt það af og flutt erlendan fjárstofn inn í landið vegna ullargæðanna, þegar ullarverksmiðjuiðnaður lét orðið til sín taka í landinu. Wilson lét vega ull af hverri kind og rannsaka.
Skólastjóri lét skólann reka fullkomið trésmíðaverkstæði og fullkomna járnsmiðju og réði þar tíl verkstjórnar lærða smiði. Þar lærðu nemendur að smíða og endurbæta alls konar búsáhöld og verkfæri. Sjálfir máttu þeir smíða verkfæri og áhöld í tómstundum sínum og selja sér til tekna. Wilson lét gera tilraunir með endurbætur á áhöldum og verkfærum norskra bænda, sem voru léleg og úrelt á þessum tímum, ef það mætti leiða af sér aukna verkmenningu og meiri afköst. Í þessum efnum sýndi hann mikið hugvit og hugkvæmni, verkhyggni og verkmenningu, sem hann vildi að nemendur skólans flyttu með sér út í sveitirnar. Wilson lét smíða sérstaka gerð af plóg, sem sniðinn var fyrir afl tveggja norskra hesta. Sá plógur þótti afbragðs verkfæri og gerði garðinn frægan, eins og svo margt annað, sem gert var á Stend, og kenndur við staðinn, (Stendplógurinn).
- ●
Þessa grein mína óska ég að enda með stuttri persónulýsingu á skapgerð þess manns, sem mótaði fyrstu búnaðarráðunauta íslenzku þjóðarinnar og fyrstu búnaðarskólastjóra hennar. Lýsingin er að mestu endursögð úr skrifum nemenda skólastjórans sjálfs.
Wilson skólastjóri var óvenjulega framtakssamur og dugmikill maður, sem aflaði sér mikillar reynslu og þekkingar í búnaði með lestri og ferðalögum til annarra landa. Hann var leitandi skólamaður, hneigður til vísindaiðkana, verkhygginn búmaður og hagsýnn, svo af bar. Hann var höfðingi í sjón og raun. Það sópaði að honum, hvar sem hann fór. Hann var virðulegur skólamaður, strangur og stjórnsamur, en réttvís og gæddur mjög ríkri ábyrgðartilfinningu. Hann gat verið hrjúfur á yfirborðinu og harður viðskiptis. En skapgerðin var þó viðkvæm og tilfinningarík, sérstaklega gagnvart dýrunum og þeim mönnum, sem höllum stóðu fæti í lífsbaráttunni og áttu bágt. Hann gerði miklar kröfur til annarra en þó mestar til sjálfs sín. Hann var tryggur í lund og fastur fyrir,
umhyggjusamur og samvizkusamur um allt það, sem honum var trúað fyrir. Seint og snemma var hann á ferli til aðgæzlu um allt, sem rekstur skólans og búið varðaði. Hann þekkti ekki hugtakið átta stunda vinnudagur. Þessi maður er sagður hafa orkað þannig á nemendur sína, að ekki gleymdist. Nestið, sem hann gaf þeim, dugði þeim bezt í lífsbaráttunni. Væri einhverju ábótavant um skilning þeirra á vilja hans þeim til handa og skapgerð, vaknaði þeim jafnan síðar skilningur á því, með aukinni lífsreynslu og viti. Hann hataði leti og lausung, óreglu og aðra ómennsku og lagði ríkt á það við nemendur sína að varast þá lesti. Hann efldi með þeim starfshug, skyldurækni og víðsýni.
Norðmenn fullyrða, að áhrifa þessa skólamanns hafi gætt mjög víða þar sem nemenda hans naut við. Mjög margir þeirra urðu forgöngumenn og brautryðjendur í félagsmálum og mörgum öðrum menningarmálum í norskum sveitum, forustumenn bænda og leiðbeinendur. Staðreyndin hefur einnig orðið sú hér á landi.
Wilson skólastjóri þurfti mikið fé til allra sinna framkvæmda á Stend. Þær þarfir samrýmdust illa þeim sparnaðaranda, sem fór um Noreg á 9.
tugi síðustu aldar. Þessvegna skyldi taka fram fyrir hendur hans með takmörkuðum fjárframlögum. Þá sagði hann af sér stöðunni. Það var árið 1886. Hann dó nokkru síðar, 53 ára að aldri.
Síðari skólastjórar á Stend og nemendur þeirra íslenzkir.
Ole R. Sandberg, skólastjóri 1886—1896.
Á þessum árum nam aðeins einn Íslendingur búfræði á Stend, svo að mér sé kunnugt. Sá hét J.S. Þórðarson frá Akureyri, f. 1872. Hann tók ekki próf. Fékk leyfi til að hverfa úr skólanum 1891 eftir aðeins eins árs nám.
Bert Klokk, skólastjóri 1896—1901.
Á þessum árum stundaði Sigurður Sigurðsson frá Draflastöðum búfræðinám á Stend 1896—1898).
Sigurður Sigurðsson var fæddur í Fnjóskadal 1871. Að loknu námi á Stend kynnti hann sér skógrækt í Þrændalögum. Þegar hann kom heim frá dvöl sinni í Noregi, hófst hann þegar handa um búnaðarframkvæmdir. Sigurður stofnaði trjáræktarstöð á Akureyri árið eftir að hann lauk námi á Stend eða 1899. Síðan hvarf hann til náms í búnaðarháskóla Dana og lauk þaðan prófi 1902.
Það ár gerðist hann skólastjóri búnaðarskólans á Hólum og stjórnaði honum í 17 ár eða til ársins 1919. Sigurður beitti sér fyrir stofnun Ræktunarfélags Norðurlands 1903 og var framkvæmdastjóri þess fyrstu 7 árin. Formaður Búnaðarfélags Íslands var hann árin 1919—1923 og búnaðarmálastjóri næstu 12 árin (1923—1935). Sigurður var meðritstjóri búnaðarblaðsins Freys árin
1926—1933. Var aðalhvatamaður að stofnun Skógræktarfélags Íslands 1930.
Sigurður skrifaði mörg rit um búnað og búfræði. Áhrif hans á framtak bænda til ræktunar og hagkvæmari búskapar voru firna mikil. Kalla má hann föður að vélvæðingu íslenzks landbúnaðar.
Enginn einn maður hefur mótað dýpra spor í jarðræktarsögu Vestmannaeyja en Sigurður Sigurðsson. Hann beitti sér fyrir setningu jarðræktarlaganna 1923. Þau mynduðu nýtt viðhorf í jarðræktarmálum þjóðarinnar. Fjöldi landsmanna við sjávarsíðuna sem til sveita hófst nú nýrra handa í jarðrækt, og hefðu menn ekki land til ræktunar, reyndu þeir að verða sér úti um það. Í þessum efnum sem svo mörgum öðrum vildu ekki Eyjamenn verða eftirbátar annarra landsmanna. En jarðabændur höfðu þar vald á öllu landi samkvæmt byggingarbréfum og samningum við jarðadrottin, ríkið. Þessu öllu fékk Sigurður breytt. Bændur fengu í sinn hlut 8 ha af óræktuðu landi á Heimaey, en öðru ræktanlegu landi var úthlutað til ræktunar þeim, sem þess óskuðu. Sumarið 1926 í júlímánuði kom Sigurður til Vestmannaeyja ásamt aðstoðarmanni sínum til þess að mæla allt hið ræktanlega land á Heimaey, og undirbúa skiptingu þess milli bæjarbúa. Hver landspilda til ræktunar var afráðin einn ha. — Eftir þessa heimsókn Sigurðar búnaðarmálastjóra hófst ný ræktunaröld í Vestmannaeyjum. Árið 1923 voru þar 175 kýr en að nokkrum árum liðnum voru þær orðnar 375. Heilbrigðishættir Eyjamanna fóru stórum batnandi með aukinni mjólkurframleiðslu. Þarna gætti í ríkum mæli áhrifa af starfi nemandans frá Stend, Sigurðar Sigurðssonar.
Knut Teig, skólastjóri 1901—1905.
Á þessum árum var enginn Íslendingur nemandi á Stend.
Nils Ritland, skólastjóri 1905—1935.
Á þessu tímabili stundaði einn Íslendingur nám á Stend, Vigfús Helgason úr Dalasýslu (1916—1918).
Jóh. Lofthus, skólastjóri 1935—1950. Enginn Íslendingur stundaði nám á Stend á hans árum.
Asbjörn Öye, skólastjóri síðan 1951. Síðan hann gerðist skólastjóri á Stend, hafa tveir Íslendingar stundað þar nám. Þeir Kjartan Helgason frá Hvammi (1954—1956), f. 1932, og Halldór Valgeirsson úr Hafnarfirði (1956—1958), f. 1937.
Asbjörn Öye, rektor búnaðarskólans á Stend síðan 1951. Hann er fæddur 21. maí 1902 í Örsta-byggð á Suður-Mæri. Sú byggð er fræg í sögu Noregs af a.m.k. tveim sonum sínum: málfræðingnum og skáldinu Ívari Aasen, og prestinum séra Anders Hovden, sem einnig er þekkt skáld og þýddi m.a. Passíusálma Hallgríms Péturssonar á norskt mál.
Öye rektor varð landbúnaðarkandidat frá Ási árið 1925. Var síðan kennari við ýmsa búnaðarskóla fyrstu starfsárin, en árin 1939—1947 var hann skólastjóri búnaðarskólans á Eiðsá á Suður-Mæri og síðan næstu 4 árin skólastjóri búnaðarskólans í Vestur-Ögðum. Í apríl 1951 var hann settur rektor við hinn mikilsmetna og kunna búnaðarskóla á Stend. Þar hófst hann þegar handa um miklar byggingarframkvæmdir á skólasetrinu. Hinar nýju og miklu byggingar þar með heimavistum handa um 100 nemendum sanna mikinn stórhug og framsýni rektors og hinna ráðandi manna í Hörðalandsfylki.
Öye rektor sat á Stórþingi 1946-1949 og var þá varaþingmaður fyrir Mœri og Romsdal. Rektorinn er kunnur brautryðjandi um aukna skógrækt í Vestur-Noregi, tillögur hans um skipulagningu þeirra þjóðhagslegu framkvæmda hafa víða verið teknar til greina og þeim framfylgt í vestanverðu landinu til ómetanlegs gagns norskum þjóðarhag.