Blik 1940, 8. tbl./Afi
- AFI
En hvað ég gat öfundað hann Sigga litla, leikbróður minn, af því að eiga þennan dásamlega afa. Hann átti hann í raun og veru einn, þó að við hin börnin kölluðum hann öll því gælunafni.
Alltaf hafði afi nægar sögur að segja okkur, — og svo skemmtilega, sem hann sagði frá. Það var unun að hlusta á hann. Hann hreif okkur börnin með sér til annarra heima, — heima æfintýra og álfa, ljóss og skugga. Við gleymdum stund og stað. Við hlógum. Við hryggðumst. Við fylltumst samúð eða gremju. — Og stundum mátti sjá tár á augnahvörmunum, sem runnu hljóðlega niður kinnarnar. Þá hafði réttur hins hrjáða og smáa verið fótum troðinn. Sannleikurinn virtur að vettugi. Þjáningar hins góða og þjáða auknar, svo að yfir tók.
Tröllkerlingarnar sumar hverjar hefðu víst ekki átt upp á pallborðið hjá okkur, hefðum við náð til þeirra og einhvers verið megnug.
En gamli maðurinn var alltaf jafn rólegur; ekkert nema gæðin, mildin og mannelskan. Það voru góðir straumar, sem að
okkur streymdu. Ég held, að við búum að þeim enn.
Ég man það kvöld. Ég mun hafa verið tólf ára gamall. Það var létt skýjað loft. Máninn skein nærri fullur og stjörnurnar blikuðu. Frost var töluvert og fór harðnandi. Snjór var yfir öllu, og svo mikill víða, að girðingastaurar voru í kafi. Við gátum því hindrunarlaust runnið á skíðum og sleðum um hóla og tún. Það gerðum við líka. Með klakaklepra í treflum og totum, hvít sem snjókerlingar, þutum við niður hóla og brekkur yfir tún og garða. Við vorum rjóð og heit af áreynslu og ákafa. Yndislegt kvöld með glaðværð og glensi. — Þá var kallað. Skyldan kallaði. Námið beið okkar. Auðvitað var það hún mamma, sem kallaði, en hún gjörði það víst fyrir skyldunnar hönd. Það kom á okkur ólundarsvipur. Við hlýddum samt undir eins. Við burstuðum af okkur snjóinn, drógum af okkur snjóklæðin og komum inn í ofnhitann.
Við vorum ekki upplögð til að læra. Við höfðum orðið fyrir vonbrigðum, höfðum búizt við að fá að vera lengur úti. Afi sá, hvað okkur leið. „Á ég annars ekki að létta lundina með dálitlu æfintýri,“ sagði hann, „áður en þið byrjið námið?“ Þá lyftust brúnirnar. Það var fljótt þegið.
Afi sat á rúminu sínu. Ég settist á rúmið hjá honum og tók í hönd hans. Þá fannst mér ég njóta betur frásagnarinnar. Siggi settist á kistuna framan við rúmstokkinn. Svo var slökkt ljósið, því að í birtu nutu æfintýrin sín ekki eins vel.
Þetta var eitt af æfintýrunum um einkadóttur konungsins og kotungssynina þrjá. Ég man nú aðeins orðið kjarnan úr því, og ég vil segja ykkur það, eins og ég man það, en kannske hafið þið lesið það nýlega og munið það ljósar en ég. Mætti þá efni þess verða ykkur eins hugstætt og það hefir orðið mér.
Konungurinn lætur það boð út ganga, að dóttur sína og ríkið skuli hver sá hljóta, sem unnið geti fyrir hann ákveðið verk, leyst af hendi sérstaka þrekraun.
Metnaðartilfinning bræðranna í koti karls og kerlingar fær byr undir báða vængi. Gömlu hjónin hvetja óspart tvo eldri bræðurna til fararinnar. Þau vilja gjarna mægjast við sjálfan konunginn. En þau vilja ekki með nokkru móti að yngsti bróðirinn fari. Honum hentar bezt öskustóin framvegis sem að undanförnu. En hann lætur ekki bugast eða letja sig. Hann fer með eldri bræðrunum, hvað sem það kostar. Hann vill líka freista hamingjunnar. Ekki segir af ferðum bræðranna, fyrr en leið þeirra liggur um skógivaxna heiði. Þá heyra þeir högg, svo sem tré sé höggvið. „Hvaða högg geta þetta verið?“ spurði kolbíturinn, yngsti bróðirinn, undrandi. „Það er nú ekki í fyrsta sinni, sem þú undrast og vilt vita eitt og annað, bróðir sæll,“ sögðu eldri bræðurnir einum rómi, „eða hefirðu aldrei séð mann höggva tré?“ Og þeir gerðu gys að bróður sínum. En drengurinn lét það ekki á sig fá, heldur gekk á hljóðið. — Þarna í skóginum fann hann öxi, sem hjó af eigin ramleik og felldi stórt tré.
„Góðan daginn,“ sagði drengurinn við öxina, „þú heggur skóg hér.“ „Já,“ sagði öxin, „ég hefi höggvið og beðið eftir þér langan tíma.“ Hann stakk öxinni í malpoka sinn.
Þegar hann kom aftur til bræðra sinna, hæddu þeir hann og spottuðu.
Eftir drykklanga stund komu þeir að háum berghamri. Þá heyrðist þeim sem brotin væri upp möl og grafið með reku uppi á hamrinum. „Hvað skyldi þetta vera?“ sagði yngsti bróðirinn. „Mikill kjáni geturðu verið, drengur,“ sögðu hinir fávísu bræður, sem þó þóttust allt vita, „hefirðu ekki fyrr heyrt eða séð fugla höggva nefinu í börk trjágreinanna eða brýna gogginn á þeim?“ „Jú,“ sagði hann, „en ég hefi samt gaman af að vita, hvað veldur þessum höggum.“ Svo kleif hann þrítugan hamarinn, til að öðlast þessa þekkingu, vita vissu sína um orsök þessara högga.
Uppi á hamrinum fann hann haka og reku, sem unnu sjálfkrafa. „Komið þið sæl,“ sagði drengurinn djarflega, „eruð þið hérna alein að störfum?“ „Já,“ sögðu verkfærin, „og höfum beðið eftir þér lengi, lengi.“
Pilturinn stakk verkfærunum í mal sinn og hélt leiðar sinnar. Þegar hann hitti bræður sína aftur, inntu þeir hann eftir því háðslega, hvað hann hefði nú fundið. „Það var svo sem ekki mikið,“ sagði hann, „aðeins haki og reka.“
Næst komu þeir að læk. Allir voru þeir þyrstir og drukku nægju sína. „Hvar skyldi annars þessi lækur eiga upptök sín?“ varð yngsta bróðurnum að orði, „og hvernig skyldi hann myndast?“
„Ég held þú sért ekki með öllum mjalla, drengur, hefirðu aldrei séð uppsprettulind,“ sögðu bræður hans. „Jú,“ hana hafði hann séð, en aldrei athugað, og upptök þessa lækjar vildi hann athuga.
Hlátur og háðsyrði bræðranna lét hann ekki á sig fá. Með einbeittum vilja og föstum ásetningi gekk hann upp með læknum að upptökum hans. Lækurinn minnkaði eftir því sem ofar dró. Úr lítilli lindarhnot seytlaði vatnið sí og æ og myndaði lækinn.
„Sæl og blessuð,“ sagði drengurinn við hnotina. „Gott er það og gleðilegt, að þú ert kominn,“ sagði hnotin, „ég hefi beðið eftir þér óratíma.“ — Hann stakk hnotinni hjá sér.
Skammt frá höllinni fundu bræðurnir gamla konu, sem föst var á nefinu í eikarstofni. Eldri bræðurnir glöddust við þessa sjón og skemmtu sér dátt yfir óförum gömlu konunnar. Þeir hlógu að henni og hæddu hana. Yngsti bróðirinn fékk samúð með henni og kostaði kapps um að hjálpa henni. Það tókst honum.
Fyrirbænir og heillaóskir gömlu konunnar fylgdu honum á leið. Hún átti ekki annað til að launa honum með. Og það er vafamál, hvort nokkur önnur borgun hefði dugað honum betur eða verið honum happadrýgri, því að bænirnar komu frá einlægu og þakklátu hjarta, og drengurinn hafði sterka trú á mátt þeirra. Hann trúði á sigur hins góða, og honum varð að trú sinni.
Í konungsgarði skyldu biðlar konungsdótturinnar fella stórt og mikið eikartré, grafa djúpan brunn í stæði þess og fá nægilegt vatn í brunninn, þar sem engin uppspretta var þó til. Ég þarf ekki að orðlengja þetta. Eldri bræðurnir gátu ekki unnið verkið. Þeir höfðu engin skilyrði til þess. Þeir urðu frá að hverfa með klippt eyru og aðra smán. En yngsti bróðirinn lét öxina sína höggva og fella tréð; síðan lét hann hakann og rekuna grafa brunninn. Síðast lagði hann hnotina á botn hans. Brátt stóð hann fullur af vatni.
Svo lagði afi út af æfintýrinu.
„Hvað þýðir svona æfintýri? Hefir það nokkurt erindi til okkar? Getum við nokkuð af því lært?“ Þannig voru spurningar hans. Og hann svaraði þeim sjálfur.
„Við skulum sérstaklega leiða hugann að yngsta bróðurnum,“ sagði hann. „Ég vona, að þið reynist líkir honum.“
„Konungsvaldið eða keisaratignina láta æfintýrin tákna gæfu lífsins, hamingjuna, — þetta, sem við öll viljum öðlast. Æfintýrahöfundurinn staðhæfir, að einkenni yngsta bróðurins séu einkenni gæfumannsins, eða þess unglings, sem líklegur sé til þess að verða hamingjunnar barn, verða til gæfu og gengis foreldrum sínum, byggðarlagi sínu og þjóð sinni í heild. Hver eru þá þessi einkenni hans? Yngsti bróðirinn er námfús; hann vill vita ástæðurnar fyrir hlutunum, vita orsakir þess, sem hann heyrir og sér í kring um sig; m.ö.o. hann vill afla sér fræðslu og hagnýtrar þekkingar. Og þekkinguna öðlast hann fyrir einbeittan vilja og áhuga. Verkfærin, sem hann eignast, tákna þann mátt, þá auknu möguleika, sem þekkingin skapar manninum. Mennt er máttur. Vegna brennandi löngunar til að vita orsakir þessa og orsaka hins verður hann margs vísari og eignast mátt, — verkfærin, sem hann svo sigrar erfiðleikana með.
Yngsti bróðirinn vill nema. Hann vill læra. Hann er líka göfuglyndur og góður drengur. Hann hefir samúð með þeim, sem bágt eiga, eins og t.d. gömlu konunni. Hann er viljasterkur og einbeittur. Hann lætur ekki háð og spott skilningssljórra og fáfróðra manna aftra sér frá námi eða öðru því, sem auka má manngildið, skapa manninum andleg verðmæti.
Yngsti bróðirinn á hugsjónir; hann á markmið í lífinu. Hann á í huga sér mikið og gott, sem hann kostar kapps um að glæða og gera að veruleika. Hann flýtur ekki sofandi að feigðarósi. Hann er einmitt sá, sem á gáfur, innræti og skapgerð til þess að sigrast á þrekrauninni og hljóta konungsdótturina, þ.e.a.s. verða konungur yfir sjálfum sér, hjarta sínu og huga til velferðar og fyrirmyndar öðrum mönnum.
Gamla konan táknar umkomuleysingjann, sem við mætum daglega á lífsleiðinni, gamlan eða ungan, — þennan, sem Kristur kallaði einn af sínum minnstu bræðrum.
Bræður þessa göfuga og gæfusama ungmennis tákna það fólk, sem fávíst er og ekkert vill læra, en þykist þó flest vita og allt geta, en það er gleggsta einkenni fávizkunnar.“
„Gefið gaum að því,“ sagði afi að lokum, „að yngsti bróðirinn vinnur ekki verk sitt í aktaskrift, en aktaskrift er það kallað, þegar við vinnum störf okkar svo illa og seint, sem hægt er, án þess þó að bein svik heiti eða augnaþjónusta. Sá nemandi t.d., sem ekkert skeytir um námið heima, þótt hann fari í skólann daglega, heldur lætur arka að auðnu um allt sitt nám, hann vinnur námsstörfin í aktaskrift. Hann á í þeim efnum ekki samleið með yngsta bróðurnum í æfintýrinu, nema hann taki sig á og hefji sókn um nám sitt og önnur skyldustörf.
En drengurinn var hornreka heimilisins, olnbogabarn veraldarinnar. Pund hans, gáfur hans og námshvöt, átti að grafa í jörðu, eins og gáfur þeirra unglinga, sem ekkert fá að læra og ekkert vilja læra. Þeim æskumönnum er sannarlega illa farið. Þannig verða oft hin mestu og beztu mannsefni að andlegum aukvisum og dáðleysingjum.
Nú hefir guð gefið ykkur báðum góðar gáfur og starfskrafta. Notið hvorttveggja til náms og starfs. Vinnan göfgar manninn.“ Þannig lauk afi æfintýrinu sínu.