Blik 1974/Godthaabsverzlunin í Vestmannaeyjum
Godthaabsverzlunin
í Vestmannaeyjum
Söguleg drög
Þar sem þetta hefti Bliks míns er nú öðrum þræði helgað verzlunarsamtökum Eyjamanna frá fyrstu tíð þeirra, fer vel á því, að ég fari hér nokkrum orðum um minni verzlanirnar tvær, sem danskir ráku í Vestmannaeyjum um tugi ára á s.l. öld.
Hinn 1. janúar 1788 gekk í gildi sú tilskipan danska konungsins, að verzlunin á Íslandi skyldi vera frá þeim degi frjáls öllum þegnum Danakonungs. Með tilskipan þessari var þess vegna öllum þegnum konungs sú leið opin, að stofna til verzlunarreksturs t.d. í Vestmannaeyjum, þar sem einokunarverzlun hafði verið alls ráðandi um verð erlendrar vöru sem og íslenzkra afurða frá miðri 16. öld.
Samt liðu 42 ár áður en nokkur ympraði á því að stofna til verzlunarreksturs í Vestmannaeyjum við hlið eða í samkeppni við gömlu einokunarverzlunina þar.
Árið 1829 var sótt um verzlunarlóð í Eyjum með þeirri ætlan að stofna þar til verzlunarreksturs. Það ár fékk danski stórkaupmaðurinn P.C. Knudtzon og mágur hans Th. Thomsen, kaupmaður í Hafnarfirði, leyfi til þess að fá útmælda verzlunarlóð „paa Vespanöe i Island“. Þeir völdu sér lóðina vestan við lendur gömlu einokunarverzlunarinnar og fast að mörkum hennar að austan. Árið eftir var þeim mæld lóðin. Stærð hennar var 1400 ferfaðmar eða um 5000 ferm., þ.e. hálfur ha. Lendum þessum fylgdu aðeins afnotaréttindi, en ekki eignarréttur. Afgjald eftir lóðina var ekkert eins og leigukjör einokunarverzlunarinnar gömlu höfðu verið frá fyrstu tíð.
Þessar lendur höfðu ýmsa mikilvæga kosti. Þær lágu til dæmis rétt sunnan við Hrófin, gömlu uppsátur hinna opnu skipa, svo að stutt var að bera og draga fiskinn frá skipunum til fiskhúss verzlunarinnar, þar sem afla var skipt á klöppunum framanvert við Hrófin, eftir að aflinn var dreginn á land á seiluböndum.
Þá var einnig stutt leið sjómönnum að bera hákarlalifrina á lóð verzlunarinnar eftir að landi var náð úr hákarlalegunum. Og ekki var það veigaminnst um val lóðarinnar, að uppskipunarbátar verzlunarinnar gátu lent vestan við Nausthamarinn, notið þar skjóls af honum í austan garra eða stormkviku, sem jafnan lagði inn á hina óvörðu höfn.
Lóðina fengu þeir mælda sér árið 1829. Þá höfðu þeir mágar ráðið til sín verzlunarstjóra, sem hét J.L. Schram. Ef til vill væri réttara að titla hann eftirlitsmann eða framkvæmdastjóra, því að hann dvaldist í Eyjum aðeins tvö ár, meðan byggð voru verzlunarhús fyrirtækisins.
Fyrst byggðu þeir íbúðarhús verzlunarstjórans austarlega á lóðinni. Það var byggt 1830, og það kölluðu þeir Godthaab, nafni verzlunarinnar.
Síðan byggðu þeir 30 álna langt og 15 álna breitt verzlunarhús. Í austurenda þess var sjálf verzlunin, en vestari hluti þess húss var vörugeymsla. (30 álnir eru að lengd 18,8 metrar). Þá byggðu þeir einnig fiskhús og salthús.
Í íbúðarhúsinu Godthaab skyldi verzlunarstjórinn búa með fjölskyldu sinni.
Árið 1831, þegar lokið var að fullu við að byggja fyrsta húsið, íbúðarhúsið, tók nýr maður við verzlunarstjórastarfinu. Sá hét H.E. Thomsen.
Árið 1842 varð P.C. Knudtzon, kaupmaður og eigandi Godthaabsverzlunarinnar að
¾, gjaldþrota. Þá keypti verzlunarstjórinn H.E. Thomsen Godthaabsverzlun af þrotabúinu. Hann rak hana síðan fyrir eigin reikning til ársins 1847. Þá seldi hann verzlunina tveim mágum, kaupmönnunum J.Th. Christensen og J.Ch.Th. Abel., sem fengu afsal fyrir eignum þessum 11. júní 1847. Þeir ráku síðan saman Godthaabsverzlunina næstu 11 árin eða til ársins 1858. Það ár keypti hana fyrrv. verzlunarstjóri hennar H.E. Thomsen. Voru húseignirnar þá metnar á kr. 15.177,00.
Næstu 23 árin rak H.E. Thomsen, kaupmaður, verzlunina eða til dauðadags 1881.
Um árabil rak þessi kaupmaður einnig brauðgerðarhús í Eyjum í sambandi við verzlun sína.
Eftir lát kaupmannsins afréðu erfingjarnir að selja Godthaabsverzlun.
Keypti þá hinn danski kaupmaður í Danska-Garði í Eyjum, einokunarkaupmaðurinn J.P.Th. Bryde, Godthaabsverzlunina, húseignir hennar og vörubirgðir.
Næstu árin var verzlunin opin aðeins stuttan tíma á degi hverjum, meðan verið var að selja hið mesta af vörubirgðunum.
Eftir 1890 stóðu hús verzlunarinnar að mestu leyti ónotuð með öllu, því að einn og sami kaupmaðurinn mátti ekki samkvæmt tilskipun eða lögum reka nema eina verzlun á sama verzlunarstaðnum.
Við fullyrðum, að tímarnir breytist og mennirnir með.
Frá landnámstíð höfðu bændur og búaliðar úr Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu sótt sjó á vetrarvertíð frá Vestmannaeyjum, legið þar við 2-3 vetrarmánuði ársins. Meginið af verzlunarviðskiptum heimilanna hafði líka átt sér stað í Eyjum. Þangað komu mörg opin skip hvert vor eða sumar skipuð körlum og konum til kaupa á nauðþurftum og ýmsu fleiru. Slíkar ferðir til Eyja tóku aldrei minna en 2-3 daga austan úr Skaftafellssýslu og 1-2 daga minnst frá Landeyjum og nærliggjandi sveitum. Þannig kostuðu þessar verzlunarferðir mikinn vinnukraft frá nauðsynlegum störfum heima fyrir, vor- og sumarönnum.
Verst af öllu var þó áhættan sú, að vinnuaflið tepptist vikum og jafnvel mánuðum saman í þessum Eyjaferðum eins og dæmin sönnuðu. Hér óska ég að skrá eitt dæmi þessa: Tvö skip undan Eyjafjöllum komu til Eyja í verzlunarerindum dagana 24. og 25. nóvember 1891. Við áætlum, að á hvoru skipi hafi verið nær 20 manns. Allt þetta fólk komst ekki heim til sín aftur fyrr en 2. janúar 1892. Það sem sé tepptist í Eyjum sökum brims og illviðra nálega 6 vikur.
Á s.l. 25 árum höfðu meira en 20 manns misst lífið í þessum verzlunarferðum, flestir þeirra drukknað í brimlendingu við Sandana. Sár, sem seint gréru.
Þá skemmdust æði oft verzlunarvörur bænda, þegar lent var í brimi og oft teflt á tæpasta vaðið í þeim efnum. Einnig átti það sér stað, að skip þeirra brotnuðu í lendingu af sömu ástæðum.
Ótíð og brim við Sanda ollu því æði oft, að vöruþurrð var ríkjandi vikum og mánuðum saman í þeim sveitum, sem treystu mest á verzlun við Eyjar.
Allar þessar ástæður urðu þess valdandi, að mjög var sótt á Bryde kaupmann í Vestmannaeyjum um stofnun verzlunar í Vík í Mýrdal. Um 1890 eða 1891 lét hann tilleiðast og hóf þar verzlunarrekstur. Það ár er vissa fyrir því, að hann sendi hákarlaskipið Jason, sem var þilskip eða skúta, þrjár ferðir frá Eyjum austur í Vík með vörur, sem seldar voru þar. Þessi tilraun kaupmannsins þótti takast vel, svo að hann afréð að byggja verzlunarhús þar austurfrá.
Í desember 1894 voru verzlunarhús Godthaabsverzlunar rifin til grunna og afréðu þá Bryde-feðgarnir að flytja brakið úr þeim austur og byggja þar mikið og voldugt verzlunarhús.
En nokkru áður en húsin voru rifin í Eyjum, kom það berlega í ljós, að nokkrir óþokkar voru þar innanum og samanvið. Og þeir gátu ekki setið á strák sínum fremur en fyrri daginn.
Aðfaranótt 18. nóvember um haustið (1894) var kveikt í verzlunarhúsi Godthaabsverzlunarinnar. Nágrannarnir urðu brátt eldsins varir og gátu slökkt hann, áður en hann tók að magnast. En áður en kveikt var í verzlunarhúsinu, höfðu hinir sömu óþokkar brotið með grjóti um 30 rúður í húsum verzlunarinnar.
Íbúðarhúsið Godthaab stóð eitt eftir. Þá átti það merku hlutverki eftir að gegna næstu 80 árin og vel það.
Rétt eftir aldamótin eignaðist Gísli J. Johnsen Godthaabshúsið með afnotarétti af Godthaabslóðinni. Þar rak hann hinn mikla atvinnurekstur sinn.
M.a. hafði hann á hendi póstafgreiðsluna í byggðarlaginu. Þá var Godthaabshúsið gert að pósthúsi. - Síðustu 30-40 árin var það skrifstofuhús Einars Sigurðssonar (hins ríkal, sem rak umfangsmikinn sjávarútveg í Eyjum með hraðfrystistöð og beinamjölsverksmiðju. - Godthaabshúsið enti tilveru sína undir hrauni í marzmánuði 1973 eins og flestar aðrar húseignir hins mikla atvinnurekanda. Þá hafði það staðið í 143 ár. Traustir hafa þeir máttarviðir verið.
Til þess að létta alla uppskipun á vörum úr vöruflutningaskipunum og svo útskipun á afurðum, þá lét Godthaabsverzlun byggja bryggju í Læknum svokallaða norður af verzlunarhúsunum og syðst og austast í Hrófunum. Bryggjutrén lágu á gildum hleðslum, sem hlaðnar voru úr aðfluttu grjóti - hraungrýti.
Þessi Miðbúðarbryggja, eins og hún var kölluð í daglegu máli Eyjafólks, var við lýði fram yfir síðustu aldamót, en þá illa farin að vísu, því að hún hafði laskazt í brimi fyrir nokkrum árum og viðgerð dregizt á langinn árum saman.
Eftir að þriðja verzlunin var stofnsett í Vestmannaeyjum og tók að dafna, Julíushaabsverzlun, þarna inni á Tanganum, var Godthaabsverzlun jafnan nefnd Miðbúðin.
Árleg umsetning Godthaabsverzlunarinnar eða Miðbúðarinnar var um það bil einn fjórði af allri verzlun í Eyjum á blómaskeiði hennar. Hún hafði eitt skip, eina skútu, í förum árlega. Skip þetta kom með vörubirgðirnar að vorinu eða fyrri hluta sumars og sigldi út með afurðirnar til sölu á erlendum markaði.
Sá skipsfarmur var um það bil einn fjórði hluti ársframleiðslunnar í verstöðinni, framleiðsla Eyjamanna sjálfra og viðlegusjómanna þar úr Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.
Þetta er þá saga Godthaabsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum í sem stærstum dráttum.
- (Heimildir: Saga Vestmannaeyja S.M.J.; Blaðið Fjallkonan (skrif Sigurðar Sigurfinnssonar þar); Kirkjubækur Landakirkju o.fl.)
- Verzlunarhúsið í Vík í Mýrdal.