Blik 1969/Frá Mjóafirði eystra
Frá Mjóafirði eystra
Ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni minnzt á fæðingarsveit mína í þessu riti mínu. Með myndum þeim, sem ég bið Blik að geyma hér frá Mjóafirði eystra, leyfi ég mér að taka upp og láta prenta nokkur orð um byggð þessa, sem ég notaði á sínum tíma fyrir inngang að afmælisgrein um kunnan sveitunga minn á sjötíu og fimm ára afmæli hans.
Fæðingarsveit okkar beggja, Mjóifjörður í Suður-Múlasýslu, má muna fífil sinn fegri um mannfjölda og atvinnulíf. Fram með allri hinni löngu fjarðarströnd bjuggu góðir bændur og atorkusamir búaliðar, — mektarbændur, sem jafnframt búskapnum ráku útgerð. Sumir þeirra veittu aðkomufólki á sumrum mikla og arðvænlega atvinnu. Margir voru þeir Sunnlendingar, verkafólk og sjómenn, sem sóttu tekjudrjúga atvinnu til þessara framtakssömu útvegsbænda á sumri hverju, og hurfu svo, þegar hausta tók, með drjúgan skilding í vasanum. Athafnir, líf og fjör ríkti hvarvetna í byggðinni, og einn eða fleiri árabátar gerðir út frá hverjum bæ.
Svo hófst vélbátaútvegurinn. Engir eftirbátar um framtak og athafnir urðu Mjófirðingar þá. Þeir urðu með þeim fyrstu til þess að eignast þessar vélknúnu fiskifleytur. Sjóhús stækkuðu og svo aðgerðarpallar fram af þeim. Mörgum bryggjum skaut fram í fjörðinn innar með firðinum, þar sem vars gætti fyrir brimi. Brimlendingarbændur urðu að notast áfram við árabátana sína.
Einnig höfðu Norðmenn stórfelldan atvinnurekstur við Mjóafjörð á fyrsta áratug aldarinnar, — ráku þar tvær hvalveiðistöðvar. Ekki skorti þar heldur líf og fjör eða aðkomufólk á sumrum.
Og þarna á bæjunum fram með allri fjarðarströndinni ólust upp „bræður“, stórir og stæltir harðfengismenn og hamhleypur, sem við smápeyjarnir litum upp til. Blómarósir voru þar einnig, en þeim gáfum við þá minni gaum. Vöxturinn og krafturinn í karlkyninu hreif þá hugann meira.
Þarna voru þeir Grundarbræður úti á Dalatanganum, þar sem vitinn lýsti og lúðurinn baulaði í Austfjarðaþokunni. Og þarna voru þeir Eldleysubræður, engir
mösulbeinamenn, og svo Hofsbræður, Brekkubræður, synir hreppstjórans, Sandhúsbræður, Borgareyrarbræður, Holtsbræður, Hlíðarbræður og Hesteyrarbræður.
Og við fjarðarbotninn bjó þá Sveinn Ólafsson, bóndi, útgerðarmaður og alþingismaður í Firði, og bræður hans, kunnir karlar að búskap, hagleik og mannviti.
Og með öllu þessu atorkusama og harðduglega fólki í Mjóafirði dafnaði sérlegt félags- og menningarlíf ...
Eitt af kunnustu heimilum í Mjóafirði um síðustu aldamótin og fyrstu 2—3 áratugina af öldinni var Borgareyrarheimilið. Þar bjó Benedikt Sveinsson (f. á Ormsstöðum í Norðfirði 2. jan. 1846), bóndi, útvegsbóndi, póstafgreiðslumaður, bókavörður sveitarinnar og svo símstöðvarstjóri, eftir að síminn kom til.
Benedikt Sveinsson var kvæntur Margréti Hjálmarsdóttur hreppstjóra Hermannssonar á Brekku í Mjóafirði. Þau voru gefin saman árið 1874 í Mjóafjarðarkirkju.
Þessum hjónum varð margra barna auðið eða alls 13 barna. Þar að auki ólu þau upp tvö börn að minnsta kosti og höfðu fleiri á framfærslu sinni lengri eða skemmri tíma.
Margrét Hjálmarsdóttir húsfreyja á Borgareyrinni lézt árið 1907. Næstu 5 árin eftir fráfall móðurinnar og húsmóðurinnar á Borgareyrinni, annaðist Bagnhildur, dóttir hjónanna, húsmóðurstörfin, stjórnaði þar öllu innan veggja. Það var mikið starf og vandasamt, því að Borgareyrarheimilið var eitt af fjölmennustu heimilum í héraðinu. Þar var heimilisfólkið iðulega 20—25 manns. Mikinn vinnukraft þurfti til við atvinnureksturinn t.d. allt sumarið, þar sem gerður var út vélbátur og árabátur og svo stundaður heyskapur og önnur búskaparstörf.
Árið 1906 festi Benedikt bóndi kaup á dönskum vélbáti. Hann var einn af allra fyrstu vélbátunum, sem keyptur var til landsins. Sá hlaut nafnið Haförninn. Jafnframt vélbátaútgerðinni, gerði Benedikt Sveinsson og synir hans út árabát og stundum fleiri en einn. Meginið af sjómönnum heimilisins voru aðkomumenn, flest Sunnlendingar.
Tveir synir hjónanna á Borgareyrinni hétu Sveinsnafninu, Sveinn eldri, bóndi í Hlíð í Mjóafirði, og Sveinn yngri, sem bjó á Borgareyrinni um tugi ára og var formaður á vélbáti þeirra feðga, kunnur sjómaður og drjúgur aflamaður.
Benedikt Sveinsson lézt 1931 hálfníræður að aldri.
Steinunn Þorsteinsdóttir.
Árið 1907 fluttist að Borgareyrinni unglingsstúlka (f. 21. júní 1892) norðan frá Fagradal í Vopnafirði, dóttir hjónanna Þorsteins Ívarssonar, sem var vinnumaður í Holti í Mjóafirði, og k.h. Önnu Pétursdóttur. Þessi unglingsstúlka þá er nú Steinunn Þorsteinsdóttir að Lundi (Vesturvegur 12) hér í bæ. Er Ragnhildur Benediktsdóttir hafði stjórnað hinu fjölmenna Borgareyrarheimili í 5 ár og Steinunn verið vinnukona á Borgareyrinni jafnlangan tíma, kvæntist Sveinn yngri Benediktsson þessari Fagradalsstúlku. Steinunnar Þorsteinsdóttur biðu örlög, sem ánægjulegt er að hugleiða. Þessi umkomulitla og bláfátæka stúlka átti það eftir að verða ein kunnasta húsmóðir í Mjóafirði um tugi ára, rómuð fyrir alúðlega gestrisni og húsmóðurstörfin ö11 sín búskaparár í Mjóafirði. Hún gerði vissulega garðinn sinn nafnkunnan, ekki sízt vegna hlýleikans og alúðarinnar, sem gestir og gangandi nutu þarna á næsta bæ við sóknarkirkjuna.
Sveinn Benediktsson yngri var fæddur 25. jan. 1880. Hann kvæntist Steinunni Þorsteinsdóttur árið 1912. Þau hófu búskap sinn á Borgareyrinni í tvíbýli við ekkjumanninn og tengdaföður hennar, Benedikt Sveinsson, og voru þau hjón eftir það stoð hans og stytta við hin margháttuðu störf hans og atvinnurekstur um nær þrjá tugi ára. Mörg síðustu árin annaðist þó Sveinn (eldri) Benediktsson í Hlíð reikningsuppgjör pósts og síma í Mjóafirði og var þannig hægri hönd föður síns um þau mál, er hann tók að eldast og hrörna.
Þeim Borgareyrarhjónum, Sveini og Steinunni, varð 4 barna auðið: 1. Margrét húsmóðir hér á Lundi, gift Þórarni Sigurbjörnssyni, verkstjóra, frá Ekru hér í bæ, 2. Unnur bústýra í Keflavík, 3. Benedikt bankastarfsmaður í Hafnarfirði, 4. Svava, sem dó kornbarn.
Sumarið 1959 fluttust þau hingað búferlum Borgareyrarhjónin Steinunn Þorsteinsdóttir og Sveinn Benediktsson og settust að á Lundi hjá dóttur sinni Margréti og manni hennar Þórarni Sigurbjörnssyni.
Sveinn Benediktsson andaðist hér í bæ 16. apríl 1964.
- Er bjargið erjar báran köld
- og brim er fyrir sandi,
- þá er betra um koldimm kvöld
- að koma rétt að landi.
- Er bjargið erjar báran köld
- Flestum öðrum ég frekar vil
- forláta brestina
- en þeim, sem nota trúnað til
- að tjalda yfir lestina.
- Flestum öðrum ég frekar vil