Blik 1962/Saga Bókasafns Vestmannaeyja, IV. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. maí 2010 kl. 14:49 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. maí 2010 kl. 14:49 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



Saga Bókasafns Vestmannaeyja

(IV. hluti)



Skal nú vikið nokkuð til stjórnarmanna, annarra en bókavarða, sem hafa verið taldir. Þorsteinn Jónsson læknir var formaður Lestrarfél. Vestmannaeyja frá 1886 til 1905. Hann var fæddur 17. nóv. 1840, andaðist í Rvík 13. ágúst 1908. Þorsteinn læknir gegndi mörgum trúnaðarstörfum í Eyjum; var oddviti hreppsnefndar 1874 —1902, forseti Bátaábyrgðarfélagsins 1887—1905. Var oft settur sýslumaður. Alþingismaður Vestmannaeyinga var Þorst. læknir 1887—89. Þá var hann lengi veðurathuganamaður fyrir veðurstofuna dönsku og hann hlaut viðurkenningu fyrir söfnun náttúrugripa.

Þorsteinn Jónsson, héraðslæknir.

Þorsteinn var ættaður úr Flóanum. Var stundum í skóla kallaður Eyrarbakkaséníið og tók góð próf. Eigi lét hann sér allt fyrir brjósti brenna á sínum yngri árum. Hann var einn þriggja skólapilta, sem rændu líki Geirs gamla í Geirsbæ; báru það í brekáni suður tún í áttina að líkhúsinu, en þar átti að kryfja karl. Bróður Geirs barst njósn af líkráninu og hóf eftirför með nokkrum liðskosti. Þorsteinn og félagar hans vildu ekki láta laust líkið og lá við bardaga. En svo lauk, að mennirnir náðu líki Geirs gamla, enda liðfleiri. En fátt varð um kveðjur og einhver eftirmál urðu vegna líkmálsins.
Skjótt brá svo við eftir að Þorsteinn var skipaður héraðslæknir í Eyjum 1867, að hann gerðist all umsvifamikill í þorpinu. Urðu flestir að sitja og standa sem hann vildi, en eigi mun hann þó hafa verið óvinsæll hjá almenningi. En óvæginn þótti hann og ráðríkur jafnan. Var hann oft nefndur „Eyjajarl“, þegar vegur hans var sem mestur.
Árið 1889 fluttist til Eyja Guðmundur nokkur Þorbjarnarson frá Gíslholti í Holtum og dvaldi í Eyjum fimm næstu ár. Guðmundur var bókbindari að iðn, en stundaði alla algenga vinnu, er til féll. Hafði hann tekið vænt upplag af sálmabókum upp í sumarkaup sitt árið áður hjá Ágústi bónda Helgasyni, síðar í Birtingarholti. Í tómstundum batt Guðmundur sálmabækur sínar í fallegt band og seldi með góðum hagnaði. Jafnframt batt hann bækur fyrir lestrarfélagið. Á vertíðum réri Guðmundur hjá Hannesi á Miðhúsum.
Þorsteinn læknir var lengi bóksali í Eyjum. Leit hann þessa óvæntu samkeppni óhýru auga. Fannst honum ekki nema maklegt, að nokkur hluti ágóðans af sálmabókasölunni rynni í hreppssjóð og var útsvar lagt á Guðmund með þetta í huga. Þetta var árið 1891. Guðmundur brá við hart, kærði útsvar sitt til sýslunefndar og fékk lækkun. Þótti vegur Guðmundar vaxa af þessu máli.
Fleiri greinir urðu með bókbindaranum og lækninum. Á lestrarfélagsfundi í þinghúsinu (líklega 1892) sló í háværar deilur milli þeirra. Orsökin var sú, að Guðmundur hafði farið fram á 5 aura hækkun á hverja bundna bók. Þorsteini lækni, sem var formaður lestrarfélagsins, fannst þetta ósvífin krafa, en Guðmundur lét engan bilbug á sér finna og varð af hin harðasta rimma. Svaraði Guðmundur lækninum fullum hálsi með heldur ófögrum orðaleppum. Sleit þá læknirinn fundinum án þess að þetta vandamál yrði útkljáð, en menn undruðust mjög dirfsku þessa unga manns, sem leyfði sér að standa upp í hárinu á Eyjajarli og hvika hvergi.
í stuttu æviágripi¹ segir Þorsteinn læknir um starf sitt í þágu LV:
„Eftir lát séra Brynjólfs Jónssonar 1884 var ég kosinn formaður lestrarfélagsins hér, og hef verið það síðan, og hefur félag þetta tekið góðum framförum undir minni forystu, árstillag hækkað og félögum fjölgað; félagið hefur árlega keypt talsvert af bókum, einkum helztu útlend tímarit, Íslendingasögur og fleira.“
Aðrir í stjórn LV á þessu tímabili, auk þeirra bókavarða, sem fyrr er getið, voru þessir: Helgi Jónsson, verzlunarstjóri við Garðsverzlun, var í stjórn 1884—87. Helgi var ættaður úr Breiðafjarðareyjum. Hann var faktor í Garðinum 1881—88. Vann síðan lengi í Landsbankanum. Hann lézt 1905.
Jóhann P. Bjarnasen (f. 1861), verzlunarstj. við Garðsverzlun eftir Helga Jónsson, var í stjórn 1888—1900. Jóhann fluttist til Ameríku um aldamótin. Kona Jóhanns var Margrét, dóttir Þorsteins læknis. Jóhann lézt í Las Vegas, Nevada, árið 1946.
Guðjón Jónsson, Sjólyst, var kosinn í stjórnina 1888 og mun hafa átt sæti í henni fram um aldamót. Engilbert Engilbertsson verzlunarstjóri átti sæti í stjórn LV 1889—1890.
Hagur félagsins fór fremur batnandi frá 1885—1905. Árið 1887 fóru árstekjurnar í fyrsta sinn framúr 100 krónum, voru 104,17. Næsta ár námu þær þó aðeins 75 kr., en það var líka rýrasta árið. Frá 1890 til aldamóta voru tekjurnar nálægt hundrað krónum árlega, mestar 1893, tæpar 140 kr.
Oft var ærið þröngt í búi á þessum árum, sem má m.a. marka af því, að árið 1886 borga 25 félagar af 30 þetta einnar krónu gjald til félagsins með innskrift. Því fór fjarri, að öllum tekjum félagsins væri varið til bókakaupa. Forsjálnin var svo mikil, að oftast var helmingur teknanna eftir í sjóði um áramót og stundum meira. Árið 1886 voru keypt 10 bindi fyrir kr. 17,55. Næsta ár er keypt fyrir kr. 26,45, til bókbands er þá varið kr. 29,31, en afgangs í sjóði eru kr. 45,17. Svipað er hlutfallið næstu árin. — Ein bókagjöf áskotnaðist félaginu á þessu ári. Danskur maður, Möller að nafni, gaf félaginu nokkrar danskar bækur. Stjórnin tók ekki ákvarðanir um meiriháttar bókakaup, heldur félagsfundur. Samkvæmt ákvæði í félagslögum skyldi kaupa „fróðleiksbækur á íslenzku og dönsku, helzt sögubækur, búfræðirit og alþýðleg náttúrufræðirit.“ Ennfremur segir, að ekki skuli kaupa ,,guðfræðirit, lögfræðirit né læknifræðibækur.“ Furðu kann að vekja nú á dögum, að lestrarfélag í sjávarþorpi skuli binda í lögum sínum að kaupa búfræðirit. En þess ber að gæta, að þá var landbúnaður snar þáttur í lífi fólksins jafnhliða sjósókninni. Einkennilegt virðist líka ákvæði um læknifræðiritin, með lækni hæstráðandi í félaginu! En kannski hefur hann litið svo á, að slík bókakaup mætti spara, því hæg væru heimatökin, þar sem þorpsbúar höfðu „doktorinn“ mitt á meðal sín.
Helztu ákvarðanir aðalfunda um bókakaup, sem heimildir finnast um, eru þessar: Árið 1891 var samþykkt, að félagið skyldi segja sig úr Bókmenntafélaginu, en kaupa í þess stað Íslendingasögur, „ef þær fengjust í tvennu lagi.“ Á aðalfundi 1893 kemur fram tillaga um að kaupa Lagasafn handa alþýðu. Tillagan mun hafa mætt andspyrnu, enda lögfræðin í banni samkvæmt félagslögum. Fór fram nafnakall um tillöguna og hún felld; 8 sögðu já, 9 sögðu nei. Hinsvegar var samþykkt að kaupa Þjóðsögurnar, „ef þær skyldu fást fyrir 12 krónur.“ Þá var samþykkt á fundi, að selja Lovsamling for Island í 12 bindum, sem Bjarni sýslumaður hafði keypt fyrir stjórnarfé. Var lagasafn þetta, sem nú er hverju bókasafni nauðsynlegt, lítið notað og því selt úr safninu. En það var samt svo, að félagið hafði talsverðar tekjur af þessu útskúfaða lagasafni meðan það var í eigu þess, því Aagaard sýslumaður notfærði sér það drjúgum og borgaði fyrir 4 kr. á ári.
Lögum félagsins frá 1862 var breytt 1885 að frumkvæði Lárusar Árnasonar stúdents. Nýju lögin eru um margt sniðin eftir hinum eldri, en breytt í samræmi við ný viðhorf. Helztu ákvæði hinna nýju laga eru þau, að árgjald skal nú vera 1 kr. eða góð bók í stað 2 marka áður, enda löngu skipt um mynt. Reikningsár skal vera almanaksár í stað fardaga áður. Fellt var niður ákvæðið um heiðursfélaga, enda lítill akkur í þeim gjaldfríum. Þá var fellt niður, að sýslumaður og sóknarprestur skuli veita félaginu forstöðu. Skal nú kosin þriggja manna stjórn á aðalfundi, er halda skal í janúar ár hvert, í stað fardaga áður. Áður hefur verið sagt frá þeirri lagagrein, er felur í sér hvaða efnisflokka skuli einkum velja í safnið. Um útlán segir, að bækur skuli vera í góðu standi og útlán fara fram 1—2 í viku. Enginn má fá fleiri bækur en tvær í einu og ekki skal halda þeim lengur en tvær vikur. Sé bókum haldið lengur, skal greiða 10 aura sekt fyrir hvern dag. Útlán hefjast í október og skal hætt i marzlok, en heimilt er félagsmönnum að fá bækur lánaðar að sumrinu, ef þeir óska þess. Fullar bætur greiðist, sé bók skemmd í láni.
Eftir fimm ár eða því sem næst, voru enn samþykkt ný lög fyrir félagið. Helztu breytingar eru þær, að árgjald er þá kr. 1.50, sem greiðist fyrirfram „í peningum eða innskrift“ og úrsögn skal vera skrifleg. Stjórnina skipa þrír menn eins og áður, formaður, gjaldkeri og „útlánsmaður“ sá þriðji og er það nýtt ákvæði, en áður skipti stjórnin með sér verkum.
Þá er einnig nýtt ákvæði, þar sem segir, að aðalútlánsmanni skuli greidd þóknun, er aðalfundur ákveður, en aðstoðarmenn bókavarðar starfi kauplaust; eru þó ekki skyldir að taka kosningu nema eitt ár í senn (seinna gjaldfríir). Formaður félagsins sér um bókakaup og ákvæðið um, hvaða rit skuli kaupa og ekki kaupa, helzt óbreytt. Þá er nýtt ákvæði um bókalán til utanfélagsmanna; þeir eiga þess nú kost að fá lánaðar bækur gegn 20 aura gjaldi fyrir bók, sem er 20 arkir eða meira, en fyrir minni bækur er gjaldið 1 eyrir fyrir örkina.
Loks skal aðeins vikið að því, hvaða bækur LV voru eftirsóttastar síðustu tvo áratugi 19. aldar. Skáldsagan Aðalsteinn, eftir Pál Sigurðsson, má heita alltaf í láni. Þúsund og ein nótt hefur enn sama aðdráttaraflið. Sögur Jóns Thoroddsens mikið lesnar — og eru enn. Stjörnufræði Ursins, Nýja sagan, ljóð Jóns á Bægisá, Snót, Lýsing Íslands, Eldrit og Sjálffræðarinn, allt eru þétta góðir gestir á heimilum alþýðufólks. Tyrkjaránssaga er fyrst lánuð 1886 og um þá bók er rifizt; orsakir þess þarf ekki að rekja. Brynjólfur Sveinsson eftir Torfhildi Hólm, var vinsæl saga framyfir aldamót, sama er að segja um Eldingu eftir sama höfund. Fáir lesa þær nú. Sögur Gests Pálssonar vildu menn gjarna lesa, Mannamunur alltaf jafn vinsæll og nú bætast við skáldsögur, sem allir vildu ná í, svo sem Randíður á Hvassafelli, Ofan úr sveitum eftir Gjallanda, Sögusafn Ísafoldar, Högni og Ingibjörg. Og enn halda velli Kvöldvökurnar hans Hannesar Finnssonar, Iðunn (alltaf í láni), Íslendingasögurnar, Riddarasögur, Felsenborgarsögur og Færeyingasaga. Drjúgum var lánuð Heljarslóðarorrusta, Sögusafn Þjóðólfs, lítil bók sem hét Mínir vinir, Dýravinurinn, Hvers vegna, vegna þess. Þjóðsögurnar gleyptu menn í sig — og enn eru þær í miklum metum hjá ungum og gömlum. Leikrit Sigurðar Péturssonar voru lánuð þó nokkuð. Vinsældir þeirra stóðu á gömlum merg síðan Hrólfur og Narfi voru sýndir í Kumbalda. Þá fór Skugga-Sveinn ekki erindisleysu út hingað. — Sögur herlæknisins urðu býsna vinsælar um leið og þær bættust í safnið skömmu fyrir aldamót, en nú er öldin önnur. Mest lesna bókin á erlendu máli mun verið hafa Opfindelsernes Bog í fjórum stórum bindum, enda mjög fræðandi rit og skemmtilegt. Árið 1897 eru t.d. 50 útlán á því riti. ¹ Óðinn VI. ár. 1910

SÝSLUBÓKASAFN.
1905—1918.
Frumkvæði að því, að lestrarfélaginu var breytt í sýslubókasafn átti Magnús Jónsson, þáverandi sýslumaður í Eyjum. Á fundi sýslunefndar 22. febr. 1905 skýrði oddviti nefndarinnar, Magnús sýslumaður, frá því, að landssjóður hefði veitt 100 kr. til sýslubókasafns. Áður hafði sýslumaður undirbúið málið, því að á þessum sama fundi er lagt fyrir sýslunefndina frumvarp til reglugerðar fyrir Sýslubókasafn Vestmannaeyja. Var reglugerðin samþykkt á fundinum án breytinga. Var þá kosin fyrsta stjórn sýslubókasafnsins; kosnir voru: Þorsteinn Jónsson læknir, form.; Anton Bjarnasen kaupmaður, gjaldkeri, og Jón Sighvatsson bóksali, sem jafnframt var kosinn bókavörður eða „aðalútlánsmaður“. Í sýslunefnd áttu þessir menn sæti: Magnús Jónsson sýslumaður, Oddgeir Guðmundsen prestur, Anton Bjarnasen, Gísli Lárusson, Stakkagerði og Magnús Þórðarson.
Meðan safnið var sýslubókasafn árin 1905—1918, var reglugerðin frá 1905 í gildi óbreytt; er hún svohljóðandi.

Reglugjörð fyrir Sýslubókasafn
Vestmannaeyja.
1. gr.

Það er markmið bókasafnsins, að veita sem flestum Vestmannaeyingum aðgang að fræðandi bókum og ritum — íslenzkum, dönskum og enskum — með sem minnstum kostnaði fyrir lesendur og þannig auka menntun og efla þar með andlegar og líkamlegar framfarir þeirra.

2. gr.

Bókasafnið skal opið til útlána einu sinni í viku hverri á tímabilinu frá 1. janúar til loka marzmánaðar, og frá 1. október til ársloka. Árstillag þeirra, er nota vilja safnið er 1 kr. 50 aurar, eða 75 aurar fyrir hvort tímabil á árinu, sem bækur eru útlánaðar, og skulu tillögin greidd fyrirfram. Þó skulu þeir, sem aðeins nota safnið frá 1. okt. til ársloka, greiða 1 krónu 25 aura. Þeir sem borga heilt árstillag, geta einnig eftir samkomulagi við bókavörð fengið bækur lánaðar að sumrinu.

3. gr.

Stjórn eða umsjón bókasafnsins hefur á hendi þriggja manna nefnd — formaður, gjaldkeri og bókavörður, sem sýslunefndin kýs til þriggja ára í senn, og skiptir nefndin sjálf störfum með sér.

4. gr.

Formaður hefur aðalumsjón með bókasafninu, annast um útvegun nýrra bóka fyrir safnið o.fl. Hann semur árlega skýrslu um efnahag, fyrirkomulag og bókakaup safnsins; einnig ákveður hann nánar dag og stund þá safnið skuli vera opið til útlána á fyrrgreindum útlánstímabilum og auglýsir það.

5. gr.

Gjaldkeri annast fjármál bókasafnsins, veitir tekjum þess móttöku, hvort heldur eru tillög, opinberar fjárveitingar, gjafir í peningum o.s.frv., og útborgar allan kostnað við safnið, svo sem húsaleigu, andvirði bóka, viðhald á þeim o.fl. Hann semur ársreikning yfir tekjur og gjöld safnsins, er stjórnin í heild sinni úrskurðar og undirskrifar fyrir lok janúarmánaðar, ásamt fyrgreindri skýrslu formanns um efnahag, fyrirkomulag og bókakaup safnsins á árinu. Gjaldkeri heldur á kostnað safnsins dagbók yfir allar inn- og útborganir. Í hana skulu einnig innfærðir ársreikningar safnsins.

6. gr.

Bókavörður hefur á hendi útlán bóka af safninu og sér um, i samráði við formann, að safninu sé vel við haldið, bækur bundnar og endurbættar o.s.frv. Hann heldur 2 bækur, er safnið kostar: 1. Bókaskrá, eða skrá yfir allar bækur safnsins, sem skal raðað í flokka eftir stafrófsröð og svo áframhaldandi tölunúmer innan hvers flokks. 2. Útlánabók, er hann ritar í nöfn lántakenda, titil lánaðra bóka, og ennfremur útlánsdag og skiladag.

7. gr.

Bókavörður skal hafa að launum minnst 25 krónur fyrir árið; formaður getur hækkað laun hans eftir kringumstæðum, ef hann álítur þess þörf og bókavörður fer þess á leit. Bókavörður eða aðalútlánsmaður tekur sér hæfilega marga menn til aðstoðar fyrir hvert útlánstímabil, og skulu þeir ekkert tillag greiða fyrir notkun safnsins, þann tíma er þeir aðstoða bókavörð.

8. gr.

Stjórn safnsins semur nánari reglur fyrir útlánum bóka, t.a.m. hve margar bækur megi lána hverjum lántakanda í senn, hve langan tíma, og hvað við liggi, ef bækurnar eru skemmdar eða eigi skilað á réttum tíma, og ennfremur um það, hvernig lántakendur skuli haga sér í bókhlöðunni, þá útlán fara fram. Skal eitt eða fleiri eintök af reglum þessum uppfest í útlánsstofunni lántakendum til leiðbeiningar og eftirbreytni.

Þannig samþykkt af sýslunefndinni í Vestmannaeyjum 22. febrúar 1905.

Skrifstofu Vestmannaeyjasýslu
16. marz 1905.
Magnús Jónsson.

Þorsteinn læknir, er verið hafði formaður lestrarfélagsins frá 1886 og var kosinn fyrsti formaður sýslubókasafnsins, fluttist til Reykjavíkur 1906. Í hans stað var Magnús sýslumaður kosinn formaður hins nýstofnaða sýslusafns. Magnús var fæddur 27. des. 1865, að Laugabóli við Ísafjarðardjúp. Hann varð stúdent í Reykjavík 1887 og cand. jur. frá Kaupmannahafnarháskóla 1894. Hóf þá málaflutningsstörf í Rvík, og vann skrifstofustörf hjá bæjarfógeta og landshöfðingja. Hann var settur sýslumaður í Vestmannaeyjum 28. febr. 1896 og skipaður sama ár. — Magnús sýslumaður lét mikið að sér kveða í félagsmálum Eyjamanna, meðan hann dvaldi þar. Hann var t.d. einn aðalhvatamaður að stofnun Ísfélags Vestmannaeyja. —
Magnús Jónsson var skipaður sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Hafnarfirði 1. apríl 1909, en var jafnframt bæjarstjóri í Hafnarfirði 1909—1930. Hann fékk lausn frá störfum 1934. Magnús sýslumaður andaðist í Reykjavík 27. des. 1947.
Gjaldkeri safnsins, Anton Bjarnasen, var sonur Gísla Bjarnasen, sem var einn stofnandi lestrarfélagsins (1862). Anton var fæddur í Vestmannaeyjum 1863. Hann varð verzlunarstjóri hjá J.P.T. Bryde í Vík 1895—1900, en um aldamótin tók hann við verzlunarstjórn í Garðsverzlun og hélt því starfi til 1911. Þá stofnsetti hann eigin verzlun í húsinu Dagsbrún, en jafnframt rak hann útgerð. Anton Bjarnasen andaðist 22. marz 1916.
Jón Sighvatsson var bókavörður, meðan safnið var sýslubókasafn og nokkru lengur. Hann var fæddur 4. júlí 1856, að Eyvindarholti undir Eyjafjöllum. Foreldrar hans voru Steinunn Ísleifsdóttir frá Seljalandi og Sighvatur Árnason alþm. Ungur nam Jón söðlasmíði og bókband. Þá var hann nokkur ár bóndi að Efri-Holtum undir Eyjafjöllum. Var formaður við Sandinn allmörg ár og þótti heppinn. Jón fluttist til Eyja 1897 og átti þar heima síðan. Hann var fyrst pakkhúsmaður hjá Brydesverzl., seinna hjá G.J. Johnsen.

Jón Sighvatsson.

Síðar gerðist hann útvegsbóndi, og bókaverzlun rak hann til æviloka. Meðal barna Jóns var Þorsteinn Johnson kaupmaður. Jón andaðist 5. des. 1932. —
Haustið 1905 hafði stjórn bókasafnsins samið reglur um útlán í 7 greinum sem hljóða svo:


Reglur um útlán bóka með meiru,
úr sýslubókasafninu.
1. gr.

Sýslubókasafnið er, ef forföll eigi banna, opið til útlána á hverjum sunnudagsmorgni frá byrjun októbermán. til loka marzmán. —
Þó geta félagsmenn fengið bækur á öðrum tímum árs eftir samkomulagi við bókavörð. — Útlán byrja — kl. 8 að morgni, í skammdeginu kl. 9.

2 gr.

Enginn félagsmaður má venjulega fá fleiri bækur í senn en 2, og eigi halda neinni bók lengur en tvær vikur, en haldi nokkur bók lengur án þess að forföll banni, getur bókavörður látið það varða 10 aura sekt fyrir hvern skiladag, sem líður fram yfir ákveðinn tíma; þó má lengja lán um 2 aðrar vikur, ef enginn biður um bók þá, sem í láni er á þeim 2 vikum sem hún er fyrst í láni, en lántakandi skal þó koma með bókina á ákveðnum skiladegi og fá lánið endurnýjað.

3 gr.

Ef einhver skemmir eða týnir bókum af safninu, skal hann greiða fullar skaðabætur eftir mati stjórnarnefndar.

4. gr.

Öllum bókum sem í láni eru, skal skilað í síðasta lagi um miðjan aprílmán. ár hvert.

5. gr.

Árstillag félagsmanna er 1 kr. 50 aurar. Gangi einhver í bókasafnið að hausti, og úr því um næstu áramót, borgar hann 1 kr. 25 aura, en haldi hann áfram að vera félagsmaður, greiðir hann aðeins 75 aura. — Ef einhver utanfélagsmaður fær bók lánaða, greiði hann 20 aura, sé bókin 15 arkir eða meira, 15 aura sé bókin 10 arkir og allt að 15 örkum, en 10 aura sé bókin 10 arkir að stærð eða minna. Öll tillög og greiðslu fyrir bókalán greiðist fyrirfram.

6. gr.

Þeir, sem segja sig úr bókasafninu, eiga að tilkynna bókaverði það skriflega innan 15. desember ár hvert; annars er úrsögnin ógild, og hlutaðeigandi þá skyldur að vera félagsmaður áfram, og greiða tillag fyrir næsta ár.

7. gr.

Engan hávaða eða skarkala má gera í bókasafninu, sem geti valdið truflun eða raski friði og ró; heldur ekki má neinn fara inn fyrir borð í útlánsstofunni, nema hann fái til þess leyfi bókavarðar, sem aðeins veitist, ef þess virðist brýn þörf.

Stjórnarnefnd sýslubókasafns Vestmannaeyja.
Vestmannaeyjum, 27. september
1905.
Þorsteinn Jónsson
(formaður)
Anton Bjarnasen
(gjaldkeri)
Jón Sighvatsson
(bókavörður).

Aðstaða safnsins breyttist í betra horf, er það varð sýslubókasafn. Um fjóra áratugi var starfið borið uppi af áhuga félagsmanna sjálfra, en nú voru því tryggðar 300 kr. fastatekjur árlega auk notendagjalda, sem námu 60—100 kr. á ári. Bókakaup var því unnt að auka verulega. Hinsvegar gerir reglugerðin ekki ráð fyrir miklum breytingum á rekstrinum. Raunar er bætt inn í 1. gr., að kaupa skuli enskar bækur, en lítt framfylgt. Enn skal útlánsdagur vera aðeins einn í viku og safnið lokað hálft árið. Og útlán skulu hefjast klukkan 8 á sunnudagsmorgnum! Þá hafa menn verið árrisulir á helgum dögum. Líklega hefur verið opið til hádegis. Tíu árum seinna virðist sýslunefndin efins um, að þessi tími sé heppilegur, því að hún skorar á stjórn safnsins, að hafa opið einn dag í viku kl. 3—5 „í staðinn fyrir þann tíma, sem nú er.“
Árið 1918 skorar sýslunefndin á safnstjórnina að endurskoða reglugerðina frá 1905, og senda nefndinni helzt fyrir lok þessa fundar frumv. til nýrrar reglugerðar eða breytinga við þá eldri, og þá sérstaklega að taka til yfirvegunar, hvort ekki sé hægt að opna lestrarsal í sambandi við safnið. Sýslunefndin biður safnstjórn ennfremur að athuga, hvort ekki sé hægt að fá nýjar bækur ókeypis handa safninu, samkv. þar um gildandi lögum. Mörg ár liðu unz lesstofa var opnuð og vissu sýslunefndarmenn vel, að þar var ekki hægt um vik. Það var heldur ekki á valdi safnstjórnar að fá ókeypis bækur, því aðeins 4 almenningsbókasöfn nutu þeirra sérréttinda — og munu þau undarlegu ákvæði enn í gildi. Auðsætt er, að sumum sýslunefndarmönnum finnst fullmikil kyrrstaða ríkjandi í málum safnsins, útlánatími óheppilegur og of lítið af nýjum bókum. Og árgjaldið hafði haldizt óbreytt frá 1890, 1 kr. 50 au.
Þegar sýslubókasafnið var sett á laggirnar, var ekki til önnur bókaskrá en prentaða skráin frá 1869, en raunar er ekki víst að neitt eintak hafi þá verið til í eigu safnsins.
Var þá Jóni Sighvatssyni bókaverði og Eiríki Hjálmarssyni kennara falið að semja nýja bókaskrá og flokka bækurnar. Sú skrá var samin 1906 og er enn til, með hendi Eiríks. Bókaskráin frá 1906 nær eingöngu til bóka á íslenzku, sem þá hafa verið 550—600; bækur á dönsku hafa verið þá sem næst 250—300. Þeir félagar hafa skipt safninu í 16 flokka og þeir merktir bókstöfunum A—R. Í skránni er greint nr. bókarinnar, nafn og loks höfundur. Þessi skrá er vel gerð um margt og betri en sumar seinni tíma bókaskrár, sem hlutu að verða handahófskenndar, meðan ekki var byggt á neinu föstu kerfi: Flokkunin 1906 var þessi: A. Íslendingasögur; B. Fornsögur annarra landa; C. Nýrri sagnarit; D. Riddarasögur og skáldsögur; E. Sjónleikir; F. Ljóðmæli; G. Rímur; H. Landafræði; I. Stjórnmálarit; K. Timarit; L. Læknisfræði- og heilsufræðirit; M. Búnaðar- og hagfræðirit; N. Náttúrufræði- og stærðfræðirit; O. Þjóðsagnafræði; P. Guðfræðirit; R. Rit ýmislegs efnis. Ferðasögur og ævisögur eru settar í undirflokk sagnfræði. Þá hafa verið við lýði nokkrar sjaldgæfar bækur, sem nú eru löngu horfnar, t.d. Eftirmæli 18. aldar, Gestur Vestfirðingur, Atli, Færeyingasaga og Kvöldvökur Hannesar Finnssonar. — Fyrir flokkun og skráningu voru greiddar 4 krónur.
Sýslusafnið dafnaði vel fyrstu árin. Árið 1906 voru lánþegar 63, og þeim fjölgar jafnt og þétt, unz þeir eru orðnir 91 árið 1909; en þá fer að halla undan. 1910 eru lánþ. 49 og 1914 eru þeir 40. Árið 1915 fjölgar þeim heldur, eru þá 57 og helzt sú tala að mestu, meðan safnið var sýslubókasafn. Fastatekjur héldust óbreyttar frá 1905 til 1918, 300 kr. En gildi peninga hafði minnkað og dýrtíð vaxið. Árið 1909 voru tekjur sýslusjóðs áætlaðar rúmar 1200 kr., en 1918 63 þús. kr. Sést af þessu, hve hlutur safnsins hafði versnað.
Bókakaup voru minni en ætla mátti, miðað við tekjur safnsins, keypt fyrir 150—200 kr. Útgjöld til annars en bókakaupa voru ekki há. Bókavarðarlaun voru 50 kr. á ári til 1916, hækkuðu þá í 70 kr. Aðstoðarmenn fengu lengst af 5 kr. fyrir sína þjónustu. Húsaleiga var 35 kr. á ári.
Sýslunefnd virðist ekki hafa verið fyllilega ánægð með rekstur safnsins, er frá leið. Árið 1910 eru reikningar þess samþykktir með þeirri athugasemd, að ógreidd árstillög séu of mörg og ætti að strika þá skuld út af skrá. Á sama tíma og bókakaup voru vonum minni á safnið talsverðar inneignir um hver áramót vaxtalausar. Á sýslufundi 8. júní 1917 samþykkir nefndin reikninga safnsins með þeirri athugasemd, að safnið eigi inni í árslok 1916 kr. 449,26 og telji sýslunefnd rétt, að inneign safnsins sé höfð á vöxtum. Á næsta sýslufundi áminnir nefndin stjórn sýslusafnsins alvarlega, að fullnægja athugasemd sýslunefndar við „téðan reikning frá 1916,“ þ.e. að hafa inneign safnsins á vöxtum. En sannleikurinn var sá, að bókakaup voru lítil, en safnið átti inni vaxtalaust í einni verzlun bæjarins talsverða upphæð svo árum skipti.
Það er vafalítið fyrir áhrif sýslunefndar, að næstu tvö ár verður gagnger breyting á starfsháttum safnsins, enda hæg heimatökin, þar sem formaður safnstjórnar, Karl Einarsson sýslumaður, var jafnframt oddviti sýslunefndar, Bókakaup voru aukin um helming og sjóðseign sett á vöxtu í sparisjóði.
Um þrjá áratugi hafði safnið fengið inni í þinghúsinu, en 1914 var húsið selt. Jón Sighvatsson bókavörður skaut nú skjólshúsi yfir safnið, flutti það heim til sín að Jómsborg. En 1917 mun það vera flutt í hinn nýbyggða barnaskóla, því að þá er getið um flutning á bókum. Var safninu fenginn samastaður uppi á austurloftinu, í óinnréttaðri vistarveru undir súð. Engin var þar upphitun. Var því ærið kaldsætt við bókavörzluna, en þó kastaði tólfunum frostaveturinn mikla 1918. Jón bókavörður, sem var kominn á efri ár, treysti sér ekki til afgreiðslustarfa, þegar kaldast var. Þeir Brynjólfur Brynjólfsson, núverandi spítalaráðsmaður, og Ágúst Benediktsson, er lengi bjó að Kiðjabergi í Eyjum, sem um langt árabil voru aðstoðarbókaverðir hjá Jóni, störfuðu þá að afgreiðslunni. Og þarna stóðu bókaverðirnir í frostbitrunni, tóku bækur úr skápum með ullarvettlinga á höndum, en börðu sér á milli. Mest varð frostið 26 gráður. Þá stóð enginn lengur við í bókasafninu en nauðsyn krafði.

ctr

Landakirkja og barnaskólinn 1917.

Seinna var safnið flutt í kjallara barnaskólans, vestasta herbergi móti suðri. Þar varð að stafla nokkrum hluta bókanna á gólfið. Þar var mikill raki og bækurnar mygluðu. Þá voru að sögn dæmi þess, að menn brugðu sér inn um kjallaragluggann og afgreiddu sig sjálfir, en minna um að bókum væri skilað inn um gluggann!
Ekki væri rétt, að saka þáverandi bókavörð um það, hvernig komið var. Jón lét sér annt um safnið og vildi hafa allt í röð og reglu, en starfsskilyrði með öllu óviðunandi.
Eins og fyrr segir fluttist Magnús sýslumaður úr Eyjum 1909. Var það hnekkir fyrir safnið, að hans naut ekki lengur við. Björn Þórðarson, settur sýslumaður, var þá kosinn formaður safnstjórnar í stað Magnúsar. Björn er ættaður frá Móum á Kjalarnesi, fæddur 1879. Hann var aðeins eitt ár í Eyjum, fluttist þaðan í ársbyrjun 1910. Hann varð síðar þjóðkunnur maður; var t.d. forsætisráðherra um eitt skeið.

Karl Einarsson, sýslumaður.

Karl Einarsson tók við sýslumannsembættinu 1910 og gegndi því til 1924. Hann er fæddur að Miðhúsum í Eiðaþinghá 18. jan. 1872. Var skipaður sýslumaður í Eyjum 3. júní 1909: en tók ekki við embætti fyrr en í febrúar 1910. Þingmaður Vestm. var Karl 1914—1923.
Karl sýslumaður var kosinn formaður stjórnar sýslubókasafnsins í stað Björns Þórðarsonar og gegndi því starfi, meðan safnið var sýslubókasafn. Jón Sighvatsson var einnig í stjórn allt þetta tímabil og nokkru lengur. Björn H. Jónsson var kosinn gjaldkeri árið 1916, í stað Antons Bjarnasen, sem andaðist það ár. Björn er fæddur 1888, ættaður úr Miðfirði. Hann stundaði nám í sögu og bókmenntasögu í Danmörku. Var skólastjóri barnaskólans í Vestmannaeyjum 1914—1920. Þá skólastjóri við alþýðuskólann í Hjarðarholti til 1924, en það ár varð hann kennari við barnaskólann á Ísafirði og skólastjóri þar frá 1930.
Félagaskrár eru til yfir allt tímabilið, sem hér hefur verið greint frá, en ekki er unnt að gera þeim þætti nein skil; þó skal þess getið, að af 63 Eyjabúum, sem voru fyrstu félagsmenn í sýslubókasafninu fyrir meira en hálfri öld, eru nú 12 á lífi, að því er bezt verður vitað. Meðal þeirra eru Gísli J. Johnsen stórkaupm. og Kristmann Þorkelsson, báðir búsettir í Reykjavík, Stefán Guðlaugsson útgerðarm. og skipstjóri í Gerði, Ágúst Benediktsson, lengi aðstoðarbókavörður, nú á Heiðarvegi 55, Finnbogi Finnbogason, fyrrv. skipstjóri frá Vallartúni, Kristján Þórðarson Brekastíg 5 og Jón Waagfjörð málarameistari.
Sá maður, sem lengst hefur verið safnfélagi og er enn, er Kristinn Sigurðsson fyrrverandi fiskimatsmaður, Löndum. Hann er fyrst á félagsskrá 1907 og hefur verið í safninu nær óslitið síðan. Brynjólfur Brynjólfsson, ráðsmaður sjúkrahússins, hefur verið safnfélagi í rétta hálfa öld; er fyrst á félagaskrá 1911 og hefur skipt við safnið óslitið síðan.

V. hluti

Til baka