Blik 1953/Áfanga náð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. maí 2010 kl. 20:47 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. maí 2010 kl. 20:47 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1953



ÁFANGA NÁÐ


ctr

NÝJA GAGNFRÆÐASKÓLABYGGINGIN

Fyrsta starfsár okkar í hinni nýju byggingu Gagnfræðaskólans er brátt á enda. Í haust, þegar skólinn var settur þar fyrsta sinni, sóttu minningarnar að mér. Margs var að minnast frá mörgum liðnum árum. Baráttan fyrir byggingu þessari var orðin 18 ára gömul. Hún er orðin heil saga, sem almenningur hér veit lítil deili á. En eitt er víst, að alþýðu manna hér á ég það að þakka fyrst og fremst, að þessum áfanga í byggingarmálum skólans er náð. Hér er hvorki stund né staður til þess að fara um það mál mörgum orðum að sinni. Framgangur hugsjóna er oft háður margskonar straumköstum og breytingum í þjóðlífinu, bæði innan sveitar og utan. Á seinni árum finnst mér sem alþýða manna hér hafi lagt þennan hvítvoðung minn að brjósti sér og skapað honum þannig vöxt og viðgang. Án hennar fylgis og hugarhlýju og fulltrúa hennar sæti enn við hið sama í þessu framfaramáli bæjarins og menningarmáli.
En annars óska ég að minnast.
Veturinn 1947 hófu nemendur mínir að grafa fyrir undirstöðuveggjum skólahússins. Mig minnir það vera sumarið áður, sem fræðslumálastjóri boðaði til skólastjórafundar til þess að ræða framkvæmd hinna nýju fræðslulaga. Á fundi þessum kom fram fyrirspurn um það, hvort skólarnir hefðu eigi heimild til þess að leggja nokkra þegnskylduvinnu á nemendur sína í þágu skólans. Sú spurning hlaut jákvætt svar og þótti sú þegnskylduvinna ekki óhæfileg 3 dagsverk á hvern nemanda.
Þetta notfærði ég skólanum. Hreyfði ég því máli við nemendur mína í febrúar 1947, að þeir inntu af hendi þessa þegnskylduvinnu á hinni nývöldu byggingarlóð skólans með því að grafa fyrir byggingunni að einhverju leyti. Þetta reyndist auðsótt mál. Hvortveggja var, að byggingarmálið var nemendunum hugðarmál og svo er hraustum unglingum nautn að því að reyna á krafta sína við líkamlega vinnu, eftir setu á skólabekk marga mánuði.
Svo hófst þá þegnskylduvinnan, grafarastarfið. Hver aldurshópur vann sína þrjá daga með nokkru millibili frá kl. 9 að morgni til kl. 3 e.h. Var þá haldið heim til að lesa lexíur næsta dags. Þegar leið fram í aprílmánuð, höfðu allir nemendurnir innt af hendi þegnskylduvinnu sína. Við unnum einungis á blíðviðrisdögum. Minningin um þessa ánægjulegu vinnudaga mun endast mér lengi. Aldrei hef ég séð unglinga vinna af meira kappi og áhuga en þessa daga. Þar fylgdi hugur máli. Iðulega minnast nemendur mínir frá þessum árum þessara unaðslegu daga, þegar við hófum að grafa fyrir framtíðarheimili Gagnfræðaskólans hér.
Enn er langt í land, þar til byggingin er fullgerð. Enn er aðeins neðsta hæðin notuð til starfans og þó ekki nærri fullgerð, en allt er þetta í framkvæmd og mótun. Byggingin er að mestu leyti fullgerð utan. Lóð og lendur skólans þarfnast mikillar lagfæringar. Umhverfið allt þarf umbóta við. Þar þarf að jafna, slétta og girða. Við þau störf gefst okkur vonandi kostur á að endurnýja líkamskrafta okkar og hugarorku, á sólbjörtum vordögum, þegar námsþreytan herðir að. Það er ánægjuleg tilhugsun.

Þ. Þ.V.