Blik 1971/Saga Ísfélags Vestmannaeyja, 4. kafli, síðari hluti
Saga Ísfélags Vestmannaeyja
- (4. kafli)
- (síðari hluti)
Segja má með nokkrum sanni, að aðalfundur Ísfélagsins 28. desember 1956 hafi verið eins konar byltingarfundur. Svo róttækar breytingar voru þá gerðar á stjórn félagsins. Allt á sínar orsakir og einnig það. Ísfélagið hafði á undanförnum árum fest mikið fé í byggingum og vélum margskonar til vinnslu sjávarafurðanna til út flutnings. En efnahagur félagsins var mjög erfiður fyrst og fremst sökum þess, hversu lítið hráefni félagið hafði til að vinna úr árlega. Framleiðslan varð of lítil af þeim sökum til þess að bera uppi allan tilkostnaðinn. Fyrir þennan aðalfund var því róið að því öllum árum að efla félagið og afkomumöguleika þess með því að fá útgerðarmenn til þess að gerast hluthafa í félagsskapnum og leggja þar jafnframt upp afla sinn til vinnslu. Þetta tókst mæta vel. Ekki færri en 10 stórir heimabátar bættust við þá, sem fyrir voru, og lögðu upp afla sinn í frystihús Ísfélags Vestmannaeyja á næstu vertíð (1957). Eigendurnir voru nýir hluthafar í félaginu.
Jafnframt því að tryggja félaginu þannig aukið hráefni til vinnslu, var nú hlutaféð aukið úr kr. 466.500,00 í tæpar tvær milljónir króna.
Eftir þetta mikilvæga starf til eflingar félaginu og fjárhag þess var gengið til aðalfundar rétt fyrir áramótin 1956/1957. Og þá var það, sem „byltingin“ gerðist. Skipt var um stjórnarmenn að mestu leyti. Þó hélt Tómas M. Guðjónsson sínu sæti í stjórninni en óskaði ekki eftir að gegna þar formennsku lengur, enda tekinn að eldast og þreytast í erilsömum störfum fyrir félagið undanfarin 17 ár. Hann hélt óskertu trausti sínu í félagsskapnum enda þótt óviðráðanlegar ástæður hefðu mjög þrengt hag félagsins og kosti á undanförnum árum. Hinir nýju menn í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja voru þessir eftir fundinn mikla: Magnús Bergsson, Björn Guðmundsson, Einar Sigurjónsson og Jóhann Pálsson, allt kunnir útgerðarmenn í kaupstaðnum og farsælir í störfum sínum. Varamenn í stjórninni gerðust nú um leiðRafn Kristjánsson og Emil Andersen, einnig kunnir útgerðarmenn í kaupstaðnum og hvor um sig skipstjóri á báti sínum eins og Jóhann Pálsson.
Magnús Bergsson var nú kosinn formaður stjórnarinnar og Björn Guðmundsson varaformaður. Magnús Bergson gegndi formannsstöðunni og forustuhlutverkinu næstu tvö árin eða til aðalfundar 29. des. 1959. Eftir þann fund var Björn Guðmundsson kjörinn formaður stjórnarinnar og hefur verið það síðan. Á seinni árunum (frá 1963) hefur Einar Sigurjónsson framkvæmdastjóri Ísfélagsins jafnframt verið varaformaður þess.
Fullyrða má, að með „byltingunni“ 28. des. 1956 hafi verið brotið blað í vexti og viðgangi Ísfélags Vestmannaeyja, þróunar- og athafnasögu þess og fjárhagslegum vexti. Hafizt var þá þegar handa um auknar byggingarframkvæmdir, vélakostur og tækjakostur endurnýjaður. Svo og allt frystikerfið. Fyrstu flökunarvélina eignaðist félagið árið 1958. Hún kostaði ekki minna en kr. 1.370.000,00. Aðeins þessi eina tala sannar og sýnir, hve gífurlegt fjármagn þarf til að reka þessi fyrirtæki svo að lag sé á, og er þá ekki lengi að síga á ógæfuhliðina um fjáhag og lánstraust, ef ekki er ,,af setningi slegið“, ekki
er stjórnað af hyggindum og gætni, dugnaði og árvekni.
Núverandi stjórn Ísfélags Vestmannaeyja.
Aftari röð frá vinstri: 1. Rafn Kristjánsson, 2. Kristinn Pálsson,
3. Bergur Elías Guðjónsson, 4. Emil Andersen.
Fremri röð frá vinstri: 1. Martin Tómasson, 2. Björn Guðmundsson,
3. Einar Sigurjónsson. Sjá textann.
Eftir að hinir nýju kraftar bættust félaginu, veittist því stóraukið hráefni til að vinna úr og fjárhagur þess fór brátt batnandi. Síðan hefur uppgangur þessa fyrirtækis verið mikill og traustur. Til áréttingar á þessum orðum mínum langar mig til að minna á, að Ísfélag Vestmannaeyja var hæsti skattgreiðandi Vestmannaeyjakaupstaðar 1970 eftir árgæzkuna árið áður.
Þá birti ég hér að lokum nokkrar tölur til þess að veita hugmyndaríkum lesanda og glöggum eilitla hugmynd um þróun Ísfélags Vestmannaeyja, vöxt þess og viðgang og hinn ríka þátt þess í atvinnulífi bæjarins.
Á s.l. ári (1970) nam andvirði þess hráefnis, sem Ísfélagið keypti til vinnslu, um 88 milljónum króna. Greidd vinnulaun námu um 38 milljónum. Félagið greiddi 4,5 milljónir í opinber gjöld. Og starfsfólk félagsins árið um kring var að jafnaði 130-140 manns. Keypt hráefni nam um 11 þús. smálestum.
Afurðir til útflutnings urðu sem hér segir:
Útflutt
Freðfiskur | alls um 150 þús. kassar |
Saltfiskur | 800 smálestir |
Skreið | 20 – |
Saltsíld | 1.400 – |
Freðsíld | 400 – |
Þá skulum við í sama tilgangi líta á nokkrar niðurstöðutölur.
Niðurstöðutölur efnahagsreiknings.
Árið 1955 | kr. 10.437.511,52 |
1965 | — 25.172.677,23 |
1970 | — 50.000.000,00 |
Niðurstöðutölur rekstrarreiknings:
Árið 1955 | kr. 12.861.296,99 |
1965 | — 66.411.006,64 |
1970 | um — 180.000.000,00 |
Þróun og viðgangur Ísfélags Vestmannaeyja síðasta hálfan annan áratuginn er ljóst dæmi um þá miklu grósku, sem átt hefur sér stað í atvinnulífi kaupstaðarins og með fyrirtækjum hér, sem vel og hyggilega er stjórnað. Hin setja upp tærnar eins og eðlilegt er. Alltof mörgum er það lagið, sem ekkert hafa til brunns að bera til hagkvæmrar stjórnunar, að nota ýmsa aðstöðu sína í þjóðfélaginu til þess að stofna til fyrirtækja, sem engan eiga tilverurétt undir stjórn fjármálabusa og duglausra óreiðumanna. Slíkt brölt er þjóðfélaginu okkar ómetanlegur skaði.
Við Vestmannaeyingar óskum þess af heilum hug, að Ísfélag Vestmannaeyja megi eflast í atvinnurekstri sínum og treysta alla aðstöðu sína atvinnulífi bæjarins til ómetanlegs hagræðis og öllum bæjarbúum til trausts og halds í daglegri lífsbaráttu, daglegri sókn til sjálfsbjargar og efnalegs sjálfstæðis. Ekki mun skuturinn eftir liggja, ef allvel er róið í fyrirrúminu. Á þessa leið mælti Grettir forðum. Eins vil ég fullyrða, að ekki lætur verkalýður Vestmannaeyja til sjós og lands sitt hlutverk eftir liggja, ef vel og hyggilega er stjórnað, vel og markvíst er á málum haldið.
Vesturhlið gamla frystihúss Ísfélagsins.
Austurhlið gamla frystihúss Ísfélagsins. Í suðurstafni við innakstursbrúna var síðar innréttuð matvörubúð félagsins. Upp með þessari löngu húshlið og austan við hana voru hróf, uppsátur opinna báta og þá sumarbáta (jula) og skjögtbáta, eftir að vélbátarnir komu til sögunnar.
Báðar þessar myndir eru teknar í gamla vélasal Ísfélagsins, fyrsta vélasal í frystihúsi á Íslandi, þar sem kuldi var framleiddur með vélum.
Grunnmynd af nýja hraðfrystihús Ísfélagsins norðan Strandstígs og vestan Bárugötu. Ólafur Á. Kristjánsson gerði teikninguna árið 1957 (Sjá bls. Mynd á bls. 167).
Grunnmynd af húsinu norðan Strandstígs og vestan við Bárugötuna. Ólafur Á. Kristjánsson gerði teikninguna í nóv. 1964.
Útlitsmynd af byggingunni norðan Strandstígs og vestan Bárugötu. Ó.Á.Kr. nóv. 1964.
Grunnmynd af verbúðum (Sjá bls. 167, vesturhlið). (Ól.Á.Kr. í júní 1969).
Grunnmynd af saltfiskverkunarhúsi Ísfélagsins, sem nú er í byggingu á Klappar- og Mandalslóð sunnan við Strandstíg. (Ól.Á.Kr. í sept. 1970).
Útlitsmynd af byggingu Ísfélagsins á Klappar- og Mandalslóðinni. (Sjá bls. 187). (Ól.Á.Kr. sept. 1970).
- Mig langar stundum ákaft til að yrkja
- um undurfagurt líf og sumarblóm,
- en verð þá eins og góð og gömul kirkja,
- sem grætur yfir því að vera tóm.
- Mig langar stundum ákaft til að yrkja