Blik 1965/Yndisstundir æskuáranna
Yndisstundir æskuáranna
Það er margs að minnast frá skólaárunum. Margar góðar endurminningar, frá því við byrjuðum í 1.bekk haustið 1958 feimin og hálfhrædd, en þó undir niðri mjög stolt yfir að vera komin í „Gaggann“ og þar til við lukum námi úr 4. bekk veturinn 1962, ekki lengur feimin heldur mjög ánægð með okkur, kennarana, skólastjórann og skólann okkar. Það voru mikil viðbrigði að koma úr Barnaskólanum, þar sem við vorum elzt og þóttumst öllu ráða, en í Gagnfræðaskólanum vorum við yngst og litum upp til stóru krakkanna í 3. og 4. bekk.
Fyrsti veturinn okkar í 1. C leið hratt, við lærðum og skemmtum okkur á málfundum. Þann vetur vorum við fermd, og okkur fannst, að nú værum við ekki lengur börn. Annar veturinn var erfiðari, en mjög ánægjulegur. Þá vorum við í 2. C og sátum á „kirkjubekkjunum“ niðri í kjallara. Þriðji veturinn kom og við settumst í 3. bóknáms. Nú vorum við þau stóru. Mörg af bekkjarsystkinum okkar fóru nú í landsprófsdeild. Þennan vetur urðu vöðvar strákanna mjög stæltir, því að nú báru þeir eina og oftast tvær ritvélar upp í skóla, því að þeir voru svo miklir og göfugir herrar, að þeir gátu ekki séð stelpu burðast með ritvél.
Vorprófunum lauk og við önduðum léttara. Í byrjun júní fórum við í skólaferðalag alla leið norður til Akureyrar. Fararstjórar voru skólastjórinn okkar Þorsteinn Þ. Víglundsson og kennarinn Vésteinn Ólason. Það var dásamlegt ferðalag, og allir tóku spariskapið með. Við fengum fallega rútu og mjög góðan bílstjóra. Vésteinn kenndi okkur söngva og var forsöngvari. Þorsteinn fyllti okkur af fróðleik um það, sem fyrir augu bar. Svo voru þeir með getraun, og auðvitað unnu strákarnir.
Eitt sinn þurftum við að vaða yfir læk. Allir fóru úr sokkum og skóm, og með Þorstein í broddi fylkingar óð allur skarinn yfir.
Yfir sumarið söfnuðum við kjarki og krafti undir lokasprettinn. Nú var um að gera að standa sig. Allir kepptust við fram að jólum, því að eftir jól byrjuðu prófin, og laugardaginn 3. febrúar 1962 voru bekkjarslit.
Það var mikill snjór þann dag, og við óðum skaflana upp í skóla. Eftirvæntingin var mikil og allir mjög hátíðlegir. Við settumst við borð og fengum kaffi og kökur, en mararlystin vék fyrir eftirvæntingunni. Svo las Þorsteinn upp einkunnirnar, verðlaun voru afhent og matarlystin jókst.
Allir voru ánægðir. Þar lauk skólaverunni okkar. Það er dásamlegt að eiga góðar endurminningar frá skólaárunum, sem við getum minnzt með gleði alla ævi, og sagt börnum og barnabörnum okkar frá
þeim í ellinni.
Við viljum svo nota tækifærið og þakka kennurunum og skólastjóranum okkar, Þorsteini, fyrir þolinmæðina þessi ánægjulegu skólaár.
- Kristín og Kristmann.