Blik 1973/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, IV. hluti
Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja
- (Framhald, IV. hluti)
- 5. kafli
- Tré- og járnsmíði, beykisiðn og skósmíði.
- Tæki og tól
- (Framhald, IV. hluti)
427. Alinmál. Lengdareiningunni
alin var skipt í tvö fet og hverju feti
í tólf þumlunga (da.: tommur).
Þannig mældust 24 þumlungar í einni
alin. Í einum faðmi eru þrjár álnir, svo sem kunnugt er. Alinmál var málstokkur, sem
almennt var notaður til þess að mæla
álnavöru (kramvöru) í búð. Allir,
sem stunduðu trésmíðar, notuðu
þessa lengdareiningu, (þetta mælitæki).
Svo kallað
metrakerfi var leitt í lög 1907, (nr. 33, 16. nóv. 1907). Mörg ár eftir
það notaði almenningur í landinu
alin að lengdareiningu, bæði við
smíðar og vefnað. Fyrst og fremst
var þjóðinni samkv. lögum gefin
nokkur frestur til þess að samlaga sig og sitt metrakerfinu, og svo tók það hana nokkur ár að bera skyn á það fullkomlega, svo að ekki skeikaði í notkun þess.
Þetta alinmál átti og notaði Árni Filippusson, gjaldkeri í Ásgarði við Heimagötu (nr. 29), en hann var smiður góður og iðkaði smíðar í tómstundum sínum um tugi ára,
a.m.k. framan af ævi.
Börn hans gáfu Byggðarsafninu alinmálið.
428. Alinmál með þrem hjaraliðum. Þetta er gamalt danskt alinmál,
sem Matthías „snikkari“ Markússon
í Landlyst átti og hafði með sér frá
„snikkara“ námi sínu í Kaupmannahöfn árið 1841. (Sjá greinina Solveig Pálsdóttir ljósmóðir í Bliki
1967). Að námi loknu settist M.M.
hér að í Vestmannaeyjum, kvæntist
Solveigu Pálsdóttur prests Jónssonar
á Kirkjubæ og byggði Landlyst við
Strandveg á árunum 1847 og 1848.
Ragnar Ásgeirsson, fyrrv. ráðunautur, sem var dóttursonur Matthíasar og Solveigar ljósmóður, gaf Byggðarsafninu alinmálið.
429. Alinmál. Það er smíðað úr
látúni (eirblöndu). Jón bóndi og
smiður Pétursson í Þórlaugargerði
smíðaði þetta alinmál og notaði hér
við smíðar sínar um tugi ára.
Jón Guðjónsson, fóstursonur Jóns bónda og Rósu húsfreyju Eyjólfsdóttur, konu hans, gaf Byggðarsafninu gripinn.
430. Alinmál. Þetta alinmál átti
Sæmundur Jónsson frá Jómsborg og
notaði, er hann var timburkaupmaður hér í bæ og afgreiddi sjálfur söluvöru sína.
431. Beykisöxi eða dixill. Þennan dixil átti Hálfdán Jónsson, sem var beykir hér í bæ um eitt skeið. Gefandi: Brynjólfur Einarsson, smiður, Boðaslóð 4.
432. Bjúghnífur (bjúgjárn). Þessi bognu eða bjúgmynduðu eggjárn voru notuð t.d. við smíði á grautarausum o.fl. af þvílíkum áhöldum. Þennan bjúghníf átti Jón bóndi Pétursson, smiður í Þórlaugargerði.
Gefandi: Jón Guðjónsson, fóstursonur hans.
433. Bjúghnífur (bjúgjárn). Þennan bjúghníf átti og notaði um langt árabil Ólafur smiður og formaður Magnússon í London við Miðstræti (nr. 3). Hann var einn kunnasti smiður í Eyjum á sinni tíð og nafngetinn bátasmíðameistari í verstöðinni. Síðast átti bjúghnífinn Guðjón bóndi Björnsson á Kirkjubóli. Gefandi: Dóttir hans, frú Lára á Kirkjulandi.
434. Bjúghnífur. Þennan bjúghníf gaf Magnús Guðmundsson í Hlíðarási við Faxastíg (nr. 3) Byggðarsafninu. Hann sagði bjúghnífinn upprunalega úr dánarbúi Guðmundar meðhjálpara Árnasonar í Ömpunhjalli, sem lézt 1879.
435. Bjúgjárn. Þetta sérkennilega bjúgjárn, eggjaður járnhólkur, var notaður við smíði ýmissa áhalda, svo sem grautarausa, fiskspaða, aska o.fl.
436. Borsveif. Þessa sérlegu borsveif gaf Hlöðver Johnsen á Saltabergi Byggðarsafninu.
437. Borvél. Þessa handsnúnu borvél keyptu þeir til Eyja árið 1912 Gísli J. Johnsen og Th. Thomsen, þegar þeir stofnuðu vélaverkstæði við Urðaveg, Thomsensverksmiðjuna svokölluðu. (Sjá Blik 1969). Síðan eignaðist Þorsteinn Steinsson, vélsmiður, smiðju þessa, hús og tæki. Hann gaf Byggðarsafninu borvélina.
438. Bryggjubor. Hann er sá fyrsti, sem hér var notaður við trébryggjusmíði. Fyrst var hann notaður, þegar Eyjamenn breikkuðu steinbryggju sína á Stokkhellu (Bæjarbryggjuna) með viðbyggingu úr tré. — Árið 1920 byggði Gísli Magnússon, útgerðarmaður, og Undínuútgerðin (frú Sigríður Bjarnasen og synir) trébryggju í Skildingafjöru (tekin fyrst í notkun á vertíð 1921) og var þá bryggjubor þessi notaður.
439. Bútsög. Bútsagir voru notaðar til þess fyrst og fremst að saga rekatré í búta. Oft rak býsna mikið af trjám hér áður fyrr á fjörur Heimaeyjar. Bændur áttu þann reka að vissu marki. Þeir áttu vissa rekadaga og létu vinnufólk sitt ganga á reka eða gerðu það sjálfir. Þessi bútsög er gömul. Hana átti upprunalega Vigfús Pálsson Scheving bóndi á Vilborgarstöðum og fyrrum formaður í Eyjum.
440. Bútsög. Hún er sögð vera úr dánarbúi séra Brynjólfs Jónssonar á Ofanleiti, sem andaðist hér í Eyjum árið 1884. Svo sem mörgum er kunnugt þá dvaldist ekkja prestsins á Ofanleiti næstu 7 árin eftir fráfall hans. Árið 1891 efndi hún til uppboðs á ýmsum hlutum úr búi þeirra hjóna frá búskaparárum þeirra á Ofanleiti. Einn af uppboðshlutunum var bútsög þessi.
441. Dixill eða beykisöxi. Þessi dixill var lengi notaður á síldarvertíðum á Siglufirði. Gjafarsútgerðin hér í bæ eignaðist síðar beykisöxi þessa og gaf hana Byggðarsafninu.
442. Dólkur í látúnsslíðri. Þetta var útskurðarhnífur hins oddhaga bóndasonar á Kirkjubæ (Kirkjubóli) Bergs Guðjónssonar og Ólafar húsfreyju Lárussonar. (Sjá einnig útskorna hluti eftir B.G. í Byggðarsafninu).
Frú Lára Guðjónsdóttir, Kirkjulandi, systir Bergs heitins, gaf Byggðarsafninu hnífinn.
443. Gormborar. Kunnur bátasmiður hér í bæ, Sigurður Sæmundsson á Hallormsstað við Brekkustíg (nr. 11) gaf Byggðarsafninu bora þessa.
444. Grindarsög (strengsög). Sagarblaðið er upprunalega komið til Eyja austan úr Meðallandi. En grind sagarinnar smíðaði Unnsteinn Sigurðsson, skipasmiður hér í bæ um langt árabil. Hann gaf Byggðarsafninu sögina.
445. Grindarsög. Hún er merkt E.J. Sög þessa eignaðist Engilbert trésmíðameistari Jóhannsson smiðs Jónssonar frá Brekku (nr. 4 við Faxastíg) árið 1935. E.J. gaf hana Byggðarsafninu.
446. Grindarsög („útskurðarsög“) með mjóu blaði. Sögin notuð til að saga ávalar línur t.d. við „útsögun“ eða rósagerð í þunnt tré (krossvið). Sög þessa átti og notaði Kristinn Jónsson á Mosfelli hér í bæ, kunnur að hagleik.
447. Grindarsög (strengsög, — „útskurðarsög“).
448. Hallamœlir, skaftfellskur. — Hringmynduð mahoníplata með merkjum. Um hana leikur lóð. — Þessi hallamælir er íslenzk uppfinning frá Herjólfsstöðum í Álftaveri. Hjörtur bóndi Bjarnason á Herjólfsstöðum fann upp fyrirmyndina að tæki þessu árið 1864. Hallamæli sinn notaði hann t.d. til þess að fá jafnan halla á hússperrur, þegar þök voru sett á byggingar. Hannes bóndi Hjartarson á Herjólfsstöðum erfði fyrirmynd þessa mælis (frumsmíði föður síns), þegar faðir hans lézt 1887. Eftir frumsmíðinni er þessi hallamælir sniðinn og gjörður. Á plötunni er fangamark þeirra feðga, H.B. og H.H. og ártölin 1864 og 1968. Þennan hallamæli smíðaði Hannes bóndi sjálfur og gaf hann Byggðarsafninu fyrir atbeina Friðþjófs Mássonar frá Valhöll (nr. 43A við Strandveg) hér í bæ.
449. Hallamœlir, lítill, útlendur. Halldór héraðslæknir Gunnlaugsson átti þennan hallamæli. Hann er gjöf barna hans til Byggðarsafnsins.
450. Handhald af alinmáli, ársett 1859. Alinmál þetta var notað á sínum tíma og um tugi ára í Júlíushaab-verzlun (Tangaverzluninni) hér í bæ og öll álnavara mæld með því, meðan Gísli verzlunarstjóri Engilbertsson var þar verzlunarstjóri (1880—1893). Engilbert málarameistari Gíslason verzlunarstjóra Engilbertssonar gaf Bygðarsafninu hlutinn.
451. Handhald af meterstiku úr
eik, sem Þorsteinn skipstjóri Jónsson í Laufási átti og gaf Byggðarsafninu. Hann notaði meterstiku þessa m.a. við botnrannsóknir sínar
hér við Eyjar, sem hann varð nafnkunnur fyrir.
452. Heflar. Byggðarsafni Vestmannaeyja hefur borizt fjöldi hefla
frá einstaklingum, sem stundað hafa
trésmíðar í bænum á undanförnum
áratugum, voru hér húsasmiðir, bátasmiðir, húsgagnasmiðir og beykjar,
þegar tæki þessi öll voru knúin handaflinu einu. Hér verða skráð nöfn
heflanna eins og þeir voru nefndir í
daglegu tali, og svo þykir mér hlýða
að skrá nöfn þeirra smiða, sem áttu
þá og notuðu í daglegri smíðaþjónustu við Eyjafólk og útgerðina þar
og annað atvinnulíf. Margir þeirra
voru snillingar í iðn sinni.
Bandahefill. Hann var notaður til að snyrta til og snurfusa áferðina á böndum í árabátum og vélbátum, eftir að byrðingurinn var að fullu gerður. Botn hefilsins er ávalur og féll þannig vel að böndunum eða röngunum, eins og þau voru nefnd í daglegu tali.
Botnheflar, — málmheflar, sérlegir, til þess gerðir að hefla og jafna tunnubotna, þegar lokið var við að gyrða tunnuna. Þannig var lögð síðasta hönd á tunnusmíðina.
Fallshefill.
„Fyldingahefill“, speldahefill. Notaður við hurðasmíði.
„Grathefill“.
„Kontrakýlar“.
Kýlingarheflar.
Laggheflar. Þessir heflar eru frá beykisiðnaðinum hér í bæ til þess gerðir að hefla laggir á tunnum.
Langheflar.
Sléttheflar, skrúbbheflar.
Spónhefill.
Strikheflar.
Svœhefill.
Tappa- og nótaheflar.
Tunnustafaheflar, litlir með ávölum botni (fleti) til þess gerðir að hefla tunustafina innanverða, þegar lokið var að girða tunnuna.
Öðrum hefli þessum fylgir sú saga, að Sigurður Breiðfjörð skáld og beykir við Garðsverzlun í Eyjum (1827), hafi upphaflega átt þennan hefil og komið með hann frá beykisnámi sínu í Danmörku. Hefilinn hafði hann skilið eftir hjá Sigríði Nikulásdóttur, eiginkonu sinni, er hann hvarf frá henni burt úr Eyjakauptúni árið 1828 eftir árs hjónaband. Þá gerðist frúin bústýra hjá næsta beyki við Garðsverzlun og bjuggu þau í Beykishúsinu, sem Sigurður beykir lét konu sinni eftir, þegar hann hvarf frá henni. Sá beykir hét Otti Jónsson. Hann notaði síðan hefilinn um árabil. Hefillinn fylgdi síðan húsinu, þegar hjónin frú Jórunn Jónsdóttir Austmann og Jón hafnsögumaður Salómonsen eignuðust hús þetta. Frá fósturbörnum frú Jórunnar hefur hefill þessi borizt Byggðarsafninu.
Hinn tunnustafahefill Byggðarsafnsins gaf því Ólafur Vigfússon, Sigtúni. Hefillinn er sagður vera meir en aldar gamall.
Þessir eru þeir smiðir í Eyjum, sem átt hafa og notað alla þessa hefla af hinum margskonar gerðum:
Jónas Helgason, bóndi í Nýjabæ.
Jón Einarsson, bóndi á Hrauni.
Ágúst Árnason, smiður og kennari í Baldurshaga.
Sigurður Ísleifsson, smiður, Merkisteini.
Unnsteinn Sigurðarson, bátasmiður, Vesturvegi 23.
Hálfdán Jónsson, beykir, Boðaslóð 3.
Sigurður Sæmundsson, smiður, Hallormsstað.
Sigurður Bjarnason, smiður, Búlandi.
Magnús Þ. Jakobsson, vélsmiður Skuld.
Einar Vilhjálmsson, smiður, Oddstöðum.
Engilbert Jóhannsson frá Brekku, trésmíðameistari í Smið hf.
Allir þessir menn voru og hafa verið um tugi ára þekktir og viðurkenndir smiðir og miklir hagleiksmenn í Vestmannaeyjum, og heimili þeirra jafnkunn og viðurkennd og þeir sjálfir.
453. Hjólnafajárn. Haustið 1894 keypti Framfarafélag Vestmannaeyja fyrsta handvagninn til Eyja.
(Sjá Blik 1953, bls. 9). Þá tóku ýmsjr smiðir í Eyjum að hugleiða, hvort þeir gætu ekki smíðað slík þarfaþing sjálfir. Til þess þurftu þeir að afla sér tækja. Eitt þeirra var hjólnafajárnið. Það er strýtumyndað eggjárn til þess gert að víkka út hjólnafagöt handvagna. Þetta hjólnafajárn átti Magnús smiður Magnússon, sem bjó hér að Hvítingavegi 10, Hljómskálahúsinu. (Sjá Blik 1972, bls. 114).
454. Hjólnafajárn. Fyrir og um aldamótin voru handvagnar orðnir almenn léttitæki hér í kaupstaðnum. Útgerð vélbátanna fór ört vaxandi eftir að útvegur þeirra hófst hér (1907) og þá þóttu handvagnar mikil nauðsyn við alla flutninga á bjóðum og fiski. Þá skapaðist jafnframt atvinna við að gera við þessi flutningstæki og smíða þau. Þetta hjólnafajárn er eitt hið allra fyrsta, sem hér var smíðað og notað.
455. Hornmál, merkt Á.F. Þetta hornmál smíðaði, átti og notaði Árni gjaldkeri Filippusson í Ásgarði (nr. 29 við Heimagötu). Hann stundaði jafnan smíðar heima á yngri árum sínum, — sjálflærður smiður. —
456. Hornmál úr tré, —45 stiga horn, — fast. Óvíst um eiganda þess.
457. Hornmál. Þetta hornmál er erfðagripur minn úr dánarbúi fósturforeldra minna.
458. Hringfari.
459. Klaufjárn, (rofjárn), óvenjustórt og efnismikið. Þetta rofjárn var um árabil notað hér í skipasmíðastöðvunum til þess að rífa byrðinga
vélbáta, sem gera þurfti við eða gera upp að nýju. Þá var það einnig notað hér til þess að rífa þær trébryggjur, sem hér voru byggðar á fyrstu áratugum aldarinnar. Þrjár bryggjur vitum við um, þar sem járn þetta var notað, þó ekki sé vitað, hver lét smíða það í fyrstu. Í fyrsta lagi var það notað, þegar bryggjan á sunnan verðu Eiðinu var rifin. Þegar vestari hluti Stokkhellubryggjunnar var rifin, var járn þetta notað við það verk. Það var gert á öðrum áratug aldarinnar. Í þriðja lagi var rofjárn þetta notað, þegar Undínubryggjan í Skildingafjöru var rifin. Hún var byggð sumarið og haustið 1920 og tekin í notkun í byrjun vertíðar 1921, en rifin nokkrum árum síðar, þegar Básaskersbryggjan var tekin í notkun að einhverju leyti.
460. Klaufjárn, lítið. Það var notað hér við bátasmíðar um tugi ára. Hinn kunni bátasmiður í Eyjum, Ólafur Ástgeirsson bátasmiðs Guðmundssonar, Litlabæ, átti járnið og notaði það öll þau ár, sem hann stundaði hér bátasmíðar. Hann gaf það Byggðarsafninu. Það var erfðagripur frá föður hans.
461. Klemma. Þetta sérkennilega tæki átti Gottskálk Hreiðarsson að Hraungerði við Landagötu. Hann stundaði sjóklæðagerð bæði í Landeyjum, meðan hann var þar að Vatnshóli, og svo eftir að hann fluttist hingað til Eyja árið 1912. Þessa klemmu bjó hann sér til, — er hans uppfinning, — til að halda föstum sjóklæðum við kné sér, meðan hann gerði saumana með þar til gerðum nálum og leggjatöngum. Sigurjón Gottskálksson, sonur hans, gaf Byggðarsafninu gripinn.
462. Kylfa, — í stærra lagi. Venjulega voru þessar kylfur notaðar til þess að slá með á sporjárn. Þó stundum notaðar við íslátt í bátabyrðing.
463. Límpottur. Þessir pottar voru notaðir til að hita í trélím, þegar það fluttist til landsins í hörðum plötum. Þennan límpott átti Brynjólfur smiður og beykir Brynjólfsson á Litlalandi við Kirkjuveg (nr. 59).
464. Límpottur. Þennan stóra límpott átti Kristinn Jónsson á Mosfelli (nr. 26 við Túngötu). Enda þótt Kristinn væri ekki lærður iðnaðarmaður eða viðurkenndur, þá stundaði hann smíðar heima á Mosfelli í hjáverkum sínum. Potturinn barst Byggðarsafninu úr dánarbúi Kr.J.
465. Löð að sniði eins og hamarshaus, enda notuð eins og hamar öðrum þræði hér við bátasmíðar. Ólafur bátasmiður og formaður Magnússon í London við Miðstræti (nr. 3) mun hafa átt löð þsssa fyrstur manna hér í Eyjum.
466. Löð, venjuleg gerð — mjög gömul. Böðvar Ingvarsson, verkstjóri hjá Vestmannaeyjakaupstað, til heimilis að Ásum (nr. 47 við Skólaveg) gaf Byggðarsafninu löðina.
467. Málstokkur, útlendur, úr dánarbúi Friðriks Weldings, skósmiðs, sem starfaði hér í bæ að iðn sinni um það bil einn áratug (1945—1955). Málstokkur þessi er til þesa gjörður að taka mál af fæti, þegar smíða skal skó. Það gjörði þessi skósmiður iðulega. — Frú Guðrún Welding, Urðarvegi 39, dóttir skósmiðsins, gaf Byggðarsafninu málstokkinn.
468. Nafar, gömul gerð. Sigurður Sæmundsson, smiður á Hallormsstað við Brekastíg gaf gripinn.
469. Naglbítur, nokkuð sérlegur. Þetta tæki átti Edinborgarverzlun hér, og var það notað við að opna vörukassa. Frá verzlun þessari barst það Byggðarsafninu fyrir fjörutíu árum.
470. Rissmát. Rissmát þetta átti og notaði um tugi ára Jón bóndi og líkkistusmiður í Túni Vigfússon. Vigfús útgerðarmaður í Holti, sonur J.V. gaf rissmátið Byggðarsafninu fyrir nær fjörtíu árum.
471. Rissmát. Rissmát þetta átti Árni Filippusson gjaldkeri í Ásgarði við Heimagötu. Gjöf frá erfingjum hans.
472. Rissmát. Þetta rissmát átti Kristinn Jónsson á Mosfelli, sem smíðaði mikið heima í frístundum sínum, þó að ólærður væri.
473. „Sentrumborar“. Þessa trébora gaf Sigurður Sæmundsson á Hallormsstað Byggðarsafninu.
474. Skaröxi, íslenzk smíði. Öxi þessa smíðaði Sigurður járnsmiður Sigurðsson frá Hæli við Brekastíg (nr. 10). Unnsteinn Sigurðsson bátasmiður, Vesturvegi 23, sem stundaði hér bátasmíðar um tugi ára, notaði öxi þessa í starfi sínu um langt árabil. Þegar hann hætti smíðum, gaf hann Byggðarsafninu öxina. Bátasmiðir þessir eiga sér merka sögu í kaupstaðnum.
475. Skaröxi, stór og mjög gömul. Þessa sérlegu skaröxi átti Jón bóndi og smiður Austmann í Þórlaugargerði. Hann var sonur séra Jóns J. Austmanns sóknarprests að Ofanleiti. Fæddur var hann að Felli í Mýrdal árið 1814. Kona Jóns bónda hét Rósa Hjartardóttir. Sonur þeirra hjóna var Hjörtur Jónsson bóndi í Þórlaugargerði. Hann var fyrri eiginmaður Guðríðar Helgadóttur. Síðari maður hennar var Einar Sveinsson, bóndi í Þórlaugargerði og umsjónarmaður barnaskólans hér um árabil. Þau voru foreldrar Hjartar Einarssonar á Geithálsi, hins góðkunna samborgara okkar hér í kaupstaðnum. Frá þessu fólki er öxin gefin Byggðarsafninu.
476. Skóneglingarvél. Þetta tæki átti og notaði hér um tugi ára Guðmundur skósmiður Hróbjartsson í Landlyst (Strandvegur 43b). Hann fluttist frá Eyjum 1972, og keypti þá Vestmannaeyjakaupstaður íbúðarhús hans, en Byggðarsafnið eignaðist vél þessa.
477. Skósmíðahamar. Þennan skósmíðahamar átti og notaði fyrsti iðnmeistari, sem hér settist að. Það var Snorri Tómasson, skósmíðameistari á Hlíðarenda við Skólaveg. (nr. 3). Iðnmeistarabréf hans er dagsett og ársett 24. jan 1891. Þá var hann 22 ára. Hann lauk þá skósmíðanámi hjá
J. Jakobsen í Reykjavík og undirritaði bæjarfógetinn í Bvk., Halldór Daníelsson, meistarabréfið.
Skósmíðameistarinn fluttist til Eyja árið 1899 og starfaði hér ávallt að iðn sinni til síðustu stundar. Hann lézt hér 28. nóv. 1936. (Sjá meistarabréf hans á Byggðarsafninu).
Hamarsskaftið, sem er úr eik, ber þess menjar, að það hefur verið handleikið mjög mikið.
Kona Snorra skósmíðameistara var frú Ólafía Ólafsdóttir frá Brekku í Mýrdal (f. 15. ágúst 1871, d. 27. des. 1957).
Júlíus Snorrason, vélamaður, gaf Byggðarsafninu hamarinn.
478. Skúfskeri. Þessa völundarsmíð innti af hendi Sveinn bóndi
Ólafsson, kunnur hagleiksmaður, búandi að Suður-Hvammi í Mýrdal,
faðir hins kunna fræðimanns, Ólafs
prófessors.
Magnús Þ. Jakobsson, járnsmiður í Skuld við Vestmannabraut (nr. 40) gaf Byggðarsafninu skrúfskerann ásamt skrúftöppunum. Kunnir Mýrdælingar áttu þennan skrúfskera, eftir að Sveinn bóndi féll frá. Síðastur þeirra var gefandinn.
479. Slaghamar — íslenzk smíð.
Hamar þennan átti og notaði hér
við smíðar um hálfrar aldar skeið
Sigurður smiður Sigurðsson frá Hæli
við Brekastíg (nr. 10). Hann gaf
Byggðarsafninu gripinn.
480. Smiðjubelgur. Ein hin allra
síðasta heimilissmiðja hér í bæ var
smiðja Guðmundar bónda Pálssonar
í Brekkuhúsi. Þessi smiðjubelgur er
úr þeirri smiðju, sóttur þangað eftir lát Guðmundar bónda með leyfi nánustu aðstandenda.
481. Smiðjutöng. Töng þessi var
upprunalega notuð í gömlu „Tangasmiðjunni“, sem J.T. Birck, danskur
kaupmaður, setti hér á laggirnar
fyrir miðja 19. öldina. Verzlun sína á
Tanganum við Vestmannaeyjahöfn
kallaði hann Júlíushaab.
Síðasti verzlunarstjóri þar var, sem kunnugt er, Gísli Engilbertsson, faðir Engilberts málarameistara Gíslasonar og þeirra systkina. Úr fórum hans barst þessi gripur Byggðarsafninu fyrir nokkrum árum.
482. Smiðjutöng. Þessa smiðjutöng átti upprunalega Guðmundur smiður Ögmundsson í tómthúsinu Borg á Stakkagerðistúni. Hann var faðir Ástgeirs Guðmundssonar í Litlabæ. Ólafur Ástgeirsson, bátasmiður, erfði töngina eftir föður sinn og gaf hana Byggðarsafninu. Þannig var hún í eigu þriggja ættliða, áður en Byggðarsafnið eignaðist hana.
483. Smiðjutöng. Þessi smiðjutöng er úr smiðju Guðmundar bónda Pálssonar í Brekkuhúsi. Smiðja hans var ein hin allra síðasta heimilissmiðja hér í byggðarlaginu.
484. Steðji. Jón bóndi í Túni Vigfússon var snillingssmiður bæði á tré og járn. Hann átti smiðju í Túni og svo trésmíðaverkstæði. Hann var einasti líkkistusmiður í Eyjum um tugi ára. Þennan steðja notaði hann í smiðju sinni.
485. Steðji úr dánarbúi Jóns bónda Guðmundssonar í Suðurgarði.
Upprunalega átti Bjarni bóndi Ólafsson í Svaðkoti steðja þennan (d. 1883). Síðan Jón sonur hans, sem kenndur var hér við Brautarholt (nr 3B) við Landagötu. Þá var hann bóndi í Suðurgarði. Þegar Jón Guðmundsson fluttist að Suðurgarði úr Landeyjum, eignaðist hann steðjann (Sjá Blik 1961, greinina Hjónin í Svaðkoti).
486. Steðji. Þennan steðja átti og notaði í smiðju sinni að Fögruvöllum tómthúsmaðurinn og sjómaðurinn Sigurður Vigfússon (Siggi Fúsa), góðkunnur borgari og fræðaþulur.
487. Steðji. Ekki er vitað með vissu, hver átti og notaði þennan gamla og illa farna steðja.
488. Stórviðarsög. Sög þessa átti Árni bóndi og hreppstjóri Diðriksson í Stakkagerði (d. 1903). Mörgum rekatrjám fletti hann með þessari sög öll þau ár, sem hann bjó í Vestra-Stakkagerði.
489. Stórviðarsög. Þessa stórviðarsög átti upprunalega Ingimundur bóndi og hreppstjóri Jónsson á Gjábakka. Sögina erfði sonur hans Jón formaður og útgerðarmaður í Mandal og notaði hana um langt árabil. Eftir lát Jóns Ingimundarsonar eignaðist Gunnar M. Jónsson, skipasmíðameistari, sögina og var hún notuð við skipasmíðar í Dráttarbraut Vestmannaeyja þar til raftækjatæknin kom til. G.M.J. gaf síðan Byggðarsafninu sögina.
490. Stórviðarsög, minni gerð.
491. Tálguhnífur, sjálfskeiðungur mjög slítinn. Þennan hníf átti Guðjón bóndi Björnsson á Kirkjubóli (Kirkjubæ) og notaði hann í búskap sínum í Eyjum um tugi ára, einnig við trésmíðar í þágu heimilisins. Frú Lára dóttir hans, húsfr. að Kirkjulundi hér í bæ, gaf Byggðarsafninu hnífinn.
492. Tréblýantur. Þetta er mjög venjulegur tréblýantur. En sökum þess, að merkur maður hér í byggð átti hann og notaði, þá er hann safngripur okkar. Blýantinn átti Matthías „snikkari“ Markússon í Landlyst. Hann var kvæntur Solveigu ljósmóður Pálsdóttur prests á Kirkjubæ Jónssonar. Þessi hjón byggðu annan helming Landlystar (nr. 43B við Strandstíg) árið 1847 og árið eftir hinn helming hússins, þar sem danska konungsvaldið stofnaði „Stiftelsið“, fæðingardeildina frægu, til þess að láta þar rannsaka orsök ginklofans, barnasjúkdómsins banvæna (Sjá Blik 1967). Hjónin Matthías og Solveig voru móðurforeldrar Ragnars ráðunauts Ásgeirssonar, Ásgeirs fyrrv. forseta og þeirra systkina. Ragnar gaf Byggðarsafninu blýantinn ásamt fleiri hlutum til minningar um afa sinn hér í Eyjum.
493. Vafningstœki, vafnings„kjulla“. Hún er til þess gerð að vefja garni um stangaðar lykkjur á reiðastögum, hylja þannig stöng á vírstögum. Vafningstæki þetta eða „kjullu“ átti Ólafur heitinn Bjarnason á Kirkjuhól, og notaði hann það um árabil við vinnu sína í bátasmíðastöð hér í bæ. Finnbogi Ólafsson, sonur hans, gaf Byggðarsafninu gripinn að föður sínum látnum.
494. Vélsög. Þessa vélsög keypti Jóhann Hansson handa Smiðjufélagi Vestmannaeyja árið 1911. (Sjá Blik 1969, bls. 292). Síðast átti Vélsmiðjan Magni hf. þessa vélsög og gaf hana Byggðarsafninu.
495. Öxi. Öll er hún úr járni gjörð með krók á skafti. Þegar Helgi tónskáld og lúðrasveitarstjóri Helgason hvarf héðan frá tónlistarstörfum árið 1921 (Sjá Blik 1972), skildi hann
m.a. eftir öxi þessa. Helgi Helgason var smiður góður og m.a. var hann kunnur skipasmiður. Hann hafði með sér til Eyja ýmisleg smíðaáhöld og stundaði hér smíðar öðrum þræði með tónlistarstarfinu.
Hann bjó hér í Ásgarði hjá hjónunum Árna gjaldkera Filippussyni og frú Gíslínu Jónsdóttur. Þar skildi hann eftir öxina. Þegar hann flutti, gaf hana Árna, sem einnig var góður smiður og stundaði þá handiðn á yngra aldursskeiði. Börn hjónanna gáfu öxina Byggðarsafninu.
496. Öxi stór með tréskafti. Hún
er brennimerkt Á.F. (Árni Filippusson). Hún er á sama hátt orðin til
hér í Eyjum eins og nr. 495. Öxi
þessi var nauðsynlegt heimilistæki
í Ásgarði um árabil, notuð til að
kljúfa við í eldinn, meðan kynnt var
þar með kolum og kveiktur eldur
og nærður með rekavið og annarri
trjávöru.