Blik 1973/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, III. hluti
390. Fýlakeppur. Fýlakepp þennan átti og notaði um árabil Lárus
bifreiðarstjóri Árnason frá Búastöðum. Hann var hér einn af þekktustu
„úteyjamönnum“ á sinni tíð. Hann notaði keppinn næstum einvörðungu við fýlaveiði í Hellisey. Með honum sló hann marga fýlunga á hreiðri. Sjálfur gaf hann Byggðarsafninu grip þennan, nokkru áður en hann féll frá.
391. Fýlakeppur. Þennan fýlakepp átti Björn bóndi Erlendsson í Gerði.
Hann er brennimerktur stöfunum E.G., föður Erlendar, og sannar það
aldur hans.
392. Háfslás úr málmi.
393. Höggstokkur. Þetta höggtré er á þrem fótum og dæmi gert handa
vestmanneyisku bændaheimili. Í gegnum höggtréð er vítt gat. Höggstokkur þessi var notaður til að höggva á vængi af lunda, haus og
fætur, þegar fuglinn var „verkaður“ til matar. Þá féllu þessir hlutar
hans niður um gatið, niður í ílát, sem stóð þar undir. Þessi háttur á
verkinu sparaði vinnu og hafði aukið hreinlæti í för með sér.
Höggstokkurinn er gefinn Byggðarsafninu úr dánarbúi Jóns bónda Péturssonar í Þórlaugargerði. Upprunalega átti faðir hans, Pétur bóndi Benediktsson í Þórlaugargerði, áhald þetta og mun hafa smíðað það.
394. Járnfesti, — kórkeðjan fræga úr Stóra-Geldung.
Í jarðskjálftanum árið 1896 hrundi steinboginn (náttúrusmíðið sérlega) milli Stóra- og Litla-Geldungs, sem eru fuglaeyjar suður í hafi, langt suður af Heimaey. — Í Stóra-Geldung hefur frá aldaöðli setzt að mikill fugl á útmánuðum ár hvert og verpt þar. Þar var því ætíð gott til veiða. Gengið var í Stóra-Geldung til veiða með því að fara fyrst upp í Litla-Geldung, og var síðan gengið eftir steinbrúnni í Stóra-Geldung, þar sem gott þótti til veiða.
Eftir að steinbrúin hrundi í sjó niður, varð ekki komizt upp í Stóra-Geldung, nema sérstök festi yrði lögð upp í kór hans. — Kunnir og óvenjuslyngir bjargveiðimenn (fjallamenn) í Eyjum voru fengnir til þessa verks. Það varð árið 1898. Það voru þeir félagarnir Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum og Gísli Lárusson í Stakkagerði. Þeim til aðstoðar voru tveir kunnir Eyjabúar, Guðjón Eyjólfsson, bóndi á Kirkjubæ, og Ólafur Ólafsson í London.
Þessir fjórmenningar unnu þetta starf fyrir Landssjóðinn, sjálfan landsdrottinn Eyjabænda. Honum bar að láta bæta veiðiaðstöðuna í Stóra-Geldung eftir jarðskjálftann og óhappið. Mennirnir tveir, Magnús og Gísli, sem hættu lífi sínu við að klífa bergið og festa járnfestina í það, fengu greidda 25 aura fyrir hverja stund, er þeir klifu þar utan í bergveggnum, alls 4 klukkustundir, — ein króna greidd samtals fyrir klifurstarfið!
Járnfestin var tekin úr kórnum í Geldungi árið 1952 og þá gefin Byggðarsafninu. Var hún þá orðin slitin á köflum. Eins og kunnugt er, þá er festi aldrei sterkari en veikasti hlekkur hennar. Þeir hinir veiku hlekkir sýna sig.
395. Langgrefill. Áður en farið var
að veiða lunda í háf í Vestmannaeyjabyggð, eða til ársins 1876 (en
fyrsti háfurinn var keyptur til Eyja
árið 1875), var lundinn veiddur með
netum eða kræktur út úr holum með
einskonar gogg. Þessir lundagoggar
voru af tveim gerðum, lengri gerð
og styttri gerð, og kallaðir greflar.
Það orð er myndað af sagnorðinu
að grafa. Á öðrum enda skaftsins
var myndaður spaði. Með honum
var lundaholan víkkuð og mold fjarlægð úr lundaholunni, svo að auðveldara yrði að ná til fuglsins þar. Stálgoggnum var krækt í fuglinn,
ýmist í kvið hans eða brjóst, hann
dreginn út og snúinn úr hálsliðnum.
Þessi veiðiaðferð þótti með tíð og
tíma svo ómannúðleg, að hún var
bönnuð með héraðssamþykkt.
Ólafur bátasmíðameistari Ástgeirsson frá Litlabæ smíðaði grefilinn og gaf hann Byggðarsafninu.
396. „Lundabuxur“. Buxur lundaveiðimanna slitnuðu fljótt og illa,
þar sem þeir sátu með veiðiháf sinn
alla daga fuglaveiðitímans á bergsillum og brúnum við veiðarnar. Þá
var það ráð tekið að klæða þær utan eins og buxur þessar sína. Að
lundatímanum liðnum, var hlífinni
af þeim flett, og voru þá buxurnar
jafngóðar eftir.
Frú Guðrún Grímsdóttir, fyrrv. húsfreyja á Oddstöðum, „bætti“ buxurnar, — en svo var þetta kallað á Eyjamáli, — og gaf þær síðan Byggðarsafninu.
397. Lundaháfur. Þennan grænmálaða lundaháf átti og notaði fram á níræðisaldur einn hinna kunnustu lundaveiðimanna í Vestmannaeyjum um tugi ára, Kristján Ingimundarson, formaður og útgerðarmaður í Klöpp við Strandstíg.
Um langt árabil veiddi Kristján í Klöpp lunda í Heimakletti og Miðkletti á sumri hverju og fékk þar drjúgan feng.
Gefendur: Dóttursynir K.I., þeir Kristján og Theodór Georgssynir.
398. Lundaháfur, svartur að lit. Þennan háf átti og notaði um langt árabil Sigurjón skipstjóri Sigurðsson frá Brekkuhúsi. Hann var kunnur og fengsæll „fuglari“ hér frá æskuárum sínum í Brekkuhúsi. Hann veiddi lunda sumar hvert fram á efri ár. Ekkja hans, frú Ingibjörg Högnadóttir frá Baldurshaga í Eyjum, gaf Byggðarsafninu háfinn.
399. Lundaháfur, lítill með stutt skaft. Hann var ætlaður unglingi til þess að þjálfa hann við veiðarnar.
400. Lundanetjanál. Hún var notuð til þess að ríða net í lundaháfa.
401. Lundareyzluhnífur. Með hnífum þessum var lundahamurinn skafinn, þegar búið var að reyta fuglinn. Fuglinn var ekki sviðinn að reytingu lokinni heldur var kroppur hans gjörhreinsaður með reyzluhnífnum.
Þennan reyzluhníf átti frú Lovísa Gísladóttir á Búastöðum, sem reytti fugl á sumri hverju um langt árabil, bæði í uppvexti sinum á Búastöðum og síðan í búskap sínum þar. Hún gaf Byggðarsafninu hnífinn.
402. Reyzluhnífur frá Stóra-Gerði
úr búi þeirra Gerðishjóna Stefáns bónda, útgerðarmanns og skipstjóra Guðlaugssonar og Guðfinnu húsfreyju Þórðardóttur. Synir hjónanna gáfu Bygðarsafninu hnífinn.
403. Reyzluhnífur með járnflugu á skaptendanum. Hún kom að notum við að fullhreinsa fuglshaminn eftir reytingu.
404. Reyzluhnífur úr dánarbúi hjónanna á Kirkjubæ, Guðjóns bónda Eyjólfssonar og Höllu húsfreyju Guðmundsdóttur.
405. Reyzluhnífur.
406. Stuttgrefill. (Sjá skýringu við nr. 395 hér að framan). Ólafur Ástgeirsson smiður frá Litlabæ smíðaði grefilinn og gaf hann Byggðarsafninu. Báða greflana smíðaði hann fyrir atbeina Eyjólfs Gíslasonar fyrrv. skipstjóra á Bessastöðum hér í bæ.
407. Súlukeppur. Þeir voru notaðir til þess að rota súluunga á bæli (súlubæli). Súlukeppirnir voru yfirleitt gildari og þyngri en fýlakeppir, því að högg þeirra þurfti að vera þyngra.
408. Súlukeppur með járnhólki. Hólkurinn var hafður á keppnum til þess að þyngja hann, svo að högg hans yrði meira. Keppól heitir bandið eða ólin, sem er fest við endann á keppnum. Henni er brugðið upp á úlnliðinn, þegar keppurinn er notaður.
409. Svartfuglasnara. Þær voru notaðar hér í Vestmannaeyjum frá ómunatíð fram til ársins 1912 að mér er tjáð. Svartfuglinn var snaraður, þegar hann var einna spakastur og lá sem fastast á egginu eða um það bil, sem egginu var klakið út. Þá voru nálægt 9 vikur af sumri.
Lykkjunni var laumað um háls fuglsins, þar sem hann stóð eða lá á bergsyllunni.
Ólafur Ástgeirsson smíðaði snöruna að tilstuðlan Eyjólfs Gíslasonar á Bessastöðum, en þeir þekktu báðir vel þetta veiðitæki frá uppvaxtarárum sínum hér í Eyjum.
410. Bókaspjöld. Spjöld af verzlunarbókum Gísla J Johnsen, Edinborgarverzlunarinnar. Spjöldin eru sett gullnu letri. Þessi spjöld gaf kaupmaðurinn sjálfur Byggðarsafninu nokkrum árum fyrir fráfall sitt. Þegar G.J.J. tók að nota lausblaðabækur við verzlun sína, voru þær óþekktar hér í Vestmannaeyjum. Það sanna okkur verzlunarbækur annarra fyrirtækja hér, — verzlunarbækurnar, sem geymdar eru á Byggðarsafni Vestmannaeyja.
411. Bókhaldsbœkur Brydeverzlunarinnar, Austurbúðarinnar í Vestmannaeyjum. Elztu bækurnar eru frá miðri 19. öld, — frá þeim árum, þegar Brydarnir keyptu eignir einokunarverzlunarinnar hér og hófu rekstur hennar (1844). Þessar bækur geyma nöfn fjölda bænda í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu um tugi ára og svo auðvitað nöfn Eyjamanna, en allt þetta fólk hafði reikning við Brydeverzlunina, þar sem engir peningar voru í umferð hjá öllum þorra almennings í landinu. Bókhaldsbækurnar gaf Einar Sigurðsson Byggðarsafninu, þegar hann keypti hús, lóðir og lendur Austurbúðarinnar.
412. Bókhaldsbækur Kaupfélagsins Fram. Þessar bækur gaf Einar
Sigurðsson einnig Byggðarsafninu, þegar hann keypti hin gömlu verzlunarhús vestanvið Skansinn, þar sem Kf. Fram var rekið, eftir að Brydeverzlunin hætti störfum.
Skrá yfir allar verzlunarbækur Byggðarsafnsins verður birt síðar.
413. Kjöthögg úr kjötbúð (matvörubúð) Ísfélags Vestmannaeyja, en kjötbúð sína rak fyrirtækið frá árinu 1910 til ársins 1949 í húsi sínu við Strandveg. Á þessu kjöthöggi var allt sölukjöt Ísfélagsins höggið í spað um leið og afgreiðslan fór fram. Það var áður en kjötsagir komu til sögunnar.
414. Kjötöxi úr kjötbúð (matvörubúð) Ísfélags Vestmannaeyja við Strandveg. Með öxi þessari var kjötið höggið í spað á kjöthögginu.
415. Kornreka. Hún er mjög gömul, sprungin og spengd. Hún mun hafa verið notuð við sölu mjölkornsins á kornloftinu meginhluta þess tíma, sem Brydarnir ráku einokunarverzlun sína hér í Eyjum (1844— 1910). Allt korn var flutt til landsins ómalað, líka til Eyja, og var því mokað í poka eða önnur kornílát kaupendanna með reku þessari þarna á Kornloftinu vestan við Skansinn.
Rekan fannst á Austurbúðarloftinu, þegar Einar Sigurðsson keypti verzlunarhúsið (1940) og gaf hann Byggðarsafninu þennan merka grip.
416. Krikkja úr stafni hins danska verzlunarskips einokunarkaupmannsins, sem strandaði við Fremra-Básaskerið í Vestmannaeyjahöfn sumarið 1711 samkv. frásögn þriggja íslenzkra annála. (Sjá grein um atburð þennan hér í Bliki nú).
417. Peningakassi (búðarkassi) úr Verzlun Brynjúlfs Sigfússonar að Kirkjuvegi 21 hér í bæ.
Gefendur: Ekkja Brynjúlfs og börn, þegar þau fluttu héðan.
418. Peningakassi (búðarkassi). Þennan búðarkassa átti Verzlunarfélag Vestmannaeyja við Njarðarstíg. Það stofnaði Helgi Benediktsson, kaupmaður, o.fl. árið 1920. H.B. fyrrum verzlunarstjóri Verzlunarfélagsins, gaf Byggðarsafninu búðarkassann.
419. Ritvél. Þessa ritvél átti og notaði Georg kaupmaður Gíslason um tugi ára. Hún er af þeirri tegund, sem einna fyrst var keypt til Vestmannaeyja.
420. Ritvél. Þessi ritvél var notuð hér á skrifstofu tollgæzlunnar um langt árabil. Óvíst er um aldur hennar.
421. Ritvél. Þessa ritvél átti Lifrarsamlag Vestmannaeyja um fjóra tugi ára frá stofnun þess árið 1932. Bjarni skrifstofumaður Jónsson á Svalbarða notaði hana t.d. öll þau ár, sem hann var starfsmaður þess á skrifstofunni.
422. Ritvél. Eftir því sem næst
verður komizt, þá er þetta fyrsta
ritvélin, sem keypt er til Vestmannaeyja. Gísli J. Johnsen, kaupmaður
og útgerðarmaður, keypti hana og
notaði mörg ár í skrifstofu sinni,
skrifstofu Edinborgarverzlunar. Hann
handskrifaði öll sín verzlunarbréf
fyrstu ár sín í verzlunarrekstrinum.
Síðasta verzlunarbréfið handskrifaði
hann á aðfangadag jóla 1909. En 4.
janúar 1910 skrifaði hann fyrsta
verzlunarbréf sitt á ritvél.
Þessi ritvél fannst í einu af húsum Edinborgarverzlunarinnar (sálugu) fyrir nokkrum árum.
423. Skansinn. Líkan af virkinu
með Verzlunarhúsunum.
Söguleg drög: Eftir að þýzku Hansakaupmennirnir höfðu náð algjöru valdi yfir verzluninni í Björgvin í Noregi og þokað enskum kaupmönnum þar frá öllum viðskiptum við Björgvinjarbúa, leituðu Englendingar á aðrar slóðir, t.d. til Íslands, og efldu verzlun sína hér á landi, ekki sízt í Vestmannaeyjum. Það var á 15. og 16. öld.
Þegar tímar liðu, sá danska konungsvaldið ofsjónum yfir þeim gróða, sem Englendingar höfðu af þessum viðskiptum, ekki sízt við Vestmannaeyinga og sunnlenzka bændur, sem þar lágu við á vertíðum og veiddu mikinn fisk handa heimilum sínum til framfærslu og bjargar. Einnig ráku Englendingar sjálfir útgerð frá Vestmannaeyjum. Þeir áttu þar hús og báta á miðöldum.
Árið 1552 var verzlunin við Vestmannaeyinga fyrst einokuð. Það ár lénti eða leigði kóngur borgarstjórninni í Kaupmannahöfn Vestmannaeyjar með öllum skyldum og sköttum fyrir 200 ríkisdala árlega leigu. Það var upphaf hinnar dönsku einokunarverzlunar á Íslandi.
Næstu 50 árin liðu hér með linnulitlum ófrið við Englendingana, sem ógjarnan vildu láta skerða verzlunaraðstöðu sína við Eyjamenn og útgerð sína í Vestmannaeyjum.
Þegar leið á 16. öldina harðnaði þessi deila. Þá var fyrirskipuð virkisgerð í Vestmannaeyjum.
Verzlunarhúsin dönsku voru frá upphafi byggð við utanverðan voginn í Vestmannaeyjum, sunnan vert við mynni hans. Þau nefndust þá
De kongelige Majestatiske Danske Huse paa Vestpenöe. Á Kornhólshæð sunnan við vogsmynnið í námunda við verzlunarhúsið skyldi virkið gert til varnar húseignunum og danskri verzlunaraðstöðu.
Elztu heimildir um virkisgerð í Vestmannaeyjum eru frá árinu 1586. Þá um vorið sendi danska konungsvaldið heim til Eyja með verzlunarskipinu kunnan liðsforingja í danska hernum, Hans Holts að nafni. Honum var falið að byggja eða láta byggja virki „paa Vestpanöe“, við utanverða höfnina að sunnan verðu og koma þar fyrir „fallstykkjum“ til þess m.a. að verjast ásókn Englendinga þar um öll verzlunarviðskipti og aðstöðu til fiskveiða.
Danski liðsforinginn hafði með sér tilskipan til Vestmannaeyjabænda, þar sem þeim var boðið að vinna að virkisgerðinni í þegnskylduvinnu. Látið var í veðri vaka, að vitneskjan um sjóræningja á norðanverðu Atlantshafinu réttlætti m.a. virkisgerðina og tilskipanina um þegnskylduvinnu Eyjabænda og búaliðs við hana.
Vitneskja afríkanskra sjóræningja um virki þetta olli því, að þeir áræddu ekki að sigla skipum sínum undir eins inn á ytri höfnina í Vestmannaeyjum 17. júlí 1627, þegar þeir komu þangað til rána. Þeir gengu heldur á land á sunnanverðri Heimaey og komust þannig aftan að virki þessu, ef svo mætti orða það. Þannig tókst þeim að gera virkið óvirkt án þess að bíða tjón af.
Þrem árum eftir Tyrkjaránið eða 1630 hófst virkisgerð að nýju í Vestmannaeyjum. Þá hófst bygging Skansins í Eyjum. Virkisgerðin stóð yfir næstu átta árin. Þannig eru elztu hleðslur Skansins gjörðar á árunum 1630—1638. Síðar var virkið aukið og endurbætt sökum hræðslu við sjóræningja fyrst og fremst. Sex fallbyssur („fallstykki“) voru þar á veggjum, þá flestar voru.
Þegar verzlunarhúsin voru endurreist eftir ræningjabrunann 17. júlí 1627, voru þau staðsett þannig, að virkisveggirnir fullgerðir umlykju þau.
Árið eftir að lokið var virkisgerðinni eða 1639 var hinn frægi Jón Ólafsson Indíafari skipaður skytta á Skansinum í Vestmannaeyjum. Hann kennir þar Eyjamönnum notkun vopna samkvæmt tilskipan konungs.
Og svo liðu tvær einokunaraldir í Vestmannaeyjum.
Árið 1838 keypti Jens Jakob (Bogason) Benediktsen frá Staðarfelli Garðsverzlun í Vestmannaeyjum, eins og hún var kölluð í daglegu tali fólksins, og rak hana til dauðadags 14. júní 1842. Jens kaupmaður var sonur Boga Benediktssonar hins sögufróða kaupmanns í Stykkishólmi. Jens kaupmaður lézt í Vestmannaeyjum á leið sinni frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur.
Húsfreyjan kunna á Bessastöðum frú Ingibjörg Jónsdóttir, móðir Gríms skálds, getur þessa fráfalls kaupmannsins í einu af bréfum sínum til bróður síns, Gríms amtmanns. „.. Nafnkenndir hafa dáið ... kaupmaður Jens Benediktsson. Komst hann ekki lengra en í Vestmannaeyjar“ (dags. 31. júlí 1842).
Fráfall Jens kaupmanns leiddi til þess, að einokunarréttindin í Vestmannaeyjum voru seld á uppboði úti í Kaupmannahöfn og þar með húseignir verzlunarinnar. Þá voru gjörðar lýsingar á öllum verzlunarhúsunum. svo að „lysthafendur“ vissu svona hér um bil, hvað þeir byðu í á uppboðinu. Með millilið komust Brydarnir hér til valda og gerðust hér einokunarkaupmenn fram yfir aldamótin síðustu, fyrst Niels N. Bryde frá 1844—1879, og síðan sonur hans, Johann Pétur Thorkelin Bryde, frá 1879 til dauðadags 1910.
Húsin á líkaninu eru þessi: Húsið næst á því til vinstri er sölubúðin, byggð 1786, með íbúð í vesturenda.
Sunnan við hana stendur vörugeymsluhúsið (pakkhúsið), einnig með íbúð í vesturenda. Milli húsanna liggur vegurinn austur um virkið og voru hliðin jafnan ramlega lokuð um nætur.
Langa húsið vestan við virkið er Kornloftið svo kallaða. Þar undir súð geymdi verzlunin allt korn, sem alltaf var flutt til landsins ómalað. Hús þetta var byggt 1830 og því næstelzta hús í Vestmannaeyjum.
Fyrir vestan Kornloftið er brauðgerðarhús verzlunarinnar með brauðbúð, vindmyllu og íbúð í vesturenda. Þar bjó bakarameistarinn.
Lengst til hægri, vestast á lóðinni, eru þrjú hús. Miðhúsið er Kaðalhús svokallaða. Þar voru geymdir kaðlar, sem keyptir voru á þilskipin í Eyjum, og svo færavara (handfæri) o.fl. þvílíkt. Hin húsin eru Salthúsið og Fiskhúsið. Yfir þessi þrjú hús var Kumbaldi byggður mörgum árum síðar.
Næst á miðju líkaninu er lifrarbræðsluhúsið. Í jarðkofa þessum var öll lifur brædd um langan aldur í stórum pottum. Stór lifrarkeröld og grútarílát stóðu við veggi bræðsluhússins. Sunnan við bræðsluhúsið er kolageymslan.
Mjög algengt var það, að konur tækju við vörunum, þegar þeim var skipað upp, og bæru á börum (handbörum) á geymslustað. Þess vegna höfum við konur tvær á líkaninu með börur á milli sín. Ofanbyggjarar komu gjarnan með hest eða hesta á verzlunarstað og reiddu vöruna upp fyrir hraun. Hestalest sést á líkaninu.
Bryggja var þarna við voginn (innan við hafnarmynnið), gjörð af náttúrunnar hendi, klapparhali sléttaður ofan með kalk- eða sementsblöndu. — Austurbúðarbryggjan svokallaða.
Eilítið útieldhús var gjört í veggjarbrúninni austan við Kornloftið. Útieldhús þetta notuðu íslenzku fjölskyldurnar, sem voru þarna fastir starfsmenn í þjónustu verzlunarinnar, í sláturtíðinni á haustin.
Líkanið gjörðu þeir Eggert Guðmundsson listmálari, og Edven Aage Nielsen danskur maður og líkanasmiður, búsettur í Reykjavík. Verk þetta inntu þeir af hendi fyrir Byggðarsafn Vestmannaeyja árið 1964. Líkanið kostaði kr. 42.500,00. Andvirðið greiddu fyrirtæki og einstaklingar í Eyjum við almenn samskot.
424. Skipskjölur, — hluti úr skipskili. Danskt verzlunarskip strandaði
við Fremra-Básasker sumarið 1711,
samkv. frásögn þriggja íslenzkra
annála. Máttarviðir þess voru grafnir upp úr hafnarbotninum eftir 227 ár. Hér er varðveittur bútur af kili þess.
425. Sponstappanafar. Þetta tæki
fannst í jörðu austur á Skansi árið
1970. Þessi nafar var notaður við
hina dönsku einokunarverzlun á
Skansi, Austurbúðina, til að ná
tré- eða korktöppum úr sponsgötum á
sírópstunnum, öl- og víntunnum
o.s.frv., sem fluttust í verzlun einokunarkaupmannsins. Varan var síðan
seld í smáskömmtum, lögurinn tappaður af tunnu. — Gefandi: Rögnvaldur Bjarnason, fyrrv. lögregluþjónn, en sonur hans fann tæki þetta.
426. Steinn, móbergssteinn úr vegg Austurbúðarbyggingarinnar,
sem byggð var árið 1880. Verzlunarhúsið var allt hlaðið upp úr móbergssteinum svipuðum þessum.
Móbergssteinarnir voru höggnir norðan við Heimaklett í svokölluðum Hettugrjótum, sem þarna eru vestan við Hettusand. Tilhöggnir vori steinarnir bornir vestur á Eiði og fluttir á bát eða bátum yfir Botninn að Austurbúðarbryggjunni.
Steinn þessi sýnir lögun og stæn hleðslusteinanna í Austurbúðarbyggingunni.