Blik 1974/Elzta v/s „Súlan“
Elzta v/s „Súlan“
Allir Íslendingar, sem komnir eru til vits og ára, hafa heyrt nefnda „Súluna“, á hverjum tíma mikið aflaskip, sem gert er út frá Akureyri.
Hér birti ég nokkur drög að sögu þess skips, sem fyrst fékk þetta nafn. Konráð Hjálmarsson, kaupmaður og útgerðarmaður frá Brekku í Mjóafirði, lét smíða skip þetta í Noregi á árunum 1901 og 1902. Skipið var smíðað í Gausvík á Hinney í Norður-Noregi og afhent Konráði árið 1902. Það hlaut nafnið „Súlan“ eftir kunnu fjalli við sunnanverðan Mjóafjörð. „Súlan“ var upprunalega 116 smálestir með seglum, rá og reiða og líka knúin lítilli gufuvél. Fyrir vélaraflinu einu gekk skipið 6 mílur.
Fyrsti skipstjóri á „Súlunni“ var Ebenesar Ebenesarson, Önfirðingur að uppruna, er okkur tjáð. Hann sigldi henni heim frá Noregi 1902. Næstu þrjú árin gerði Konráð Hjálmarsson „Súluna“ út á þorskveiðar. Þeim var þannig hagað, að skipinu fylgdu svo kallaðar „doríur“, smákænur knúðar árum, - já, sumir segja gaflkænur. Einn eða tveir menn réru á hverri kænu út frá skipinu (móðurskipinu) og stunduðu handfæra- eða línuveiðar. Aflanum var kastað upp í móðurskipið. Þar var gert að honum og hann saltaður.
Árið 1905 seldi Konráð Hjálmarsson „Súluna“. Kaupendur voru bræðurnir Þórarinn og Ottó Tuliníus. Þeir gerðu skipið út frá Akureyri.
Á árunum 1905-1911 var sami skipstjórinn með „Súluna“, norskur maður, sem gat sér góðan orðstír í skipstjórastarfi. Hann hét Vilund.
Næstu 15 árin (1911-1926) var hinn kunni síldarskipstjóri, Sigurður Samúelsson, með „Súluna“ og gat sér frægðarorð fyrir aflasæld.
„Súlan“ var eitthvert allra fyrsta íslenzka skipið, sem stundaði síldveiðar með herpinót. Á síldveiðunum 1920 setti „Súlan“ nýtt aflamet. Veiddi hún 11600 mál og tunnur.
Um langt skeið var hún notuð til vöruflutninga milli Reykjavíkur og Norðurlandshafna eða milli Norðurlands og Austfjarða. Þannig var skipið notað á haustin og veturna, eftir að síldveiðum lauk.
Fertug að aldri, eða þar um bil, var „Súlan“ smíðuð upp og var um langt árabil eitt allra nafnkunnasta happaskip Íslendinga fyrir Norðurlandi.
Akureyringar hafa haldið þessu skipsheiti við lýði. Nú eiga einhverjir þar fallegt stálskip, sem heitir þessu nafni. Mér er tjáð, að það sé um 430 smálestir að stærð og er nú eitt allra mesta happaskip íslenzka sjávarútvegsins.