Blik 1974/Aðeins til að minna á mæta konu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. desember 2009 kl. 14:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. desember 2009 kl. 14:38 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit 1974 ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON ==Aðeins til að minna á mæta konu== ==Kristín Óladóttir== <br> <br> [[Kristín Ó...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON


Aðeins til að minna á mæta konu

Kristín Óladóttir



Kristín Óladóttir heitir öldruð kona og mæt, mótuð af ýmsu mótdrægu, sem mætt hefur henni á lífsleiðinni. Hún hefur legið rúmföst á Borgarsjúkrahúsinu síðan eldgosið brauzt út á Heimaey. Áður hafði hún legið um árabil í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja.
Frú Kristín Óladóttir er sem sé Vestmannaeyingur, bjó þar um tugi ára; giftist og ól þar börn og buru.
Frú Kristín Óladóttir fæddist að Þinghól í Mjóafirði eystra árið 1889. Foreldrar hennar voru Óli Kristján Þorvarðarson frá Kalastöðum á Hvalfjarðarströnd og kona hans Jóhanna Karelsdóttir af Eyrarbakka.
Óli Kristján var ársmaður hjá Konráði kaupmanni og útgerðarmanni Hjálmarssyni í Mjóafirði, hinum kunna athafnamanni þar, þegar þau Jóhanna kynntust. En hún var þá vinnukona hjá séra Þorsteini Halldórssyni, sóknarpresti þeirra Mjófirðinga.
Frú Kristín Óladóttir var hálfsystir Páls Eggerts Ólasonar, hins landskunna fræðimanns og prófessors, sem dvaldist um tíma hjá föður sínum og stjúpu í Mjóafirði, áður en hann fluttist suður að Breiðabólstað í Fljótshlíð til séra Eggerts Pálssonar, sóknarprests þar, og mad. Guðrúnar Hermannsdóttur sýslumanns Jónssonar, en þessi mætu prestshjón ólu drenginn upp og kostuðu hann til náms.
Páll Eggert var 6 árum eldri en Kristín hálfsystir hans.
Hlýhugur og vinsemd var ávallt ríkjandi milli þeirra systkinanna, meðan þau lifðu bæði.
Fyrir og um aldamótin bjuggu foreldrar frú Kristínar á Melum í Mjóafirði, sem var timburhús á hlöðnum steinkjallara niðri við sjóinn spölkorn utan við Kolableikseyrina á suðurströnd Mjóafjarðar utanvert við Asknes, þar sem Norðmaðurinn Ellefsen rak hvalveiðistöð sína á fyrsta tugi aldarinnar.
Og þegar hér er komið sögu, er Páll Eggert þarna austurfrá og hefur á hendi forustu í leikjum systkina sinna og annarra barna þarna í Brekkuþorpi, en svo nefnum við jafnan þéttbýlið á norðurströnd fjarðarins, Mjófirðingarnir.
Alsystkini frú Kristínar og hálfsystkini Páls Eggerts voru Karólína, Ögmundur og Rannveig Ólabörn Þorvarðarsonar og frú Jóhönnu.
Og við frú Kristín Óladóttir rifjum upp gömul minni úr Mjóafirði. Við þekktum þar sama fólkið, þó að aldursmunur sé nokkur á okkur. Ég er 10 árum yngri og fæddist að Melum, þar sem foreldrar hennar bjuggu leigjendur um nokkurt skeið eins og foreldrar mínir. Það var fyrir og um aldamótin.
Á Kolableikseyrinni bjó Sigvaldi Bergsteinsson, aldraður ekkjumaður. Hann var þarna einn í húsi með fósturson sinn, Óskar Einarsson að nafni. Sigvaldi stundaði sjó einn á skektu sinni og lagði línu sína oftast í fjörðinn.
Mjóifjörður var þá furðu fiskisæll enda djúpur og liggur vel við fiskgöngum, sérstaklega að vorinu. Einnig gekk þá síld í fjörðinn hvert sumar, svo að mikið veiddist þar í net og lása.
Þegar Óskar fóstursonur Sigvalda stálpaðist, réri hann á skektunni með fóstra sínum, en engar sögur fóru af atorku hans við fiskveiðarnar.
Og bið ég frú Kristínu að tjá mér svo sem eina æskuminningu sína frá uppvaxtarárunum í Mjóafirði.

„Það væri þá helzt róðurinn með honum Óskari fóstursyni Sigvalda og honum Pétri beljaka,“ segir hún og brosir með glettnislegu augnatilliti. - Ég tek því boði fegins hugar.
Kristín Óladóttir hafði róið á skektu með föður sínum frá blárri bernsku. Með þeim réri Páll Eggert bróðir hennar um tíma, meðan hann dvaldist hjá föður sínum og stjúpu í Mjóafirði. Kristín var þess vegna vön árum, línulagningu og línudrætti frá bernskuárum sínum og mörgu öðru, sem til greina kom við þá atvinnu, t.d. línubeitingu. Hún hafði líka lært að „aka seglum eftir vindi“, strengja kló og stýra fleyi.
Og nú átti faðir hennar beitta 10 strengi af línu, en hann sjálfur lasinn og gat ekki róið. Þó var nauðsynlegt að afbeita línuna með því að leggja hana í sjó, þó ekki væri nema innfjarðar.
Þetta var árið 1904 og var þá Kristín á Melum 15 ára. Hún réð til sín tvo háseta, þá Óskar fósturson Sigvalda, en hann var ári eldri en Kristín, og Pétur beljaka, vinnupilt þarna á næsta leitinu. Hann var stór og sterkur, enda raumur að vexti, hár og digur.
Þau réru nú sem leið liggur út Mjóafjörðinn, út með suðurströndinni. Það tók sinn tíma, því að fjörðurinn er langur. Og út úr fjarðarmynninu vildi þessi óvenjulegi formaður komast, áður en lagning línunnar hæfist. Þau réru út á mið, sem kallað er Götuhjalli, þ.e. Norðfjarðarnípa við Götuhjalla á Búlandsnesi í Norðfirði.
Þarna lagði Kristín línuna, sem voru tvö bjóð eða 10 strengir, og hásetarnir, Óskar og Pétur raumur, réru hana út. Síðan afréð hinn kvenlegi formaður, að línan skyldi liggja í tvo tíma. Én áður en þeir liðu, tók að vinda af austri og gera ylgju í sjóinn, svo að hyggilegast þótti að stytta yfirlegutímann.
Brátt tók Pétur beljaki að gerast sjóveikur, svo að máttur hans fór þverrandi. Hann kvaðst ekki geta hjálpað til við línudráttinn sökum þess, hve máttfarinn hann væri. Hann staulaðist aftur í skut á skektunni og lagðist þar fyrir. Á leiðinni aftur í bátinn hrasaði hann og féll á siglutréð, svo að það brotnaði.
Kristín hóf svo línudráttinn og Óskar reyndi að andæfa eftir megni. Brátt stóð línan af stafni fram, því að andófsróðurinn reyndist kraftlaus. Hún hvatti Óskar til þess að taka á og róa kaskan. En hann var grútmáttlaus við árarnar. Og bráðlega tók hann að gráta, svo að tárin runnu. En Kristín togaði inn línuna og stritaði af lífs- og sálarkröftum. Pétur beljaki lá í skutnum sem dauður væri. Óskar hélt áfram, damlaði og damlaði kraftlaust og grátandi.
Loks slitnaði línan. Þá voru um það bil 4 strengir ódregnir.
Kristín rauk til og settist undir árar. Hún réri í átt að endabólinu eins og kraftarnir frekast leyfðu. Og bólinu náði hún upp í bátinn. Svo tók hún að draga inn bólfærið. Ekki var örgrannt, að eilítið lifnaði yfir Óskari háseta við þessi átök Kristínar. Hins vegar svaf Pétur beljaki í skutnum værum blundi.
Svo dró Kristín línuna, enda allt léttara fyrst í stað, þar sem undan vindi var að draga. - Þegar hún hafði dregið á að gizka tvo strengi, þyngdist bráðlega drátturinn. Í ljós kom, að línan var föst í botni. Nú stritaði Kristín og tók á af öllum kröftum. Loks losnaði um línuna. Hún hafði slitnað. Þarna töpuðust tveir strengir eða svo.
Nú var brúsandi leiði í land. En siglutréð brotið, svo að ekki varð siglt að öllu óbreyttu. Þá skreiddist beljakinn fram úr skutnum og aðstoðaði Kristínu við að binda spelkur við siglutréð. Svo var það reist og segl þanin til heimferðar. Síðan sigldu þau ljúfan byr til hafnar á Kolableikseyri.
Í vörinni beið faðir Kristínar, Óli Kristján, og svo Sigvaldi, þegar þau lentu. Körlunum fannst, að þeir hefðu heimt þau öll úr helju, því að hvesst hafði, meðan þau sigldu heim.
Aflinn var rýr, enda mikið af honum farið í sjóinn aftur við línudráttinn.