Blik 1978/Bréf til vinar míns og frænda, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. desember 2009 kl. 15:56 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. desember 2009 kl. 15:56 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit 1978 ==Bréf til vinar míns og frænda== ==Æviþættir og vangaveltur== ::(Síðasti hluti) <br> Þessi frásögn guðfræðingsins og prestsins er í ra...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1978



Bréf til vinar míns og frænda

Æviþættir og vangaveltur

(Síðasti hluti)


Þessi frásögn guðfræðingsins og prestsins er í rauninni bráðfyndin og ekki lítið markverð frá sjónarhóli bindindismannsins, — og segjum trúmannsins í vissum skilningi. — Fáráðlingur eða fáviti, sem hana kynni að lesa, gæti hæglega misskilið hana. Hann gæti ályktað sem svo, að eini vegurinn til þess að finna Krist í lífi sínu og guð föður væri sú að drekka sig fullan í einhverri knæpunni í borginni eða annars staðar, þar sem þessi Bakkusardíki eru starfrækt. Í kirkju væri meinloka að ganga til þess að finna guð og son hans hinn krossfesta. Auðvitað vill guðfræðingurinn og presturinn ekki láta skilja þessi orð sín þannig. Það er ég sannfærður um. En hann segir hér merka sögu af sjálfum sér og góðkunningjanum honum Kölska með hornin, halann og hófana, sem í norskum miðaldakveðskap er kallaður „Grutte gråskjegg“.
Mergurinn málsins er þessi: Góðkunninginn Kölski ásetur sér að freista prestsins, — fá hann til að þjóna Bakkusi bróður sínum að þessu sinni. Hann fer þá ekki með hann séra sinn upp á „ofurhátt fjall“ til þess að sýna honum „öll ríki veraldarinnar og þeirra dýrð“. Ónei, ekki í þetta sinn. — Góðkunninginn hann „Grutte gráskeggur“ klappar klerki á öxlina ofur blíður og brosmildur og talar við hann sannfærandi. Síðan tekur hann klerkinn undir hönd sér. Nú leggur hann á hilluna hinar ljótu nafngiftir, sem hann átti að venjast í ræðum og skrifum klerkanna gömlu. Þær hefur hann iðulega hlustað á og þær hafa farið í taugarnar á honum. Þar er hann nefndur djöfull, skratti, fjandi og hinn svarti satan. Þá man hann einnig hina allra grófustu nafngiftina, sem hefst á a og ekki verður skráð hér. Þá er heldur ekki hlífst við að nefna bústað hans hinu grófasta nafni. Þennan ófögnuð hefur góðkunninginn orðið að umbera eða þola öldum saman án þess að kveinka sér. En nú skulu þau hvimleiðu minni lögð á hilluna, því að nú ríður á að freista prestsins, sigra sál hans og persónuleika.
Og Kölski gamli, öðru nafni Grutte gráskeggur á norrænu máli, leiðir prestinn, bústinn og sigurglaður, inn í eina af kapellum Bakkusar bróður síns, þar sem morgunsólin skín oft svo undurskært við Skúlagötuna, svo sem alþjóð er kunnugt.
„Þarna sérðu glæsileikann,“ segir góðkunninginn blíðum rómi. „Alls þessa skaltu nú fá að njóta í áfengisvímu og vífsfaðmi við dans og dufl, ef þú fellur fram og tilbiður okkur bræðurna á þessari stundu.“ — Og það var eins og við manninn mælt. Prestur gleymdi sjálfum sér og köllun sinni og féll fram. Svo sannarlega lék þá gamli kunninginn við hvern sinn fingur. Sigur hans var tvígildur sökum þess, að í hlut átti sálusorgari fólksins og prestur, guðsþjónn í allri sinni dýrð, og svo rektorsefnið í Skálholti, á biskupssetrinu forna.
Já, var það nokkur furða, þó að Grutte gráskeggur léki á alls oddi?
En svo taka að gerast sérlegir viðburðir. Þegar á kvöldið líður og gervigleðin, duflið og daðrið hefur varað um stundarbil, verður prestur þess var, að eitthvað tekur að vakna og glæðast innra með honum. Guðsneistinn gerir vart við sig. Samvizkan segir til sín. Presturinn uppgötvar, að hann hefur misboðið honum séra sínum hörmulega. Þá er það, sem hann finnur nálægð föðurins og sonar hans, hins krossfesta. Presturinn blygðast sín og þiggur hjálp feðganna á þeirri stundu. Hann skundar sem skjótast heim til sín úr Bakkusardíki „höfuðborgarinnar“. Og hann er styrkari eftir. Næsta dag skrýðist prestur hempu og þjónar við guðþjónustu. Þá verður hann ekki var við þá feðga í kirkjunni. Þessu trúi ég vel. Allt fer þarna fram utan garna. Það þarf vilja, það þarf mátt, það þarf andlegan hita til þess að glæða guðsneistann í sjálfum sér, svo að hann nái að lýsa öðrum, sem skortir hann. Þessi eiginleiki, þessi máttur, er ekki öllum gefinn, sízt þeim, sem vilja þjóna þeim bræðrum annan daginn og svo föðurnum hinn daginn. Taflið er fyrirfram tapað sökum tvískinnungsins í sálarlífinu. — Guð er andi. Neistinn er guðs. — Og ég segi það satt, að ég varð fyrir sárum vonbrigðum, þegar prestastefnan í Skálholti lagði á sínum tíma einskonar blessun sína yfir skrif og skútyrði rektorsins í garð dulfræðilegra starfa spíritista í landinu. Þá tók ég að rifja upp fyrir mér erindi Einars skálds Benediktssonar í kvæðinu Meistari Jón. Erindið er svona:

„Hve margur reis ófús frá könnum og krá,
og kirkjunnar starf tók sem nauðverk.
En helvítið málsvörn máttuga á
hjá meinhægum, jarmandi brauðklerk,
sem lét úti grjót fyrir lífsins auð,
með langdregna orðaprjálið, —
því ritning er hljómlaus, hol og dauð,
ef hjarta les ekki í málið.“

Ýmsir mætir menn urðu til að svara grein rektorsins í Kirkjuritinu. Þær greinar flestar geymi ég í fórum mínum, því að þar er margan gimstein að finna, trúarlegar kenningar og áminningar, sem bornar voru á borð fyrir almenning í hita dagsins og umræðnanna, minni eigin trú og skoðunum eða lífsviðhorfum til framdráttar og staðfestu. Þá gimsteina hefði ég líklega aldrei eignazt, ef rektorinn hefði ekki tekið á honum stóra sínum og fellt hinn harða dóm yfir íslenzkum sálarrannsóknum, dultrúarlegum fræðum og hugsjónastefnum, (idealisma), sem hann vinnur þó sjálfur að með skólastarfi sínu í Skálholti. Gimsteina þessa á ég því honum að þakka, — og líka þá staðreynd, hversu maðurinn, mannskepnan, getur stundum verið óskiljanlegur, jafnvel sjálfum sér.
Safnaðarstjóri sértrúarflokks hér landi skrifar langa grein í íslenzkt dagblað um trúarlegar kenningar. Þar lesum við m.a. þessa klausu: „Hinir dauðu sofa svefni dauðans og vita ekki neitt frá andlátinu og þar til þeir við upprisuna heyra raust mannssonarins, því að sá tími kemur, er allir þeir, sem í gröfunum eru munu heyra raust hans. ... Allt þetta er sjálfsagt og eðlilegt, þar sen dauðinn er líkastur svefni, og um enga meðvitund er að ræða allt frá andlátinu fram að upprisunni ...“
Þetta er sem sé kenningin um grafarsvefninn langa. Þegar við hugleiðum þessa kenningu annars vegar og niðurstöður sálarrannsóknarmanna um lífið eftir dauðann (jarðneska dauðann) hins vegar, verður okkur ljóst, hversu mjög ber á milli um það að skilja til hlítar táknmál hinnar helgu bókar. Hér má vissulega minna á orð meistarans Jesú Krists: „Í húsi föður míns eru mörg hýbýli (margar vistarverur).“ Þá spyr ég, leikmaðurinn fáfróði í guðfræði og kristilegum fræðum yfirleitt: Standa þá þessi hýbýli hins blessaða himnaföður galtóm, þar til upprisan mikla á sér stað, þar til grafarsvefninn mikli verður rofinn, þá að öllum líkindum eftir milljónir ára? Hver skyldi þá vera tilgangur þessarar löngu nætur? M.a. stöðvast allur þroskaferill mannssálarinnar. Hver skyldi hugsjónin vera? Hvar skyldi botninn vera að finna?
Minna má á, að Kristur sagði á krossinum við hinn iðrandi syndara:
„Sannlega segi ég þér, í dag skaltu vera með mér í Paradís.“ — Þarna fullyrðir Jesús, að þeir tveir öðlist samvistir eftir andlátið, a.m.k. um stundarsakir. Hvernig mundi safnaðarstjórinn vilja skýra þessi orð Krists á krossinum?
Ég var hvergi þess var, að safnaðarstjóranum væri svarað í blöðum. Það finnst mér rétt. Við eigum ekki að vera að kýta eða deila um trúarlegar kenningar. En ég velti vöngum, veg og met og álykta síðan eftir þroska mínum og skilningi. Það er okkur Íslendingum eiginlegt, líka um trúarlegar kenningar.
Vel gæti ég trúað því, að mannbætandi trúarsöfnuðir, eins og söfnuður sá, sem greinarhöfundur annast forustu fyrir, geti á dulmáli Krists kallast vistarvera eða híbýli þessa heims í „húsi föður míns“. Batnandi mönnum er bezt að lifa og mannbæturnar eru fyrir öllu.
Þú æskir þess, vinur minn og frændi, að ég láti þér í té trúarskoðanir mínar eða trúarlega sannfæringu. Ég hefi jafnan verið tregur til að tjá mig í þeim efnum, — viljað eiga þau mál út af fyrir mig, enda eru þau að ýmsu leyti tilfinningamál mín, og þau hefi ég oftast viljað eiga einn eða þá með konunni minni. Þó verð ég að viðurkenna það, að ég finn nú orðið lát á mér í þeim efnum og þá bæði gagnvart trúmálunum og ástarmálunum. Ef til vill getur opinber játning mín í þessum efnum orðið öðrum til íhugunar og ánægju, stundlegrar hjálpar eða varanlegs þroska. Þá hefi ég svo sannarlega náð tilgangi mínum.
Nokkur sannleikur er í þeirri játningu minni fólginn, að hin stóryrta grein guðfræðingsins og rektorsins í Skálholti hafi aukið kjark minn til þess að láta í ljós trúarlegar skoðanir mínar og lífsviðhorf í sem stytztum dráttum. Jafnframt undrast ég, hversu mikið getur á milli borið á þessu sviði hjá okkur tveim, sem báðir völdu sér að lífsstarfi sama verkefnið, þ.e. skólastarf, — fræðslustarf og uppeldismál æskulýðsins.
Ég þykist hafa leitað og knúið á, eins og það er orðað í helgri bók, og niðurstöðurnar eru þessar í fáum dráttum:
Guð er hinn mikli, eilífi andi og hinn voldugi máttur kærleikans í allri tilveru mannsins. Mannsálin er guðlegs eðlis, þrátt fyrir alla vankantana, agnúana og þroskaleysið. Þess vegna er mannssálin eilíf, hefur verið til frá eilífð í einhverri mynd og á mismunandi þroskastigi. Hún á einnig eilíft líf framundan. Hún hefur frá upphafi verið að þróast og þroskast, vaxið frá frumlegri tilveru til háþróaðrar andlegrar tilveru í kærleika með öðrum guðlegum eiginleikum. Þar eru hin andlegu mikilmenni mannkynsins, hátindar mannlegrar tilveru, gleggstu og óvéfengjanlegustu sannanirnar. Mannssálirnar eiga sér þannig eilífa fortilveru, eilíft þróunarskeið að baki. Og látlaus endurfæðing hefur átt sér stað, — líf, dauði, endurfæðing og aftur dauði, og svo endurfæðing á ný á þessari jörð og e.t.v. á milljónum annarra hnatta. Hula er yfir öllu því lögmáli lífsins og guðdómsins. Leitin að sannleikanum og staðreyndunum á þessu víðfeðma sviði lífsins og tilverunnar er okkur mönnunum hulin og á að vera okkur leiðin til vaxandi þroska og dýpri skilnings á öllu því, sem guðs er. — Já, eitt af leyndarmálum allrar tilverunnar er heimildin á því, að fá órækar sannanir fyrir hinum mikilvægustu atriðum í lífi okkar mannanna og allri tilveru. Ef við hefðum þær sannanir allar í hendi okkar, kæmi naumast hugtakið trú til greina. Einn hinn gildasti þáttur lögmálsins mikla er sá, að mannssálin sé ætíð leitandi, íhugandi, hugsandi og sækjandi fram til sannleikans. Það er vegurinn fram og upp til aukins þroska og mannlegrar fullkomnunar. — Já, ef við hefðum órækar sannanir fyrir fortilveru mannssálarinnar í hendi okkar, guðsneistans í manninum og svo framhaldslífsins eftir líkamsdauðann á þessari jörð, þá þyrfti maðurinn naumast að ala með sér trú og von. Öll leit hans á þessu sviði væri þá þarflaus, hugtakið trú naumast til og þróunar- og þroskaskilyrði mannssálarinnar stórlega skert. „Leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða,“ sagði meistarinn. Mikilvæg er sú ábending í fáum orðum.
Og við finnum býsna margar samlífssálir okkar í þessari tilveru, sem fordæma viðleitni manna til að knýja á og leita sannleikans samkvæmt boði Krists. Í þeim hópi virðast einnig vera íslenzkir prestar og skólamenn. Það eru mér undur og ásækið íhugunarefni.
Langt er síðan kenningin indverska um fortilveru okkar mannanna eða mannssálarinnar vakti mig til íhugunar og hvatti til að leita að rökum fyrir þeirri fullyrðingu sumra kunnustu vitmanna þjóðanna á sviði bókmennta og mannlegra fræða, svo sem sálfræði og trúspeki. Án þessarar kenningar fæ ég ekki skilið, hvernig mannssálin geti verið guðlegs eðlis, en það er hún þrátt fyrir breiskleika okkar mannanna, veikleika og vanþroska. —
Margt er það í sígildum bókmenntum, verkum hinna þekktustu 0g viðurkenndustu vitmanna og rithöfunda mannkynsins fyrr og síðar, sem fjalla um þessi fræði og sanna okkur niðurstöður þessara hugsuða, svo að mark er á takandi.
Við erum sammála um það, að kærleikurinn sé kjarninn í allri tilveru mannsins og guð sé kærleikur. Já, þetta höfum við rökrætt og um þetta erum við á eitt sáttir. — Kærleikurinn, sem býr og þróast með mannlegri sál, er hin gildasta sönnun þess, að mannssálin er guðlegs eðlis.
Gildur þáttur þessara mannlegu kennda er ástin milli karls og konu. Getur það átt sér stað eða verið staðreynd, að elskendur í fyrri tilveru fái að njóta sömu hamingju í þessu jarðlífi með því að sjá og finna hér hvort annað jafnvel af einskærri tilviljun? Mér er ljúft að trúa því. Þessi hugsun hefur fest rætur innra með mér undanfarna hálfa öld og rúmlega það. En hugleiðingin er eldri. Tuttugu og tveggja ára að aldri hlustaði ég á norskan fræðimann og bókmenntafræðing flytja fyrirlestur um ítalska skáldið Dante (1265-1321) og hinn guðdómlega gleðileik, sem er frægasta verk hans. Síðan hefur mér aldrei horfið úr minni frásögnin um ástarkenndir drengsins (Dante), þegar hann sá yngismeyna Beatrice fyrsta sinni í þessu jarðlífi. Átti þar sér stað endurnýjun eða endurvakning ástarkennda frá fortilveru þeirra beggja? Ekki var fræðimaðurinn fjarri þeirri hugsun.
Ég vil ekki nefna nöfn til þess að eiga ekki á hættu að særa einhvern eða hneyksla, en það ber við, að við lesum frásagnir í íslenzkum bókum, sem fjalla um þjóðleg fræði, ævistörf manna og líf og þá líka um ástir hjóna. Þá hvarflar stundum að mér frásögnin um ástarkenndir drengsins ítalska, hans Dante litla átta ára, þegar hann sá hana Beatrice litlu fyrsta sinni, en hún var tveim árum eldri, ef ég man rétt.
Piltur og stúlka bindast órjúfandi ástarböndum á æskuskeiði og sú ást endist í hita og hamingju til hárrar elli. Þessi staðreynd verður ekki skilin til fulls. Á þessu sviði eins og svo ótal mörgum öðrum, sem varða mannlegt líf og mannlegar kenndir, eru hliðin lokuð. En meistarinn mikli bauð að leita og knýja á. Það er skilyrði þess, að hliðin opnist smámsaman með auknum andlegum þroska og glæddum skilningi. Í þessu tilliti eins og svo ótal mörgu öðru verður hver og einn að vera sér um sefa, eins og þar stendur skráð.
Leyndardómur lífshamingjunnar er ekki að taka, hrifsa til sín, heldur að gefa, fórna. Það er til dæmis rauði þráðurinn í hamingjuríku hjónabandi.

„Þitt verðmæti gegnum lífið er fórnin,
en til þess veit eilífðin alein rök.“

Svo kveður Einar skáld Benediktsson.
Þetta lífslögmál gengur okkur mönnunum oft illa að skilja eða átta okkur á.
Sjálfselskan og eigingirnin, sem svo fæðir af sér tillitsleysið, yfirganginn og valdabröltið, eru meindýr mannlífsins. Þessi meindýr eru einnig oftast orsakir þeirrar óhamingju, sem svo algeng er í hjónalífi og veldur skilnaði hjóna og beiskju. Konan á í eðli sínu yfirleitt ríkari eiginleika til að gefa, — fórna. Eigingirnin og sjálfselskan eru ríkari eiginleikar í okkur karlsálunum.
Í Hinum guðdómlega gleðileik sínum notar ítalska skáldið Dante viss dýr til þess að tákna hina mannlífsspillandi eiginleika eða einkenni. Þau vil ég kalla meindýr mannlífsins. Ljónið er fulltrúi hrokans og drottnunargirninnar. Úlfynjan er fulltrúi ágirndarinnar, eigingirninnar, sjálfselskunnar og tillitsleysisins gagnvart samborgurum sínum og meðbræðrum, og þá einnig maka sínum.
Pardusdýrið er í leiknum fulltrúi sérhlífninnar og sællífisins, sem tengist sjálfselskunni og eigingirninni.
Upphaf þess, að maður lætur ástríður og fýsnir eitra líf sitt og svo sinna, ef hann er bundinn öðrum, sem flestir eru, er eigingirnin og sjálfselskan, tillitsleysi og stundum meira og minna stórmennskubrjálæði. Þarna er t.d. að finna upphaf áfengisnautnarinnar og eiturlyfjafýsnanna. Skynsemin er lögð á hilluna. Úlfynjan í mannssálinni tekur völdin samkvæmt skilgreiningu ítalska skáldsins. Maðurinn verður að andlegum þræl.
Hvað les ég sumstaðar á milli línanna í íslenzkum kirkjubókum á Þjóðskjalasafni? Barneign í hjónabandi er árlegur viðburður. Eiginkonan er þjökuð af sífelldum barneignum og basli, látlausu striti í fátækt og skorti á hjálpandi hönd. Eiginmaðurinn er oftast valdur að öllu þessu álagi, sem á konunni hvílir. Hann veldur konu sinni alls þessa. Úlfynjan leikur lausum hala, fulltrúi sjálfselskunnar, eigingirninnar og tillitsleysisins.
Af áhyggjum, of miklu vinnuálagi, basli og þreytu lamast m.a. kynorka eiginkonunnar. Hún er þess vegna ekki nærri alltaf tilkippileg, þegar eiginmaðurinn girnist hana til samfara. Hvað gerist þá. „Kirkjubækur þar um þegja“ og þó tala þær. Allt of oft verður það upp á teningnum, að eiginmaðurinn leitar fullnægingar hjá annarri konu, stundum vinnukonu hjónanna. Hann eignast barn utan hjónabandsins, stundum tvö. Þessa staðreynd lesum við um á „milli línanna“ í kirkjubókunum. Eigingirni og sjálfselska eiginmannsins annars vegar og tillitsleysi hans hins vegar ríða húsum. Úlfynjan í mannssálinni er alls ráðandi.
Meindýr mannlífsins láta víða í sér kræla.
Ekki eru ýkja margir mánuðir liðnir síðan eitt íslenzku dagblaðanna færði lesendum sínum þær fréttir, að þýzkar eiginkonur fullyrtu, að smágjafir til þeirra frá eiginmönnunum bættu alveg stórlega hjónabandið. Þessu trúi ég vel. Þar sem eiginkonan er hinn litli og áhrifalausi aðili í daglegri meðferð eiginmannsins á fjármunum þeirra beggja, gleðst hún að sjálfsögðu yfir hverjum þeim mola, sem hrýtur til hennar af borði alveldisins í búskap þeirra og heimilishaldi. Þarna er hún hinn litli aðilinn áhrifalaus og þiggjandi. Þar sem hjónabandið er verulegt samlíf karls og konu, sem vígð eru til sameiginlegrar stjórnar og ábyrgðar, er þetta á aðra lund. Þar vita bæði hjónin nákvæmlega og undanbragðalaust tekjur heimilisins og þau ráðstafa í sameiningu hverjum eyri. Hafi eiginkonan hug á að veita sér sjálfri sérstaklega eitt eða annað sér til ánægju, í hvaða mynd, sem það svo er, þá gerir hún það í samráði við maka sinn. Þá rikir fullkomið jafnrétti á milli hjónanna og hún þarf ekki að sætta sig við neina mola af hinu sameiginlega borði þeirra. Það eru afdráttarlaus skilyrði þess, að hvorki úlfynjan, ljónið né pardusdýrið leiki lausum hala í hjónalífinu. Fullkomið jafnrétti, gagnkvæm virðing og traust eru og skulu vera hyrningarsteinar hins einlæga og trausta hjónabands, þar sem engin hálfrotnuð ber leynast undir yfirborðinu.
Á seinni árum hefur það fyrirbrigði átt sér stað í þjóðlífi okkar og bókmenntum, að eiginmenn hafa viðurkennt á prenti ágæti eiginkonunnar og lýst yfir því afdráttarlaust, að hún eigi ekki lítinn þátt í velgengni þeirra og lífshamingju. Ef til vill eru þessi fyrirbrigði ávöxtur kvenréttindabaráttunnar með ýmsum öðrum ágætum, sem hún hefur haft í för með sér. Það er mér mikið ánægjuefni.
Óli gamli lætur hafa eftir sér á prenti: „Ég er einstaklega vel giftur maður og ég er viss um það, að konan mín gerði mig betri mann en ég annars hefði orðið. Þetta er mér ljúft og skylt að segja; svo góður lífsförunautur er konan mín.“ Einn í hópi kunnustu tónlistarmanna landsins lætur hafa þessi fögru orð eftir sér í nýlegri bók: „Ég mat móður mína mikils, enda var hún mikilhæf kona, og líklega er það vegna þeirrar virðingar og ástar, er ég bar til hennar, að ég hefi alla daga verið heitur kvenréttindamaður, álitið konur á marga lund vitrari og betri en karla, og að þær gegni mikilsverðara hlutverki, og þær hafi verið og séu vanmetnar, og við karlmennirnir ættum fremur að taka þær okkur til fyrirmyndar, en að þær api eftir okkur hégómaskap og heimskupör. Án þeirra væri mannlífið óþolandi og kalt, því að með fegurð sinni, yndi og ástúð fegra þær alla tilveruna og slá ljóma á lífið.“
Ég skil það svo, að þessi fögru orð tónlistarmannsins um konur, séu þá öðrum þræði lof um eiginkonu hans og lífsförunaut. Mér er það óblandin ánægja að lesa þessi lofsyrði. — Lengst af hefur íslenzka konan með festu sinni og siðferðilegum traustleika verið hin veigamikla og óhaggandi undirstaða íslenzks þjóðlífs og íslenzkrar menningar. Hvað sem svo framtíðin kann að bera í skauti sínu, ef þær taka að apa eftir okkur karlsálunum nautnalíf, óreglu og aðra lesti, sem á okkur sækja í hégómaskap okkar og heimsku, eins og tónlistarmaðurinn kallar þær hneigðir okkar karlmannanna. Ég tek af fyllstu sannfæringu undir með hinum kunna tónlistarmanni og góða Íslendingi, að það horfi til hörmunga og niðurrifs í þjóðfélaginu okkar, ef þær blessaðar taka að apa eftir okkur sjálfselsku okkar og eigingirni, tillitsleysið og stórmennskubrjálæðið, sem meðal annars birtist alþjóð í aukinni áfengisneyzlu og öðrum fýsnum, sem leiða til ógæfu og ómennsku, gera mannlífið lágkúrulegt og hamingjusnautt. Í þessu tilliti á hver einstaklingur sjálfur sök á sinni eigin ógæfu.
Fleiri eiginmenn, en ég hefi hér minnzt á, hafa skrifað drengilega og einlæglega um maka sinn og hjúskaparlíf eða ástarlíf sitt í hjónabandinu. Þá hefi ég í huga bók Péturs Sigurðssonar, hins mikla hugsjónamanns og siðapostula. Hann nefnir hana Ástalíf. Sú bók hefur verið gefin út tvívegis, árið 1938 og 1970. Þess munu dæmi, að hjónalíf karls og konu hefir tekið breytingum til hins betra, ef þau hafa fengist til að lesa þessa bók saman og hugleiða í sameiningu kenningar hennar í óbundnu máli og svo ástarkvæðin, sem mörg eru vel ort. Ég get um þetta hér lesendum Bliks til íhugunar, því að viðurkennandi orð og ástaryrði milli hjóna eru miklu meira virði hjónalífi en nokkrir molar, sem eiginmaðurinn kynni að láta falla af alveldisborðinu sínu konunni til stundlegrar ánægju og hugarléttis Ég finn til með öllum, sem lifa og hrærast óhamingjusamir í hjónabandi.
Og nú vex mér kjarkur við það að hugleiða hin fögru og drengilegu lofsyrði, sem hinir mætu eiginmenn láta falla til maka síns. Vissulega geta þau borið ríkulegan ávöxt, þar sem hjónabands-„gæfan er gler, svo grátlega brothætt“, eins og eitt skáldið okkar kemst að orði.
Ég hefi átt í fórum mínum kvæði, sem ég orti til konunnar minnar, þegar liðin voru 50 ár frá þeirri stundu, er við hétum hvort öðru ... Eða vorum við þá að endurnýja, samhæfa á ný, endurreisa, byggja upp aftur samlíf okkar og samveru, — hjónaband okkar frá fyrri tilveru? Hér skal hver og einn vera sér um sefa. Spyrjum, leitum, knýjum á, og leynihólfin ljúkast smámsaman upp fyrir okkur, eitt af öðru. Þetta vissi meistarinn mikli, þegar hann bauð ...
Mér er nær að fullyrða eftir langa íhugun, að hér séu fundnar ræturnar að þeirri staðreynd, að ókunna spákonan, sem gefin var rík dulvitund, gat sagt ungu stúlkunni nákvæmlega, hvernig mannsefnið hennar liti út og örlög þeirra í hjónabandinu um tugi ára. Mannsefni ungu stúlkunnar dvaldist þá erlendis og hún hafði ekki séð það árum saman, hafði það alls ekki í huga sér, þegar spádómurinn átti sér stað. — Lögmál lífs okkar og hin dulfræðilega tilvera er flestum okkar hulið leyndarmál, enda þversköllumst við við að trúa, þó að staðreyndirnar séu lagðar upp í hendurnar á okkur.
Ég enda svo þetta bréfkorn mitt til þín, frændi minn og vinur, með alúðarfyllstu árnaðaróskum til þín og þinna. Ég sendi þér um leið þetta ástarkvæði mitt, en svo dirfist ég að kalla það:

(Lag: Sofðu unga ástin mín.)
Þú hefur verið lífs míns ljós
langan ævidaginn;
átt því skilið allt mitt hrós,
ást mína og heiðursrós.
Til þín nú vil ég ljóða lofnarbraginn.
Við áttum bjartan æskudag
austur þar við fjöllin;
Við fornar dyggðir lögðum lag,
lífið vann þar okkar hag;
við gengum síðan gunnreif fram á völlinn.
Síðan bæði hlið við hlið
hlegið, strítt og þolað.
Góðum málum lagt oft lið,
liðið, sigrað, þolað bið,
en aldrei hvikað, vílað eða volað.
Líður ævi og annatíð,
ylja gömul minni.
Enn mín sama ástin blíð;
enn mín rósin björt í hlíð;
ég lofa öll þau lífsins góðu kynni.
Þú hefur ávallt afl mér veitt,
afl til starfs og ráða. —
Öndum tveim, sem unnast heitt,
eilífð hefur veginn greitt
upp og fram til samlífs, dugs og dáða.
Þ.Þ.V.

Til baka