Stefán Guðlaugsson (Gerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. febrúar 2009 kl. 08:19 eftir Inga (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. febrúar 2009 kl. 08:19 eftir Inga (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Stefán Guðlaugsson, skipstjóri og útgerðarmaður í Gerði (Litla-Gerði), fæddist 6. desember 1888 í Stóra-Gerði í Vestmannaeyjum og lést 13. febrúar 1965.
Foreldrar hans voru Guðlaugur Jónsson, f. 11. nóvember 1866 og kona hans Margrét Eyjólfsdóttir, f. 24. júní 1865.

Sinn fyrsta fisk, maríufiskinn, veiddi hann 11 ára. Ekki var fiskurinn stór og gaf hann Evlalíu Nikulásdóttur í Móhúsum. Hún þakkaði kærlega og bað honum Guðs blessunar og að hann yrði mikill fiskimaður.
Stefán byrjaði sem sagt ungur sjómennsku og byrjar hann sína formennsku á Halkion árið 1919, en Stefán kaupir síðar Halkion II og Halkion III. Hann var einnig formaður á Bjarma til ársins 1956 en þá hafði hann verið formaður í 47 vertíðir.

Eiginkona Stefáns var Sigurfinna Þórðardóttir húsfreyja, f. 21. júlí 1883, d. 13. nóvember 1968.
Börn þeirra:

  1. Guðlaugur Martel, f. 22. febrúar 1910, d. 13. febrúar 1911;
  2. Óskar, f. 31. maí 1912, d. 14. nóvember 1916;
  3. Guðlaugur Óskar, f. 12. ágúst 1916, d. 22. júlí 1989;
  4. Þórhildur, f. 19. marz 1921;
  5. Gunnar Björn, f. 16. desember 1922;
  6. Stefán Sigfús, f. 16. september 1930.


Loftur Guðmundsson samdi eitt sinn formannsvísu um Stefán:

Á Halkion Stefán sækir sjá,
síst mun hryggðarefni
garpinum reynda Gerði frá
þótt gutli Rán við stefnu.

Óskar Kárason samdi einnig um Stefán:

Halkíon á Strauma-storð
Stefán löngum treystir,
þó að lemji byrðings borð
bylgju faldar reistir.
Fjörutíu fullan einn
formanns telur vetur,
Gerðis bóndinn garpur hreinn,
geri aðrir betur.

Óskar samdi seinna aðra vísu um hann:

Marka skal Ásinn arkar
elztan Stefán og helztan.
Öld nærri hálfa höldur
hefur Gerðis án refja,
staðið við stýrið glaður,
styrkur og mikilvirkur.
Bjarma nú fær á farma
formanna prýðin sanna.



Heimildir

  • Guðjón Ármann Eyjólfsson. Vestmannaeyjar. Byggð og eldgos. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja H.F., 1973.
  • Sami í viðtali.
  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.
  • Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.
  • Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. 1995.