Blik 1967/IV. Brynjólfur Sigfússon organisti og söngstjóri II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. júlí 2007 kl. 14:36 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. júlí 2007 kl. 14:36 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þetta er annar hluti greinarinnar. Fyrsta hlutann má finna hér. Þriðja hlutann má finna hér.


Fyrri hjúskapur

Einn bezti starfskraftur í hinum blandaða söngkór Brynjólfs Sigfússonar var frú Guðrún Sigurlaug Þorgrímsdáttir, kona Edvards Frederiksen bakarameistara, frú Guðrún Frederiksen. Frú Guðrún söng sérlega vel, söng kvenna bezt. Jafnframt var hún gædd kvenlegum yndisþokka. Á þessum árum var frú Guðrún einnig listrænn starfskraftur í leikstarfinu í Eyjum.
Frúin var þannig gædd listrænum hæfileikum, sem orkaði á listrænar karlmannssálir svo sem raunin varð á, þó að minnst verði hér af því sagt.
Frú Guðrún Sigurlaug var fædd 28. maí 1882, dóttir hjónanna Þorgríms bónda Péturssonar og Hólmfríðar Jónsdóttur bónda í Nesi í Aðaldal.
Árið 1908 var það orðið lýðum ljóst að saman dró með þeim frú Guðrúnu og Brynjólfi söngstjóra. Árin liðu og hjónin Edvard og Guðrún fengu algjöran skilnað.

Þegar Brynjólfur Sigfússon sigldi til Kaupmannahafnar í ágúst 1911 sigldi Guðrún S. Þorgrímsdóttir með honum og er þá skrifuð unnusta organistans. Þau voru opinberlega heitbundin hvort öðru. Um veturinn gengu þau í hjónaband í Danmörku. Þegar hjónin komu heim um vorið 1912 frá Kaupmannahöfn, áttu þau víst leiguhúsnæði hjá Gísla útgerðarmanni Magnússyni í „Gamla Skálholti“ við Landagötu (22). Þar fengu hjónin til bráðabirgða litla íbúð, enda nam mánaðarleigan aðeins 12 krónum. Þessa íbúð höfðu þau á leigu í 6 mánuði. Í október sama ár (1912) fluttu hjónin í leiguhúsnæði undir súð í Laufási hinum nýbyggða hjá hjónunum Elínborgu og Þorsteini. Mánaðarleigan nam 25 krónum. Síðan bjuggu þau í Laufási til 19. maí 1914. Þann dag fluttu þau í leiguhúsnæði að Lágafelli (Vestmannabraut 10). Ekki höfðu þau hjón, Brynjólfur og frú Guðrún, lengi notið hamingju hjónabandsins, er sjúkdómur tók að þjá frú Guðrúnu. Hún leitaði sér þá hvað eftir læknishjálpar í Reykjavík. Stundum dvaldist hún þar mánuðum saman undir læknishendi. Sjúkrahúslegur frúarinnar lengdust þegar fram leið. Að síðustu kom að því, að heimili þeirra og hjúskaparlíf var ekkert orðið. Árið 1921-1922 lá frúin t. d. 8 mánuði samfleytt í sjúkrahúsi eða dvaldist í Reykjavík undir læknishendi. Árin liðu og frúin kom ekki heim til maka síns. Árið 1924 kaupir Brynjólfur Sigfússon sér fæði hjá Árna bróður sínum a. m. k. um stuttan tíma. Fyrri hluta ársins 1925 kaupir hann sér fæði hjá Arinbirni Ólafssyni, sem þá bjó í Borg (Heimagata 3). En 5. júlí 1925 hóf Brynjólfur að borða hjá Þórunni Jónsdóttur frá Túni, er þá bjó og mörg ár síðan í Þingholti við Heimagötu (2). Þar keypti hann síðan fæði 18 ár eða til ársins 1933.

Brynjólfur Sigfússon og Guðún S. Þorgrímsdóttir fengu leyfi til algjörs skilnaðar með bréfi stjórnarvaldanna dags. 24. okt 1925.
Náfrændi Brynjólfs, er búsettur var og starfandi í Reykjavík, útvegaði hið staðfesta leyfisbréf til hjóna skilnaðarins. Hann skrifaði Brynjólfi með leyfisbréfinu: „Þú hefur sómasamlega og vel gengið undir þínar byrðar, og eru þeir fáir, sem gera það betur. Guðrún getur horft róleg fram, því að henni er vel borgið efnalega“.
Þannig reyndist Brynjólfur Sigfússon þessari konu sinni: Mikill drengskaparmaður í hvívetna, þótt þau bæru ekki gæfu til að lifa lengi saman hamingjusömu hjúskaparlífi. Hjónaband þeirra var barnlaust.
Frú Guðrún Þorgrímsdóttir lézt 22. september 1927 í sjúkrahúsi í Hafnarfirði. Það gefur auga leið, að hin langvarandi veikindi frú Guðrúnar konu Brynjólfs og sjúkrahússlegur kostuðu eiginmanninn offjár, þar sem þá var ekki um neinar sjúkratryggingar að ræða.

Sjálfur gekk Brynjólfur Sigfússon hvergi nærri alltaf til starfa heill heilsu. Árið 1918 fékk hann inflúensuna eða spönsku veikina og bar þess lengi minjar, eins og svo margir aðrir. Árið 1921 lá hann aftur þungt haldinn í sömu veikinni. Lasleiki hans ágerðist ár frá ári. Árið 1927 var heilsa hans með versta móti. Þá þjáðist hann mjög af taugasléni og taugagigt í vinstri öxl. Þessa veikinda get ég hér vegna óþrotlegrar ástundunar Brynjólfs organista við skyldustörf sín í kirkjunni og annars staðar, brátt fyrir eigin líkamsþrautir og sálarstríð og svo veikinda konunnar og heimilisleysi.

Haustið 1923 var heilsu Brynjólfs svo varið, að hann var frá störfum vikum saman. Þá hljóp vinur hans og söngfélagi Ragnar Benediktsson frá Borgareyri í Mjóafirði eystra undir bagga með honum og annaðist organistastarfið fyrir hann um tíma.
En þegar þrautir Brynjólfs tóku að þverra og af honum brá, tók hann til við skyldu- og hugsjónastörfin á ný. Haustið 1925, frá 19. október til 30. nóvember hafði hann 11 söngæfingar með blandaða kórnum sínum. Einmitt þá um haustið í október hafði honum bætzt góðir söngkraftar í kórinn og hann sett honum nokkrar reglur til þess að skapa meiri festu í starfið. Jafnframt gaf hann honum nafn og kallaði hann nú Vestmannakór. Þá er það, sem þetta fagra og ,,þjóðlega” nafn í Eyjum kemur fyrst upp „á yfirborðið”. Eftir nafngiftina tók hann svo til að æfa kórinn, eins og ég gat nú um. Allt var þetta mikla starf söngstjórans, eins og jafnan fyrr og síðar, unnið án alls endurgjalds, - unnið af einskærri ást á söng og tónlistinni og af þeirri fölskvalausu hugsjón að veita samborgurum sínum þann þroska og þá menningu, sem list listanna gat veitt þeim eða vonir stóðu til, að hún veitti þeim. Einnig lifði sú vonin innra með söngstjóranum, að söngkórinn mætti varpa nokkrum menningarbjarma á heimkynni sín, fæðingarbæ listamannsins, sem hann unni, - átthagana, sem hann mat og virti. Orðstírinn er ávallt mikilvægur þeim, er sér góðan getur.

Enn liðu 12 ár í iðni og störfum, - skyldustörfum og staðföstum hugsjónastörfum. Þá (1937) er hinum blandaða söngkór organistans og söngstjórans settar fastmótaðri reglur en nokkru sinni fyrr. Honum eru samin lög og nafnið Vestmannakór ,,lögtekið”. Kórnum er þá jafnframt kosin stjórn. Um leið var tekin upp sú regla að fullnægja þeim sjálfsagða þætti alls félagsstarfs að skrá hið markverðasta, sem gert er í félagsstarfinu í sérstaka bók, fundargerðarbók. Eftir það verður auðveldara seinni tíma kynslóðum að gera sér grein fyrir hinu mikla menningarstarfi, menningarhlutverki kórsins, - gera sér fyllri grein fyrir þjónustu þessa söngfélags í þágu sönglistarlífsins og menningar - í bæjarfélaginu.

Söngfélagið Vestmannakór

Brynjólfur Sigfússon segir af sér organistastarfinu

Frá þeirri stundu er Brynjólfur Sigfússon tók við organistastarfinu af föður sínum síðla hausts 1904, var starfandi við Landakirkju fastur söngflokkur, eins og meðan Sigfús Árnason var þar organleikari. Kirkjukór Landakirkju þótti jafnan syngja vel og vera kirkjulífi og messuathöfn ómetanlegur stuðningur.

Hvert ár fékk organistinn eilitla fjárupphæð úr kirkjusjóði til þess að skipta milli söngfólksins, þókna því fyrir fórnfúst áhugastarf í þágu safnaðarins í Eyjum. Sú greiðsla var svo lítil, að hún gat aldrei talizt annað en smáleg þóknun og viðurkenning fyrir skyldu, sem hver og einn í kirkjukórnum hafði tekið á sig til þess að gera messuathafnirnar fyllri og hugnæmari. Fjárhæð þessari skipti organistinn milli fólksins í kirkjukórnum eftir ástundun þess og þátttöku hverju sinni í söngstarfinu.

Fyrstu árin, sem Brynjólfur var organisti, nam þessi upphæð kr. 200,00 samtals á ári. Árið 1920 var þessi þóknun kr. 400,00 og þegar organistinn hætti störfum við kirkjuna, nam þóknunin kr. 1000,00 til söngflakks kirkjunnar. Árið 1913 t. d. skiptist þóknunin þannig milli söngfólksins:

Æfingar Messur Krónur
Frú Guðrún Sigfússon kona hans 1 10 5,07
Frú Ólöf Ólafsdóttir 12 45 26,30
Ungfr. Sigríður Ottesen 10 47 29,05
Ungfr. Margrét Jónsdóttir 14 49 29,05
Ungfr. Aðalheiður Sigurðardóttir 14 48 28,60
Hr. Páll Ólafsson 13 48 28,12
Hr. Guðlaugur Vigfússon 11 45 25,81
Hr. Sigurjón Kristjánsson 11 34 20,75
Hr. Ásbjörn Pálsson 10,00
Samtals 200,00
Sá síðastnefndi telst ekki vera í söngflokknum, en syngur í kirkjunni samkv. eigin ósk.
Vestmannaeyjum,
12. jan. 1914.

Fyrir hverja æfingu og messu nemur þóknun þessi 46,1 eyri. Árið 1919 nam þóknunin til söngflokks Landakirkju kr. 400,00 og skiptist þannig:

Krónur
Hanna Frederiksen stjúpdóttir org. 50 63,30
Rannveig Helgadóttir 14 17,72
Þórunn Hreinsdóttir 46 58,21
Lilja Jónsdóttir 22 27,85
Bergþóra Árnadóttir 37 46,83
Guðrún Jónsdóttir 5 6,33
Ingv. Þórarinsdóttir 47 59,50
Sigurjón Kristjánsson 50 63,30
Páll Ólafsson 45 56,96
Samtals 400,00

Hér eru greiddir 1261/2 eyrir fyrir hverja messu og æfingu.
Upphæð sú, sem organistinn fékk frá Landakirkju til úthlutunar handa söngflokknum 1940 nam kr. 1000,00 og voru þær krónur 50% af heildartekjum kirkjunnar, af kirkjugjöldunum það ár. Gjaldendur voru 2000 svo að kirkjugjaldið nam aðeins einni krónu á hvern gjaldanda. Fjárhagur Landakirkju var þá þröngur, eins og gefur að skilja með ekki hærri kirkjugjöld. Til þess nú að bæta svolítið úr fjárhagsvandræðunum, tók sóknarnefndin það ráð, að svifta söngflokk kirkjunnar allri þóknun fyrir sönginn í stað þess að hækka kirkjugjöldin.
Á sóknarnefndarfundi 31. ágúst 1940 var sú ákvörðun tekin að greiða enga þóknun til söngflokks kirkjunnar frá næstu áramótum að telja. Hvort sem sú samþykkt hefur þá verið gjörð um leið að halda ákvörðun þessari leyndri, er ekki vitað, en hitt er víst, að leynilega var með hana farið, svo leynilega, að organistinn fékk ekkert um hana að vita fyrr en með bréfi sóknarnefndarformanns til organistans dags. 2. jan. 1941.
„Ég var auðvitað steini lostinn“, skrifar organistinn, „þar sem algjörlega var farið á bak við mig og flokkinn. Eftir þetta hafði ég svo fund með flokknum til skrafs og ráðagerða, og tók hann strax ákveðna afstöðu í þessu, sem sé að hætta starfinu ... enda fann flokkurinn, að sér var freklega misboðið“.
Bréf organistans til sóknarnefndarinnar dags. 12. jan. 1941 segir sitt um hugsun hans sjálfs, lýsir innri manninum, sem aldrei mátti vamm sitt vita í einu eða neinu, einlægur, hreinn og beinn og ól aldrei með sér snefil af undirferli. Átti þau eigindi ekki til.

„Sóknarnefnd Landakirkju, Vestmannaeyjum.
Það kom alveg flatt upp á mig, þegar mér loks 2. þ. m. var tilkynnt, að þér hefðuð á fundi 31. ágúst s. l. (fyrir 4 mánuðum) ákveðið að borga söngflokki kirkjunnar enga þóknun framvegis. Mildast sagt, álít ég þetta misráðið. Ég hefi talið þann gjaldalið alveg jafnsjálfsagðan og laun mín, ljós, hiti, ræsting o. þ. h. Ég býst við að meiri hluti nefndarinnar hafi gert þetta án nægilegrar athugunar, sem sagt
sagt já og amen við uppástungunni - lítt hugsaðri. Þetta virðist mér stórt spor aftur á bak. Og vegna fjárhagsins virðist þetta mikil svartsýni. Mér liggur við að hugsa: Er þetta ekki að miklu leyti sprottið af ofsjónum, sem einhverjir hafa á þessari upphæð til söngflokksins? Hann er þó sannarlega vel að þessu kominn fyrir jafnmikið og bundið starf. Upphæðin er bara alltof lítil, einkum samkvæmt dýrtíðinni nú. Auk þess finnst mér flokkurinn geri hlutverk sitt yfirleitt vel eftir ástæðum, þó að þér gefið annað í skyn í bréfinu til söngflokksins og um leið kastið rýrð á mína söngstjórn. Bréfið er auk þess árás og niðurrif á mitt starf. Söngflokkurinn hefur verið mér ómissandi stoð, sem samkv. tíðarandanum má ekki án vera, bæði vegna göfgi söngsins og guðsþjónustunnar, og svo til samkeppnis við útvarp, bíó og ýmislegt annað, sem dregur frá kirkjunni. Ég veit, að meiri hluti fólksins vill ekki starfa að þessu án endurgjalds, eins og verið hefur. Fólki, sem sýnt hefur mér tryggð og staðið með mér í starfinu, - sumt í áratugi, - er nú tvístrað frá mér á þennan hátt. Þó að ég vildi una við þetta, þá yrði ég að lifa á bónbjörgum með söngfólk, fara t. d. sníkjandi um bæinn til að ná í það vegna jarðarfaranna (sem er mitt versta verk), og fá það óæft eða lítt æft, því að án kórs get ég ekki starfað. - Nei, það get ég ekki og geri ekki.
Þó að ýmislegt sé ótalið ennþá, þá finnst mér að svo komnu ekki ástæða til að skrifa meir um það. Þó þetta: Ég hefi til þessa verið stoltur yfir því, að mér og kórnum hefur verið betur borgað hér en víðast hvar annars staðar á landinu, - fyrir utan Reykjavík, þar sem þessum aðilum er miklu meira borgað. Og mér finnst þetta fyrirmynd öðrum kirkjum landsins. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli, að kirkjugjöldin verði hækkuð núna í samræmi við dýrtíðina og kirkjunni þannig aflað meiri tekna.
Vegna þessara ákvarðana yðar gagnvart kórnum, hefi ég því tekið þá ákvörðun að segja lausu organleikarastarfinu við kirkjuna. Ég vildi helzt að svo komnu máli hætta strax, en bið nefndina að láta mig vita undir eins, hvort hún er því samþykk. Að öðrum kosti segi ég starfinu lausu með venjulegum uppsagnarfresti - þrem mánuðum - og skoða ég mig því lausan 12. aprí1 n. k., óg ég gegni því starfinu síðasta sinn á föstudaginn langa, sem er 11. apríl. Söngflokkurinn hefur lofað mér aðstoð sinni þangað til.
Virðingarfyllst,
Brynj. Sigfússon.“

Organistinn birti þetta bréf í 7 dálka grein, er hann skrifaði um þetta mál í bæjarblaðið Víði 9. maí 1941. Greinina nefnir hann „Árásin á söngflokkinn og organleikarann, er hættu störfum“.

Formaður sóknarnefndarinnar, Steingrímur Benediktsson, svaraði organistanum með grein í sama blaði 23. maí og 30. maí s. á. og nefnir greinar sínar: „Árásin, sem aldrei var gerð. Svar til Brynj. Sigfússonar“.
Og blaðaskrifin halda áfram. Í Víði 13. júní s. á. skrifar organistinn fjögurra dálka grein og svarar formanni sóknarnefndarinnar.
Ég nefni hér dagsetningu blaðanna, sem greinar þessar birtast í, ef lesendur mínir hefðu hug á að kynnast þessu dæmalausa máli betur.

Organistalaun Brynj. Sigfússonar voru frá fyrstu tíð sem hér segir: Fyrstu árin kr. 75,00 árslaun. Síðan hækkuðu launin í kr. 200,00. Svo voru þau til 1916. Árin 1917-1918 nárnu þau kr. 250,00 hvort ár. Árin 1919-1920 voru honum greiddar kr. 300,00 hvort ár. 1921 -1924 kr. 800,00 og 1925-1940 kr. 1000,00.

Brynjólfur Sigfússon spilaði síðast í Landakirkju á föstudaginn langa 11. aprí1 1941. Þar með var 36½ árs starfi lokið fyrir hinn kristna söfnuð í Vestmannaeyjum. Starfið var organistanum vissulega hugsjón, sem hann framdi ávallt öll þessi ár af stakri samvizkusemi, áhuga og fórnfýsi. Þá eiginleika hafði hann erft í ríkum mæli af feðrum sínum. Það voru ríkustu eigindin þeirra ættlið fram af ættlið, eins og þessi fátæklegu orð mín um þá eiga að gefa nokkra hugmynd um. Þegar Brynjólfur Sigfússon neyddist til að hætta störfum í þágu Landakirkju, höfðu þessir fjórir ættliðir, - hann, faðir hans, afi og langafi, - verið hinir veigamiklu og ósérhlífnu starfskraftar hins þjóðkirkjulega safnaðar í Vestmannaeyjum í 150 ár eða hálfa aðra öld.

Organistinn hefur lokið við að spila útgöngusálminn á föstudaginn langa 11. apríl 1941 og kirkjugestir flykkjast út úr kirkjunni. Organistinn situr áfram við orgelið, og nokkrir vinir hans og samstarfsmenn eru þar hjá honum. Þögn, - hugsandi þögn. Hlýtt er þunnu hljóði. Starfsárin hér eru mörg að baki. Og svo þessi endir á löngum starfsdegi! - Tár sjást skína á augnakvörmum organistans. Það glampar á þau við skinið frá orgelkertunum. - Þögn, samúðarþrungin þögn. „Svona er lífið“, segir hann. „Svona eru mennirnir“, segir hann, „líka þeir, sem...“ Svo rís organistinn úr sæti sínu, tekur saman bækur sínar og önnur gögn og gengur fram. Samúð vinanna varnaði þeim máls. - Allir ganga þeir út úr guðshúsi þegjandi og hugsandi. - Svo kveðjast þeir, og þessu innilega samstarfi fyrir kristinn söfnuð er lokið.
Við organistastarfinu í Landakirkju tók nú Helgi Þorláksson, kennari við barnaskóla kaupstaðarins. Starfið innti hann af hendi í þrjú ár eða þar til hann fluttist burt úr bænum 1944. Þá stóð söfnuður Landakirkju uppi organistalaus.

Þá var það, sem fyrrverandi organisti, Brynjólfur Sigfússon, fékk óvænta heimsókn. Tveir tandurhreinir og nýlega riddaraslegnir sóknarnefndarmenn gerðu honum þessa heimsókn. Erindið var að biðja hann að taka nú að sér aftur organistastörfin í kirkjunni, því að söfnuðurinn og sóknarnefndin væru í svo miklum vandræðum, að engin tök væru á að messa, nema hann auðsýndi líknarlund sína og sáttfýsi. Nú skyldi ekki horft í peninginn um greiðslu til söngflokksins!
Brynjólfur Sigfússon var aldrei veifiskati í lífinu og vildi ekki vera gólfþurrka neins. Hann bað því sóknarnefndarriddara þessa vel að lifa, - kímdi og lokaði síðan hurðum á eftir þeim.

Sigurgeir Sigurðsson biskup og Páll Ísólfsson organleikari í Reykjavík skrifuðu fyrrverandi organista Brynjólfi Sigfússyni sameiginlegt bréf dags. 17. febrúar 1941, er þeim hafði borizt sannar sagnir af samþykktum sóknarnefndarinnar og uppsögn organistans á starfinu.
Þessir mætu menn „sögðust aldrei hafa heyrt kór Landakirkju syngja, ... en við viljum leggja áherzlu á það, að við höfum oft heyrt hann rómaðan ... undir yðar söngstjórn og forustu.“ ... „Það er ekki hægt að búast við að fá góðan kirkjusöng án þess að fólk leggi mikið á sig og verji miklum tíma til söngstarfsins.“ ...

... „Okkur finnst einkennilegt, að samþykkt sóknarnefndar hinn 31. ágúst skuli ekki vera birt fyrr en 31. des. - og við getum ekki skilið, hvers vegna sóknarnefndin ráðgaðist ekki við yður um þessa hluti. Eftir svo margra ára starf að söngmálum kirkjunnar finnst oss, að ekki hefði átt að ganga fram hjá yður ... Við teljum að vanda beri eins og unnt er til kirkjusöngsins á jafn-áberandi stað eins og í Vestmannaeyjum, og eftir því sem við höfum kynnzt þessum málum, þá er það sannfæring okkar, að fólkið, sem í kirkju gengur, óskar þess að heyra fagran söng, og aldrei höfum við heyrt fólk kvarta yfir þeim aurum, sem það leggur til þessara mála. Kirkjusöngurinn lyftir sál fólksins í hæðir. Hann er máttur, sem semur frið og eykur fegurð og eflir menningu í sérhverri byggð og bæ. Þess vegna á að vanda til hans af fremsta megni“.

Undir bréfið skrifa þeir báðir nöfn sín eigin hendi, biskupinn og organistinn Páll Ísólfsson.