1973 Allir í bátana/Frásagnir, greinar og viðtöl tengd Heimaeyjargosinu/Óskar Pétur Friðriksson Noregsferð 1973
Noregsferð 1973
Árið 1973 er meitlað í huga manns og fer aldrei þaðan, einn stærsti viðburður Íslandssögunnar gerðist þetta ár er Heimaeyjargosið byrjaði 23. janúar, á 90 ára afmælisdegi langafa míns, Gísla Jónssonar frá Arnarhóli. Ég sem aðrir íbúar byggðalagsins í Vestmannaeyjum urðum að yfirgefa heimabyggðina í snatri, þar með var maður komin í heimsfréttirnar. Næstu mánuði átti maður eftir að vera á höfuðborgarsvæðinu. Lífið færðist fljótt í eðlilegt horf, svo langt sem það náði að teljast eðlilegt. Unga fólkið fór í skóla og þeir fullorðnu stunduðu sína vinnu. Fjótlega fór það að fréttast að norski Rauði krossinn ætlaði að bjóða börnum og ungmennum frá Vestmannaeyjum til Noregs um sumarið. Auðvitað var þetta spennandi og skemmtilegt fyrir okkur sem vorum á þeim aldri sem átti að fá að fara til Noregs, ég tala nú ekki um að á þessum árum var það ekkert sjálfgefið að fólk væri að fara mikið erlendis þó það væri að aukast mikið að svokölluð sólarlönd væru heimsótt.

Við Alfreð vinur minn, skrifuðum saman á umsóknarblöð vegna ferðarinnar og óskuðum eftir að fá að vera saman.
Ákveðið var að við skildum fljúga út til Noregs 12. júlí. Ekki vissum við hvert við færum þegar út væri komið og í sjálfu sér gerði það spennuna enn meiri. Loka undirbúningur var að sjálfsögðu kvöldinu áður 11. júlí, þá var hæglætis veður skýjað og gekk á með þrumum. Við Alfreð vorum mættir eldsnemma á afgreiðslu Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli, þar sem flugrúta var tekin til Keflavíkurflugvallar. Flugstöðin í Keflavík var ekki merkileg bygging enda var þetta gamla byggingin sem var notuð þá. Mikil tilhlökkun var komin í okkur, ég hafði áður farið til Færeyja siglandi með pabba á Marsinum sumarið 1970 en þetta var í fyrsta sinn sem við myndum fljúga með þotu.
Það var mikið af krökkum úr Eyjum á Keflavíkurflugvelli þennan morgun, andlit sem maður kannaðist vel við en hafði ekki séð lengi. Þegar búið var að kalla farþega út í vélina sem halda átti til Fornebuflugvallar við Osló, kom í ljós að meðalaldur farþega var ekki hár, sennilega 11-12 ár, fáir fullorðnir voru með í þessari ferð. Flugfreyjan sýndi allt um öryggisatriði vélarinnar og hvernig kalla ætti á flugfreyjuna, „þið ýtið á þennan takka og þá kemur þetta bjölluhljóð og ljós“. Allir farþegarnir urðu að prófa þennan takka og margir aftur og aftur.... Flugið til Osló tók rúma tvo tíma, frá Fornebu var farið með rútu til Oslóar. Fyrsti áfangastaður var í Ráðhúsinu í Osló, því merka og fallega húsi og ekkert af okkur hafði farið í svona flott hús áður með risamálverkum. Í Ráðhúsinu breyttist nafnið mitt, ég hét ekki lengur Óskar og þegar Norðmennirnir kölluðu fyrst í mig svaraði ég ekki, áttaði mig ekki á þessu nýja nafni sem ég þó hafði þekkt svo lengi. Núna hét ég Fridriksson, ég Fridriksson og Altredsson vorum kallaðir upp og fólk kom og náði í okkur. Þetta voru hjón, sem voru lærðir læknar. Þau keyrðu okkur aðeins út fyrir borgina að sumarbústað sínum alveg niður við sjó, beint á móti Fornebuflugvelli sem var hinumegin fjarðarins. Veður var eins og best verður á kosið bjart yfir og hlýtt, þau áttu spíttbát og sjóskíði. Í hlutarins eðli hafa Vestmannaeyjingar aldrei verið neinir snillingar á skíðum, hvorki þessi sem notuð eru í snjó eða þeim sem notuð eru á sjó. Alfreð taldi sig vera mikin snilling og allir vegir færir er kæmi að sjóskíðum og reyndi þessa list að láta draga sig á sjóskíðum. Ég var vitni að snilli Alfreðs en kýs að fjalla ekki frekar um þessa reynslu mína.
Gestgjafar okkar í Osló grilluðu mat fyrir okkur um kvöldið, það var eitthvað sem var mjög framandi fyrir okkur enda var ýsan og lifrarpylsan soðin í potti hér heima.
Við vorum vaktir snemma morguninn eftir og keyrt út á Fornebuflugvöll, þar sem við áttum að fara eitthvert enn lengra, en við vissum ekkert hvert... bara eitthvað. Auk mín og Alfreðs voru með okkur þau, Þóranna Haraldsdóttir hún var með okkur Alfreð í bekk, Albert Ólason bróðir Tóta söngvara, tvíburarnir xxxxx og ung stúlka. Á þessum árum fór maður oft í sjoppur og keypti pulsu og öl, ölið var ýmist Kók eða Appelsín, síðar meir fór maður í sjoppur og keypti pulsu og gos, á þessum árum var öl selt hér eins og hver vildi þrátt fyrir bjórbann. Þar sem við vorum gestir norska Rauða krossins vorum við á Saga class í SAS flugvélinni, ein flugfreyjan í vélinni kom til okkar Alfreðs og spurði okkur hvort við vildum fá öl. Að sjálfsögðu vildum við öl höfðum aldrei slegið hendinni á móti Kóki eða Appelsíni.... en þessi ágæta flugfreyja kom með bjór, ég held að við höfum ekki drukkið nema einn sopa hvor úr flöskum okkar og svo öfunduðum við hina sem fengu Kók eða Appelsín.

Við stóðum upp þegar við lentum í Harstad og hópurinn úr Eyjum gekk út úr vélinni, þegar við vorum langt komin niður landganginn vorum við rekin aftur upp. Nú, eigum við að fljúga enn lengra hugsuðum við. Þegar við komum inn í vélina vorum við rekin aftur út og okkur stillt upp til myndatöku. Aldrei friður fyrir þessum paparössum, við vorum mynduð og myndin birtist á baksíðu blaðs sem gefið er út í Harstad, þar sem sagði að við værum þeir gestir sem hefðu farið lengst af öllum gestum Rauða krossins. Á flugvellinum var fólk sem tók á móti sínum gestum, yfirleitt voru þetta ungt fólk sem hafði tekið að sér eyjakrakkana. Fólkið sem tók á móti okkur Alfreði voru þau Bodill Annamo og Paul Huber, þau áttu dóttur sem var tveggja ára Þetta sumar og heitir hún Wenche. Þegar við keyrðum frá Harstadflugvelli sagði Bodill við okkur Alfreð, þið eruð ekki átta ára. Norski Rauði krossin hafði beðið þau um að taka okkur að sér en eitthvað ruglast í aldrinum

Hús Bodill og Paul var á strjábýlum stað sem kallast Grovfjord, framan við húsið var stórt vatn sem er sjö km. langt, og hinum megin við vatnið er fjall sem er yfir 1000 metrar á hæð. Ótrúlega fallegur staður þar sem vatnið var, fjöllin og skógurinn. Þegar við komum að húsinu sem þau eiga héldum við Alfreð að þetta væri sumarbústaðurinn þeirra, nýlegt einnar hæðar timburhús, byggt á hlaðna stöppla þannig að hægt var að skríða undir allt húsið. Ótrúlegt að byggja svona þar sem kuldi getur orðið ótrúlegur yfir vetrarmánuðina og gólfin væntanlega köld í húsinu, en þetta var húsið þeirra. Bodill var norsk bóndadóttir, foreldrar hennar áttu reisulegt og glæsilegt þriggja hæða hús stuttu frá húsi Bodill. Þessi norsku hjón voru orðin töluvert öldruð kanski 65 – 70 ára, karlinn sennilega orðin slappur í rúminu, þannig að hann mátti sofa hjá skepnunum í skepnuhúsunum. Hann kom aðeins inn til sinnar heittelskuðu ef hann átti erindi s.s. að borða eða eitthvað svoleiðis. Paul, eigimaður Bodill, var þéttur og kraftalega vaxinn maður frá Sviss. Hann hafði verið sérsveitarmaður í svissneska hernum. Já, það fór þó aldrei svo að við Alfreð værum ekki í fóstri hjá Rambó.

Paul og Bodill reyndu auðvitað að gera eitthvað fyrir okkur, en við fórum oft niður að vatni og syntum í því eða rérum á árabát sem þau áttu. Niður við vatnið, sem heitir Skoddebergvatnet, vorum við Alfreð að sjálfsögðu í sundskýlum þannig að bert holdið fékk á sig sólarbrúnku, þar sem sólin skein á okkur stóran hluta dags, og líka á kvöldin þar sem sólin sest ekki á þessum árstíma. Annað var það sem elskaði að eiga við líkama okkar það voru geitungar, ég held að stór hluti geitungastofnsins á norðurhveli hafi verið með lögheimili í Grovfjörd og þeir voru ábyggilega í keppni hver gæti stungið okkur oftast. Kvöld eitt fórum við Alfreð með Bodill í bíl langar leiðir til einhvers gamals fólks sem hún þekkti. Ungliðarnir úr Vestmannaeyjum voru spurðir spjörunum úr um gosið á Heimaey og eyðilegginguna sem varð og allt það sem fólkið vildi vita. Við höfðum gaman af því að konan kom með lítin plastpoka með vikri í frá Vestmannaeyjum. Norðmenn voru að safna peningum handa okkur og létu það fólk fá vikur í poka sem gaf í söfnunina.
Við gátum fengið að láni 29 ára gamla meri hjá foreldrum Bodill. Þetta var nokkuð merkileg meri, það var ekki nóg að segja hott-hott til að hún færi að stað, við urðum að tvísmella tungu okkar til að henni þóknaðist að ganga með okkur og til að stoppa hana urðum við að smella tungunni einu sinni. Í dag tvísmella allir músinni á tölvunni til að framkvæma skipanir, eða þannig.

Þarna í sveitinni var engin verslun og engin sjoppa, þannig að maður labbaði ekki út í sjoppu til að fá sér pulsu og öl. Það var kanski ágætt þar sem við krakkarnir sem fórum til Noregs vorum hvött til að hafa ekki með okkur meiri pening en 200 kr. norskar. Norðmenn stóðu vel með okkur í gosinu og söfnuðu mikið af peningum handa okkur og því þótti það eðlilegt að ungliðarnir frá Vestmannaeyjum væru ekki að eyða miklum peningum.
Einn daginn langaði okkur Alfreð að fara í sjoppu og kaupa pulsu og öl, kannski var löngunin raunvöruleg eða við vorum haldnir mikilli þörf á að eyða peningum. Við fengum lánuð tvö reiðhjól og hjóluðum að næstu sjoppu, sem var í um níu km. fjarlægð og versluðum pulsu og öl. Við fjárfestum í póstkortum sem við skrifuðum á og sendum foreldrum okkar. Ekki var hægt að senda sms eða E-mail og þetta eini kosturinn í stöðunni til að láta vita af því að það færi vel um okkur og lífið væri gott við okkur. Þessi póstkort bárust foreldrum okkar hálfum mánuði eftir að við komum heim.
Þegar póstkortin höfðu verið send settumst við á reiðfáka okkar og hjóluðum aftur til baka. Ég held að ég hafi aldrei farið jafn langa ferð eftir pulsu og öl.
Eins og áður er getið var Paul sérsveitarmaður í svissneska hernum, þéttur og ótrúlega hraustur maður sem hafði auðsjáanlega lært ýmisslegt á árunum sem hann var í hernum. Eftir að þjónustu hans í hernum lauk var hann háseti á risaolíuskipum, skipin voru það stór að menn hjóluðu um á dekki skipanna á reiðhjólum. Eftir það lá leið hans til Noregs þar sem hann kynntist Bodill.
Kvöld eitt fórum við Alfreð í gönguferð með Paul, við fórum í þessa ferð eins og við stóðum, svona eins og við værum að fara í næsta hús í kaffispjall. Þetta kvöld og um nóttina gengum við um 25 km. leið inni í skógum Noregs, í landslagi sem var aðalega upp og niður, þegar upp á hæðina var komið lá leiðin aftur niður og svo upp aftur. Við vorum ekki með neitt nesti með okkur og ekkert til að drekka, við urðum að lifa á því sem náttúran bauð upp á. Með sanni má segja að við Alfreð höfum verið í ferð með Bear Grylls sem gerir þættina Man vs. wild, sem sýndir eru á Discovery sjónvarpsstöðinni. Ekki borðuðum við lirfur skordýra eða kreystum vökva úr dýraskít eins og Grylls gerir. Í Noregi er nóg af hreinu uppsprettuvatni og í þeim er mikið af fiski. Silungar voru veiddir í á og sprek tínt saman og eldur borin að þar sem silungarnir voru grillaðir, og drukkið vatn úr ánni. Ein á var það sem við fórum yfir, að sjálfsögðu fórum við yfir ánna þar sem hún var grynnst og þar af leiðandi breiðust. Ég klæddi mig úr gallabuxunum mínum, skóm og sokkum og fór yfir ánna. Ég ætla ekki að lýsa því hve köld hún var en ég hélt að vatn gæti í raun ekki verið svona kalt. Ég var ótrúlega ánægður að komast yfir ánna og þurrka mér á bakkanum hinum megin. Mér leið ekkert illa að heyra kuldahrollinn og stunurnar í Alfreði þegar hann fór yfir ánna. Paul kom síðastur yfir, eins og vænta mátti af sérsveitarmanni, var þetta eins og hann væri í fótabaði í baðinu heima hjá sér.
Dag einn kom akandi eftir sveitaveginum Volswagen rúgbrauð. Árið 1973 var sá tími þegar hippatímabilið var á hátindi sínum, þegar Eagles gerði sín bestu lög og Logar hljóðrituðu Minningu um mann. Rúgbrauðið varð að minnisvarða hippanna, blómaskreyttir og mislitir. Þessi bíll var að vísu ekki blómaskreyttur, hafði aðeins þann lit sem framleiðendurnir höfðu sett á bílinn. Ferðamennirnir í bílnum komu alla leiðina frá Sviss, þar var bróðir Pauls og vinir þeirra. Paul og Bodill áttu lítinn sumarbústað í um 8-9 km. fjarlægð frá húsinu sínu. Engin vegur lá að búsaðnum og til að komast þangað þurfti að ganga þangað á sínum tveimur jafnfljótum. Bústaðurinn var á flottum stað með stóru vatni við, í reynd var þetta bara smækkuð mynd af húsinu þeirra. Ekki var neitt rafmagn í búsaðnum og ná þurfti í vatn í fötu út í vatnið. Paul ætlaði eitthvað að breyta bústaðnum eða stækka hann, það var því himnasending fyrir hann að hafa allt þetta fólk hjá sér. Unga menn sem gátu borið mikið langar leiðir. Kvöld eitt var lagt af stað með það efni sem þurfti í bygginguna, við Alfreð vorum með stafla af timbri á milli okkar sem við bárum á öxlunum alla leiðina að bústaðnum, allir höfðu eitthvað svipað að bera eins og við. Ég lýg því ekki að á áfangastað voru axlir mínar eins og V á hvolfi og þegar ég vaknaði daginn eftir voru axlinar bláar og marðar. Saga þurfti sprek í kabyssuna til að hita upp mat og te, en Paul grillaði mat yfir eldi þarna. Þarna vorum við eins og frummaðurinn og þurfturm að mestu að lifa á því sem jörðin gaf.
Fjörðurinn sem Harstad er við heitir Ofotfjord, þar er líka borgin Narvik og þangað ákváðu ferðalangarnir frá Sviss að aka. Okkur Alfreð og Bodill var boðið með, í rúgbrauðinu voru að minnsta kosti pláss fyrir átta farþega, þannig að vel fór um alla. Narvik er mikill iðnaðarbær og mikið unnið úr stáli. Nasistar voru með herbækistöð þar í seinni heimstyrjöldinni, þar sem stór herskip og kafbátar voru hafðir. Reikna má með að þaðan hafi kafbátar farið í drápsferðir til Íslands og fleiri staða.
Rúgbrauðið stoppaði í miðjum bænum, þar sem verslanir voru flestar, ég fór og keypti 7-up í eins lítra flösku, kostagripur sem ekki var hægt að kaupa á Íslandi. Ég settist á útikaffihúsi og byrjaði að drekka mitt 7-up og rann það vel niður enda hitinn þó nokkur í Narvik. Er ég hafði setið nokkra stund kom Alfreð labbandi og var með stóran plastpoka, í honum var byssustingur sem hann hafði keypt. Alfreð keypti þennan byssusting handa vini sínum á Djúpavogi, sá átti byssu sem gerð var fyrir byssusting en átti engan. Ég verð að viðurkenna að mér brá smá, en engum þótti þetta neitt tiltöku mál og Alfreð rann með byssustinginn í gegnum alla tolla og eftirlit eins og ekkert væri.
Einn veitingastaður í Narvik, er staðsettur uppi á 1000 metra háu fjalli. Við ákváðum að fara þangað upp og fá okkur eitthvað að borða. Þangað var farið upp með kláfum sem héngu í vír og voru dregnir upp á fjallið, farið var eins niður af fjallinu. Fyrir utan veitingastaðinn voru svalir sem hægt var að fara út á, þar voru kíkjar og við skoðuðum Narvik þaðan.
Flogið var frá Harstad aftur til Osló, við hittum ferðalangana frá Eyjum sem flugu með okkur norður, við heyrðum ýmsar sögur hjá þeim af vistinni í norður Noregi. Þegar til Osló kom var einhver bið að flogið yrði heim, þar sem áætlun var að flogið yrði þangað eftir miðjan dag. Við fórum niður í borgina og borðuðum hádegismat og eyddum tímanum þar til að brottför var komin heim til Íslands aftur. Þetta var skemmtileg ferð og góð, hún var í tvær vikur og öllum til sóma. Norski Rauði krossinn á heiður skilið fyrir sitt framtak. Takk fyrir mig. Þegar heim kom sögðu foreldrar mínir að þau væru búinn að redda mér vinnu út í Eyjum við að hreinsa upp vikur eftir gosið. Þangað lá leið mín strax og ný ævintýri tóku við, sem verða kanski skráð síðar.
Söguhetjurnar og ferðalangarnir, Alfreð Alfreðsson og Óskar Pétur Friðriksson.
Heimildir