Guðný Bjarnadóttir (ljósmóðir)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. júní 2024 kl. 15:54 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. júní 2024 kl. 15:54 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Guðný

Guðný Bjarnadóttir húsfreyja, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur fæddist 10. desember 1950 að Kjalvararstöðum í Reykholtsdal í Borgarfirði.

Ætt og uppruni

Faðir Guðnýjar voru Bjarni Þorsteinn bóndi á Kjalvararstöðum, f. 16. nóvember 1905, d. 27. júlí 1984, Halldórs bónda þar, f. 4. ágúst 1867, d. 5. maí 1961, Þórðarsonar í Skáneyjarkoti, Halldórssonar og konu Halldórs bónda á Kjalvararstöðum, Guðnýjar húsfreyju, f. 15. september 1870, d. 2. marz 1951, Þorsteins bónda í Gróf í Reykholtsdal Sigmundssonar.
Móðir Guðnýjar og kona Bjarna á Kjalvararstöðum var Þórlaug Margrét húsfreyja, f. 6. marz 1909 á Sauðárkróki, d. 3. nóvember 1972, Símonar sjómanns og járnsmiðs á Sauðárkróki, f. 1876, d. 1931, Jónssonar bónda á Neðra-Nesi á Skaga, Einarssonar og ráðskonu Símonar, Guðrúnar, f. 1883, d. 1962, Þorsteinsdóttur, Þorsteinssonar.
Þorsteinn Sigmundsson bóndi í Gróf var afabarn Þiðriks Ólafssonar bónda í Geirshlíð, f. 1763, en Þiðrik er ættfaðir Jónu Dóru Kristinsdóttur og Drífu Björnsdóttur ljósmæðra í Eyjum og Þorsteins Víglundssonar skólastjóra og sparisjóðsstjóra.

Ferill

Guðný lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum í Reykholti 1967. Hún varð hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands 1972, svæfingahjúkrunarfræðingur frá Nýja Hjúkrunarskólanum 1979 og ljósmæðraprófi lauk hún frá Ljósmæðraskóla Íslands 1988.
Hún lauk 7. einingum af námi til mastersprófs í sálgæzlufræðum við Endurmenntunarstofnun og guðfræðideild Háskóla Íslands.
Guðný lauk djáknanámi við guðfræðideildina og vígðist 2007.
Eftir að hjúkrunarnámi lauk starfaði Guðný á sjúkrahúsum í Reykjavík og á Akranesi, en frá 1979 við Sjúkrahúsið í Eyjum, fyrst sem hjúkrunarfræðingur, en frá 1988 sem ljósmóðir.
Guðný var djákni við Landakirkju og starfsmaður félagsmálaafla á vegum Bæjarins 2008-2009.
Hún var ljósmóðir í Reykjavík 2009-2011, en var kennari á hjúkrunarbraut við Framhaldsskólann í Eyjum 2011 til starfsloka 2017.
Guðný var formaður Vesturlandsdeildar Hjúkrunarfélags Íslands í eitt ár, varabæjarfulltrúi í Eyjum í tvö kjörtímabil frá 1990-1998 og var aðalfulltrúi í félagsmálanefnd þau skeið. Auk þess var hún fulltrúi í sóknarnefnd Ofanleitissóknar eitt kjörtímabil.

I. Maður Guðnýjar, (23. september 1972, skildu), Bergþór Bergþórsson framreiðslumaður, f. 16. september 1950. Foreldrar hans Bergþór Ó. Theodórs húsasmíðameistari í Rvk, f. 23. ágúst 1914, d. 9. júní 1996, og Torfhildur Jónsdóttir Theodórs, f. 20. júlí 1918, d. 12. mars 1976.

II. Maður Guðnýjar er Kristján Gunnar Eggertsson rafvirkjameistari, framkvæmdastjóri, hafnarvörður, f. 20. ágúst 1947.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Borgfirzkar æviskrár.
  • Guðný Bjarnadóttir.
  • Ljósmæður á Íslandi 1-2. Ritstjóri Björg Einarsdóttir. Ljósmæðrafélag Íslands 1984.
  • Pers.
  • Skagfirzkar æviskrár 1850-1890. III.105-107.
  • Vestfirzkar ættir.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.