Grænahlíð 9
Hús Árna Filipussonar Austurvegi og Solveigar Guðlaugsdóttur Reykjavík. Lóðarleigusamningur var undirritaður 29. júlí 1957.
Þau Árni og Solveig byrjuðu að byggja í Vatnsdalstúninu í júní 1956. Fluttu inn á þjóðhátíðinni 1960, með soninn Filipus Gunnar fæddan 14. júlí 1956 og mánaðargamla dóttur, Þórdísi, fædda 5. júlí 1960.
Þetta var eina húsið í Grænuhlíðinni, sem gekk kaupum og sölum eftir að það var fullbyggt. Guðni B. Guðnason og Valgerður Þórðardóttir keyptu húsið vorið 1962 og fengu það afhent í maílok það ár. Með þeim voru synirnir Gunnar fæddur 1. janúar 1951, Þórólfur 28. október 1953 og Guðni Björgvin 30. september 1961. Sambýliskona Gunnars, Erna Olsen, og sonur þeirra Valur. Þau Guðni og Gerða innréttuðu íbúð í kjallara sem var tilbúinn undir tréverk þegar þau keyptu.
Magnús Jónasson á Grundarbrekku og Guðfinna Óskarsdóttir keyptu af Guðna og Gerðu í maí 1972, fluttu þá í kjallarann, og upp á hæðina í september þegar Guðni og fjölskylda fluttu á Selfoss. Í kjallarann flutti þá Bergmundur Elli Sigurðsson, kona hans Ólöf Helga Júlíusdóttir og sonur þeirra Valur.
Húsið fór undir hraun í gosinu 1973
Heimildir
- Friðrik Ásmundsson, Grænahlíð, samantekt unnin 2002.