Ljósmyndasafn Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. nóvember 2021 kl. 20:52 eftir Gudmundurj85 (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. nóvember 2021 kl. 20:52 eftir Gudmundurj85 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Ljósmyndasafn Vestmannaeyja er staðsett í Safnahúsi Vestmannaeyja við Ráðhúströð.

Ein af perlum safnsins er ljósmyndaplötusafn Kjartans Guðmundssonar ljósmyndara frá Hörgsholti (1885-1950) sem er uppistaða Ljósmyndasafns Vestmannaeyja.

Alls er safnið 15.000 til 20.000 plötur sem erfingjar Kjartans gáfu Vestmannaeyjabæ eftir lát hans árið 1950. Bæjarstjórn afhenti Byggðasafninu plöturnar til varðveislu. Mikið starf var að bera kennsl á það fólk sem á myndunum er. Þorsteinn Þ. Víglundsson fékk til liðs við sig nokkra menn við það verkefni. Þeir voru Árni Árnason, Eyjólfur Gíslason, Guðjón Scheving og Oddgeir Kristjánsson.

Allt fram að síðari hluta ársins 2012 var Ljósmyndasafn Vestmannaeyja enn viðhengi við annað safnastarf í Safnahúsi Vestmannaeyja. Mergur safnsins voru um 20.000 ljósmyndir Kjartans Guðmundssonar ljósmyndara (1885-1950) og var áætlað að ljósmyndir annarra væru samtals ámóta að tölu. Hinn 8. september 2012 var hins vegar brotið í blað í sögu Ljósmyndasafnsins er fjölskylda Óskars Björgvinssonar ljósmyndara (1942-2002) afhenti gervalt safn hans. Áætlað magn er um 150.000 ljósmyndir. Á þeim tímamótum fékk Kári Bjarnason forstöðumaður Safnahúss Vestmannaeyja Ingu Láru Baldvinsdóttur fagstjóra myndasafns Þjóðminjasafns til að áætla hvar Ljósmyndasafnið stæði í röð ljósmyndasafna landsins og taldist Ingu Láru til að Ljósmyndasafn Vestmannaeyja væri orðið hið sjöunda stærsta á landsvísu. En stærri urðu skrefin áður en varði. Hinn 5. janúar 2014 var langstærsta ljósmyndasafn í sögu Vestmannaeyja, og a.m.k. eitt allrastærsta safn ljósmyndasafn úr einkaeigu afhent er Sigurgeir Jónasson ljósmyndari (1934- ) afhenti sjálfur ásamt fjölskyldu sinni um 2.000.000 – 3.000.000 ljósmynda. Við þau tímamót varð Ljósmyndasafn Vestmannaeyja að öllum líkindum fjórða stærsta safn landsins og annað stærsta ljósmyndasafn utan höfuðborgarinnar, næst Minjasafni Akureyrar.


Tenglar

  • Heimasíða Ljósmyndasafnsins [1]