Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Fögnum unnum sigri og herðum róðurinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. febrúar 2018 kl. 20:55 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. febrúar 2018 kl. 20:55 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
PÁLL ÞORBJÖRNSSON


Fögnum unnum sigrum og herðum róðurinn


Sjómenn í Vestmannaeyjum hafa sannarlega ástæðu til þess, þó vertíðin væri léleg, að fagna unnum sigrum nú á sjómannadaginn.
Frá því síðasti sjómannadagur var háður hefur unnizt sigur í tveim baráttumálum sjómanna, sem fram hafa verið borin í Vestmannaeyjum og fyrst og fremst fylgt eftir þaðan, þó að fleiri hafi smátt og smátt bætzt í hópinn.
Alþingi það, er setið hefur að undanförnu, hefur nú viðurkennt gúmmíbjörgunarbátana sem björgunartæki og lögboðið þá sem slíkt. Þá hefur alþingi einnig samþykkt breytingu á lögunum um atvinnu við siglingar á þann hátt að tekið er upp hið minna fiskimannapróf, er veitir réttindi upp að 120 rúmlestum. Kennsla og próf til hins minna fiskimannaprófs skal fara fram á fjórum stöðum utan Reykjavíkur og þar á meðal í Vestmannaeyjum.
Vestmannaeyingar urðu fyrstir til að taka upp notkun gúmmíbjörgunarbátanna og sanna nytsemi þeirra, þrátt fyrir þetta tók það allmörg ár að berjast við skammsýni og þvermóðsku ýmissa þeirra, er töldu sig hafa og í ýmsum tilfellum höfðu mikið að segja um þessi mál. En nú hefur unnizt sigur, og megum við nú á sjómannadaginn, Vestmannaeyingar, fagna unnum sigri, þeim langmerkasta í baráttunni fyrir björgun mannslífa á sjónum síðan Vestmannaeyingar stofnuðu Björgunarfélag Vestmannaeyja og keyptu hingað fyrsta björgunarskipið, gamla Þór, sem varð upphaf að björgunarstarfi og landhelgisgæzlu Íslendinga.
Þegar lögunum um atvinnu við siglingar var á sínum tíma breytt þannig, að pungaprófið svonefnda var lagt niður, var til þess ætlazt, að á eftir hefðum við á að skipa betur menntuðum og færum yfirmönnum á vélbátaflotanum en áður var. Kennslan var öll flutt til Reykjavíkur. Reynslan sannaði fljótlega, að hér hafði verið stigið stórt spor aftur á bak. Stýrimannaskólinn í Reykjavík útskrifaði ekki nema brot af þeim fjölda, sem þurfti til þess að fullnægja eftirspurninni eftir skipstjórum og stýrimönnum á fiskiflotann. Gripið var til þess óyndisúrræðis að veita mönnum með litla eða enga þekkingu í siglingafræði undanþágu til þess að vera stýrimenn eða skipstjórar. Nokkur undanfarin ár mun um helmingur allra skipstjóra og stýrimanna á vélbátaflotanum hér í Vestmannaeyjum hafa verið undanþágumenn og sum staðar mun hlutfallið hafa verið enn verra.
Það eru mörg ár síðan sjómenn í Vestmannaeyjum hófu baráttu fyrir því að fá kennsluna flutta heim í héruðin og sniðna við hæfi þeirrar sjósóknar, sem stunduð er á meginþorra vélbátaflotans.
Mál þetta mætti mikilli mótspyrnu frá ýmsum hliðum án þess þó að bent væri á aðrar eða betri úrlausnir. Ár eftir ár hefur málið verið flutt af hendi Vestmannaeyinga á fiskiþingum, farmannasambandsþingum og við Alþingi og ríkisstjórn, og nú hefur loks unnizt nokkuð á, þannig að hér í Vestmannaeyjum mun verða kennt undir hið minna fiskimannapróf í haust og vetur og ætti álitlegur hópur stýrimanna og skipstjóra að geta útskrifazt fyrir næstu vertíð.
Þegar þessi tvö stórmál eru frá, er þeim mun betra tækifæri til þess að einbeita sér að þeim baráttumálum, sem enn hefur ekki unnizt sigur í. Þau eru mörg, en hér skal aðeins eitt þeirra tekið til meðferðar, enda það þannig vaxið, að ég tel, að vöxtur og viðgangur Vestmannaeyja standi og falli með því, að það mál leysist hið allra bráðasta.

Gúmbjörgunarbátur.

Þegar fiskveiðitakmörkin voru ákveðin, var grunnlínan dregin með furðulegum hætti hér á svæðinu Vestmannaeyjar—Reykjanes. Engar skynsamlegar skýringar hafa verið gefnar á því, hvers vegna grunnlínan var dregin á þennan hátt, en ótal margt má færa því til stuðnings, að einmitt á þessu svæði þyrfti að friða sem lengst út, eða meðal annars vegna hinna þýðingarmiklu hrygningarstöðva hér sunnanlands. Vestmannaeyingar hafa fyrir löngu komið fram með þá lágmarkskröfu, að grunnlínan verði dregin milli Geirfuglaskers og Geirfugladrangs. Þegar þeirri sjálfsögðu kröfu hefur verið fullnægt, ætti að alfriða hraunin fyrir öllum veiðarfærum um hrygningartímann. Þetta mál um útfærslu friðunarlínunnar og friðun hraunanna hlýtur að vera og verða mál málanna fyrir Vestmannaeyinga, unz því fæst framgengt. Ég á enga betri ósk til handa sjómannastéttinni hér í Vestmannaeyjum nú á sjómannadaginn en þá, að hún megi fagna unnum sigri í þessu máli á sjómannadaginn 1958.