Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Rafn Árnason frá Gröf í Vestmannaeyjum
Rabbi í Gröf, eins og við jafnaldrar hans kölluðum hann, var fæddur hér í Rafnsholti við Kirkjuveg, 31. jan. 1923. Foreldrar hans voru þau hjónin Árný Friðriksdóttir frá Gröf og Árni Sigfússon bakari, er bjuggu í fyrrnefndu húsi.
Rafn ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Friðriki Benónýssyni og Oddnýju Benediktsdóttur. Rafn var síðasta barnið er ólst upp í Gröf. En áður höfðu afi hans og amrna komið upp sínum stóra hóp, en 20 voru þeirra börn alls.
Rafn bar mjög svip ætta sinna og þá ekki síður móðurættarinnar. Margir kostir báru þess vitni og komu fram hjá honum sem ungling. Honum veittist allt nám auðvelt og var í fremstu röð bekkjarsystkina sinna. Harðsnúinn og snar í leikjum öllum og íþróttum og syndur mjög vel. Í einni grein gat hann sem 10— 12 ára drengur boðið fullorðnum byrginn. Það var skák. Enginn jafnaldra hans stóð honum þar snúning á borði, og voru þeir þó ekki allir aukvisar. Furðaði þann er þetta ritar hvernig hann gat tileinkað sér rúnir skáklistarinnar og beitt þeim af skilningi og hugsun, svo útkoma var jafnan ein fyrir mótherja hans: mát.
Svo virtist með Rafn, að hann sem drengur vissi hvað hann vildi verða, er hann væri orðinn stór. Markið var hátt, stefnt að því með festu og náð með glæsibrag. Gekk hann í gegnum Gagnfræðaskólann hér heima á vetrum, en var þá á sumrum norðanlands, á síldveiðum með frænda sínum, Benóný frá Gröf. Komu þá í ljós ótvíræðir sjómannshæfleikar hans. Í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari réðist hann til Eimskipafélags Íslands sem háseti á skipum þess. Er skemmst frá því að segja, að öll stríðsárin sigldi hann og kynntist þá ömurlegustu hliðum sjómennskunnar í allri sinni nekt. Æðandi tundurskeytum og fallbyssum spúandi eldi og dauða, mannslífum og skipum að grandi. Var það oft furða, að Rafn og félagar hans skyldu sleppa. Skall þó oft hurð nærri hælum, er ekki verður rakið nánar hér. Með mjög góðri einkunn lauk hann farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og var svo upp frá því, stýrimaður hjá Eimskip í mörg ár.
Við endadægur sitt skipaði hann eina æðstu stöðu á stærsta vöruflutningaskipi Íslendinga „Tröllafossi“, en þar hafði hann verið stýrimaður undanfarin ár.
Rafn var efnalega sjálfstæður maður, átti gott heimili, sem hann bjó ásamt konu sinni Sóley Sveinsdóttur og tveimur börnum sínum. Stóð það í Reykjavík.
Í vetur er leið, í þorramánuði, fyllti Rafn 35. æviár sitt. Þau urðu ekki fleiri. Nokkru síðar týndist hann af skipi sínu í New York-höfn. Okkur, sem eftir lifum, er þetta óskiljanlegt sem margt annað. Rafn hafði farið í gegnum ótal hættur ófriðar og hamfarir náttúruafla og alltaf komizt heill í höfn. Nú, í lygnu og öryggi heimshafnarinnar, lá þó hættan við dyrnar. Rafn var horfinn, dáinn.
Vestmannaeyingur er bar hróður heimabyggðar sinnar víða um lönd, er kvaddur í dag af sjómannastétt Vestmannaeyja. Konu hans, börnum og ástvinum er vottuð samtíð. Minning um góðan dreng lifir.