Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1979/Verðandi 40 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. júní 2017 kl. 11:21 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. júní 2017 kl. 11:21 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Verðandi 40 ára


Friðrik Ásmundsson, skólastjóri flytur ræðu.

Hinn 27. nóvember s.l. átti Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi 40 ára afmæli. Var efnt til afmælisfagnaðar í Samkomuhúsinu 27. desember. Friðrik Ásmundsson, skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum flutti þar ávarp, sem fer hér á eftir.
Góðir áheyrendur.

Mér var það bæði ljúft og skylt að verða við tilmælum forráðamanna s.s. Verðanda um að flytja hér nokkur orð í tilefni 40 ára afmælis félagsins. Eitt af stærstu baráttumálum Verðanda var að hér yrði stofnaður sjálfstæður stýrimannaskóli.
Þessi draumur félagsins varð að veruleika þegar alþingi Íslendinga samþykkti lög þar um h. 18. des. 1964.
Í virðingarskyni við þetta félag var sett í lög að í skólanefnd Stýrimannaskóla Vestmannaeyja skyldu vera tveir fulltrúar frá S. s. Verðanda, en aðrir aðilar eiga þar einn fulltrúa.
Fyrir utan það sem fulltrúar Verðanda í skólanefnd hafa unnið fyrir skólann hefur stundum þurft að leita til félagsins með stuðning. Síðast var það gert á síðasta skólaári. Þá sem fyrr sló félagið þá skjaldborg um skólann, sem nauðsyn bar til.
Með stuðningi Verðanda varð skólinn til. Án stuðnings Verðanda verður skólinn að engu. Ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri hér nú til að þakka þessi samskipti öll.

Tveir nýir heiðursfélagar Verðanda, sem báðir hafa unnið mikið fyrir félagið, Gísli Eyjólfsson frá Bessastöðum, sem lengst allra hefur verið ritari Verðanda og Einar Guðmundsson frá Málmey, sem verið hefur gjaldkeri Verðanda um fjölda ára og er enn.
Núverandi stjórn Skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda. Talið frá vinstri, sitjandi: Jóel Andersen, ritari, Logi Snædal Jónsson, formaður, Einar Guðmundsson, gjaldkeri. Standandi: Jóhannes Kristinsson, og Gísli Einarsson, meðstjórnendur.
Glatt á hjalla á árshátíðinni. Richard Sighvatsson skipstjóri á Erlingi Arnari og Hallgrímur Garðarsson á Sæþóri Árna ásamt eiginkonum þeirra.
Gengið að snæðingi.

S. s. Verðandi varð 40 ára 27. nóvember s.l. Hér er á þessu kvöldi haldinn fögnuður af því tilefni.
Stofnfundur var haldinn í húsi K.F.U.M.-&K. h. 27. nóvember 1938. Stofnendur voru 38 talsins.
Fyrstu tildrög að stofnun félagsins voru þau að skipstjórar og stýrimenn vildu bindast samtökum um það nauðsynjamál að reisa vita á Þrídröngum. Þetta má sjá í gömlum skjölum félagsins.
Í fyrstu lögum félagsins segir svo um tilgang þess 2. gr. Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmuna- og launamálum skipstjóra og stýrimanna. Efla samvinnu og viðkynningu þeirra og vernda rétt þeirra. Einnig vill félagið láta til sín taka hverskonar endurbætur er snerta sjávarútveg og siglingar.
Á fundi í Akóges 3. jan. 1942 kemur fram tillaga frá Þorsteini Jónssyni í Laufási um að félagið taki sér nafnið Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi. Tillagan var samþykkt einróma. Á sama fundi voru samþykkt lög styrktarsjóðsins. Það er sjóður sem styrkir ekkjur félagsmanna, sjóðurinn fékk þá sitt fyrsta framlag. Voru það 50.00 kr. frá Hannesi Hanssyni ásamt bók, er rita skyldi í nöfn þeirra sem í sjóðinn gæfu.
Fyrstu stjórn Verðanda skipuðu: Árni Þórarinsson formaður, Sighvatur Bjarnason varaformaður, Sigfús Scheving ritari og Karl Guðmundsson gjaldkeri. Árni Þórarinsson gegndi formannsstörfum fyrstu 6 árin eða til 1944. Störf sín leysti Árni af hendi með dugnaði. Stendur félagið í þakkarskuld við brautryðjandastörf hans.
Á þessum 6 árum félagsins lét það mörg mál til sín taka. Af gögnum þeirra tíma má sjá að ekki hafa menn alltaf verið á eitt sáttir.
Á aðalfundi 15. nóvember 1944 lætur Árni Þórarinsson af formannsembætti. Við það tækifæri les hann upp eftirfarandi greinargerð. Ég hafði hugsað mér að telja upp á þessum fundi helstu verkefni félagsins á þessum stutta tíma, sem liðinn er frá stofnfundi þess. Þetta félag var stofnað sérstaklega vegna þess nauðsynjamáls að komið yrði upp vita á Þrídröngum. Að því máli var mikið unnið. Þó þetta félag væri þá ekki löglega stofnað, eru það í raun og veru fyrstu störf þess.
Þá var því komið í framkvæmd að allir, sem á sjó færu væru tryggðir og sömuleiðis að eftirlit væri með því að ára- og trillubátar væru í sæmilegu standi. Það voru talsverð brögð að því að menn væru ótryggðir á lélegum bátum á sjó vetur og sumar. Félagið beitti sér fyrir því að sjóleiðsla væri lögð í Básaskersbryggjuna og steypt væri plata með A-kanti hennar.
Þá var tekin fyrir afgreiðsla olíunnar, sem gekk óþolandi seint. Úr því var bætt. Merking veiðarfæra var tekin fyrir. Settar reglur og hún skipulögð með mjög góðum árangri. Það ástand sem á þessu var, var öllum til skaða og skammar. Félagsmenn stóðu einhuga að þessu máli og óhætt er að segja þau störf, sem unnin voru í þágu þessa máls hafa fengist hundraðfalt borguð í minna erfiði á sjónum og auknum afla.
Fisksölumál voru tekin til meðferðar. Geri ég ráð fyrir að þakka megi þessu félagi að fisksalan var skipulögð og lagt var niður það vandræða fyrirkomulag, sem áður var á þessum málum. Þetta mál skiptir svo miklu fyrir þennan bæ og alla íbúa hans fjárhagslega að það veltur á hundruðumþúsunda með eða móti eftir því hvemig því er skipulagt eða stjórnað.
Mikið hefur verið unnið í talstöðvarmálum. Viðunandi lausn hefur ekki fengist. Vonandi komast þau mál í gott horf. Félagið beitti sér fyrir því að hlustað yrði á loftskeytastöðinni allan sólarhringinn. Það fékkst í gegn og hefur reynst mjög vel. Skipulagðri hlustun var komið á innan fiskiflotans.
Hefur hún gert mikið gagn og er mikið öryggismál. Tilraun var gerð til að venja menn af bryggjulegum með báta sína. Maður var fenginn til að gera við og leiðrétta kompása. Helgarróðrar hafa verið bannaðir mestan hluta ársins. Launakjör hafa verið rædd og gerðir samningar. Þetta er greinargerð Árna Þórarinssonar um fyrstu 6 starfsárin. Hún gefur þeim sem ekki til þekkja til kynna hvaða störf eru unnin í félaginu. Þó hún sé aðeins um fyrstu 6 starfsárin, má geta þess að síðan hefur verið unnið að svipuðum málum, sem snerta sjávarútveg, siglingar, sjómenn og sæfarendur við Vestmannaeyjar miklu máli. Að sjálfsögðu misjafnlega mikið frá ári til árs.
Ég vil geta hér nú mála, sem staðið hafa uppúr og Verðandi hefur átt frumkvæði eða aðild að og skipt hafa sköpum fyrir alla sæfarendur. Fyrsta róðrasamþykkt, sem vitað er um að gerð er á Íslandi er gerð á fundi í Verðanda. Með róðrarsamþykkt var komið á föstum róðrartímum fyrir línuveiðar og þær skipulagðar á annan hátt. Vestmannaeyingar voru eftirbátar annarra í að taka upp línuveiðar, en þeir voru á undan öðrum að skipuleggja þær á þann hátt, sem nauðsyn bar til.
Merkingu veiðarfæra var komið á, á fyrstu árum félagsins eins og áður er getið. Þar var fyrst og fremst um merkingu netaveiðarfæra að ræða. Það var fyrst 13. mars 1978 eftir að reglugerð frá sjávarútvegsráðuneyti var gefin út að merking veiðarfæra var tekin upp í öðrum verstöðvum.
Fyrir samvinnu Verðanda og Björgunarfélags Vestmannaeyja var tilkynningarskyldu komið hér á, 20 árum áður en hún komst á annarsstaðar. Tilkynningarskylda þessi var á þann hátt að bátar, sem ekki voru komnir að landi fyrr en kl. 19.00 tilkynntu það, ásamt væntanlegum komutíma eða hvort þeir mundu koma að landi þann sólarhringinn.
Tveir útgerðarmenn hér í Eyjum voru fyrstu útgerðarmenn (sem vitað er um) til þess að kaupa gúmmíbáta, sem björgunartæki í báta sína. Skipstjórnarmönnum hér leist strax mjög vel á þetta björgunartæki. Verðandi tók þá höndum saman við önnur sjómannafélög hér, Útvegsbændafélag Ve. og björgunaraðila með þeim árangri að gúmmíbátar voru skyldaðir, sem björgunartæki á flotann hér áður en þeir þekktust annarsstaðar.
Nokkrum árum síðar voru gúmmíbjörgunarbátar skyldaðir um borð í öll íslensk skip. Aðrar þjóðir tóku þetta svo upp eftir Íslendingum. Þarna var um mjög ánægjuleg brautryðjandastörf fyrir þessa byggð að ræða. Á 104. fundi í félaginu árið 1957 voru, samþykktar tillögur Hraunanefndar félagsins. Í fáum orðum sagt voru tillögurnar þessar. 1.Selvogsbankahraunið (Aðalhraunið) friðað fyrir þorskanetaveiðum. 2.Drangahraunið friðað fyrir öllum veiðum 15/3-15/5 ár hvert. 3.Skottið friðað fyrir öllum veiðum 15/3-15/5 ár hvert. Tillögurnar voru víðtækari m.a. um fiskveiðitakmörk, dragnótaveiðar, humarveiðar og fl. Tillögurnar miðuðu allar að fiskvernd, skipulagningu fiskveiða miðað við veiðisvæði og hin ýmsu veiðarfæri.
Mál manna á þessum fundi snérust aðallega um nauðsyn þess að koma þessu, sem fyrst í höfn. Talað var um að til stórvandræða horfði. Og talað var um að þegar í stað yrði að spyrna við fótum svo eitthvað yrði til handa afkomendum eins og sagt var. Ástand væri þannig að til auðnar horfði.
Nefnd frá félaginu var send til Reykjavíkur með friðunartillögurnar og sjókort með tillögunum útsettum. Bæði stjórnmálamenn og aðrir ráðamenn töldu tillögur Verðandamanna óþarfar og ótímabærar. Enn væri nógur fiskur í sjónum. Þeir töldu sjóinn þá ótæmandi uppsprettu. Sennilega hafa tillögur Verðanda og sjókort þeirra lent beint í ruslakörfunni í orðsins fyllstu merkingu. Þegar leitað var eftir þeim í sjávarútvegsráðuneytinu síðar fundust þær hvergi. Öruggt er að ástand fiskistofna væri öðruvísi og betra nú, ef ráðamenn hefðu samþykkt tillögur Verðanda.
Fyrir forystu Verðanda var lífeyrissjóður Vestmannaeyinga stofnaður 19. nóvember 1969. Fé hans er varðveitt hér heima í héraði. Það er þessari byggð til mikils gagns. Það var fyrir ákveðni Verðandamanna að sjóðurinn var ávaxtaður hér.
Á fundi 4. okt. 1942 kom fram tillaga um að félagið sækti um inngöngu í F.F.S.I. Tillagan var samþykkt 23. júni 1943. Frá þeim tíma hefur Verðandi verið virkur aðili að þessum heildarsamtökum yfirmanna íslenzkra far- og fiskiskipa. Hafa fulltrúar Verðanda ætíð setið þing F.F.S.I. Árið 1956 var fulltrúaráð stofnað í félaginu.
Í ársbyrjun gaf frú Bjarngerður Ólafsdóttir félaginu neðstu hæð húseignarinnar Heiði (nr 19 við Sólhlíð). Gjöf þessa gaf frú Bjarngerður til minningar um látinn eiginmann sinn, Guðjón Jónsson skipstjóra frá Heiði. Guðjón var mikill sjósóknari og aflamaður hér í Eyjum í tugi ára. Hann var gerður að heiðursfélaga í Verðanda 15. janúar 1950.
Félagið kom sér upp skrifstofu á Heiði. Innréttaði að nýju íbúð, sem var leigð út. Þegar eldgosið hófst var félagið með viðbyggingu í smíðum við Heiði. Þar var nýr inngangur og snyrtiherbergi.

Ellefu af stofnendum félagsins. Sitjandi talið frá vinstri: Guðjón Valdason Sandgerði, Willum Andersen Sólbakka, Jónas Sigurðsson Skuld, Kristinn Magnússon Sólvangi, Standandi talið frá vinstri: Björgvin Jónsson Úthlíð, Oddur Sigurðsson Dal, Guðni Grímsson á Maggý, Haraldur Hannesson Fagurlyst, Sigurður, Sigurjónsson á Freyjunni, Knud Andersen Sólbakka, Ólafur Jónsson Brautarholti.

Heiði eyðilagðist í eldgosinu. Félagið fékk eignina bætta eftir settum reglum. Bótaféð var notað til þess að greiða hlut Verðanda í félagsmiðstöð, sem sjómannafélög hér ásamt Slysavarnafélaginu Eykyndli, Björgunarfélagi Vestmannaeyja og Sjómannadagsráði keyptu síðla árs 1976. Félagsmiðstöð þessi, Básar kemur þessum félögum mjög til góða í öllu starfi. Þar hafa verið gerðar breytingar, sem eru til fyrirmyndar. Óhætt er að segja að ekki hefði verið hægt að gera þessi kaup, ef bótaféð fyrir Heiði hefði ekki komið til.
Frá stofnun hafa margir verið kosnir til trúnaðarstarfa. 18 menn hafa gegnt formannsstörfum. Flestir í 2 ár. Nokkrir stjórnarmenn hafa vegna skyldurækni og dugnaðar í störfum fyrir félagið setið lengur í stjórn en aðrir. Má þar nefna Runólf Jóhannsson, sem er ritari stjórnar frá 1940-1952. Gísli Eyjólfsson var kosinn vararitari 1954 og ritari 1955. Hann ritar sína síðustu fundargerð 2.júní 1973 eða eftir 19 ára ritarastarf. Þegar fundargerðarbækur Verðanda eru skoðaðar sést að félagið hefur verið mjög heppið með ritara. Ber þar hæst hlutur þeirra Runólfs og Gísla.
Út úr hverri síðu fundargerðabókanna skín nákvæmni og samviskusemi, sem er undraverð. Verk þessara manna eru Verðanda og allri sjómannastéttinni merk heimild.
Einar Guðmundsson hefur verið gjaldkeri félagsins frá ársbyrjun 1967 og gjaldkeri hússtjórnar frá upphafi 1964. Hefur hann gegnt gjaldkerastörfum á þann hátt að á betra verður ekki kosið.
Núverandi stjórn skipa: Logi Snædal Jónsson formaður, Gísli Einarsson varaformaður, Einar Guðmundsson gjaldkeri og Jóel Andersen ritari. Frá upphafi hafa verið haldnir 208 fundir í Verðanda. Auk þess hafa verið haldnir fjöldi stjórnarfunda, nefndafunda og fulltrúaráðsfunda. Góðir hátíðargestir hér læt ég staðar numið. Ég hef minnst á örfá mál af þeim sem Verðandi hefur látið til sín taka eða komið í framkvæmd. Af þeim má sjá að í Verðanda hafa verið til lykta leidd mörg brautryðjandamál, sem allri sjómannastétt hafa síðar komið til góða. Þau hafa síðar komið til framkvæmda annarsstaðar.

Bryggjuspjall á vertíð. Bjarni Sighvatsson, Hilmar Rósmundsson og Einar Sigurjónsson

Verðandi hefur verið skipstjórnarmönnum, sjómönnum öllum og þessu byggðarlagi mjög þarft félag eins og ófullkomin upptalning mín hér áður sýndi. Vonir stofnenda um félagið í upphafi hafa farið fram úr glæstum vonum þeirra. Vonandi verður haldið áfram á sömu braut. Ég bið þess að sá góði stuðningur, sem Stýrimannaskólinn hefur alltaf fengið frá Verðanda haldist um ókomin ár. Ekkert hefur skólanum verið eins mikils virði.
Góðir gestir ég hef verið beðinn að tilkynna kosninguheiðursfélaga. Á aðalfundi í Verðanda h. 22 janúar s.l. las Óskar Þórarinsson upp tillögu frá 16 félögum. Tillagan er svona: Aðalfundur s.s. Verðanda haldinn sunnudaginn 22.janúar 1978 samþykkir að gera 2 af félögum s.s. Verðanda að heiðursfélögum, þá Einar Guðmundsson Hrauntúni 11 og Gísla Eyjólfsson Hraunbraut 47, Kópavogi. Gísli Eyjólfsson var virkur félagi í Verðanda í áratugi og ritari og vararitari í 21 ár.
Einar Guðmundsson gjaldkeri félagsins hefur verið mjög virkur félagi allt frá stofnun félagsins fyrir 40 árum og er ennþá í fullu fjöri. Við flutningsmenn teljum að með störfum sínum í þágu félagsins hafi þessir tveir menn sýnt fágætan félagsþroska. Megi störf þeirra vera okkur hinum fyrirmynd til eflingar Verðanda.