Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Á sumarsíldveiðum fyrir 50 árum
Jón Bryngeirsson frá Búastöðum:
Á sumarsíldarveiðum 50 árum lýðveldissumarið
Hálfdrættingur á síld
Fermingarárið mitt, 1944, var ég ráðinn í skiprúm á mb. Kára VE 27 hjá skipstjóranum, Sigga í Hlaðbæ (Sigurði Bjarnasyni) eins og hann var alltaf nefndur í daglegu tali. Ég var ráðinn upp á hálfan hlut á móti Jóhanni (Hanna), syni skipstjórans, en við erum frændur, leikfélagar og vinir frá blautu barnsbeini og hefur sú vinátta haldist æ síðan. Báðir urðum við 14 ára á þessu ári, fæddir 1930. Farið var frá Vestmanneyjum í byrjun júlí um kvöld í blíðskaparveðri, norðanandvara.
Lagt af stað norður
Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar síldarbátar voru að fara frá Vestmannaeyjum í þá daga til sumarsíldveiða við Norðurland, hvað fólk safnaðist saman niður á Básaskersbryggju, ungir sem aldnir, og kvöddu vini og" ættingja. Mér er nær að segja að þessi kveðjustund hafi verið hátíðleg. Á þessu ári grúfði myrkur stríðsófreskjunnar yfir Evrópu og hættur leyndust í höfunum, sérstaklega tundurdufl á reki í sjávarskorpunni. Þegar landfestar voru leystar var búið að draga íslenska fánann að húni á afturmastri og þegar haldið var af stað var loftflautan látin glymja af og til austur að Klettsnefi.
Um leið og komið var í Faxasund voru vaktir settar, vegmælir settur út og haldið áleiðis til Reykjavíkur. Það var í fyrsta skipti sem ég kom til Reykjavíkur. Siglingatækin voru fábrotin, áttaviti, vegmælir (logg), handlóð og brjóstvitið. Siglingin til Reykjavíkur gekk að óskum, nema hvað ég var mikið sjóveikur. Komið var til Reykjavíkur fyrir hádegi næsta dag. Þrír skipverjar voru teknir um borð, áttavitinn réttur af úti á Sundum af Kompása-Konna, en svo var hann nefndur af sjómönnum og var hann í áratugi snillingur í meðferð kompása.
Síðar um daginn var farið frá Reykjavík áleiðis til Ísafjarðar þar sem síldarnæturnar voru geymdar, þ.e.a.s. grunnnót og djúpnót, en á þeim tíma voru engin nótaverkstæði í Vestmannaeyjum til þess að geyma næturnar. Þegar komið var til Ísafjarðar daginn eftir voru síldarnæturnar teknar um borð.
Á bryggjunni voru fyglingar frá Hornvík að selja svartfuglsegg og aðrar afurðir. Keyptum við okkur egg og var eggjaveisla um kvöldið. Haldið var frá Ísafirði þetta sama kvöld áleiðis til Siglufjarðar, en þar voru nótarbátar geymdir. Þegar komið var fyrir Straumnes blasti við flakið af Goðafossi sem var á sínum tíma óskabarn þjóðarinnar, en strandaði 28. nóvember 1916.
Á Siglufirði
Þegar komið var til Siglufjarðar var ég laus við sjóveikina og hrjáði hún mig ekki framar. Ég var undrandi og heillaður af öllu sem fyrir augu bar, braggamir, tunnustaflar, bryggjur, kolabingir við síldarbræðslunar, en þær voru kolakyntar í þá daga, auk þess sem hráefnið var rotvarið með salti. Síðast en ekki síst var það allt fólkið og skipin sem voru komin til að glíma við silfur hafsins og freista gæfunnar í þessu mikla happdrætti sem síldveiðarnar voru í þá daga. Nótarbátarnir voru komnir á flot þegar við komum og voru þeir sóttir og allt gert klárt fyrir veiðarnar og grunnnótin tekin um borð. Mannskapnum var raðað í bátana og hafði hver maður sitt starf allt úthaldið.
Á snurpunótarveiðum
Við hálfdrættingarnir lentum í að róa á þrælaborði í stjómborðsbáti ásamt Jóni frá Bólstaðarhlíð. Við Hanni vorum báðir um sömu árina þannig að annar sat á þóftunni en hinn felldi á og skiptumst við á að fella á eftir köstum. Einnig stoppuðum við snurpulínuna af þegar slakinn var kominn inn, svo drógum við snurpulínuna á spilkoppi eftir því sem hún kom inn meðan verið var að loka nótinni. Einnig höfðum við háfbandið þegar háfað var úr nótinni og svo drógum við gamið þegar nótin var dregin inn. Þegar áhöfninni hafði verið raðað til verka og nótarbátarnir útbúnir var haldið út á miðin en þau voru Húnaflói, Skagafjörður og Grímseyjarsund, austur að Mánáreyjum. Þegar komið var á miðin voru nótarbátarnir teknir á síðuna á Kára, sjálfu veiðiskipinu. Þar sem þessi verkþekking er horfin langar mig að lýsa hvernig staðið var að síldveiðunum í þá daga eftir því sem ég best man og hef getu til og bið ég þá sem lesa þessar línur að virða viljann fyrir verkið.
Hafður var sterkur síðuslefari úr klussinu stjórnborðsmegin, fram á hnífli á stóra bátnum, sjálfu veiðiskipinu, og lá slefarinn yfir í bakborðsnótarbát. Á enda slefarans var sleppikrókur sem var húkkað í bakborðsbóg á nótarbátnum til þess að hann skveraði hæfilega frá veiðiskipinu þegar verið var á keyrslu. Sterkt fríholt var á slefaranum við bóg veiðiskipsins og var því kippt inn fyrir þegar nótarbátarnir voru ekki á síðunni. Skáslefari var á milli bakborðs- og stjórnborðsbáts. Skáslefarinn var með litlu, nettu bíldekki (af drossíu) til þess að slefarinn gæfi eftir við mikið átak. Hann var festur aftan til í stjórnborðsbátinn og framan til í bakborðsbát, þannig að á keyrslu ótti stjórnborðsbáturinn eilítið yfir í stjórnborða og þannig skveruðust bátarnir hver frá öðrum á keyrslu. Einnig voru fram- og afturbönd á milli bátanna, þannig að allt spilaði þetta saman þegar veiðiskipið var á ferð.
Slefari og síðubönd voru úr vírmanillu með splæstum kóssum á endum og sterkum járnkrókum sem krækt var í keðjutengi sem komu á móti, þannig að alltaf var fljótlegt að losa þegar slaki kom á böndin.
Á þessum krókum voru Röfð öryggisbönd (bensli) til að binda fyrir krókana svo að þeir afhúkkuðust ekki. Búnaður í nótarbátunum var þannig að settar voru upp davíður í stefni bátanna og héngu hálfopnar blakkir í þeim fyrir snurpulínuna. Róðarkefar héngu í benslavír við hvert ræði og var þeim stungið niður í ræðin þegar róið var og þegar þurfti á að halda fyrir hanafæturnar sem voru hengdar á ræðin þegar nótin var dregin inn í bátana. Sex árar lágu á þóftum í hvorum bát. Þessar árar voru engin smásmíði, stórar og sterkar, smíðaðar úr aski; gaman væri að hafa mál af þeim og vita hvað þær voru þungar. Róið var með tveimur árum á hvort borð og stýrt með einni ár og var róðrarkefi aftast á bátnum fyrir stýrisárina; ein ár var höfð til vara. Handspil var á miðri öftustu þóftu, framan við miðjan bát og nótina, og voru tveir mismunandi hraðar á spilinu. Tvær stórar sveifar voru á þessu spili sem tveir menn sneru sinn hvorum megin, samtals voru því fjórir á spilinu og stóðu þeir hvor á móti öðrum við þóftuna. Andæfarar og uppistöður fyrir nótarúllu voru settar upp og nótin höfð ofaná rúllunni. Þessi rúlla var u.þ.b. 2 metrar á lengd og 25 cm í þvermál. Hún var bogmynduð, hæst í miðjunni, svo að blýateinninn yrði ekki samhliða korkateininum. Á rúllunni voru þrír hringir og voru fjórir tveggja tommu listar settir á hringina, einn hringurinn var í miðjunni, ca. 30 cm í þvermál, og tveir hringir jafnbreiðir, ca. 25 cm í þvermál, voru til endanna á rúllunni og myndaðist þannig kúpan á miðri rúllunni sem var létt og meðfærileg. Tvær sveifar voru á hvorum enda og var þeim læst með splitti til þess að þær hrykkju ekki af í köstun.
Allur búnaður var eins í báðum nótarbátunum að öðru leyti en því að síldarfælufiskur var fremst í stjórnborðsbát og notaði síldarbassinn fiskinn. Handlóð var í bakborðsbát og notaði stýrimaður það þegar lóðað var og setti smjör í sökkuna að neðan til þess að sjá hvernig botnlag var og dýpi áður en kastað var því að oft var verið nálægt landi.
Kastað á vaðandi síld
Bassaskýli var komið fyrir uppi á stýrishúsi og framlengingu á púströri vel upp fyrir bassaskýlið svo að ekki yrðu óþægindi af reyk og hávaða sem var samt æðimikill. Í bassaskýlinu dvöldust skipstjóri og stýrimaður langtímum saman og skyggndust eftir vaðandi síld á meðan birta leyfði og von var í veiði. Öll stjórn bátsins fór fram ofan úr bassaskýlinu þegar leitað var síldar. Sá háttur var á að gúmmíslöngu var stungið upp á rör sem lá úr stýrishúsinu upp í gegnum stýrishúsþakið og bárust fyrirskipanir í gegnum slönguna til mannsins sem stóð við stýrið, svo sem: „í bak,“ „þetta beint,“ „í stjór“ „meiri ferð,“ „svana beint,“ „hœgustu ferð,“ „kúpla frá“ o.s.frv.
Þegar kallað var „klárir í bátana“stukku menn upp til handa og fóta og gerðu sig klára. Nótarbátarnir voru dregnir á handafli að síðunni, aðhalarinn var festur og hver maður kom sér fyrir á sínum stað. Bátarnir voru bundnir lauslega saman og síðubönd losuð þegar búið var að sleppa bátunum og byrjað var að róa. Síldarbassinn kom alltaf síðastur um borð og lét sleppa; hann stjórnaði stjórnborðsbát, en stýrimaður bakborðsbát. Róið var að torfunni; þá gall við „í sundur,“ en frammámenn voru búnir að koma sér fyrir, hvor með sína árina til þess að ýta bátunum í sundur, árablöðin voru höfð sitt á hvorri davíðu að neðan og ýttu þeir í sundur eins lengi og árarnar náðu, síðan settust þeir, hvor á sína þóftu, og reru þar til bátarnir komu saman.
Þegar ýtt var í sundur byrjuðu tveir menn að snúa nótarrúllunni og nótinni, sem lá yfir rúlluna, út og var það mikið átakaverk allan tímann meðan kastað var. Þegar pokinn var kominn vel út fyrir hætti fremri maðurinn að rúlla, fór í blýateininn og henti honum upp á rúlluna og létti þannig á rúllunni í köstun. Einnig passaði hann að snurpulínan og snurpuhringirnir yrðu sem klárastir við nótargarnið og blýateininn því að slæmt var að fá garnið og blýateininn uppvöðlaðan á hringjunum þegar þeir komu upp í blökkina sem hékk í davíðunni fram á. Þegar bátarnir voru að koma saman hljóp stýrimaðurinn framm í bátinn og uppi á pall sem var fremst í nótarbátnum. Hann hélt sér í davíðuna með annarri hendi en í hinni hélt hann á hring sem hafði verið skorinn innan úr bíldekki og var vírmanilla fest í hringinn og í bátinn. Þegar stefni nótarbátanna komu saman við lok kasts henti hann hringnum yfir davíðuna í stjórnborðsbát og voru bátarnir þannig festir saman á stöfnunum.
Þá voru menn fljótir að leggja árar í bát og koma snurpulínu í blökkina sem hékk í davíðunni. Upphófst nú mikill darraðardans, mannskapurinn raðaði sér á snurpulínuna eftir miðjum bátnum og dró hver sem betur gat. Þegar snurpulínan þyngdist var línunni brugðið um öftustu þóftuna eitt bragð og tók aftasti maðurinn slakann af eftir því sem tókst að ná línunni inn fyrir. Þegar snurpulínan var orðin þung var henni brugðið á spilkoppinn. Fyrst var meiri hraði notaður, síðan minni kraftur, en spilið var handsnúið. Mikið kapp var í mannskapnum í hvorum nótarbát að vera á undan að ná „gullinu", en svo var segulnaglinn, sem var á miðri snurpulínunni, nefndur en hann var úr kopar og gljáfægður eftir eitt til tvö köst.
Þegar snurpuhringirnir voru komnir upp í davíðurnar fannst mönnum kastið búið. Svo gengu menn hart að sér í köstun á vaðandi síld að þeir kúguðust og ældu af átökunum. Haft var vatn á flöskum til að svala þorstanum þegar langt var komið að loka nótinni og síldin fór að ganga á gatið. Þá tók síldarbassinn síldarfælufiskinn og henti honum á gatið aftur og aftur og þar til nótinni hafði verið lokað í snurpingunni. Síldin virtist fælast þennan hvítleita tréfisk og sneri oft við og synti út í vængi nótarinnar, en síldarfælufiskurinn var hvítmáluð eftirlíking af hvalategund og var blý haft á honum að neðan svo að hann sykki fljótar og flögraði til. Höfð var lína í sporðinum á honum og var endinn festur í nótarbátnum svo að fiskurinn tapaðist ekki ef línan rynni á tamp.
Nótin dregin inn
Snurpuhringir voru losaðir af snurpulínunni og handlangaðir til þeirra sem voru aftar í bátnum og þegar allir höfðu fengið sinn hring var byrjað að hífa hanafæturna upp, en þeir voru oft æði þungir. Þegar hanafæturnir voru komnir upp á borðstokkinn og nótin þar með lokuð voru þeir hengdir upp á róðrarkefana eftir röð á blýateininum. Því næst voru nótarrúllurnar teknar niður og allt gert klárt til þess að byrja að draga nótina inn í nótarbátana og allt var það unnið á höndum. Var það gert þannig að tveir menn voru við korkateininn, annar dró en hinn lagði korkið niður. Fjórir menn voru í garninu og einn í blýateininum, samtals voru sjö fullgildir menn í bakborðsbátnum og átta með okkur hálfdrættingunum í stjórnborðsbátnum. Samhliða blýateini voru snurpulína og hringir lagðir niður. Misvel gekk að draga nótina inn og fór það eftir straumi og hvernig síldin lá í nótinni. Jafnað var á lessi í nótinni (þar sem nótarbálkarnir eru saumaðir saman) og hringjum þegar komið var að pokanum í nótinni, þá biðu þeir sem voru á undan þar til að allt varð jafnt. Þegar hæfilega var þurrkað að síldinni veifaði skipstjórinn (síldarbassinn) með höfuðfati sínu til veiðiskipsins (stóra bátsins) um að leggja að nótarbátunum. Fyrsti vélstjóri og matsveinn fóru ekki í bátana því að vélstjórinn stjórnaði veiðiskipinu á meðan skipstjóri og stýrimaður voru í bátunum. Æðimikið var að gera hjá vélstjóra og matsveini meðan allir aðrir úr áhöfninni voru við köstun í nótarbátunum. Matsveinninn tók oft til hendinni þegar þannig stóð á. Ef kastið var gott og útlit var fyrir að báturinn yrði fylltur þá var stillt upp þilfarskössum, vírar voru strekktir á milli skjólborða svo að þau gliðnuðu ekki út þegar dekkið var fyllt. Öllum kýraugum var lokað og fangalínur gerðar klárar með uppgerðum kastlínum fyrir nótarbátana þegar lagt var að þeim. Þegar bátarnir voru við síðu veiðiskipsins stökk skipstjóri, stýrimaður og 2. vélstjóri um borð. Búið var að ganga frá kóssaböndum í pokann og var þeim hent til mannanna um borð í veiðiskipinu sem stóðu á hágrindinni og hífðu korkateininn upp, þræddu síðuböndum sem lágu í vír sem var strengdur meðfram lunningunni á veiðiskipinu (stóra bátnum) í kóssana á korkateininum og bundu upp nótina. Einnig var hent grófum netariðli yfir korkið og garnið til hlífðar þegar háfað var. Að því búnu var þurrkað að síldinni eins og hægt var og staðið á garninu svo að það rynni ekki út. Til þess að giska á hvað kastið væri mikið var ár stungið í síldina ofan í botn á pokanum og endinn á árinni, sem stóð eftir, sagði fróðum mönnum hvað væri mikið í kastinu, t.d. 150 mál, og lét þetta oftast nærri lagi þegar búið vað að háfa í bátinn. Sérstaklega er mér minnisstætt hvað Óskar í Sólhlíð var glöggur á að segja til um hve mikið væri í nótinni.
Síldin háfuð um borðÞegar byrjað var að háfa og veiðiskipið var tómt voru fyrstu tveir háfarnir teknir yfir í bakborðskassa við lestarlúguna til þess að halda á móti þunga síldarnótarinnar, þegar hún hafði verið bundin upp á síðuna, og síldarháfnum þegar háfurinn kom fullur af síld úr nótinni. Annars hefði veiðiskipið haft mikla slagsíðu sem gat orðið hættuleg eftir því sem meira kom í lestina.
Háfböndum, sem voru tvö, var komið út í bátana, þá var bómunni slegið lítið eitt út til stjórnborða og síldarháfurinn dreginn út með háfböndunum og dýft niður í síldina sem lá orðið flöt í nótinni ef vel var þurrkað. Háfurinn var síðan hífður fleytifullur af síld um borð. Háfböndin voru einnig til þess að halda við háfinn í veltingi og þeir sem voru í háfböndunum áttu að gæta þess að háfurinn slægist ekki yfir í bakborðssíðu við háfun. 2. vélstjóri var á spilinu um borð í veiðiskipinu, en stýrimaður, sem stóð á vélarhúsrúffinu, stjórnaði losun úr háfnum, og hélt í losunarbandið sem lá í háflásinn neðan til í háfnum. Háfnum var lokað og hann opnaður með því að kippa í band sem var fest í vír sem lá í þennan sérstaka háflás. Á meðan lestin var fyllt var bóman fest eilítið til stjórnborða.
Síldarháfurinn var tæmdur ofan á hágrindur sem lágu skáhallt frá stjórnborðslunningu að lestarkarmi og voru til þess að sía sjóinn frá síldinni um leið og hún rann á grindunum ofan í lestina. Stoppað var að háfa þegar lestin var full og voru hágrindurnar þá teknar upp og þær handlangaðar fram á hádekkið sem var lág upphækkun á þilfarinu yfir lúkarnum, í framhaldi af lúkarskappanum og fram á stefni. Að því búnu var háfað á þilfarið og það smám saman fyllt; þá voru tveir hafðir í gertum til þess að stjórna bómunni. Sá sem hafði bakborðsgertann stóð uppá lúkarskappanum þegar dekkið var orðið fullt af síld en stjórnborðsgertabandið lá út í nótarbát og hélt aftasti maður í bakborðsbátnum í það. Einnig þurfti að lempa síld aftur í ganga og fram á hádekk og voru merar (langborð með klemmum sem voru settar ofan á lunninguna) færðar til svo að síldin rynni sem mest sjálf, mokstursháfar voru notaðir til að lempa síldina.
Þegar búið var að fylla bátinn var orðið lítið borð fyrir báru. Að því búnu var nótin leyst niður og hellt úr pokanum ef eitthvað var eftir. Nótarbátamir voru settir á slef og haldið til næstu löndunarhafnar. Gengið var frá göngugrindum frá lúkar að stýrishúsi og var líflína strekkt á milli til þess að halda sér þegar farið var á milli stýrishúss og lúkars. Einnig voru lensiport höfð í góðu lagi ef opna þyrfti til að ryðja síld út og létta bátinn ef brældi af því að engar veðurspár voru sendar út á stríðstímum sem þá voru.
Í brælu
Þegar vaxandi bræla fór í hönd og veiðiveður tók af var nótin tekin upp í veiðiskipið. Það var gert þannig að nótarbátarnir voru dregnir aftur fyrir stóra bátinn, leystir í sundur og dregnir fram með hvorri síðu á veiðiskipinu. Samhliða þessu var nótarpokinn hífður upp á hekk og nótin dregin upp í sinn hvom ganginn. Ef ekki náðist að kasta nótinni hvern sólarhring þá varð að yfirhala hana einu sinni á sólarhringnum. Það var gert þannig, ef verið var úti á sjó og komið var myrkur, að veiðiskipið var látið reka. Þeir sem voru í stjórnborðsbát byrjuðu að yfirhala. Þeir byrjuðu á því að taka nótarrúllur, uppistöður og andæfara niður. Að því búnu var nótin dregin úr stjórnborðsbát yfir í bakborðsbát og síðan aftur yfir í stjórnborðsbátinn. Ef mikið síldarhreistur og feiti var í gaminu var strax stráð dálitlu salti í nótina um leið og hún var yfirhöluð. Þegar stjórnborðsbátsmenn voru búnir komu bakborðsbátsmenn og fóru eins að og hinir. Nótin var líka yfirhöluð einu sinni á sólarhring þegar verið var í landi. Í þá daga voru þetta bómullarnætur og mjög viðkvæmar ef hitnaði í þeim.
Þau skip og bátar, sem voru með slatta, fóru í land en hin leituðu vars undir Grímsey eða Flatey eða þangað sem best var að vera á meðan brælan gekk yfir.
Lensidælan í nótarbátnum var úr tréstokk og lá renna út fyrir borðstokkinn á bátnum. Þessar dælur voru býsna góðar, allar gerðar úr tré með leðurpjötlu á dæluskaftinu og hafa sennilega verið þannig gerðar frá fyrstu tíð Íslandssiglinga. Ekki man ég hvort sjálfvirkar dælur voru komnar í bátana þetta síldarsumar.
Síldveiðarnar í júlímánuði sumarið 1944 gengu treglega hjá flestum, stökksíld og peðringur var um allan sjó, alltaf verið að kasta og „búmma“ eins og það var kallað þegar síldin stakk sér og ekkert fékkst í kastinu. Oft var lítið að hafa þennan mánuð, mest slattafiskirí. Við á Kára VE 27 fengum þó þokkalegan afla í júlímánuði. Við fengum fyrsta fullfermið fyrir mynni Eyjafjarðar, grunnt vestan til. Við lönduðum okkar síld sem veiddist í júlí á Siglufirði. Fylgst var vel með skeytum frá síldarleitarflugvélinni og gaf sú leit oft góða raun þegar stutt var að fara í síldina sem flugvélin fann og eins til að staðsetja sig fyrir næsta veiðidag. Í bókinni „Til fiskveiða fóru“ eftir Geir Sigurðarson segir frá því að fyrsta síldarleit úr lofti hafi verið farin árið 1928.
Svartur sjór af síld
Annar til þriðji ágúst skipti sköpum hjá okkur þetta sumar. Þetta var sama dag og þjóðhátíðin hófst heima í Eyjum. Við á Kára VE 27 vorum staddir hjá Mánáreyjum í sólskini og logni. Óð þá síld í stórum flekkjum hvert sem litið var og eins langt og augað eygði; hef ég ekki séð önnur eins ósköp þau sumur sem ég fór á síld allt til 1959. Síldartorfur þessar voru sumar hverjar svo stórar að okkar litla nót náði hvergi utan um þær og varð að velja úr litlar torfur sem pössuðu fyrir nótina eða taka lítið horn af torfunni af því að slæmt var að lenda í of stórum köstum og fá hafarí og tafir frá veiðum. Kári VE 27 var fylltur í tveimur köstum, en hann tók um 500 mál (ca. 70 tonn). Flest skip fylltu sig á þessum tveimur dögum og myndaðist fljótlega löndunarbið á Siglufirði. Sigurður skipstjóri tók þá ákvörðun að fara til Raufarhafnar og var það rétt ákvörðun.
Við vorum einskipa til Raufarhafnar og á leiðinni austur var svo að segja samfelld síld vaðandi með litlu millibili. Strax og komið var til Raufarhafnar var lagst undir löndunartórinn (kranann) og byrjað að landa. Öllum dekkfarmi var mokað með kvíslum að lestaropinu og var það erfið vinna. Þegar löndun var lokið var strax farið út með birtingu. Siglt var í 20 mínútur frá innsiglingunni og þá komið í mikla síld og nægjanlegt dýpi. Tvö köst voru tekin og báturinn fylltur. Aftur var lagst undir löndunartórinn og landað, ekki var lestin hreinsuð eða smúluð því að aftur var haldið út og lá nú mikið á. Eitt kast tekið og báturinn fylltur úr því og aftur haldið inn til löndunar og voru þá liðnir aðeins nokkrir tímar frá því að leyst var frá löndunartórnum og þar til komið var undir hann aftur. Úr þessum túr fengust 524 mál sem þótti með ólíkindum á ekki stærri bát en Kára. Aftur var farið út þegar löndun var lokið og Kári fylltur í þriðja skiptið á þessum sólarhring. Enn á ný var lagst undir löndunartórinn, en þegar búið var að landa úr þriðja túrnum þennan dag var komið myrkur og ekki farið út aftur fyrr en með birtingu. Þessi smáhvíld var kærkomin því að menn voru orðnir örþreyttir.
Aftur var farið út daginn eftir og siglt í 30 mínútur frá Höfðanum á Raufarhöfn. Var þar þá svartur sjór af síld, tvö köst voru tekin og báturinn fylltur og aftur farið inn og landað. En ævintýrin enda alltaf því að nú vorum við ekki lengur einskipa með löndun á Raufarhöfn. Þegar við vorum í öðrum túrnum þennan dag fóru fjórir bátar með fullfermi fram hjá okkur til löndunar á Raufarhöfn og var löndunarbið þegar við komum inn. Samtímis gátu þá tveir bátar landað í einu, einn undir tórnum og hinn undir krabbanum. Ég man að Einar Bragi Sigurðsson skáld stjórnaði krabbanum á annarri vaktinni. Hann var þá nýorðinn stúdent og sneri sér vingjarnlega að mér, stráknum, svo að við urðum málkunnugir og minntumst síðar þessara daga þegar við hittumst. Alltaf var löndunarbið. Eina viku af ágúst misstum við úr veiðum vegna vélarbilunar og vorum við dregnir inn til Akureyrar þar sem báturinn varð að fara í slipp. Þegar líða tók á ágústmánuð urðum við að sækja lengra. Mest veiddum við þá út af Rauðanúp. Alls fengum við um 11.500 mál og tunnur á þessari mestu síldarvertíð sem komið hafði í Íslandssögunni til þessa, en henni lauk um miðjan september. Nær allur okkar afli, 11.163 mál, fór til bræðslu, en í salt fóru 278 tunnur; samtals var aflinn því 11.441 mál og tn. eða um 1550 tonn.
Siggi í Hlaðbæ
Sigurður Gísli Bjarnason skipstjóri í Svanhól var oftast af sínum samtíðarmönnum kenndur við Hlaðbæ þar sem hann var fæddur og uppalinn og kallaður Siggi í Hlaðbæ. Hann var fiskimaður af Guðs náð og mikill veiðimaður í eðli sínu. Hann fiskaði aldrei af kröftum heldur alltaf af lagni og forsjá. Því til staðfestu nefni ég að við sprengdum aldrei nótina eða vorum í nokkru hafaríi þegar kastað var, aldrei neinar tafir eða bras. Hann notaði vél bátsins til hins ýtrasta þegar átti að fara að kasta, fór eins vel að síldartorfunni eins og hægt var. Þá stökk hann um borð í bátana og notaði skriðið sem var á nótarbátunum þannig að róður hjá okkur sem rerum á ytra borð var léttur og eftir því sem meiri skriður var á bátunum þeim mun léttara var að ýta í sundur og koma pokanum út og kasta fyrir torfuna.
Þegar svona mikil síld var á miðunum fór Sigurður með gætni og tók aðeins smáhorn af torfunni til þess að ekki yrði of mikið í nótinni. Hann kastaði þannig að stjórnborðsbátur reri inn í síldarkökkinn og tók hálfhring, en bakborðsbáturinn var fyrir utan torfuna og tók einnig hálfhring á móti stjórnborðsbátnum á síldarlausum sjó. Þegar róið var inn í síldartorfuna þá var hún svo þykk að þegar báturinn og árarnar börðu á síldinni kom hún jafnóðum upp aftur í kjölfarið. Mig minnir að grunnnótin hafi verið 18 faðma djúp, en ekki man ég hvað hún var löng.
Lífið um borð
Aðbúnaður um borð í þessum litla báti, þar sem 17 manns voru í áhöfn, var þannig: Fram í lúkar voru 11, í káetu aftur í voru 5 og var þar útbúin þverkoja fyrir Hanna uppi undir dekksbjálkum. Í bestikki (kortaklefa) aftan við stýrishúsið var skipstjórinn. Við Guðni í Hlaðbæ deildum saman koju í lúkarnum, og var það algengt til sjós í þá daga. Kojan var aftast við stigann niður í lúkarinn og fengum við stundum gusu ofan í kojuna þegar báturinn var hlaðinn.
Allur hlífðarfatnaður var hengdur upp í kappa sem var aftur á stýrishúsinu og varnaði því að ágjöf og rigning ættu greiða leið niður um hálsmálin á flíkunum. Þessar flíkur voru stakkar, sjóhattar, svuntur, löndunarbuxur, samfestingar, sem notaðir voru við löndun, og vettlingar. Það fór eftir veðri hvort þessi hlífðarföt voru þurr þegar á þurfti að halda. Spotti var bundinn utan um svo að þau hreyfðust ekki. Klofhá gúmmístígvél og skótau voru ásamt fleiru höfð í lokuðum bekkjum sem setið var á framan við kojurnar og við lúkarsborðið. Hver hafði sína koju og sín aðföng sem hann hafði með sér yfir úthaldið. Höfð var hilla til fóta og þar geymd taska ásamt fleiru í kojunni. Sameiginlegur fataskápur var fyrir betri föt og héngu þau á herðartrjám. Þegar þurfti að þrífa sig og snyrta, hvort sem var í landi eða úti á sjó, fékk maður sér volgt vatn í vaskafat sem haft var á lúkarsborðinu ásamt litlum spegli. Við þessar aðstæður þvoðu menn sér, rökuðu og greiddu hárið. Stýrimaður gekk eftir því að þrifnaður væri upp á það besta í lúkarnum.
Allar þarfir sínar urðu menn að gera í fötu undir beru lofti og stundum sjógangi aftur á hekki í skjóli við stýrishúsið og gekk þar stundum á ýmsu eins og skiljanlegt er. Góð aðstaða var á Sjómannaheimilinu á Siglufirði til þess að baða sig og þrífa og notfærðu allir sjómenn sér það óspart og með þökkum þegar komið var í land.
Morgunvaktin var frá kl. 4-6, og var þá, ef mögulegt var, lúkarsgólfið skúrað, vaskað upp, kolafatan fyllt og ruslafatan tæmd. Allt var reynt að hafa í röð og reglu þegar kokkurinn var ræstur kl. 7. Kolin voru geymd undir lúkarsgólfinu. Þegar kolageymslan var fyllt fór skipshöfnin með 6 til 8 körfur upp í síldarverksmiðju og bar kolin um borð. Voru þá sumir illa útlítandi, einkum sá sem tók á móti körfunum við lúkarsstigann. Aðstaða hjá matsveini var þannig: kolaeldavél, lítill vaskur og handvatnsdæla í litlu borði, fjórir skápar fyrir ofan borðið og undir borðinu. Í þessum skápum var kostur geymdur eftir því sem hægt var.
Kartöflugeymslan var höfð í aftasta bekk stjórnborðsmegin. Matarkista var höfð uppi á stýrishúsi og var það aðalgeymslan fyrir matvæli. Á matmálstímum var tvísetið við matarborðið. Oft var óbærileg hitasvækja og ólykt í efri kojum þegar verið var að elda, eldavélin rauðglóandi og ekki var hægt að hafa skæletti (þilfarsglugga) né kýraugu opin þegar verið var með fullfermi á landsstími. Þá var lúkarskappinn opinn, en oft komu góðar gusur niður þegar ágjöf var. Þegar báturinn var þrauthlaðinn var sama vandamálið með loftræstingu í lúkarnum þegar löndunarbið var, sem gat verið allt upp í 5 daga. Slagvatnslyktin fór þá fyrir alvöru að gera vart við sig sem oft vildi verða þegar farmurinn fór að skemmast í hitanum í löndunarbið. Slagvatnslyktin varð enn verri þegar báturinn var hlaðinn og lá fram vegna þess að aðsogsrörið frá lensidælunni í vélarrúminu náði ekki í kjalsogið framm í bátnum.
Síldarsumarið 1944
Ms. Eldborg MB 3, sem var 280 rúmlestir brúttó, fiskaði 26.624 mál þetta sumar og var það landsmet. Síldin var þá mæld í málum, en hvert mál átti að vigta 135 kíló, en vigtaði áreiðanlega rúmlega það þegar síldin var orðin gömul og legin. Þessi afli Eldborgar var því um 3.600 tonn og fór allur í bræðslu. Skipstjóri á Eldborgu var Ólafur Magnússon, mikill fiskimaður og frægur. Mb. Álsey VE 250, 150 rúmlesta skip, var með mestan afla Vestmannaeyjabáta, samtals 20.630 mál (um 2.800 tonn) og var 8. í röð herpinótarskipa með afla. Skipstjóri var Óskar Gíslason frá Skálholti. Samtals voru skv. heildaraflaskýrslu síldveiðanna árið 1944, sem birtist í 35. árg., 9.-10. tbl. Ægis, mánaðarrits Fiskifélags Íslands, skráð 11 gufuskip (línuveiðarar og togarar, meðalstærð 119 rúml. brúttó), 92 mótorskip að meðalstærð 67 brúttórúmlestir, öll á snurpinót með tvo nótarbáta, 9 mótorbátar voru með hringnót og af þeim var einn Vestmannaeyjabátur, Sjöfn VE 37. Samtals voru 26 bátar tveir um nót (13 pör), þar á meðal Vestmannaeyjabátarnir Ársæll og Gullveig, Heimir og Örn og Aldan og Erlingur. Þrír bátar frá Dalvík, svonefndir þrílembingar, voru saman um nót. Samtals er 141 síldveiðiskip á þessari aflaskýrslu Ægis yfir sumarið 1944. Þetta var besta síldarsumar Íslendinga og var heildaraflinn um 200 þúsund tonn í bræðslu (um 1,5 milljónir mála). Í salt fóru um 34 þúsund tunnur og í beitu voru frystar um 13 þúsund tunnur.
Það er eftirtektarvert að nærri því helmingur af saltaðri síld (47%) og 63% af síld frystri til beitu kemur af hringnótarbátum, tvílembingum og þrílembingunum. Af skipstjórum á tvílembingunum þetta sumar eru mér minnisstæðastir þeir Sighvatur Bjarnason, sem var með Erling, og Karl Guðmundsson frá Viðey, en þeir voru báðir miklir síldarmenn og sjómenn. Sighvatur var faðir Bjarna í Ási og þeirra systkina, en sonur Karls er Viðar, skipstjóri á aflaskipinu Víkingi AK.
Við Vestmanneyingar áttum nýtt glæsilegt skip í síldarflotanum þetta sumar sem var Vonin II VE 113, smíðuð í Vestmannaeyjum 1943, og vorum við Eyjamenn stoltir af þessari fleytu sem Guðmundur í Holti stýrði. Fiskaði hann yfir tíu þúsund mál og tunnur þetta sumar. Seinni partinn í ágúst (20. águst) var mb. Þorgeir goði VE 264 á landleið með fullfermi af síld til Krossaness og sökk í mynni Eyjafjarðar. Áhöfnin, 17 manns, bjargaðist í nótarbáta.
Mb Kári
Mb. Kári VE 27 var 36 rúmlestir brúttó með 110 hestafla June Munktelvél, tvígengismótor, og gekk 8,5 sjómílur á klukkustund. Hinn 15. september 1955 sökk þessi bátur norðvestur af Smáeyjum þegar óstöðvandi leki kom að honum. Hann hét þá Halkíon og var á reknetum. Vonarstjarnan bjargaði áhöfninni úr gúmmíbát.
Lærðu réttu handtökin
Orðið hálfdrættingur, hvað merkir það? Tveir unglingar óharðnaðir voru ráðnir til verklegrar þjálfunar og þeim kennd réttu handtökin við fiskveiðar og aðgæslu á sjó. Þegar vertíð lauk skiptu þeir með sér einum hásetahlut.
Ég læt þetta vera lokaorðin í 50 ára gömlum minningum um mitt fyrsta úthald til sjós.
Kær sjómannskveðja!
Jón Bryngeirsson frá Búastöðum.
Áhöfn á Kára VE 27 þetta sumar - 1944
1. Skipstjóri Sigurður Bjarnason (Siggi í Hlaðbæ).
2. Stýrimaður Magnús Ísleifsson (Maggi í Nýjahúsi).
3. 1. vélstjóri Edvin Jóelsson (Gói á Kirkjubæ).
4. 2. vélstjóri Bernódus Þorkelsson (Beddi í Sandprýði).
5. Matsveinn Bóbó frá Reykjavík.
6. Háseti Jón Björnsson (Jón í Bólstaðarhlíð).
7. Háseti Guðni Rósmundsson (Guðni í Hlaðbæ).
8. Háseti Óskar Jónsson (Óskar í Sólhlíð).
9. Háseti Þórarinn Guðjónsson (Tóti á Kirkjubæ).
10. Háseti Jóhann Sigurðsson (Hanni í Svanhól).
11. Háseti Jón Bryngeirsson (Jón á Búastöðum).
12. Háseti Baldur frá Eyrarbakka.
13. Háseti Geiri frá Raufarhöfn.
14. Háseti Siggi frá Reykjavík.
15. Háseti Ásgeir frá Reykjavík.
16. Háseti Hinrik frá Færeyjum.
17. Háseti Axel frá Færeyjum.