Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Þegar Ísak VE 137 fórst 2. feb. 1914
Mótorbáturinn Geysir VE 110 var byggður í Danmörku árið 1906. Hann var 7,42 tonn að stærð, súðbyrtur, með 8 hestafla Dan-vél. Eigendur voru: Ágúst Gíslason Landlyst, Gísli J. Johnsen Godtåb, Antoníus Baldvinsson Byggðarholti, Sigurður Jónsson Velli, Gísli Magnússon Fagradal og Jón Bergur Jónsson í Ólafshúsum.
Formaður á vetrarvertíð 1907 var Ágúst Gíslason og vélamaður Gísli Magnússon. Eftir vertíðina 1907 hætti Águst með bátinn, en vertíðina 1908 tók Jón í Ólafshúsum við bátnum, en Gísli var áfram vélamaður, en hætti eftir vertíðina. Jón í Ólafshúsum var formaður á Geysi til vertíðarloka 1910, eða þrjár vertíðir alls. Eftir það tók við formennsku Sveinn Halldórsson frá Kotmúla í Fljótshlíð. Hann hafði verið með Jóhanni Jónssyni frá Brekku á vélbátnum Nansen og var talinn mikill dugnaðarmaður. Þetta var vertíðina 1911, og varð nú vélamaður á Geysi Sigurður Jónsson á Velli.
Róðrar hófust með janúar 1911; 20. janúar er ekki sjóveður. Þá um kvöldið fer Sveinn formaður á Geysi niður í beituskúr að hyggja að einhverju, er lagfæringar þurfti við. Hann kemur ekki heim um kvöldið, en hann hélt til Frydendal. Strax um morguninn er farið að leita að Sveini og finnst hann ekki í beituskúrnum. Síðan er gengið með bryggjukantinum, og finnst hann þá látinn við bryggjuna. Talið var, að Sveinn hefði ætlað að sækja sjó í fötu og dottið út af bryggjunni og drukknað. Sveinn Halldórsson var fæddur að Kotmúla í Fljótshlíð l. september 1885, og voru foreldrar hans hjónin Aðalheiður Sveinsdóttir og Halldór Ólafsson bóndi.
Vantaði nú formann fyrir Geysi, og var Ásbjörn Pálsson á Gjábakka ráðinn. Var hann með bátinn til vertíðarloka 1911.
Veturinn 1912 tók Guðmundur Helgason, sem nú býr að Hólagötu hér í bæ, við formennsku á bátnum og er með hann í tvær vertíðir, 1912 og 1913. Sigurður á Velli hafði þá verið vélamaður síðan Gísli Magnússon hætti á bátnum árið 1908. Vertíðina 1914 er Sigurður orðinn formaður á Geysi enda var hann einn af eigendum bátsins og hafði verið á honum frá því hann kom nýr til landsins. þessum árum byggði hann húsið Fagurhól við Strandveg.
Sigurður réð nú til sín áhöfn. Vélamaður var ráðinn maður að nafni Júlíus, ættaður af fjörðum vestur. Aðrir skipverjar voru: Axel Albertsson úr Reykjavík, ættaður úr Vestur-Landeyjum; hann var á Ísak og var með bátinn þá bróðursonur Sigurðar Sigurðssonar, er lengi bjó í Götu hér í bæ. Axel var um tvítugt. Fjórði maður var Sveinbjörn Kristjánsson úr Reykjavík, tuttugu og eins árs að aldri.
Víkur nú sögunni að mótorbátnum Ísak.
Árið 1908 keyptu þeir Gísli J. Johnsen, Bergmundur Arnbjörnsson og Arnbjörn Ögmundsson, báðir í Presthúsum, Jón Jónsson Brautarholti og Gísli Magnússon Skálholti í félagi nýjan bát frá Danmörku. Var þetta algengt á þessum árum. Báturinn var 6,97 tonn að stærð með 8 hestafla Dan-vél, byggður í Fredrikssundi, og bar einkennisstafina VE 137. Bátinn nefndu þeir félagar Ísak og gekk hann fyrst á vertíð hér árið 1909. Gísli Magnússon var ráðinn með bátinn, og hóf hann þar með sinn frægðarferil sem formaður. Gísli var með Ísak í tvær vertíðir.
Eftir vertíðina 1910 seldi Gísli sinn part, og sagði hann síðar svo frá, að áður en hann seldi sinn hlut hefði hann fengið hugboð um, að eitthvað myndi koma fyrir í sambandi við þá bátana Ísak og Geysi. Taldi hann, að það yrði ekki fyrir góðu og keypti hálfan vélbátinn Frí. Jón Magnússon Kirkjubæ keypti hlut í Ísak og var formaður á honum í tvær vertíðir eða vertíðirnar 1911 og 1912. Hann seldi síðan sinn hlut árið 1913, og tók þá Árni Oddsson Burstafelli við formennsku einu vertíð.
Vetrarvertíðina 1914 réðst fyrir Ísak nýr formaður. Hann hét Guðmundur Guðmundsson frá Austur-Voðmúlastaðarhjáleigu í Landeyjum. Hásetar Guðmundar voru: Sturlaugur Lárusson frá Breiðafirði, sem enn er á lífi í Reykjavík aldraður maður og Guðjón Guðmundsson, bróðir formannsins. Vélamaður var Daníel Bjarnason frá Seyðisfirði.
Vertíðin 1914 er hafin. Sigurður formaður á Geysi kallar menn sína í róður 2. febrúar. Hægviðri er um nóttina og Sigurður leggur línuna suður af Bjarnarey og með Bessa. Lögnin gekk vel, og er þeir höfðu legið yfir línunni góða stund, stöðvast vélin, og er þá kominn austan kaldi. Eru þá segl sett upp og siglt til hafnar.
Þegar Geysir er kominn að landi, hittir Sigurður formaður Guðmund Guðmundsson formann á Ísak, en þeir voru í landi þennan dag, og biður hann að koma með sér á Ísak og draga línuna.
Guðmundur tekur vel í það. Fer hann með Sigurði og tekur með sér vélamann sinn, Daníel Bjarnason, en Sigurður tekur með tvo háseta sína, þá Axel og Sveinbjörn, en Júlíus vélamaður er í landi að gera við vélina í Geysi.
Undir kvöldið er komið rok og sjór. Ekki kom Ísak að landi. Það síðasta, sem menn vissu, var að Ísak var að draga línuna við Bessa. Friðþjófur VE 98 reri á Landsuður þennan dag og hélt á landleiðinni upp á Bjarnarey til að forðast Urðirnar. Þá keyrði hann við borðið á Ísak og voru þeir að draga línuna. Formaðurinn á Friðþjófi var Guðjón á Heiði. Hann kallaði í Guðmund og bað þá að fara strax í land, því að sjór væri orðinn aðgæsluverður. Ekki vissi Guðjón hvort Guðmundur heyrði þetta. Þeir þekktust vel og höfðu verið saman á Portlandinu. Um Ísak spurðist aldrei framar. Sennilega hefur hann fengið á sig brot frá Bessanum og farið þar með niður.
Með Ísak fórust Guðmundur Guðmundsson, formaður á bátnum. Hann var fæddur að Austur-Voðmúlastaðarhjáleigu í Landeyjum 28. apríl 1888 og byrjaði sjómennsku hér í Eyjum með komu vélbátanna. Hann var lengi á Portlandi með Friðrik Benónýssyni í Gröf og síðar með Gísla Magnússyni á Hlíðdal. Hann hafði einnig verið formaður á Austfjörðum, bæði á Norðfirði með Herkúles SU 336 og á Seyðisfirði með Vonina NS 189. Hann var talinn hið mesta hreystimenni.
Sigurður Jónsson á Velli, formaður á Geysi, sem þarna fórst, var fæddur og uppalinn í Ólafsvík, en fluttist til Vestmannaeyja upp úr aldamótum. Hann byrjaði sína sjómennsku á Geysi og hafði verið á bátnum síðan 1907 eins og áður segir, lengst af sem vélamaður. Sigurður var giftur Þórönnu Ögmundsdóttur frá Landakoti. Synir þeirra eru Sigurjón bílstjóri á Vallargötu og Ögmundur formaður á Skúla fógeta, Björgvin o.fl. bátum. Sigurður var mesti dugnaðarmaður og traustur sjómaður.
Daníel Bjarnason vélamaður á Ísak, sem þarna fórst, var ættaður af Seyðisfirði og þekktur um Austfirði fyrir langa og góða sjómennsku. Daníel var um tíma formaður á Seyðisfirði með báta fyrir Þórarin Guðmundsson og fleiri. Vertíðina 1913 var hann formaður með mótorbátinn Haffrú héðan frá Eyjum. Daníel var fæddur 8. mars 1876. og voru foreldrar hans hjónin Bóthildur Sveinsdóttir og Bjarni jónsson, sem bjuggu að Stórabakka í Hróarstungu. Hann var talinn öruggur og góður sjómaður. Þá fórust þarna Axel Albertsson og Sveinbjörn Kristjáns hásetar á Geysi sem fyrr getur; menn í blóma lífsins. Fimm vaskir sjómenn fórust því með Ísak.
Á þessum árum mátti heita árlegur viðburður, að einn, tveir eða þrír bátar færust á vertíð. Voru það miklar blóðtökur. Í ljósi þessa má sjá hvllíkt lán hvíldi yfir Gísla og útgerð hans alla tíð.