Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1965/ Þegar Sigurður Gunnarsson drukknaði 16. janúar 1917

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. júní 2016 kl. 09:36 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. júní 2016 kl. 09:36 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Þegar Sigurður Gunnarsson drukknaði 16. janúar 1917


Sigurður Gunnarsson.

Sigurður Gunnarsson á Hólmi var sá fyrsti sem lét smíða dráttarbát í Vestmannaeyjum. Þessi bátur var um 3 tonn á stærð, það var árið 1913. Jafnhliða stundaði Sigurður handfæraveiðar á þessum bát, hann var opinn um miðju og vegna þessa hættulegur hér við Eyjar, því að Sigurður notaði þennan bát mikið og var oft djarft teflt á honum. Árið 1915 lagði Sigurður bát þennan niður og lét byggja annan stærri, sem mun hafa verið 5 tonn. Bátur þessi var með þilfari (dekkaður) og smíðaði Jens Andersen (danskur maður) hann og nefndi Huginn II, hann var með 6 hestafla Skandia vél.
Á þessum bát hafði Sigurður alla afgreiðslu á skipum, sem til Vestmannaeyja komu og var oft draslkennt út og inn höfnina. Þá var öllu salti og kolum skipað í land utan af Vík og á sama hátt var útskipun á öllum fiski.
Var þetta eini dráttarbáturinn í Vestmannaeyjum. Þess á milli stundaði Sigurður sjóróðra á þessum báti.
Stuttu fyrir hádegi var Sigurður að mála númer á bát, vestan við Bæjarbryggju, var það m.b. Svanur. Þegar Sigurður hafði lokið því, flautaði „Gullfoss“ og fór þá Sigurður að draga bátana á milli skips og lands, með honum var venjulega frændi hans, Ágúst Ingvarsson frá Hellnahóli, og einnig í þetta skipti. Þegar á daginn leið fór að hvessa af austri, og um kvöldið var komið ofsaveður, svo að ekki var hægt að leggja uppskipunarbátnum úti á höfn, því að þar lágu þeir alltaf við ból úti á Botni.
Sigurður fer á báti sínum Hugin út á Botn til að leggja honum við bólið, þar sem hann hafði pramma, sem hann hafði smíðað sjálfur um haustið. Sigurður leggur bátnum og stöðvar vélina og eru þeir Sigurður og Ágúst að hugsa um að komast í land. Í sömu andrá fýkur húfan af Sigurði og snarar hann sér ofan í prammann, leysir og fer frá og er þá ofsa rok og svarta myrkur. Ágúst líkar þetta illa, en verður þó svo að hafa. Líður nú tíminn. Sigurður hverfur frá bátnum og sér Ágúst ekkert til ferða hans og bíður Ágúst þarna langan tíma, þar til hann tekur það ráð að setja vélina í gang og keyra upp að bryggju. Er þá komið fram á nótt.
Ágústi gengur vel að festa bátinn, sem var þó erfitt fyrir einn mann í svo slæmu veðri. Ágúst gengur upp bryggjuna og hugsar sér að hitta einhvern mann að máli.

Síldveiði innan hafnar ´61. Kastað með gamla laginu.

Sá fyrsti, sem Ágúst hitti, var Sigfús Árnason, þá lögregluþjónn. Ágúst spyr Sigfús hvort hann hafi orðið var við Sigurð Gunnarsson og kvað Sigfús nei við þvÍ. Ágúst biður Sigfús að ganga með sér inn í Botn og tók Sigfús vel í það. Er þeir koma innst í Botninn finna þeir prammann langt uppi í sandi og Sigurð látinn, hafði þá fótur hans festst undir þóftu í prammanum um Ieið og honum hvolfdi.
Þarna urðu endalok Sigurðar Gunnarssonar, sem var fæddur að Hólfshól í Holtum, 18. september 1883.
Foreldrar hans voru merkishjónin Gunnar Andrésson, hreppstjóri frá Hemlu í Landeyjum, og kona hans Katrín Sigurðardóttir frá Hvammi undir Eyjafjöllum. Sigurður fór á unga aldri til sjós á skútu frá Reykjavík. Árið 1906 fór Sigurður alfarinn til Vestmannaeyja og stundaði málarastörf, því að hann var mjög fjölhæfur maður og smiður á tré og járn. Hann var prýðilega greindur, hagmæltur og hraustmenni hið mesta, glæsimenni á allan hátt.
Sigurður fór ekki alltaf troðnar leiðir. Árið 1916, í ágústmánuði, fór Sigurður á Hugin inn í Holtsós, og mun það hafa verið í fyrsta sinn, sem bátur fer þar inn. Var Sigurður þar í 3 daga við silungsveiði.
Sigurður byggði húsið Hólm við Vesturveg árið 1912 og bjó þar til dauðadags. Kona Sigurðar var Guðbjörg Guðmundsdóttir, sem er dáin fyrir mörgum árum. Þau áttu tvo syni, sem báðir eru búsettir í Reykjavík, Ólaf og Sigurð.