Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Sigurður Sigurðsson frá Lögbergi
Ég vildi verða við ósk Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja, að geta míns góða vinar, Sigurðar Sigurðssonar, sem kenndur var alltaf við Lögberg, en hús það byggði hann snemma á búskaparárum sínum og var það með myndarlegustu húsum er það var byggt 1912.
Sigurður var fæddur 27. júlí 1883, sonur hjónanna Margrétar Sveinsdóttur og Sigurðar Sigurðssonar frá Barkarstöðum í Fljótshlíð.
Foreldrar hans bjuggu allan sinn búskap á Seljalandi undir Eyjafjöllum og þar ólst Sigurður upp ásamt fjórum bræðrum og einni systur.<br<
Börn þeirra Seljalandshjóna voru þessi: Guðrún, fyrri kona Auðuns sál. Ingvarssonar bónda og kaupmanns í Dalseli, Magnús Knútur, síðar bóndi að Seljalandi, Hannes, lengst af bóndi að Brimhólum hér í bæ, Sigurður á Lögbergi, Sveinbjörn, er drukknaði ungur við Vestmannaeyjar, Hálfdan á Seljalandi, dáinn 1910.
Seljalandsheimilið var á þeirri tíð sem þessi hópur var að vaxa mesti samastaður lífsgleðinnar, því bæði voru foreldrar og börn með hinu léttasta geðslagi.
Árið 1906 giftist Sigurður heitkonu sinni Sigríði Jónsdóttur frá Vesturbænum á Seljalandi, mestu myndarkonu og mjög listfenginni, sem hann missti 1923 frá 6 börnum þeirra, því elzta 17 ára.
Árið 1907 fluttust þau hjón til Vestmannaeyja og var Sigurður meðeigandi í vélbát, er þá voru óðum að ryðja sér til rúms, og gerðist hann vélstjóri á honum. Bátur þessi hét Sigríður formaður og meðeigandi var hinn alkunni aflamaður Vigfús Jónsson frá Holti. Bátur þessi var lítill eins og bátar voru þá, en 1920 létu þeir ásamt Kristmanni Þorkelssyni yfirfiskimatsmanni frá Steinholti byggja nýja Sigríði í Hafnarfirði. Sá bátur var 14 lestir, sem þótti heppileg stærð á bátum þá. Verðlag var þá ört hækkandi og varð báturinn dýrari en um hafði verið talað í byrjun, og verkinu seinkaði. Vertíðin 1921 var byrjuð í Eyjum og þótti þeim eigendum slæmt að geta ekki komizt heim með hinn nýja bát, svo hægt væri að fara að afla eitthvað upp í kostnaðinn.
Þá er það að ákveðið er að fara með bátinn heim, þó ekki væri allt uppgert eða búið að ganga frá bát eða vél sem skyldi og fenginn góður vélstjóri í Hafnarfirði til þess að vera með Sigurði sem vélstjóri. Þessi vélstjóri er enn á lífi og býr í Hafnarfirði og heitir Jón Sigurðsson. Lagt var af stað frá Hafnarfirði um nótt, en þegar byggingameistarinn vaknaði morguninn eftir var báturinn horfinn, en þessi ferð átti eftir að verða söguleg þó allt færi vel að lokum, en á leiðinni hrepptu þeir aftaka veður, vélin stoppaði og lágu þeir fyrir vindi og sjóum, en þá reyndi á dugnað og kjark Sigurðar því aldrei æðraðist hann, heldur taldi kjark í menn og var með gamanyrði þegar verst lét, nú var ekkert ljós í bátnum og engar þurrar eldspýtur því allt var orðið gegnblautt, eftir mikið strit komu þeir vélinni í gang, en þrjá sólarhringa voru þeir á leiðinni og voru þá taldir af hér í Eyjum, en þá taka menn eftir bát sem er að koma og smáskýrist og reyndist það vera Sigríður og varð þá mikill fagnaðarfundur, er þeir komu að bryggju, því margt var um manninn til að taka á móti þeim og samfagna þeim. Ekki hafði Sigurður farið úr fötum eða lagt sig alla leiðina.
Þessi bátur, Sigríður, fórst 1928 undir Ofanleitishamri, en mannbjörg varð fyrir yfirnáttúrlegan dugnað vélstjórans er þá var, Jóns Vigfússonar frá Holti. að hann kleif hamarinn, sem að allra dómi er mjög mikið þrekvirki, og bjargaði með því meðskipsmönnum sínum, svo ekki hefur báturinn verið lánlaus. Sigurður var með hærri mönnum á vöxt, herðabreiður og vel vaxinn, rammur að afli á yngri árum, greindur vel og las mikið af þjóðlegum fróðleik.
Hann var glaðsinna og gamansamur og kom öllum í gott skap, er í návist hans voru, og oft hnyttinn í tilsvörum og vinur vina sinna.
Hann lenti í fjárhagsörðugleikum rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina og varð að láta húsið Lögberg, sem honum tók sárt, svo festi hann kaup á litlu húsi við Heimagötu sem heitir Vallanes, byggði við það og hefur átt þar samastað í sambýli við son sinn Baldur og konu hans Sigríði Bjarnadóttur, og tjáði hann mér oft, að þar liði sér vel. Þegar Sigurður missti bát sinn 1928, lagði hann fyrir sig smíðar, en trésmíði hafði hann lært á unga aldri, og hafði verkstæði bæði með öðrum og sjálfstætt, og á verkstæðinu vann hann þar til hann lagðist banaleguna síðastliðið haust, en hann andaðist 25. janúar s.l. á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja.
Blessuð sé minning hans.
M. B.