Rósa Hjartardóttir (Þorlaugargerði)
Rósa Hjartardóttir húsfreyja í Þorlaugargerði fæddist 1822 í Grindavíkursókn á Suðurnesjum og lést 14. janúar 1902.
Foreldrar hennar voru Hjörtur Jónsson frá Járngerðarstöðum í Grindavík, bóndi í Grindavík og járnsmiður í Keflavík, f. 1783, d. 13. janúar 1857, og Guðrún Jónsdóttir húsfreyja frá Hópi í Grindavík, f. 30. nóvember 1789, d. 17. febrúar 1872.
Rósa var með foreldrum sínum í Keflavík 1835, vinnukona í Jacobæusar höndlunarhúsi þar 1840.
Þau Jón giftust í október 1844 og dvöldu á Ofanleiti.
1845 bjuggu þau í Fredensbolig, eignuðust Helgu á því ári, en misstu hana úr ginklofa 10 daga gamla. Þau voru þar enn 1846, og 1847 í Sorgenfri, sem var annað nafn á Fredensbolig. Þar fæddist Jóhanna í lok ársins. 1848 voru þau þar með Jóhönnu á fyrsta ári og enn bjuggu þau þar 1849 og 1851. 1851 fæddist þeim Hjörtur, en hann dó tveggja vikna gamall, líklega úr ginklofa, en sá sjúkdómur var oft kallaður barnaveiki eða barnaveikin vegna tíðni sinnar. Þau voru þar 1852 og 1853, en 1852 fæddist Hjörtur þar. Í Götu bjuggu þau 1854-1855. Þar fæddist Guðrún 1855. Þau voru á Oddsstöðum 1855-1856, í Brekkuhúsi voru þau við húsvitjun 1856.
Þau voru komin að Þorlaugargerði 1857 og bjuggu þar síðan meðan bæði lifðu. Þar fæddist þeim Magnús 1859, en hann dó rúmlega vikugamall úr ginklofa.
Rósa var ekkja í Þorlaugargerði hjá Guðríði Helgadóttur fyrrum sonarkonu sinni 1889-1892, er hún fluttist til Reykjavíkur og dvaldi hjá Jóhönnu dóttur sinni.
Hún lést 1902.
I. Maður Rósu, (23. október 1844), var Jón Jónsson Austmann beykir, bóndi og sjómaður, lengst í Þorlaugargerði, f. 12. apríl 1814, d. 15. mars 1888.
Börn þeirra voru:
1. Helga Jónsdóttir, f. 30. nóvember 1845 í Fredensbolig, d.1. desember 1845 úr ginklofa.
2. Jóhanna Jónsdóttir húsfreyja í Reykjavík, nefndist Fredriksen, f. 29. desember 1847.
3. Hjörtur Jónsson, f. 16. júlí 1851, d. 29. júlí 1851 úr „barnaveiki“.
4. Hjörtur Jónsson bóndi í Þorlaugargerði, f. 26. júlí 1852 í Sorgenfri. Hann hrapaði til bana úr Hellisey 23. ágúst 1883.
5. Guðrún Jónsdóttir, f. 28. mars 1855 í Götu. Hún fluttist til Vesturheims.
6. Magnús Jónsson, f. 28. júlí 1859 í Þorlaugargerði, d. 8. ágúst 1859 úr ginklofa.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
- Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.