Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Draumur Sigurðar Ólafssonar
Sigurður, sonur Ólafs Sigurðssonar á Strönd, dó úr berklum, fulltíða maður. Andaðist hann á Vífilstöðum eftir þriggja mánaða dvöl þar. Nokkru áður en hann fór þangað, dreymdi hann, að hann væri staddur inn í Herjólfsdal, ásamt þeim Jóhanni Guðjónssyni á Kirkjubæ og Þorgeiri Jóelssyni á Fögruvöllum. Þeir voru jafnaldrar. Urðu þeir ásáttir um að fara upp á Dalfjallshrygg, og lögðu samtímis á brekkuna. Þegar Sigurður var kominn í miðja brekkuna, fannst honum eins og hann yrði svifléttur og lyftist á augabragði upp á hrygginn.
Þegar hann var kominn þangað, leit hann við, til þess að gæta að félögum sínum. Sá hann þá, að Jóhann var kominn rúmlega í miðja brekku, en Þorgeir var enn við brekkufótinn.
Sagði Sigurður föður sínum drauminn, og lét þess jafnframt getið, að hann mundi annaðhvort verða fyrir því, að hann yrði þrjá mánuði á Vífilstöðum eða að hann ætti skammt líf fyrir höndum, og mundi Jóhann lifa sig skammt, en Þorgeir verða langlífur. Skömmu eftir að Sigurður dó, drukknaði Jóhann í heyferð til Landsins. Þorgeir er enn á lífi.
(Sögn Ólafs Sigurðssonar)