Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Söngur
Árið 1907 var ég lausamaður og leigði eina stofu í nýbýlinu Hlíð í Vestmannaeyjum. Eitt kvöld, litlu fyrir jól, var ég óvenjulega andvaka. Gat ég ómögulega farið að hátta. Fór ég því „göngutúr“ austur á Miðhúsatún. Það er allmikill spölur. Þá var klukkan hálf tvö. Þegar ég hafði gengið lítinn spöl frá húsinu, heyri ég háan söng nokkurn spöl frá, í áttina á Gjábakka. Mér datt í hug, að þar kæmu ölvaðir menn, því mjög var eygjaskeggjum tamt að syngja, þegar þeir voru ölvaðir, enda voru þeir margir söngmenn góðir. Ekki lét ég þetta hindra för mína, heldur hélt áfram austur á „Skans“. Af Skansinum heyrðist mér söngur þessi koma beint austan fyrir Klettsnef, sem þar er í sjónum. Fannst mér ég þekkja sumar raddirnar. Stanzaði ég undrandi og reyndi að gizka á, hvernig stæði á þessu. Ég sagði þá við sjálfan mig, að eitthvað hlyti að vera óskiljanlegt við þetta. „Það vildi ég, að einhver annar heyrði þennan söng, svo ég og aðrir sannfærðist um, að hér væri rétt heyrt. Stundum fá menn klukknahljóð í eyru, og stundum heyra menn hringingar í lofti, og þykir boða mannalát.“ Söngurinn fyrir austan Klettsnefið var þríraddaður. Ein röddin skar langt upp úr. Eftir nokkra stund fór ég heim. Heyrði ég sönginn alltaf með jöfnu fjarlægðarmillibili. Stóð ég nokkra stund á tröppum úti fyrir húsinu og hlustaði á sönginn. Allt var hljótt og þögult, nema raddir þær, sem ómuðu þarna skært í næturkyrrðinni. Sama var lagið og sömu raddirnar, ein titrandi skær og hreimfögur. Dauðans bróðir hafði nú lokað augum flestra eða allra manna í Eyjum, nema tveggja, sem hlustuðu nú hugfangnir á þennan fagra söng. Um morguninn hitti ég gamla, góða og guðhrædda konu, sem mér var vel við. Hún var önnur persónan, sam vakað hafði. Hún bar skyn á margt, flestum ókunnugt. Mér var vel við hana. Ég sá, að hún var óvenjulega dauf til augnanna, og spyr, hvort hún hafi eigi sofið. Hún kvaðst hafa vakað við lifrarbræðslu fyrir Brydes-verzlunina. „Þér hefir þó ekki verið haldið vakandi með sönglist?,“ sagði ég. „Jú, víst var svo,“ mælti hún. „En því er þér það kunnugt?“ Ég sagði henni þá, hvers ég hefði orðið var. Hún kvaðst hafa orðið alls þessa sama vör á sama tíma. Bar ekkert á milli. Og minntumst við eigi framar á það.
Þegar „Hólar“ komu um vorið til Eyjanna, fór margt fólk út í skipið. Ég gekk þá austur á Skansinn og vildi sjá, þegar vélarbáturinn kæmi aftur í land. Sá ég nú brátt, að báturinn kom. En þegar hann brunaði fyrir áður nefnt Klettsnef, spratt þar upp sami söngurinn og ég hafði forðum heyrt um nóttina. Þar fann ég engan mun á. Sama var lagið, sömu raddirnar; ein hæst og hvellust, titrandi, skjálfandi, fögur og hrein, skar sig upp úr hinum. Ég hlustaði hugfanginn. En hvað er nú? Eitthvað kom fyrir með bátinn. Hann stanzar, söngurinn hættir. Eithvað er skeð. Ég flýtti mér heim og fékk að vita hvað skeði. Sá, sem hæst hafði sungið, hafði fallið út af öldustokknum og drukknað. Hann hét Ísleifur Erlendsson, ungur og efnilegur maður. Var hans sárt saknað af öllum, sem þekktu hann. Höfðum við verið samskipverjar einn vetur og varð mér hverft við, því mér var vel við hann. Hann söng löngum fagurt, er við vorum á heimleiðinni. Þetta hörmulega slysatilfelli með lát hans hafði lamandi áhrif á mig. En enn sárara var hans þó saknað af vinum og vandamönnum austur í Fljótshlíðinni, þar sem hann var upprunninn, svo sem Jón Þórðarson, Fljótshlíðarskáld, segir í erfiljóðum eftir hann, fyrir hönd foreldranna:
- „Þau vissu að af ungmennum öllum hann bar,
- og æfinnar morgunn skein fagur,
- og þessvegna sárara og sorglegra var
- að svona fljótt endaði dagur.“
- „Þau vissu að af ungmennum öllum hann bar,
Fyrir sína hönd segir skáldið:
- „Er minning um dyggðir og drengskapinn þinn
- ei dýrmætast hnoss mínu hjarta?“
- „Er minning um dyggðir og drengskapinn þinn
(Sigf. Sigfússon: Ísl. þjóðsögur II. 87—89).