Blik 1950/Þáttur skáta

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. ágúst 2010 kl. 16:06 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. ágúst 2010 kl. 16:06 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1950



Þáttur skáta


„Strákar!“
Þetta hlaut að vera misheyrn.
Ég renni lásnum frá pokanum, nudda stírurnar úr augunum og rýni á klukkuna. Hálf fjögur. Ég velti mér á vinstri hliðina og býst til að renna aftur fyrir pokann.
„Strákar!“
Ég er ekki í neinum vafa lengur. Það er rjálað við tjaldskörina, og eftir andartak kemur rauðnefjað andlit í ljós. Ég sé það ógjörla í hálfrökkrinu.
„Þið eigið að fara á vakt núna.“
„Á vakt?“ ét ég fábjánalega eftir.
„Já, frá fjögur til átta.“
Hugsanirnar eru farnar að skýrast í kollinum á mér. Auðvitað. Faxi á að láta fimm menn í mótslögregluna í nótt.
„Allt í lagi,“ svara ég kotroskinn. „Við verðum tilbúnir eftir andartak.“
„Þið komið að „krambúðinni“, þegar þið eruð tilbúnir,“ segir andlitið, síðan hverfur það.
Ég gef mér nú loks tíma til að geispa morgungeispann, en sný mér síðan að Magnúsi, sem dregur ýsur hægra meginn við mig, og hnippi í hann.
Hann losar svefninn, dæsir, en stingur síðan kollinum upp um svefnpokaraufina.
Langur, ámátlegur geispi, værðarstuna. Hann er vaknaður.
„Á lappir,“ segi ég.
Hann er dálitla stund að átta sig, en sezt síðan upp og skríður úr pokanum.
Nú er Garðar Ásbjörnsson líka vaknaður. Upp úr pokanum hans kemur úfið hárstríið og hann snarast á fætur.
Tjaldið er svo lítið, að við kjósum að klæðast úti. Veðrið er þurrt, en dálítið kalt.
Með suðaustan andvaranum berst dásamlegur ilmur úr skógarkjarrinu, ásamt „Fjólu“-angan, sem kemur annars staðar frá.
Garðar Sveinsson er þegar vaknaður, og kemur nú úr tjaldi sínu á nærbuxunum, en Matti lætur enn ekkert á sér bæra. Við göngum því að tjaldi hans, en varlega verðum við að fara að honum, því að annars vekur hann alla tjaldborgina.
Matti liggur út við skörina í tjaldi sínu, en vaknar samt ekki, fyrr en við annað spark í óæðri endann frá Magnúsi. Þá rýkur hann upp með andfælum og rekur upp öskur eitt mikið.
Við erum við þessu búnir, þar eð þetta er aðeins fastur liður í morguntónleikum hans. Þess vegna bendum við honum að koma, og það gerir hann eftir að hafa setið góða stund á nefinu á Sissa, sem liggur við hlið hans.
Við bíðum, meðan Matti tínir á sig spjarirnar, en leggjum þá af stað.
Garðar Ásbjörns byrjar að syngja. Einmana spói tekur hjáróma undir í fjarska. Við þöggum niður í Garðari, en spóinn heldur áfram.
Undir „krambúðinni“ hangir flokkur sá, sem við eigum að leysa af, ásamt kvenlögreglunni. Allir eru kuldalegir með hendurnar djúpt niðri í vösunum og sultardropa á nefinu.
„Það er gott, að þið komið,“ rymur í löngum, slánalegum náunga. Ég sé, að það er sá rauðnefjaði. Þeir fá okkur rauða hálsklúta, það er einkenni mótslögreglunnar. Síðan bjóða þeir góða nótt og rölta heim á leið.
Við förum nú yfir dagskipan þá, sem við höfum fengið frá lögreglustjóra mótsins:
I. Eftirlit í drengjabúðunum.
II. Setja upp kartöflur í eldhúsinu kl. 6.
III. Vekja kokka kl. 6,30.
Við höfum því tvo tíma til eftirlitsgöngu um tjaldbúðirnar. Allsstaðar er friður og ró. Úr stökn tjaldi heyrast hrotur. Upp úr eldstæðinu á „Miðgarði“ stígur örmjó reykjarsúla næstum þráðbeint upp í loftið. Í norðri krunkar andvaka hrafn.
Við sjáum kvenlögregluna á göngu skammt frá okkur. Þær nema staðar við tjald eitt og pískra saman.
Matti er strax gripinn löngun til að vita, hvað um er að vera. Hann þýtur af stað, en — því miður. Það er svo erfitt að átta sig á þessum tjaldstögum í húminu. Hann steypist beint á nefið við tjaldskörina.
„Hver andsk - -!“ byrjar Matti, en áttar sig á síðustu stundu: „Skáti er hæverskur - -.“
Hann hættir því við hálfkveðna vísu. En innan úr tjaldinu heyrist syfjuleg rödd: „Er þetta lögreglan, sem þannig hagar sér?“
Við bíðum ekki eftir meiru, en hlaupum í burtu. Skammt frá standa stúlkurnar og glotta að aðförunum.
Það er farið að birta á austurhimninum. Sólin fer senn að koma upp.
Við verðum von bráðar að setja kartöflurnar upp, og göngum því til eldhússins.
Það er búið olíukyntri eldavél, sem spýr stórum, kolsvörtum sótflyksum upp í himininn.
Við eldavélina standa pottar, mun ógurlegri en þeir, sem við höfðum áður séð.
Garðar Sveinsson segir raunar, að slíkum ílátum hafi hann kynnzt í kvikmyndum frá myrkviðum Afríku. Þar er bara soðningin önnur.
Þarna inni finnum við líka fat eitt mikið, eða bala, sem við notum til að þvo kartöflurnar í.
Að örfáum mínútum liðnum höfum við lokið kartöfluþvottinum og komið pottunum fyrir á vélinni. Þar mega þeir bíða síns vitjunartíma.
Við höfum haft fregnir af sveskjubirgðum, sem geymdar eru í kvennaeldhúsinu. Þangað er því eðlilegast að rölta.
Þar er aðkoman sú, að öll kvenlögreglan stendur í hnapp yfir tómum pottum. Þær skeggræða í ákafa, hvernig bezt sé að haga sér við starfið.
Við þetta vaknar meðfædd og áunnin riddaramennska í garð kvenfólksins. Við bjóðum því þegar í stað aðstoð okkar. Því taka þær hið bezta.
Nú er tekið til við starfann og honum lokið á skammri stundu.
Þá snúum við atorku okkar að sveskjuleitinni og finnum þær vonbráðar. Auðvitað fá þær sómasamlega afgreiðslu.
Sólin er nú komin upp og ljómar fagurlega yfir Hrafnabjörgum. Hinir árrisulustu af fuglunum hafa byrjað daginn, og náttúran öll virðist vera að vakna af nætursvefninum.
Það er kominn tími til að ræsa kokkana. Á tjaldbúðasvæði hvers félags er eitt tjald auðkennt með rauðri tusku. Þar búa kokkarnir.
Þar knýjum við nú dyra og hrekjum íbúana miskunnarlaust frá draumum sínum til veruleikans.
Þetta er skemmtilegur starfi, sem lýkur alltof fljótt.
Smámsaman fer að lifna yfir tjaldborginni. Prímusarnir byrja að suða og á stöku stað sést svefndrukkinn kokkur skjótast eftir vatni.
Við göngum enn um stund um tjaldbúðirnar. Skyndilega hljómar morgunsöngur frá gjallarhorni á „Miðgarði“. Klukkan er hálf átta.
Út úr tjöldunum koma tugir og hundruð drengja. Þeir halda til „þvottamiðstöðvanna“, þar sem þeir þvo af sér svefndrungann.
Dagur er risinn.
Við göngum í áttina að „Miðgarði“. Þar bíður flokkur sá, sem á að leysa okkur af hólmi. Við skilum einkennunum, og höldum síðan í tjöld. Þar eigum við von á viðbrenndum hafragraut, ásamt tilheyrandi kræsingum frá kokkunum, Mugg og Fúdda. Fram undan er dagur fullur töfra og ævintýra. En það er nú önnur saga.

Einar V. Bjarnason


ctr

Árið 1943 keypti skátafélagið Faxi skála vestur í hrauni
í ræktunarlandi Skóræktarfélags Vestmannaeyja. Bústað
þennan kalla skátarnir Hraunprýði. Þar rækta þeir blóm og tré.


ctr

Oftast eitt sinn á ári og stundum tvívegis hafa skátarnir
fengið lánaða björgunarbátana til þess að „hita sér á árinni“
og „sjóast“. Á myndinni sjást skátar á öðrum björgunarbátnum
austur í Flóa.


ctr

Í göngu vestur á Hamri.


ctr

Útilega skáta vestur á Heimaey. Smáeyjar sjást í baksýn.