Fuglaveiðar
Vestmannaeyingar hafa nýtt sér bjargnytjar í gegnum aldirnar og haft þannig góða björg í bú. Menn fóru í úteyjar og dvöldust þar á meðan veiði stóð yfir.
Fuglaveiðarnar skiptust aðllega í tvennt. Annars vegar í fýlunga- og súlnaveiðar sem fóru fram að mestu samtímis og hins vegar lunda- og svartfuglsveiðar. Þessi auðlind var miklvæg á árum áður en í dag eru þessar veiðar meira stundaðar af áhuga en lífsnauðsyn.
Svartfuglsveiðar
Lengi hefur svartfugl verið veiddur í Eyjum og er enn í dag. Veiðiaðferðin í dag er þó frábrugðin snöru-, fleka- og netjaveiðum sem áður var. Í dag eru skotvopn notuð. Svartfuglsegg eru einng tekin í bjargsigi.
Fýlaveiðar
Fýllinn var einn af þeim þáttum sem gerði fólki kleift að lifa í Vestmannaeyjum hvað matarforða varðar. Ár hvert var hundruðum fugla safnað á bæ hvern og fuglinn saltaður í kagga og áttu þær birgðir að duga að næsta veiðitímabili. Í dag er fýll ekki veiddur til matar en fýlsegg eru tekin. Áður voru eggin ekki tekin því mun meiri matur er í fugli en eggi.
Súluveiði
Súlan veiðist í fjórum eyjum; Brandi, Geldungi, Hellisey og í Súlnaskeri en þar er stærsta samfellda súlnabyggðin og veiðist þar einnig mest.
Súlan byggir sér háan hrauk sem hún verpir í og safnar í hann allskyns hlutum. Súlan veiðir síld og aðra fiska í sjónum kring um eyjarnar og ælir hálfmeltri fæðunni upp í ungann sem situr í hrauknum. Í stuttu mála fara veiðarnar þannig fram að veiðimennirnir læðast að súlubreiðunni frá öllum áttum og gæta þess að súlan fari ekki fram af brún. Á ákveðunum tímapunkt i er svo ráðist inn í fuglahópinn með kylfu í hendi. Afurðirnar verður að verka strax svo þær skemmist ekki.
Betur þarf að fylgjast með súlustofninum og taka saman veiðiskýrslur frá súluveiðum. Óhófleg eggjataka getur einnig haft varanlegar afleiðingar á þá stofna sem egg eru tekin frá og væri því ráðlegt að fylgjast með þeim.
Lundaveiði
Lundaveiðar hafa verið stundaðar frá upphafi byggðar í Vestmannaeyjum. Veiðiaðferðirnar hafa verið með þrennum hætti í gegnum aldirnar; greflaveiðar, netjaveiðar og veiðar í háf.
Um miðjan ágúst tóku veiðimenn pysjur úr holum og notuðu til þess grefil. Grefli má lýsa sem priki með krók á endanum og var pysjan húkkuð út úr holunni með greflinum. Á Breiðafjarðareyjunum notuðu menn veiðiaðferð sem gaf um 30 þúsund fugla á ári. Aðferðin var sú að leggja net yfir holurnar og ná þannig varpfugli er hann hljóp úr holunni. Þessi veiðiaðferð hafði það í för með sér að pysjurnar drápust úr hungri því foreldrarnir voru dauðir. Báðar þessar veiðiaðferðir eru bannaðar í dag.
Það var um árið 1875 sem fyrsti háfurinn kom til Vestmannaeyja frá Færeyjum og eru veiðar í háf stundaðar enn þann dag í dag. Háfurinn, sem er langt prik með neti á endanum, er lagður á jörðina og lundinn háfaður er hann hringsólar á flugi yfir eyjunni. Þessi veiðiaðferð gerir mönnum kleift að sniðganga fugl með síli þannig að meirihluti veiðinnar er geldfugl.
Í dag er lundaveiði stunduð meira sem tómstundagaman en af lífsnauðsyn og er sterk hefð í Eyjum. Menn hafa stofnað sérstök úteyjafélög í helstu veiðieyjunum. Mestu veiðieyjarnar eru Suðurey, Álsey, Bjarnarey og Elliðaey. Eins veiðist vel í Ystakletti sem og minni eyjum s.s. Brandinum og Hellisey. Á síðustu árum hefur lundaveiði minnkað stórlega á Íslandi eða úr um 500 þús. fuglum í um 200 þús. fugla árlega. Áætlað er að um 80.000 til 110.000 lundar séu veiddir ár hvert í Vestmannaeyjum einum saman. Veiðistjóraembættið ber ábyrgð á að fylgjast með veiðunum og innheimta veiðiskýrslur Lundaveiði hefur lengi tíðkast í Vestmannaeyjum og virðist stofninn þola þá veiði nokkuð vel. Ljóst er þó að ekki er hægt að fylgjast nægilega vel með veiðinni ef ekki er unnið betur að innheimtu veiðiskýrslna og úrvinnslu þeirra.
Heimildir
- Aðalskipulag Vestmannaeyja, 2002-2014, kafli 2.5.2