Blik 1952/Smælki

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. febrúar 2010 kl. 21:46 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. febrúar 2010 kl. 21:46 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1952/Smælki“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1952



Smælki



„Grafið mig á grúfu,“ sagði Diogenes. Þegar hann var spurður, hvers vegna hann vildi það, svaraði hann: „Vegna þess að innan skamms mun allt snúa öfugt.“

Ungur maður ætlaði að gefa unnustu sinni gjöf. Hann afréð að gefa henni ilmvatn, en hann vissi ekki, hvað tegund hún notaði, og hann var of feiminn til þess að spyrja hana að því. Honum hugkvæmdist þá að fara með hundinn hennar í búðina með sér. Afgreiðslumaðurinn kom með hvert glasið af öðru og lét hundinn þefa af, þar til hann allt í einu fór að dingla rófunni og láta alls konar vinalátum. Þetta ilmvatn keypti ungi maðurinn, og það reyndist vera hið rétta.

Eftir hugvekju skólastjóra um nauðsyn útiveru og gönguferða kvað Gylfi Guðnason vísu þessa:

Ef þú iðkar innistörf
áttu að fara í göngu.
Á því hefurðu þreyttur þörf,
það vissi ég fyrir löngu.

Eftir fyrirlestur um uppeldismál koma kona nokkur til fyrirlesarans, sem var þekktur uppeldisfræðingur, og spurði hann:
„Hvenær á ég að byrja að mennta barnið mitt?“
„Hvenær á barnið yðar að fæðast?“
„Fæðast,“ hrópaði konan, „það er fimm ára gamalt.“
,,Þá hafið þér þegar misst beztu fimm árin,“ sagði uppeldisfræðingurinn.

Hryggurinn er dálítið S-laga og liggur frá hálsliðunum og niður eftir bakinu og endar í banakringlunni! „Til hvers eru augun?“ spurði fóstran á barnaheimilinu lítinn dreng.
„Til þess að sjá með þeim.“
„En nefið?“
„Til þess að finna lykt.“
„Og til hvers eru eyrun?“ var síðasta spurningin.
„Til þess að þvo þau.“ —

Hjartað er dökkrautt að lit og utan um það er bandvefjarpoki. Hjartað er á stærð við eiganda þess og snýr breiðari endi þess meira niður og fram til vinstri!

Bóndinn og grísinn
Í þorpi nokkru í Þýzkalandi bjó kaupmaður, sem var mjög ríkur, en svo nízkur var hann, að hann gaf aldrei svo mikið sem einn eyri. Dag nokkurn kom fátæklega klæddur bóndi til hans og harmaði sér sáran yfir dauða eina gríssins sem hann hafði átt. „Ég veit ekki hvar ég á að fá peninga til þess að kaupa annan grís,“ sagði hann, og bað nú kaupmanninn blessaðan að hjálpa sér. Kaupmaðurinn var stuttur í spuna og svaraði heldur hranalega: ,,Ég á fullt í fangi með að afla mér nauðsynlegs fjár, og ég hefi ekkert aflögu handa öðrum.“ Þegar fátæki bóndinn heyrði þetta, settist hann á stól og grét. En rétt í þessu kom kunningi kaupmannsins inn í búðina. Og kaupmaðurinn vildi af vinum sínum vera talinn hjálpsamur og góður maður. Hann setti því upp annan svip og spurði bóndann, hvað að honum gengi, en hann endurtók harmatölur sínar. Þá klappaði kaupmaðurinn honum kumpánlega á öxlina, rétti honum peninga og sagði honum að fara og kaupa sér annan grís. Bóndinn þakkaði fyrir sig með mörgum fögrum orðum og kvaddi.
Næsta dag hitti kaupmaðurinn bóndann og spurði, hvort hann væri búinn að kaupa sér annan grís. Kvað bóndi já við því.
„En hvernig stóð á því að grísinn þinn dó?“ sagði kaupmaður. Varð nú bóndi nokkuð vandræðalegur, en segir svo:
„Ég slátraði honum.“

Ung kona kom í heimsókn til Rubensteins, píanósnillingsins heimsfræga, sem hafði lofað að hlusta á hana leika á slaghörpu. ,,Hvað álítið þér, að ég eigi nú að gera?“ sagði hún síðan.
„Þér ættuð að giftast,“ sagði Rubenstein.

Málugur hárskeri var að klippa viðskiptavin og segir:
„Hvernig á ég að klippa yður?“
Viðskiptavinurinn: ,, Þegjandi.“

Eftir dauða Jane Seymour, átti Hinrik VIII. nokkuð erfitt með að ná sér í konu. Sú fyrsta sem hann bað svaraði: „Ef ég hefði tvö höfuð kæmi það til mála, þá hefðuð þér getað fengið annað.“

Tveir þorparar
Gamall maður var dag nokkurn á skemmtigöngu. Haltrandi betlari, tötrum klæddur varð á vegi hans og bað um ölmusu. Gamli maðurinn, sem var góðgjarn, gaf beiningamanninum 10 krónur. Rétt í sama mund kom þar að ókunnugur maður, sem segir: „Það var óþarfi af yður að vera að gefa þessum þorpara svona mikla peninga. Satt að segja er hann ekki haltari en ég eða þér. Ég hefi oft verið vitni að því, hvernig hann blekkir vegfarendur með því að þykjast vera haltur aumingi. Lánið þér mér stafinn yðar og þá skal ég sýna yður. hvort þrjóturinn getur ekki hreyft fæturna.“ Gamli maðurinn lét af hendi staf sinn, sem var með fagurgerðu fílabeinshandfangi. Ókunni maðurinn hljóp nú á eftir betlaranum, sem nú tók til að hlaupa af öllum kröftum. Brátt voru báðir úr augsýn, og gamli maðurinn hefir ekki enn fengið stafinn sinn aftur.

Þegar Mark Twain var ungur og starfaði að blaðamennsku í San Francisco, sá kunningjakona hans hann oft með vindlakassa í hendinni. „Ég held að þú reykir of mikið,“ sagði hún. „Nei,“ áreiðanlega ekki sagði Twain. „ég er að flytja einu sinni enn!“

Tveir þrælar.
Ríkur maður kom að máli við grískan heimspeking og bað hann að taka að sér að kenna syni sínum. Til endurgjalds krafðist heimspekingurinn 500 gullpeninga. Í augum fávíss og ágjarns manns var þetta mikið fé fyrir þvílíka vinnu. Hann hafði á móti því að borga svo mikið og sagðist geta keypt sér þræl fyrir sömu fjármuni. Nú fannst heimspekingnum nóg um ágirnd þessa ríka manns og sagði: „Kauptu þér þá þræl og þú munt eiga tvo.“ Með því átti hann að sjálfsögðu við það, að sonurinn mundi verða litlu meira virði en þræll, ef hann lærði ekki neitt.