Gylfi Guðnason

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Gylfi Guðnason frá Vegamótum, menntaskólakennari, fæddist 16. nóv. 1937. Foreldrar hans voru Guðni Jónsson, f. 1903 og k.h. Anna Eiríksdóttir, f. 1902.

Gylfi var í Gagnfræðaskólanum 1950-53. Stúdent varð hann 1957. Hann sat í verkfræðideild Háskóla Íslands 1957-58 og í Háskólanum í Kaupmannahöfn 1958-65 og 1966-69. Fyrri hluta-prófi í stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og efnafræði lauk hann 1959 og 1961, meistaraprófi í stærðfræði 1969.
Á unglingsárum var Gylfi liðtækur íþróttamaður í Eyjum, einkum í frjálsum íþróttum.
Gylfi var leiðbeinandi í dæmareikningi byrjenda við Háskólann í Kaupmannahöfn 1961-65 og 1966-68. Hann var kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1965-66 og frá 1969. Stundakennari við Menntakólann við Tjörnina var hann 1969-70, við Háskóla Íslands 1975-78.

Kona (1. febr. 1964): Hugrún Gunnarsdóttir kennari, f. 29. okt. 1937 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Gunnar tollvörður, búsettur í Kópavogi, f. 10. nóvember 1907, d. 12. nóvember 1996, Eggertsson bónda í Vestri-Leirárgörðum í Leirársveit í Borgarfirði, Gíslasonar og kona Gunnars, Þrúður húsfreyja, f. 2. janúar 1907, d. 21. október 2001, Guðmundar kennara Jónssonar.
Barn þeirra: Gunnar, f. 17. jan. 1971.

Í Bliki 1952 er að finna vísu sem Gylfi setti saman eftir að hafa hlustað á hugvekju skólastjóra um nauðsyn útiveru og gönguferða:

Ef þú iðkar innistörf
áttu að fara í göngu.
Á því hefurðu þreyttur þörf,
það vissi ég fyrir löngu.

Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Kennaratal á Íslandi. Reykjavík: Prentsmiðjan Oddi H.F., 1958-1988.
  • Gylfi Guðnason, munnl. heimild.
  • Pers.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.