Blik 1947/Helga Schevings minnzt

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. nóvember 2009 kl. 16:24 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. nóvember 2009 kl. 16:24 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1947/Helga Schevings minnzt“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit
HELGA SCHEVINGS
MINNZT

Sunnudaginn 16. marz s.l. voru 15 ár liðin frá stofnun Sambands bindindisfélaga í skólum. Í tilefni afmælisins var lagður blómsveigur á leiði Helga Schevings, aðalforgöngumanns sambandsins og fyrsta forseta þess. Athöfnina framkvæmdi skólastjóri Gagnfræðaskólans, en nemendur skólans og kennarar, góðtemplarar og skátar og fl. bæjarbúar gengu í skrúðgöngu í kirkjugarð undir íslenzka fánanum. Við leiði Helga Schevings flutti skólastjóri þetta ávarp:

Í dag minnumst við hér við þetta leiði mikils menningarstarfs og líknarstarfs, sem stofnað var til fyrir 15 árum.
Ungi maðurinn, sem hér hvílir, hóf merkið. Skólasystkini hans liðu undir áþján og ógæfu, sem er samfara drykkjuskap og annari óreglu. Þá var það, sem Helgi Scheving fékk nokkra heilbrigða æskumenn í lið með sér til þess að stofna og starfrækja bindindisfélag með nemendum Menntaskólans í Reykjavík. Þeir beittu sér síðan fyrir stofnun bindindisfélaga með æskulýð annarra framhaldsskóla.
Þessi æskulýðsfélög mynduðu síðan með sér samband, sem er 15 ára í dag. Helgi Scheving var fyrsti forseti þess og fórnaði því mikilli orku og miklu starfi, meðan hans naut við. Við misstum hann óvænt og skyndilega tvítugan að aldri og mun það sár seint gróa þeim, sem þekktu hann bezt.
Helgi var einn af fyrstu nemendum mínum hér í Eyjum. Ég minnist hans í dag eins og svo oft áður.
Hann var góðum námsgáfum gæddur. En ekki er það mér minnistæðast, heldur skylduræknin, velviljinn, fórnarlundin og áhuginn, hin vel gerða sál æskumannsins.

„Skammvinna ævi, þú verst í vök,
þitt verðmæti gegnum lífið er fórnin,“

segir þjóðskáldið okkar.
Helgi Scheving var fús til að fórna og enn nýtur æskulýður skólanna fórnarvilja hans og áhuga fyrir aukinni menningu og hamingju æskulýðsins.
Fyrir það starf gat hann sér orðstír, sem seint mun fyrnast og mætti með lífi sínu og starfi vera andlegur viti æskulýðsins í þessum bæ. Hann bendir ykkur ungu menn og konur, sem hér eruð stödd, á leiðina, sem þið skuluð halda.
Með þeirri einlægu ósk minni, að æskulýður sá, er hér elzt upp, megi læra að feta í fótspor hans og unna hugsjónum hans, leggjum við hér krans á þetta leiði og biðjum Guð að blessa ávalli minningu Helga Schevings og allra slíkra æskumanna og gera okkur hana hugleikna og minnisstæða.