Blik 1951/Skýrsla um garðrækt
Skýrsla um garðrækt
SKÝRSLA
um skólagarðrækt bæjarstjórnar Vestmannaeyja sumarið 1950.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti einróma á fundi sínum, 21. apríl 1950 tillögu þess efnis, að fela Fræðsluráði og skólastjórunum að athuga möguleika á að stofna til skólagarðræktar þá um vorið. Þetta var gert.
Leitað var eftir hug barna og foreldra þeirra um þátttöku í þessu verki, og gáfu sig fyrst fram 28 börn á aldrinum 10—14 ára.
Trúnaðarmenn bæjarstjórnar um framkvæmd þessa verks töldu heppilegast, að garðrækt þessi yrði jafnframt forræktun fyrir kúabú bæjarins, og skyldi því garðlandið valið með hliðsjón af því og bæjarsjóður greiða brot á landinu og áburð í það.
Garðalandið var því valið í útjaðri Dalabúslandsins, í hlíðinni austur af Dalabænum gegnt suðvestri.
Fyrst vann ýta að því að jafna landið. Síðan var það plægt og herfað.
Eftir vinnslunni á landinu var lengi biðið, vegna þess að hana þurfti að kaupa að, en annríki og þarfir margra á notkun jarðræktarverkfæranna tafði framkvæmdir.
Morguninn 8. júní var loks lokið við að herfa garðlandið og hófst þá þegar niðursetning kartaflna.
Unnir voru yfir 2000 m² lands, en notaðir til garðræktar að þessu sinni 1000 m² af því.
20 börn tóku nú þátt í starfinu, 15 stúlkur og 5 drengir, þar af helmingurinn 10—11 ára börn.
Um helmingur barnanna lagði sjálfur til útsæði frá heimilum sínum. Handa hinum hafði útsæði verið keypt frá Grænmetisverzlun ríkisins.
Sett var grunnt, sérstaklega vegna þess hve mjög var áliðið.
Í júlí var síðan hreykt upp að kartöflugrösunum og að þeim hlúð eftir föngum.
Kartöflurmnar teknar upp.
Börnin tóku upp kartöflurnar 18. og 19 sept. og fengu samtals 16 tunnur, sem skipt var milli þeirra að jöfnu í þetta sinn, þó að þau létu ekki í té jafnmikla vinnu í tímatali.
Börnin virtust hafa mikla ánægju af þessu starfi og unnu af áhuga og vinnugleði. Þau færðu skýrslur yfir vinnuna, áburðarmagn, bil milli raða o.fl., sem hverjum einum er nauðsynlegt að vita, sem garðrækt stundar.
Þá var nokkrum stundum varið til þess að kenna börnunum að þekkja jurtir og helztu hluta þeirra. Í sambandi við slíkt garðræktarstarf gefst tilvalið tækifæri til að kynna börnunum hinn lifandi gróður á þessum tíma árs, nöfn jurta, byggingu, gerð og starfsemi. Sú fræðsla er jafnan nokkrum erfiðleikum háð á veturna í skólanum, en auðveld með garðræktarstarfinu.
Ég óska að geta þess, að garðræktarstarfið með börnunum veitti mér mikla ánægju. Olli þar mestu um áhugi þeirra, vinnugleði og námfýsi. Starfið styrkti bjargfasta trú mína á æskulýðinn og móðurmoldina, ef við aðeins skiljum, viljum og framkvæmum.
Vona ég, að bæjarstjórnin láti hér ekki staðar numið í þessum efnum, heldur láti halda áfram þessu garðræktarstarfi og auka það.
- Vestmannaeyjum, 25. sept 1950.