Blik 1960/Tóti í Berjanesi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. janúar 2010 kl. 16:19 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. janúar 2010 kl. 16:19 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit 1960 ==''Tóti í Berjanesi''== <br> 400px|thumb|''Þórarinn Einarsson.'' Þegar sá maður dvelst hér, er hann einhver kynle...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



Tóti í Berjanesi


Þórarinn Einarsson.

Þegar sá maður dvelst hér, er hann einhver kynlegasti kvisturinn í bænum. Öll skyldustörf sín vinnur hann af fremstu getu og fyllstu samvizkusemi og skyldurækni, svo sem vit og geta hrekkur til. Heiðríkja er yfir hugsun hans og góðvild til alls og allra. En stundum er hann sérkennilegur í orðum og meinlega saklaus fyrir glettni og græskulausri kerskni meðbræðranna. Þessi náungi heitir Þórarinn Einarsson fullu nafni. Hann fæddist 18. marz 1897 í Fljótakróki við Steinsmýri í Meðallandi. Foreldrar hans voru hin valinkunnu sæmdarhjón Einar Einarsson bóndi og Þuríður Elíasdóttir. Þessi hjón bjuggu um skeið á Kársstöðum í Landbroti og síðan að Norður-Fossi í Mýrdal. Þaðan fluttust þau hingað til Vestmannaeyja árið 1922. Eftir 10 ára dvöl hér, eða árið 1932, fluttust þau til Reykjavíkur í hornið hjá Höllu dóttur sinni þar.
Einar bóndi dó 1942, áttræður að aldri. Þuríður húsfreyja kona hans dó 1948, 77 ára.
Tóti í Berjanesi, eins og hann er venjulega nefndur hér, og þá kenndur við heimili bróður síns við Faxastíg, — kom hingað til Eyja fyrsta sinni árið 1925. Síðan hefur hann unnið hér á fjölmörgum vertíðum, ýmist við fisk eða þá önnur störf í tengslum við framleiðsluna.
Eitt sinn sem oftar hitti ég Tóta á förnum vegi í bænum. Hann var þá í sólskinsskapi eins og jafnan. Þetta var einn af síðustu dögum vertíðarinnar.
„Mikið ertu annars orðinn bústinn, Tóti minn,“ segi ég. ,,Ég held þú hafir safnað á þig á vertíðinni, og er það þó öfugt við það, sem vera ber svona á mesta annatíma ársins.“ — „Oh-, þetta er ekki ýstra,“ segir Tóti, „heldur peningar, því að ég var einmitt núna að fá greitt kaup fyrir tvo síðustu mánuðina, ekkert smáræði.“ Og Tóti stríkur niður vinstri boðanginn á jakkanum heldur svona borginmannlega. Þá veiti ég því athygli, að hann er allur meiri þeim megin. Þá tjáir hann mér, að hann stefni að því að verða húseigandi í Vík í Mýrdal. Svo tökum við þá tal saman og efnum í greinarkorn, sem í rauninni átti að birtast árið 1957, þegar Tóti var sextugur, og hefur því höfundurinn „gengið með“ nálega tvöfaldan meðgöngutíma fílanna eða rúmlega þrjú ár. Út af fyrir sig hefur Tóti ekkert við það að athuga, en hitt erum við sammála um, að háðulegast sé, ef aðeins fæðist mús eftir allan þennan tíma.
Ýmislegt hefur á dagana drifið fyrir Tóta þessar mörgu vertíðir, sem hann hefur dvalizt hér í Eyjum. Eina vertíðina var hann t.d. „til snúninga“ í verbúð Tangans. Þar réði hann öllu utan veggja, segir hann, og kunni hann því vel, því að hann fann sig vaxinn því að hafa nokkur völd, en ráðríki kvenfólksins hindraði alla ráðsmennsku hans innan húss. Þó var það alveg sérstaklega ráðskonan, sem sat Tóta af stokk með að hann fengi þar gjörða skyldu sína sem fulltrúi hins „sterka kyns“ í verbúðinni. „Það mun ekki í fyrsta sinni, sem „veika kynið“ yfirbugar hið sterka,“ segir Tóti. Mest finnur hann þó til með einum manni, eiginmanni hinnar fyrrverandi ráðskonu, því að hún giftist nokkru síðar, sú stutta.
„Er það satt, að mestu vonbrigði þín í lífinu hafi orðið í ástarmálum?“ spyr ég Tóta. „Nei, fjarri fer því,“ segir hann. „Ég hefi helzt aldrei lifað neitt ástarævintýri og næstum aldrei orðið ástfanginn. En ég hefi haft gaman af að gefa þeim svona undir fótinn og dansa við þær.“ Sérstaklega kveðst hann hafa dansað mikið þau árin, sem hann var í stúkunni Sunnu. Þá dansaði hann eitt sinn við mektuga frú salla fína. Mitt í dansinum tjáði hún honum, að hún hefði varla treyst sér á dansleikinn sökum lasleika. „Hvað ertu þá að skælast þetta?“ spurði Tóti. Frúin varð hvumsa við. Henni vafðist tunga um tönn. Síðar mun hún hafa dáðst að hispursleysi Tóta og hans opna hug, því að hún þekkti græskuleysi hans og sérkennileg orðatiltæki.
„Ertu ekki enn bindindismaður,“ spyr ég. „Jú, alltaf öðru hvoru og samtals hefi ég verið það í mörg ár. Margra funda í Sunnu minnist ég með ánægju, og marga ræðuna flutti ég þar. Suma hneykslaði ég, öðrum vakti ég kátínu.“
„Hefurðu sótt stúkufundi nýlega?“ „Nei, ekki nú lengi, því að holdið er veikt, þó að andinn sé að sönnu reiðubúinn. Og sérstaklega er það í veikara lagi, þegar ég dvel austur í Vík og þar í grenndinni. Annars hefi ég ekki bragðað áfengi í hálft annað ár. Síðasta staupið drakk ég austur í Vík, þegar vinur minn B.B. átti sjötíu ára afmæli. Síðan hefi ég verið í ströngu bindindi og hefi heitið því að vera það héðan af til æviloka.“
„Hvernig var það með áfengisflöskuna í lúkarnum hjá honum Sigga, þegar þeir áttu að hafa „kíkt“? „ „Já, ég kannast við söguna. Allt haugalygi, blessaður. Siggi er svo spaugsamur, eins og þú veizt, og skáld er hann líka á sína vísu, en fjári er gaman að vera með honum á sjó. — Já, sagan um freistinguna í lúkarnum hjá Sigga er uppspuni frá rótum. En minnisstæð er mér sjósóknin með Sigga. Matsveinninn gekk í svefni, svo að ég var á verði, meðan aðrir sváfu, og gætti þess, að hann gengi ekki fyrir borð með sængina í fanginu.
Einu sinni var ég skipstjóri hjá Sigga. Sú upphefð stóð í tvo tíma. Þá var varpan úti, ég stýrði og vélin gekk. Ég vildi ekki vera minni fiskimaður en skipstjórinn sjálfur. Þess vegna langaði mig inn fyrir línuna. Þar þóttist ég vita af nógum fiski. En ég vogaði það ekki. Þó aflaði ég vel, fékk hálffulla vörpu af vænum fiski eða 10-skiptan poka, minnir mig. Þá græddi Siggi vissulega á mér. Ég átti auðvitað að fá skipstjórahlut, en fékk ekki baun fram yfir hásetahlutinn.“
Og Tóti heldur áfram að segja frá: „Ég ætlaðist til þess, að mesta ævintýri lífs míns ætti sér stað, þegar ég var fimmtugur. Ég dvaldist þá austur í Vík í Mýrdal og ætlaði að halda veizlu, svo að um munaði. Ég hafði dregið að mér margskonar veizluföng, sem ég óska ekki að nefna. En viku fyrir afmælið gerðist svo sorglegur atburður á heimilinu, að af veizluhöldunum varð ekkert. Þetta voru mér mestu vonbrigði í lífinu.“
„Segðu mér svo að lokum frá einu ferðalagi, sem þú hefur tekið þátt í ...“ Og Tóti er til í það. „Það væri þá helzt,“ segir hann, „þegar Grafarkirkja var vígð. Þá var ég í Sunnu. Það mun hafa verið í kringum 1938.
Við vorum 8 saman í hóp á góðum hestum í rigningu og leiðindaveðri. Við lögðum af stað frá Vík í Mýrdal um hádegið, sex karlmenn og tvær stúlkur. Á leiðinni austur áðum við hjá sæluhúsinu í Hafursey. Þar voru töskurnar opnaðar, snætt og drukkið, meðal annars var þar drukkið vín. Allir drukku, stúlkurnar líka, enda báðar veraldarvanar.“ — „Þú hefur þó ekki drukkið þar vín,“ leyfði ég mér að skjóta inn í frásögnina hjá Tóta. „Sagðist þú ekki hafa þá verið í stúkunni Sunnu?“
Tóti varð hikandi. „Ek-ek dreypti á því aðeins, með þeirri vissu, að landhelgi Sunnu næði ekki austur að Hafursey.“ — Svo tjáir Tóti mér, að ferð þessi hafi ent með því, að tveir úr hópnum hafi dottið af baki og Bakkus velt þeim upp úr forarpollum og leirflögum. Þannig útleiknir voru þeir við kirkjuvígsluna og sátu inni í kór, eins og vera bar, því að þetta voru tveir skriftlærðir sveitarhöfðingjar.
Nú er Tóti húseigandi í Vík í Mýrdal. Býr þar í einsetu við góðan orstír. Hér vinnur hann á vertíð og þykir drjúgur verkmaður. Það er verkstjórum hér sómi og lof, að þeir líða ekki gárungum að hafa Tóta að skotspæni. Tóti er trúr í störfum og vinur vina sinna, heill og í rauninni hamingjunnar barn, ef litið er dýpra og útfyrir hinn „skammsýna, markaða baug“.

Þ.Þ.V.