Blik 1937, 1. tbl./Elsa litla

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. september 2009 kl. 12:42 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. september 2009 kl. 12:42 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Blik 1937, 1. tbl.

ELSA LITLA

Börn og unglingar komu í hópum eftir veginum. Allir voru glaðir, því nú skyldi halda skemmtun fyrir æskuna með hljómleikum og dansi.
Elsa á Eyri, 11 ára gömul, kom alein eftir veginum. Stundum lyfti hún höfði og leit í kringum sig, þegar hún heyrði hávaðann og hlátra hinna barnanna. „Mikið væri gaman að geta verið eins glöð og hin börnin,“ hugsaði hún. En brátt féll hún aftur í þunga þanka. „Ó, hvað það var leiðinlegt að lifa.“ Það var eitthvað í hug hennar, sem bærðist og beit. Hún hefði víst ekki átt að fara að skemmta sér í kvöld. En amma hennar, sem var veik, hafði sagt, að hún gæti farið, og þegar amma sagði það, nú þá ......
Elsa kom til samkomuhússins. Hún var lítil og mögur. Kuldi vetrarkvöldsins hafði dregið nokkrar blárauðar rósir á fölu kinnarnar hennar. Sumir hinna fullorðnu komu til hennar og spurðu, hvernig ömmu hennar liði. „Hvað sagði læknirinn í dag?“ spurðu þeir. „Hann sagði það ellilasleika og þreytu,“ sagði hún, „og lítið við því að gera.“ Svo smaug hún frá þeim og setti sig í einu horninu á samkomusalnum.
Allt í kring um hana ríkti óblandin gleði og kátína. En Elsa gat einhvernveginn ekki verið með. Hugur hennar var fjarri allri þessari gleði. Hvað eftir annað reyndi hún að kasta frá sér þessum sáru hugsunum og taka þátt í gleðinni, en henni tókst það ekki nema stutta stund í senn. Ávalt sóttu á hana aftur sömu hugsanirnar: Þarna lá amma veik heima á Eyri og leið illa. Nú hafði hún legið í marga daga, og í dag hafði læknirinn komið til hennar. Aldrei hafði amma hennar legið veik áður, svo hún mundi, og leitt var, að það skyldi ské nú, — einmitt nú. Oft hafði amma áður sagt, að hún, litla stúlkan hennar, væri eina stoðin hennar og gleði í lífinu. Síðustu dagana hafði hún helst ekkert sagt. Hún lá bara svona og starði út í loftið og tautaði fyrir munni sér endur og eins: „Veslings barnið mitt, elskulega stúlkan mín.“ „Hún átti víst við mig,“ flaug Elsu í hug.
„Ég skil vel, hvað hún hugsar: Ef ég dey nú, verður Elsa alein eftir.“
Dey!
Það var sem orðið stæði fast í hálsinum með grátnum, sem þrengdi sér upp. Hún kingdi og kingdi, og það hvarf. En brátt kom það aftur. Hún hugsaði til mömmu sinnar, sem dó í fyrra. Faðir hennar var dáinn fyrir mörgum árum, — og nú hún amma!
Elsa stóð upp og gekk fram að dyrunum. Samstundis varð hljótt í salnum. Það var sem öll börnin vissu í hug Elsu litlu. Svo var hvíslast á og giskað. Brátt fékk gleði barnanna aftur framrás.
Elsa fór í kápuna sína, setti á sig húfuna og gekk á leið heim. Hún gekk hratt og hljóp við fót á milli. „Að ég skyldi geta farið frá henni ömmu.“ Hún Gréta frænka var hjá henni. Það huggaði hún sig við. „Hún Gréta frænka, já, en það er ekki ég.“ Svo hljóp hún. Gréta frænka mætti henni í dyrunum. „Hvers vegna kemurðu strax aftur, barn?“ spurði hún. Ég gat ekki verið þar lengur; ég varð að fara heim til þess að vera hjá henni ömmu.“ Og svo skundaði hún inn.
Hin sjúka lá sem í dvala. Brjóstið lyftist og féll ótt og títt í sótthitanum. Elsa gekk að rúminu hennar, tók upp vasaklútinn sinn og þurrkaði svitann af enni ömmu sinnar. Svo strauk hún ofurlaust hendinni um hár hennar. Þá opnaði hún augun allt í einu. „Elsa, ertu komin heim? Er skemmtunin á enda?“ „Nei, það er hún ekki, en ég gat ekki verið þar, fyrst þú ert veik. Ég hefði ekki átt að fara frá þér í kvöld. Ég skal aldrei gera það aftur.“ Þá tók hún báðum litlu höndunum sínum utan um gömlu, þreytulegu hendurnar. Nú varð dálítil þögn. Svolitlum glampa brá fyrir í augum hinnar sjúku og óljós titringur fór um munninn. „Þú hefðir átt að vera lengur á skemmtuninni, Elsa mín, því að þú hafðir svo lengi hlakkað til hennar,“ sagði hún. „Já, en þá varst þú ekki veik,“ sagði barnið. Titringurinn í kringum munn gömlu konunnar varð ljósari og drættirnir þyngri. Gljáinn á augunum hvarf og tárin komu fram. Eitt af öðru runnu þau niður hrukkóttar kinnarnar. En mitt í grátnum brosti hún dauft og þreytulega. Elsa sat þarna sem steini lostin við rúmið.
Eftir alllanga stund sagði hún: „Ertu svo veik, amma mín, að þú verðir að gráta.“ Og svo strauk hún létt litlu, mjúku hendinni sinni um hærur ömmu sinnar. „Ég græt ekki af sárs­auka,“ sagði gamla konan, „heldur af því að mér líður svo vel; ég er svo glöð.“ En Elsa efaðist: „Maður grætur víst ekki, þegar maður er glaður, það segir þú bara til þess að hugga mig. Ég hefi aldrei séð nokkurn gráta af gleði.“ „Nei, ekki ennþá,“ sagði gamla konan, „en einhverntíma vona ég, að þú öðlist það. Þá er gleðin mest, þegar hún veldur gráti. Guð blessi þig, barnið mitt. Þakka þér fyrir, að þú komst heim til mín í kvöld. Það gladdi mig svo innilega. Og ef svo fer, að ég hverfi frá þér núna, þá ferð þú heim til Grétu frænku þinnar og verður hjá henni. Hún hefir lofað mér því. Vertu öllum eins góð og þú hefir verið mér. Þá hlýtur þú hamingju í lífinu.“ Hún gat ekki sagt meira. Gréta frænka kom inn og hagræddi henni lítilsháttar. Nokkra stund lá hún með lokuð augu. Brátt varð hún óróleg aftur. Sótthitinn óx. Sinaberu hendurnar fálmuðu til og frá um sængina. Varirnar bærðust og hún sagði lágt: „Vesalings Elsa mín. Guð blessi þig. Ég skal segja mömmu þinni, þegar við finnumst, hvað þú ert góð stúlka. Ó, þú, sem komst heim af skemmtuninni til mín, þú, sem hafðir hlakkað svo mikið til hennar.“
Daginn eftir leið ömmu miklu betur. Eftir það fór henni dagbatnandi. Elsa sat hjá henni, þegar hún mátti og þær töluðu margt saman. Loks kom dagurinn sá, að amma klæddist og steig í fæturna. Alltaf man Elsa, hvað hún sagði við hana þá. Það var þetta: „Læknirinn gerði sitt til þess að hjálpa mér, en besta lyfið held ég samt sem áður, að þú hafir gefið mér kvöldið, sem þú komst heim af skemmtuninni. Þá fékk ég nýja þrá til að lifa — lifa lengur fyrir þig.“

Þ. Þ. V. þýddi lausl..