Blik 1969/Kafli úr ævisögu, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. maí 2008 kl. 14:57 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. maí 2008 kl. 14:57 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Lagfæringar.)
Fara í flakk Fara í leit

Bréf fræðslumálastjóra var birt almenningi í Eyjum í blaði þingmannsins, smyglað þar inn bak við eftirlitið, - ritskoðunina. Það gerði „haukur minn í horni“, einn af starfsmönnum fyrirtækisins, fyrrverandi nemandi minn ónefndur, sem hafði aðstöðu til að hjálpa mér og var ósárt um það, þó að „þeir fengju að súpa seyðið af sjálfum sér“, eins og hann orðaði það svo vel og hnyttið. Þá gerðist ég útsölumaður Víðis af sérstökum ástæðum, sem ekki verða greindar hér, - lét dreifa honum um bæinn. Það út af fyrir sig er allt önnur saga og kátbrosleg. En ég minnist allra þessara átaka með ánægju.

Aldrei hefði fræðslumálastjóri, Jakob Kristinsson, sent þessa yfirlýsingu til birtingar almenningi í bænum, ef sex-dálkagreinin með öllum meinlokunum og hinni yfirþyrmanlegu rætni hefði ekki verið birt almenningi í kaupstaðnum. Þannig sannaðist enn einu sinni málsgreinin fræga og fagurorðaða: „Þér ætluðuð að gera mér illt, en guð ...“ Var ekki „tilveran dásamleg?“ Það fannst mér að minnsta kosti. „Guð brosir“, segir andansskáldið mikla, Ólafur Duun. Skólinn var mér hugsjón, - og uppeldisáhrif hans voru mér sérstök hugsjón. „Fórn, fórn, hún er hin mikla krafa lífsins og dularfulla“, segir landi Duuns, norska skáldið Árni Garborg¹.

¹ „Offer, offer, det er den store, löyndomsfulle livsens krav“.

Engu varð hér ofmiklu fórnað. Allt þolað af ljúfum hug og með ánægju.

Tíminn leiddi það í ljós, að mér varð að trú minni: Vinnir þú af alhug og heilhuga að velferðarhugsjón án allar eigingirni eða sérgæzku, magnarðu með þér öfl til átaka beggja vegna tjaldsins, bví að skilveggur hinna tveggja heima er þynnri en margur gerir sér í hugarlund.

Fám vikum síðar söng góður og hugðnæmur söngvari tvö listaverk í íslenzka útvarpið: Alfaðir ræður eftir Sigurð Eggerz, og lagið eftir Sigvalda Kaldalóns.

Alda reis og alda hneig, og ég hrærðist. Viðbrögð mannssálarinnar og blæbrigði eiga sér lítil takmörk. Viðhorf okkar til lífsins og vandamála þess eru heldur ekki á einn veg. Slysið í Vík brann mér í huga.

Trúað get ég því, að enn finnist skólamenn með þjóð minni, sem gleðjast mundu yfir því eins og við Magnús Guðmundsson og séra Jes A. Gíslason, ef meginþorri nemenda þeirra fengist til þess að rækja tóbaks- og áfengisbindindi af einlægum hug og hjarta, vinna þessari hugsjón, fórna henni starfskröftum.

Já, ég gladdist yfir bindindisáhuga nemenda minna og Magnús Guðmundsson og séra Jes A. Gíslason glöddust einlæglega. Það gerðu fleiri, ekki sízt foreldrarnir.

En þetta var dálítill útúrdúr hjá mér um atburði, sem að sumu leyti eru nokkru yngri en þeir, sem í rauninni eru hér til umræðu. Þó snerta þeir andleg tengsl okkar Magnúsar Guðmundssonar og þess vegna drep ég á þá hér.

Bindindisstarfið frá fyrstu dvöl minni hér í bænum leiddi sem sé til samhugar eða samhygðar milli ýmissa mætra manna og skólans eða starfs míns þar, - skapaði hugartengsl milli mín og þeirra manna sumra, sem kyndilberar undirpallamenningarinnar vildu ógjarnan styggja eða veigruðu sér að ganga í berhögg við af stjórnmálaástæðum. Þannig urðu þeir mætu menn eins konar skjaldborg, og bindindisstarfið mér vígi. Og Magnús Guðmundsson var einn af þessum „skjaldborgarmönnum“. - Hann var nú staddur heima hjá mér til þess að blása í mig kjarki og hugrekki eftir fyrsta áhlaupið. Magnús bóndi hafði látið sér til hugar koma, að ég væri miður mín eftir allar svívirðingarnar og vissi naumast mitt rjúkandi ráð. Hann tók því nú að hughreysta mig, þessi blessaður öðlingur.

Við ræddum málin frá ýmsum hliðum og stundum í léttum tóni.

Loks tjáði ég Magnúsi eins og var, að nú skyldi ég betur en áður í hvílíka ormagryfju eða hvílíkt grafarkuml Ásgeir fræðslumálastjóri hefði sent mig, er hann bað mig að loknu kennaraprófi (1927) að glíma við að endurreisa eða lífga við Unglingaskóla Vestmannaeyja, sem hafði verið í andarslitrunum undanfarin ár. Auðvitað var sú ósk fræðslumálastjóra sprottin af trausti og góðvild til mín. Og hvernig átti hann að þekkja öll einkenni „undirpallamenningarinnar“, þessa sérkennilega fyrirbrigðis í þróunarsögu byggðarlagsins og í menningarsögu þjóðarinnar.

Þarna tjáði ég Magnúsi mínum Guðmundssyni, að héðan af skyldi til skarar skríða og til stáls sverfa með mér og skólanum annars vegar og drottnandi menningu eða valdhöfum bæjarins hins vegar. Þetta sagði ég Magnúsi bindindisbróður mínum afdráttarlaust. Af hólminum yrði ekki flúið héðan af, hvað sem framtíðin kynni að bera í skauti sínu. Ég var bæði vanur beitningu og aðgerð, ef svo bar undir, og á landbúnaði vissi ég líka nokkur deili.

Þessi ákvörðun mín féll hinum gamalreynda sjómanni og sægarpi vel í geð. Ég var fullur aðdáunar á Magnúsi Guðmundssyni, þegar hann kvaddi. Og minnið um hann dái ég enn, því að ég reyndi hann að sérstakri mannlund og miklum drengskap á viðkvæmri stundu, þegar sverfa skyldi að mér, svo að lífið yrði mér óbærilegt við að rækja starf mitt og endurreisa framhaldsskóla í Vestmannaeyjum, einhverja allra aumustu fræðslustofnun landsins, bónbjargarstofnun áhaldalausa, umkomulausa, allslausa. Reyndar átti skólinn að vera „dauður“ fyrir löngu, en einhvern veginn hafði hann tórt, með því m. a., að Árni Filippusson, skólanefndarformaður barnaskólans, lánaði fé úr eigin vasa til þess að standast straum af rekstri hans.

Svo hélt hugstríð mitt áfram. Ef til vill hafði ég ekki fallið í þessa „gryfju“ af einskærri tilviljun. Frá unglingsárum mínum hafði ég trúað á handleiðslu æðri máttar, - trúað á leiðandi hönd æðri máttarvalda, - trúað á íhlutun eða afskipti dulinna samhygðar- og velvildarafla, ef við mannskepnurnar værum þess verðar, lifðum þannig lífinu. Var ég verður slíkrar hjálpar?

Ekki minni vitmaður en Grímur skáld Thomsen kveður þannig í Búarímum:

„Reynt það hefi ég eldri og yngri,
ei þótt ég í svipinn skildi,
að sínum bendir forsjón fingri
firðum, ef þeir hlýða vildi“.

Og hvað segir svo franska, heimskunna skáldið Molliér: „Drottinn ætlar hverjum manni sitt hlutverk“.

Hvenær og hvernig ég öðlaðist þessa trú, er mér enn hulið. Ef til vill er hún mér meðfædd eins og talnaminnið og ástríðan að skrifa. Ef til vill hefur þessi trú mín seytlað inn í sálarlífið með uppeldinu. Ég bar ekki þroska til að hugleiða hana þá eða meta fremur en flestir aðrir unglingar á gelgjuskeiðinu. En nú ókst mér skilningur á því, að hún gagnsýrði jafnan þá hugsun, sem stjórnaði orðum og gjörðum fósturforeldra minna, var „rauði þráðurinn“ í daglegu lífi þeirra og sambúð. Það var því líkast, sem andstaðan og persónulegu svívirðingarnar við upphaf lífsstarfs míns yki þessa trú mína og styrkti. - Ég efldist, - ég var sannfærður um giftu mína, og þó ... Gekk þú jafnan hægt um gleðinnar dyr og gáðu að þér. Öll starfsævin var framundan. Aðeins fyrstu sporin stigin.

Þegar tréð skelfur í stormi sinna tíða, reynir fyrst og fremst á ræturnarar, festu þeirra, þol og þan. Bregðist sá styrkleiki eða bili, fellur tréð. Bili rætur uppeldisins, sem hinn ungi maður hefur hlotið, þegar erfiðleikar eða aðsteðjandi straumar mannlífsins steðja að, stormar tímans æða og leitast við að hrífa allt með sér, er hann eftir sem brak á sjávarströndu. Þessa sjáum við allt of oft merki í kringum okkur.

Þegar frá leið, tók ég að kynna mér fortíðina, - söguna. Í Eyjum hafði ekki þrifizt sýslubókasafn, eftir að ríki konsúlanna færðist í aukana fyrir alvöru og andi þeirra náði undirtökunum í bæjarfélaginu. Bókasafnið var ekki starfrækt. Þó var það með elztu sýslubókasöfnum í landinu, stofnað 1862.

Hvað hafði svo Kolka læknir, sá mæti maður, skrifað um safnið, þar sem það var geymt myglað og fúið? Meðferðin á því bar menningunni vitni. Fjórum árum áður en ég hóf lífsstarf mitt hér í Eyjum hafði læknirinn skrifað í blað sitt, Skjöld: „Nú er fyrir löngu hætt að lána út bækurnar, enda eru þær orðnar ónýtar af myglu og fúa, sem vonlegt er, dreifðar út um gólfið í kjallaranum (kjallara barnaskólans nýja. Þ.Þ.V.). Ekki hefur það bætt úr skák, að fram af þessu herbergi var eldaður matur í heilt ár og lagði matargufuna inn á bækurnar. Skömmu eftir að ég komst í bæjarstjórnina, skoðaði ég safnið og varð forviða á því, hve margar góðar bækur það átti. Þar á meðal ýmsar mjög verðmætar bækur, sem nú eru orðnar ófáanlegar. Á bókunum var þykkt myglulag og óloftið af þeim svo magnað, að ég efast um að annað sé hægt að gera við meginið af þeim en aka þeim fram af Urðunum ...“

Þetta voru orð Páls Kolka læknis um sýslubókasafnið í ríki konsúlanna og undirpallamenningarinnar, enda fékk hann orð í eyra hjá aðalkonsúlnum í bæjarfélaginu, sem Hannes bóndi sá, að lét „tólgarskjöldinn“ skína við sólu, eins og Skagafjörður séra Matthíasar skein skærast á sínum tíma og æ síðan.

Aðal-konsúllinn skrifaði þetta um Kolka lækni: „Mér hefur oft sýnzt það og mér sýnist það enn, að þessi hinn mikli og snjallráði spítalalæknir, spekingur og frelsishetja sé í mörgu allmikið andlega skyldur Sölva heitnum Helgasyni ... Sá ljóður var á ráði hans, að hann þóttist vera miklu meiri en hann var. Hann kallaði sjálfan sig heimspeking, skáld og listamann, og auðvitað hefur hann þótzt vera meiri læknir en aðrir. Honum var þessi vitleysa til mikils meins, og fyrir allt þess háttar var hann lítils virtur og hæddur ...

En þessi eftirlíking Sölva heitins (Kolka læknir) fer ekki um landið að staðaldri, ekki nema þessa einu ferð, sem verkaði öfugt við það, sem ætlað var ... Andlegi skyldleikinn er auðsær, grobbið og gortið“ (Minning Sölva eftir G. Ó.) (Skýringin við orðin: „... þessa einu ferð ...“ verður ekki gefin hér. Þ.Þ.V.). „Hver maður sinn skammt“, stendur þar, - einnig Kolka læknir.

Þegar þessar svívirðingar voru skrifaðar og birtar almenningi um lækninn, hafði tekizt að koma atvinnurekstri Gísla J. Johnsens hér í Eyjum fyrir kattarnef. Kunnugt var og haft á orði, að fólk hans galt páfanum skatt í skálar úr „postulíni“, ha, ha, ha, þvílíkur endemis hégómi! Og að Breiðabliki var „kamarinn“ innan húss. Það kórónaði allan hinn hégómann!¹

¹ Er Gísli J. Johnen byggði íbúðarhús sitt, Breiðablik, árið 1908, kom hann þar fyrir vatnssalerni. Það mun hafa verið eitthvert allra fyrsta vatnssalerni í íbúðarhúsi á Íslandi.

Tvö voru skautin á menningarhnetti Eyjanna.

- - -

Kolka læknir virtist gæddur miklum framfarahug og framtaksvilja til heilla og menningar almenningi í bænum, en hann fékk litlu áorkað í bæjarfélaginu. Hann vogaði heldur aldrei stökkið yfir „díkið“, þessvegna lenti hann í því, - einnig hann. Að lokum áttaði hann sig og flýtti sér þá að flytja burtu úr bænum, - flutti í skyndi eins og skeleggustu skólamennirnir og þeir beztu, sem hingað höfðu villzt. Að Kolka lækni var eftirsjá mikil úr bænum.

Þessar persónulegu svívirðingar um Kolka lækni, manninn, sem jafnan hafði reynt að „dansa með“ til þess að kaupa sér frið, skokka í takt við umhverfið, sefuðu mig dálítið og juku mér skilning á skelfingunni. Sælt er sameiginlegt skipbrot, stendur þar. Einmitt vegna þeirra sefandi eða róandi áhrifa, sem þetta sameiginlega „skipbrot“ okkar beggja hafði á mig, get ég þessa alls hér. Lækninum var líkt við nafnkunnasta flakkara landsins á sinni tíð, kunnan auðnuleysingja og vandræðamann á ýmsa lund. Ég var sagður nauðaómerkilegur barnakennari.

Já, þetta fékk Kolka læknir frá einum helzta kyndilberanum og konsúlnum, og væri þó synd að bera það í munninn á sér, að læknirinn hefði verið eða væri „blóðrauður bolsi“, sá mæti maður. En læknirinn ól með sér hugsjónir aðrar en þær að auðgast á almenningi. Það var mein, stórkostlegt mein! Og Kolka læknir fór illa í vasa. Hann var víðsýnn og menntaður maður. Þess vegna, - já, vegna alls þessa fékk hann skammtinn sinn.

Síðar rakst ég svo á hinar mannskemmendi dylgjur og getsakir, sem aðalkyndilberi konsúlamenningarinnar í bænum hafði hellt yfir Björn H. Jónsson, skólastjóra barnaskólans, árið 1917, er konsúlaliðið og kaupmannaliðið í bænum uppgötvaði, að skólastjórinn var velviljaður samvinnuverzlun og frjálslyndur, eins og við komumst nú að orði, í stjórnmálum ok félagsmálum, og líklegur til áhrifa og starfa því til eflingar í bæjarfélaginu. Einstaklingshyggjan óttaðist þá meir en nú samvinnuhugsjónina og sýndi henni minna umburðarlyndi. Konsúlarnir og kaupmennirnir hér voru þannig börn síns tíma þá.

Þannig var þá andinn, sem sveif hér yfir vötnunum, þegar ég kynntist bezt og eftirminnilegast drengskaparmanninum og öðlingnum Magnúsi Guðmundssyni bónda á Vesturhúsum. Og hugsunin um það, hvernig mér reiddi af í skólastarfinu eftir öll ósköpin, virtist ekki skilja brátt við hann, því að nokkru síðar grennslaðist hann eftir því hjá mér, hvaða áhrif mér virtust svívirðingarnar hafa haft á framkomu nemendanna gagnvart mér og agann í skólanum. Svo vitur var Magnús Guðmundsson.

Ég gat fullvissað hann með sanni, að nemendur mínir hefðu aldrei verið mér betri og innilegri en eftir að þessi skrif birtust í blaði því, sem konsúlarnir studdu og stóðu að með þingmanninn í fararbroddi. Þau virtust engin áhrif hafa mér til ills í skólanum, hvorki á foreldrana né nemendur mína, ef til vill alveg hið gagnstæða. Vitnaði ekki sú staðreynd um manngæði Eyjabúa í heild, dómgreind þeirra og drengilegt mat án alls ofstækis? Þannig freistaðist ég til að álykta. Og sú ályktun hefur orðið mér sannfæring með árum og aldri, orðið að órækinni reynslu.

Og svo er eftir að líta með augum gáskans og kímninnar, lítilsvirðingarinnar og viðbjóðsins á þetta allt saman. Ekki má gleyma skoplegu hliðinni á fyrirbrigðum lífsins. Hún bæði léttir lífið og lengir það.

Nú vekja þessi minni mér kátínu öðrum þræði. Mest undrast ég það nú, að þessar persónulegu svívirðingar kyndilberanna og þjóna þeirra skyldu megna að vekja mér hugstríð og vangaveltur. Nú finnst mér það hafa gengið guðlasti næst að blanda hugleiðingum um „hina leiðandi hönd“ saman við þessi skrif þeirra, þessi átök, en sönn skal sagan, hvaða litur sem á henni kann að vera.

Og síðast minnist ég skopmyndar unga listamannsins. Hún átti að tákna persónugerving „undirpallamenningarinnar" á blómaskeiðinu. Myndin var bæði snjöll og fyndin en þó meingölluð. Það vantaði í hana bitrasta skopið, íslenzkt skaup biturt og græskumengað. Úr því var bætt fljótlega: íslenzka fálkaorðan var hengd á brjóstið, og dannebrogsorðan hékk þar niður á bringuna glæstu í breiðu silkibandi, sem lá aftur um hálsinn. Þá var öllu fullnægt. „Sparidindillinn minn á hann“, bauð þursakóngur þegnum sínum. Hann Henrik gamli Ibsen kunni að orða hlutina, karlinn sá. - Sólin skein á „skjöldinn“.

„Ertu líka ánægður með Mafíuhattinn?“ spurði ungi listamaðurinn. „Hann mætti gljá meira“, sagði ég, „og hallast ögn meira aftur í hnakkann. Þá verður hann táknrænni um innri manngerðina, en löfin á aftanverðu jakkanum eru afbragð“.

Og nú eftir 40 ár minnist ég fyrstu svívirðinganna, sem helltust yfir mig úr skálum kyndilbera undirpallamenningarinnar, með vorkunnmengaðri kímni, léttum hug og gáskablandaðri fyrirlitningu. - Enginn skyldi álasa öðrum, þó að hann reyni eftir föngum að losna við skaðvænleg aðskotadýr af akri sínum eða úr víngarði.

Án alls þessa hefði ég ekki viljað vera fyrir nokkurn mun, - alls ekki viljað fara þess á mis, þó að það ylli mér hugarangri fyrst í stað, meðan ég var að þjálfast og öðlast skilning á umhverfinu.

Um konsúlaárásirnar í heild og þjónustu hinna yngri andlegu arftaka konsúlanna verður nánar skrifað í bók minni Ævisaga skólamanns, sem vonandi sér dagsljósið, áður en mörg ár líða.

Ávallt mun ég minnast Magnúsar bónda og sægarps Guðmundssonar á Vesturhúsum með aðdáun og virðingu sökum drengskapar hans og mannlundar, þegar miskunnarlaus eiginhagsmunaöfl neyttu aðstöðu sinnar hér á allan hátt til þess að gera ungum manni, sem var að hefja starfsferil sinn, lífið sem allra mest óbærilegt í starfinu sökum þess, að í ljós kom berlega, að hann annars vegar unni samvinnuhreyfingunni og var líklegur til að vinna henni brautargengi í bænum, og hins vegar var litið á skólastarf hans sem einskonar bölvald gagnvart útgerð og atvinnurekstri í bæjarfélaginu með því að binda unglinga á skólabekk við bóknám hábjargræðistíma ársins.

Já, hver álasar öðrum, þó hann reyni eftir megni að losa sig við skaðvænleg aðskotadýr úr víngarði sínum eða af akri sínum? Það er naumast ámælisvert. En til frásagnar getur það verið.

Þ.Þ.V