Blik 1969/Byggt gagnfræðaskólahús í Vestmannaeyjum, II. hluti
Nokkrum dögum síðar fór ég til Reykjavíkur til þess að kræla mér út sementsleyfi. Timbur hafði ég yfirfljótanlegt frá timburkaupmanninum. Í Reykjavík gekk ég á milli ráðandi áhrifamanna næstu 5 dagana án alls árangurs. Þeir svöruðu úr og í, gáfu loðin svör og lítilvæg. Allt valdið var hjá guðfræðiprófessornum,sögðu þeir.
Við, sem komið höfum í snertingu við uppeldisstörf, vitum það, að drengir á gelgjuskeiðinu og eldri veita æði oft beizkju sinni og hugarstríði útrás með strákapörum og óknyttum. Einhverjar svipaðar gelgjuskeiðskenndir leituðu nú á huga minn í beizkju minni og hugarstríði, þó að ég væri nær fimmtugu. Mig langaði til að sprella svolítið, áður en ég héldi heim, eftir þessa 5 daga píslargöngu.
Jóhann Þ. Jósefsson, þingmaður kjördæmisins, var nú fjármálaráðherra. Ég vissi, að hann hafði á yngri árum sínum í fæðingarbyggð sinni leikið minni hlutverk í leikritum, sem sýnd voru í hinu sérlega og gamla leikhúsi Eyjamanna, Kumbalda, fisk- og saltgeymsluhúsi dönsku einokunarverzlunarinnar. Ég hafði líka einu sinni leikið Sigurð bónda í Hlíð í Manni og konu og tekizt miður vel, að mér fannst sjálfum. Þó vildi ég nú reyna annað hlutverk. Mér var þá um það kunnugt, að kirkjubækur sögðu mig bróðurson Kristjáns Þorgrímssonar, hins kunna og snjalla leikara í Reykjavík á sinni tíð, þó að ég hafi lengi verið sannfærður um, að fruman var af öðrum rótum runnin, var úr annarri skjóðu. Vissulega hafa oft íslenzkir öldungar veitt prestum sínum drengilega og nauðsynlega hjálp til þess að bjarga æru og hjónabandi. En þetta er allt önnur saga. Aðeins smálegur útúrdúr. En leika vildi ég samt.
Ég lagði leið mína í fjármálaráðuneytið til þess að leika einskonar forspil að apaspili því, sem nú var að hefjast fyrir atbeina prófessorsins og að undirlagi andspyrnunnar í Vestmannaeyjum. Þingmaðurinn sjálfur skyldi nú verða dálítill þátttakandi í forspili apaspilsins fyrir opnum tjöldum.
Á leiðinni í fjármálaráðuneytið sótti illa á mig málsgreinin, sem kunn var innan lítils hrings valdamanna í Eyjum: „Fyrst þið þykizt hafa efni á að byggja svo alóþarfa byggingu eins og gagnfræðaskólabyggingin er, sé ég enga ástæðu til að leggja mig fram um fjáröflun til ...“
Ráðherrann var við látinn og samleikurinn hófst. Ég mæltist til þess með mínum fegurstu og blíðustu orðum, að hann sem áhrifaríkur þingmaður Vestmannaeyja og mikilsmetinn ráðherra (ó, mikið er nú lofið sætt og sefjandi!) beitti sér fyrir því, að við fengjum þá þegar nokkurt sementsleyfi, svo að við gætum haldið áfram með Gagnfræðaskólabygginguna á komandi sumri. Ráðherrann var alvarlegur, fannst mér. Honum stökk ekki bros, hversu ísmeygilegur sem ég reyndi að vera. Rullan tókst þó nokkuð vel hjá mér, hélt ég. Auðvitað lék hann sína rullu af snilld jafn þaulvanur sem hann var á þessum vettvangi og þjálfaður! Hann hefði naumast haldið þingmennskunni hjá Eyjabúum, ef svo hefði ekki verið!
Ráðherrann hringdi í einn af símum Fjárhagsráðs. Bragi nokkur Kristjánsson átti tal við ráðherrann. Sá „næst bezti“ frétti ég síðar. Formaðurinn var auðvitað beztur, en hann var ekki við látinn. Lengi ræddi ráðherrann við þennan „næst bezta“, og satt að segja bað hann manninn að greiða götu mína um sementsleyfið. Maðurinn sló úr og í, réðí víst engu. Svo féll talið niður.
Eftir símtalið þakkaði ég ráðherranum auðmjúklega fyrir símtalið og þó sérstaklega fyrir það, að nú hefði hann sannfært mig um fylgi sitt við byggingarhugsjón þessa! Annað væri ómengaður rógur, sem verið væri að blása í eyru mér. Ráðherranum brá. Hann roðnaðí. Alvarlegur á svipinn spurði hann: „Hvenær hefi ég ...?“ - Steinhljóð. Ráðherrann stóð upp, glaðnaði við og tjáði mér, að ríkisstjórnin sæti fund með Fjárhagsráði seinna um daginn. „Þá skal sá pamfíll ekki sleppa,“ sagði ráðherrann og var hinn kumpánlegasti. Svo setti hann upp svip með nokkrum orðum, sem gáfu til kynna, að fleiri hefðu völdin þar í stjórnarráðspaufunum en „pamfíllinn“ einn.
Þetta upphaf apaspilsins mikla, sem nú fór í hönd, hafði tekizt alveg prýðilega. Líklega hafði ég bara töluverða leikarahæfileika eins og mótherjinn!
Vitaskuld var þessum samleik okkar þingmannsins hér með lokið að fullu. Aldrei barst mér orð frá ráðherranum. Aldrei við því búizt. Aldrei ráð fyrir því gert. Aldrei leitað eftir því. Hver þekkir ekki sitt heimafólk?
Úr þessari ferð kom ég heim vonsvikinn og framlágur. Megnaði nú bæn alþýðukonunnar ekkert gegn bænum guðfræðiprófessorsins og vilja? Vissulega flutti hann sínar bænir á sína vísu í starfi sínu gegn mér og málefni mínu. Gjörðir okkar mannanna, eru þær eitthvað annað en óskir okkar og bænir birtar í verki? Langoftast ekkert annað.
Var nú forsjónin tekin að fara í manngreinarálit? Hvar var nú sigurkuflinn, sem mér fannst blessuð konan steypa yfir mig með bæn sinni? - Jú, ég var í honum enn! Ég fann það, hvernig svo sem ég fann það. Því get ég ekki lýst. Ef til vill var það einskær trú eða ímyndun.
Tólf dögum síðar hitti ég að máli Ólaf bæjarstjóra Kristjánsson. „Ég hef látið leggja til hliðar 60 smálestir af sementi handa þér, svo að þú getir byrjað á byggingarframkvæmdunum, þegar þú hefur lokið skólanum“. Ég rak upp stór augu. - „Án allra leyfa?“ spurði ég. „Já,“ sagði hann. „Hvað kostar það okkur báða?“ „Aldrei meira en tukthús,“ sagði hann og brosti. Þetta fannst mér hraustlega mælt og karlmannlega. Svarið sannaði manninn. „Þú reynir að dorga upp sementsleyfi, þegar líður á sumarið,“ sagði hann, „en nú geturðu hafið verkið.“
Enn hafði alþýðukonan bænheita borið sigur úr býtum. - Mér hafði orðið að trú minni.
Síðan var unnið að byggingu Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum langan tíma úr sumrinu (1948) og síðast lokið við að steypa plötuna yfir alla kjallarahæðina í nóvember. Þá loks hættum við framkvæmdum þar það árið.
Þorvaldur Sæmundsson, bæjarfulltrúi og byggingarnefndarmaður, var einn allra áhugasamasti maðurinn í bænum um byggingarframkvæmdirnar. Eitt sinn tjáði hann mér og hló, að andspyrnuforingjarnir í bænum ympruðu á því iðulega, hversu skaðsamlegt það væri að efla Gagnfræðaskólann með nýrri byggingu, skóla, sem ynni gegn atvinnulífinu með því að halda unglingunum á skólabekk um hávertíð, þegar mest kreppti að um vinnuaflið í bænum. Við hlógum að þessum kveinstöfum andspyrnuforingjanna, er sáu ekkert nema eiginhagsmunina. Kveinstafir þessir voru jafngamlir skólanum.
Hinn 9. júní um sumarið hringdi fræðslumálastjóri til mín og tjáði mér þau gleðitíðindi, að formaður Fjárhagsráðs hefði heitið honum nægu sementi handa Gagnfræðaskólanum undir haustið. Þá vorum við öruggir með það sement, sem við höfðum notað til þessa án allra leyfa. Sementið tekið traustataki fyrirfram. - Allt lék í lyndi fyrir hugsjóninni og mér!
Í októbermánuði 1948 sannfrétti ég hjá manni nástæðum Fjárhagsráði, að formaður þess og nánustu starfsmenn hefðu samið kæru á Ólaf A. Kristjánsson, bæjarstjóra, vegna sements, sem hann hafði afhent mér án allra leyfa. Jafnframt var mér sagt, að þeir veigruðu sér við því einhverra hluta vegna að lögsækja mig. Gat ástæðan verið sú, að tveir Framsóknarmenn voru starfandi öfl í Fjárhagsráði? Mér þótti skömm til koma, svo að ég páraði Fjárhagsráði þetta bréf:
- Vestmannaeyjum, 31. okt. 1948.
- Fjárhagsráð,
- Reykjavík.
- S.l. vor leyfðuð þér okkur svo að staðfest var, að nota 18 smálestir af sementi á þessu ári til gagnfræðaskólabyggingarinnar hér. Það var endurnýjun á sementsleyfi, sem þér höfðuð veitt okkur haustið 1947, en við ekki getað notfært okkur þá af gildum ástæðum.
- Á s.l. sumri (1948) tilkynnti einn af valdamönnum fræðslumálanna mér í símtali, að þér þá gæfuð oss leyfi til að steypa svo sem tök væru á af húsinu, eftir að síldarvertíð lyki í haust. Þessi boð færði ég bæjarstjóra, og tók hann þau trúanleg, enda þótt ég hefði ekkert í höndunum til þess að sanna mál mitt. Bæjarstjóri tjáði mér, að þér krefjið hann nú um greinargerð fyrir sementseyðslu bæjarsjóðs á þessu ári.
- Til 15. þ. m. munum vér hafa notað um 40 smálestir af sementi til byggingarinnar. Ég veit, að umgetið leyfi hlýtur að vera sannleikanum samkvæmt, en þar sem það liggur ekki skriflegt fyrir, og þér teljið það ekki satt og rétt, þá er ég hér einn til saka um verknaðinn, og ber yður þá að snúa geiri yðar að mér persónulega, -en hvorki að Gagnfræðaskólanum, bæjarsjóði eða bæjarstjóra, sem mér þó vitanlega skorast hvergi undan ábyrgð.
- Virðingarfyllst,
- Þorsteinn Þ. Víglundsson.
Svo sannarlega náði þetta bréf mitt tilgangi sínum. Það var eins og ég hefði veifað rauðu klæði framan við nasir viss ferfætlings, því að upp úr miðjum nóvember barst kæra Fjárhagsráðs á hendur mér. Þá var mér skemmt.
Kæra Fjárhagsráðs hljóðaði þannig:
- „Reykjavík, 16. nóvember 1948.
- Þann 28. nóvember 1947 sótti bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum um fjárfestingarleyfi til byggingar gagnfræðaskólahúss og leikfimisals í Vestmannaeyjum. Þessari umsókn var synjað með bréfi ráðsins til bæjarstjórans frá 25. maí s.l.
- Samkvæmt bréfi Þorsteins Víglundssonar, skólastjóra, frá 31. okt. s.l. hafa byggingarframkvæmdir þrátt fyrir þetta verið hafnar á s.l. sumri eða hausti og hefur bæjarstjórinn úthlutað til byggingarinnar 40 tonnum af sementi, án þess að
að nokkur heimild til slíks hafi verið fyrir hendi.
- Þar sem hér virðist um að ræða skýlaust brot á 7. gr. reglugerðar um Fjárhagsráð o.fl. frá 31. júlí 1947, óskar ráðið hér með eftir, að þér stöðvið nú þegar allar framkvæmdir við nefnda byggingu og látið fara fram rannsókn í málinu. Vill ráðið vinsamlegast fara þess á leit, að því verði tilkynntar niðurstöður þessarar rannsóknar og látið fylgjast með frekari aðgerðum í málinu.
- Fjárhagsráð
- Magnús Jónsson
- Bragi Kristjánsson
- Bæjarfógetinn,
- Vestmannaeyjum.“