Blik 1969/Byggt gagnfræðaskólahús í Vestmannaeyjum, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969



Þorsteinn Þ. Víglundsson:


Byggt gagnfræðaskólahús í Vestmannaeyjum


Baráttan við Fjárhagsráð og afturhaldið í Eyjum
(2. hluti)


Ólafur Á. Kristjánsson.

Tólf dögum síðar hitti ég að máli Ólaf bæjarstjóra Kristjánsson. „Ég hef látið leggja til hliðar 60 smálestir af sementi handa þér, svo að þú getir byrjað á byggingarframkvæmdunum, þegar þú hefur lokið skólanum.“ Ég rak upp stór augu. - „Án allra leyfa?“ spurði ég. „Já,“ sagði hann. „Hvað kostar það okkur báða?“ „Aldrei meira en tukthús,“ sagði hann og brosti. Þetta fannst mér hraustlega mælt og karlmannlega. Svarið sannaði manninn. „Þú reynir að dorga upp sementsleyfi, þegar líður á sumarið,“ sagði hann, „en nú geturðu hafið verkið.“
Enn hafði alþýðukonan bænheita borið sigur úr býtum. - Mér hafði orðið að trú minni.
Síðan var unnið að byggingu Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum langan tíma úr sumrinu (1948) og síðast lokið við að steypa plötuna yfir alla kjallarahæðina í nóvember. Þá loks hættum við framkvæmdum þar það árið. Þorvaldur Sæmundsson, bæjarfulltrúi og byggingarnefndarmaður, var einn allra áhugasamasti maðurinn í bænum um byggingarframkvæmdirnar. Eitt sinn tjáði hann mér og hló, að andspyrnuforingjarnir í bænum ympruðu á því iðulega, hversu skaðsamlegt það væri að efla Gagnfræðaskólann með nýrri byggingu, skóla, sem ynni gegn atvinnulífinu með því að halda unglingunum á skólabekk um hávertíð, þegar mest kreppti að um vinnuaflið í bænum. Við hlógum að þessum kveinstöfum andspyrnuforingjanna, er sáu ekkert nema eiginhagsmunina. Kveinstafir þessir voru jafngamlir skólanum.
Hinn 9. júní um sumarið hringdi fræðslumálastjóri til mín og tjáði mér þau gleðitíðindi, að formaður Fjárhagsráðs hefði heitið honum nægu sementi handa Gagnfræðaskólanum undir haustið. Þá vorum við öruggir með það sement, sem við höfðum notað til þessa án allra leyfa. Sementið tekið traustataki fyrirfram. - Allt lék í lyndi fyrir hugsjóninni og mér!
Í októbermánuði 1948 sannfrétti ég hjá manni nástæðum Fjárhagsráði, að formaður þess og nánustu starfsmenn hefðu samið kæru á Ólaf Á. Kristjánsson, bæjarstjóra, vegna sements, sem hann hafði afhent mér án allra leyfa. Jafnframt var mér sagt, að þeir veigruðu sér við því einhverra hluta vegna að lögsækja mig. Gat ástæðan verið sú, að tveir Framsóknarmenn voru starfandi öfl í Fjárhagsráði? Mér þótti skömm til koma, svo að ég páraði Fjárhagsráði þetta bréf:

Vestmannaeyjum, 31. okt. 1948.
Fjárhagsráð,
Reykjavík.

S.l. vor leyfðuð þér okkur svo að staðfest var, að nota 18 smálestir af sementi á þessu ári til gagnfræðaskólabyggingarinnar hér. Það var endurnýjun á sementsleyfi, sem þér höfðuð veitt okkur haustið 1947, en við ekki getað notfært okkur þá af gildum ástæðum.
Á s.l. sumri (1948) tilkynnti einn af valdamönnum fræðslumálanna mér í símtali, að þér þá gæfuð oss leyfi til að steypa svo sem tök væru á af húsinu, eftir að síldarvertíð lyki í haust. Þessi boð færði ég bæjarstjóra, og tók hann þau trúanleg, enda þótt ég hefði ekkert í höndunum til þess að sanna mál mitt. Bæjarstjóri tjáði mér, að þér krefjið hann nú um greinargerð fyrir sementseyðslu bæjarsjóðs á þessu ári.
Til 15. þ. m. munum vér hafa notað um 40 smálestir af sementi til byggingarinnar. Ég veit, að umgetið leyfi hlýtur að vera sannleikanum samkvæmt, en þar sem það liggur ekki skriflegt fyrir, og þér teljið það ekki satt og rétt, þá er ég hér einn til saka um verknaðinn, og ber yður þá að snúa geiri yðar að mér persónulega, - en hvorki að Gagnfræðaskólanum, bæjarsjóði eða bæjarstjóra, sem mér þó vitanlega skorast hvergi undan ábyrgð.

Virðingarfyllst,
Þorsteinn Þ. Víglundsson.

Svo sannarlega náði þetta bréf mitt tilgangi sínum. Það var eins og ég hefði veifað rauðu klæði framan við nasir viss ferfætlings, því að upp úr miðjum nóvember barst kæra Fjárhagsráðs á hendur mér. Þá var mér skemmt.

Kæra Fjárhagsráðs hljóðaði þannig:

„Reykjavík, 16. nóvember 1948.

Þann 28. nóvember 1947 sótti bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum um fjárfestingarleyfi til byggingar gagnfræðaskólahúss og leikfimisals í Vestmannaeyjum. Þessari umsókn var synjað með bréfi ráðsins til bæjarstjórans frá 25. maí s.l. Samkvæmt bréfi Þorsteins Víglundssonar, skólastjóra, frá 31. okt. s.l. hafa byggingarframkvæmdir þrátt fyrir þetta verið hafnar á s.l. sumri eða hausti og hefur bæjarstjórinn úthlutað til byggingarinnar 40 tonnum af sementi, án þess að nokkur heimild til slíks hafi verið fyrir hendi. Þar sem hér virðist um að ræða skýlaust brot á 7. gr. reglugerðar um Fjárhagsráð o.fl. frá 31. júlí 1947, óskar ráðið hér með eftir, að þér stöðvið nú þegar allar framkvæmdir við nefnda byggingu og látið fara fram rannsókn í málinu. Vill ráðið vinsamlegast fara þess á leit, að því verði tilkynntar niðurstöður þessarar rannsóknar og látið fylgjast með frekari aðgerðum í málinu.

Fjárhagsráð
Magnús Jónsson
Bragi Kristjánsson
Bæjarfógetinn,
Vestmannaeyjum.“

Þá loks kom til kasta Sigfúsar M. Johnsen, bæjarfógeta, um þetta mál.
Sannleikurinn í máli þessu var sá, að timburkaupmaður í bænum, sem hafði selt mér mest allt steyputimbrið handa Gagnfræðaskólanum og án allra leyfa frá Fjárhagsráði sagði formanni Fjárhagsráðs frá byggingarframkvæmdunum við Gagnfræðaskólann í óvild sinni til skólans og í fávizku, því að það var jafnsaknæmt honum að selja mér timbrið eins og fyrir mig að kaupa það. En yfir þetta lagabrot hilmaði formaður Fjárhagsráðs. Það var sem sé bréfið mitt, sem veitti honum alla fræðsluna!
Upp úr þessu hófst apaspilið mikla, málsókn með réttarhöldum og sektarkröfum. Bæjarfógetinn, Sigfús M. Johnsen, fór sér að öllu rólega í máli þessu.
Brátt komst ég að því, að hann hafði megna skömm á deilu þessari, þó að hann að sjálfsögðu yrði að gera embættisskyldu sína.
Hinn 26. nóvember 1948, þegar boðað hafði verið til réttarhalds í þessu sementsmáli, náði ég loks tali af formanni Fjárhagsráðs. Beiddist ég þess þá, að hann gerði svo vel að senda okkur sementsleyfi fyrir 20 smálestum. Hafði ánægju af að leita í honum! Þá vorum við hættir öllum byggingarframkvæmdum, og okkur hafði orðið mikið ágengt að mér fannst: Steypt að fullu alla kjallarahæð skólahússins, neðstu hæð byggingarinnar, og plötuna yfir alla hæðina.
Þegar formaður heyrði nafnið mitt, brást hann illur við og talaði mikið. Þetta var hans meginmál:

  1. Þið byggið í trássi við allar synjanir.
  2. Fræðslumálastjóri lýgur (!) því, að efnisleyfi til handa Gagnfræðaskólanum hafi verið veitt.
  3. Við héldum á sínum tíma fund með ráðherra og fræðslumálastjóra og þeir réðu því, að þið fenguð ekkert efnisleyfi.
  4. Trúnaðarmaður okkar í Eyjum hefur brugðizt okkur.
  5. Ykkur bar að krefjast skriflegrar staðfestingar á sementsleyfi því, sem fræðslumálastjóri sagði ykkur, að við hefðum veitt.


Þessu kom ég að í símtalinu:
  1. Laugarvatnsskólinn fær meiri efnisleyfi hjá Fjárhagsráði en hann megnar að koma í verk.
  2. Vissa er fyrir því, að Fjárhagsráð hefur veitt efniskaupaleyfi til skóla í Reykjavík, sem ekki er enn farið að teikna. (Hann mótmælti þessu ekki. Þá var ég undrandi, því að ég trúði því naumast sjálfur, að misréttið væri svo herfilegt).
  3. Kæra yðar á bæjarstjóra er metin hér sem pólitísk árás á mann, sem engan á flokksbróður í Fjárhagsráði.
  4. Ég hefði óvirt yfirmann minn (fræðslumálastjóra), ef ég hefði rengt orð hans með því að krefjast staðfestingar á þeim hjá yður.
  5. Í lýðfrjálsu landi er illt að una því misrétti, sem á sér sannanlega stað í störfum Fjárhagsráðs.
  6. Goodtemplarar í Vestmannaeyjum fá sementsleyfi til byggingar á höll sinni, og þó eru 6 samkomuhús eða samkomusalir fyrir í bænum, og flestir lítið notaðir. (Vinstri menn í Fjárhagsráði fullyrtu síðar, að sementsleyfið til goodtemplaranna hefði formaðurinn veitt þingmanni kjördæmisins án vitundar þeirra).


Formaðurinn hlustaði, og fyrir það var ég honum þakklátur.
Lítið fór fyrir hlýjum kveðjum.
Tveim dögum síðar sendi ég formanni Fjárhagsráðs, Magnúsi Jónssyni, prófessor, þetta einkabréf:

Einkabréf.
Vestmannaeyjum, 28. nóvember 1948

Minn kæri Magnús Jónsson, prófessor. Ég óska að skrifa yður nokkrar línur vegna þeirrar togstreitu, sem á milli okkar er um byggingu gagnfræðaskólahússins, og af því að ég trúi því enn, að undir yðar hrjúfu skel, sem þér hafið látið að mér snúa í þessu hjartans máli mínu, búi maður. Sú trú hefur skapazt mér við lestur yðar gagnmerku bóka. Í 14 ár hef ég nú barizt fyrir því að fá byggt viðunandi hús fyrir Gagnfræðaskólann hér. Jafnlengi hafa flokksbræður yðar hér, sem í broddi ganga, barizt gegn hugsjóninni sem er réttlætis- og velferðarmál almennings. Eignaupptök og hegningarhússvist fyrir aðgerðir mínar í þessu máli „gegn lögum og rétti“ væri mér sæla. Þér skiljið hvað það gildir. Gegn slíkum broddum tjóar hvorki yður né öðrum að spyrna nema um stundarsakir, og þó aldrei nema bíða við það eitthvert mannorðstjón. Þetta eru rök sögunnar, sem þér þekkið miklu betur en ég. Öflug stórveldi hafa hvikað fyrir slíkum broddum. Ég sé yðar sóma mestan i því, að þér hættið að anda gegn þessari hugsjón minni, hættið að styrkja neikvæða andspyrnu, en notið yðar mikla vald til þess meðal annars, að við getum fengið svolítið efnisleyfi til Gagnfræðaskólabyggingarinnar rétt eins og aðrir til sinna framkvæmdarhugsjóna til eflingar almenningshag. Mér eru ógeðfelldar deilur við aðra eins menn og ég tel yður vera og það er illt að geta ekki komizt hjá þeim.

Vinsamlegast og virðingarfyllst,
Þorsteinn Þ. Víglundsson.

Ég fann, þegar á leið deiluna, að guðfræðiprófessorinn hafði gert mig að verri manni. Sálarlífið var ekki hið sama og áður var. Mér var það ljóst, að hér átti að gera skólann minn að olnbogabarni þjóðfélagsins með því að setja hann hjá, eins og hvert annað olnbogabarn, sem ekki nýtur sömu gæða á heimilinu og önnur börn þar. Gerði hann þetta til þess að þóknast óvildarmönnum skólans, flokksmönnum sínum, og þá sérstaklega höfundi 27 dálkanna? Hver gat ástæðan verið önnur? Auðvitað var ég knésettur persónulega með skólanum. Hið sama gekk yfir mig og stofnunina. Við vorum eitt, fannst mér. Skipbrot skólans var skipbrot mitt. - Enn er þetta sár ekki gróið. Það grær aldrei.
Nú hafði ég mestan hug til að gera prófessornum sem mest til miska, sannað honum hlutdrægni hans, ókristilega valdbeitingu, hugsanir og störf, sem illa samrýmdust siðgæðiskenningum kristindómsins. Í bréfi bar ég honum á brýn hlutdrægni í starfi, og benti á Laugarvatnsskólann, sem hefði fengið meira sement en Bjarni Bjarnason, skólastjóri þar, reyndist hafa bolmagn til að nota, og ég vitnaði í því sambandi í þakkargrein til Fjárhagsráðs, sem skólastjórinn birti í Tímanum. Ég benti honum á ástæðurnar fyrir hlutdrægni hans og dilkadrætti: Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn tefldu til hins ítrasta um atkvæði bændafólksins í sýslum Suðurlandsins. Þá minnti ég prófessorinn á þessa setningu í 6. kafla Fjallræðunnar: „Þér getið ekki bæði þjónað guði og mammon“. Fátt spillir mannlífinu meir en Séra-Sigvaldaeðlið í mannssálinni. Það birtist meðbræðrunum í ýmsum myndum og stefnir þó alltaf að einu og sama markinu eins og á að ósi sínum. Hættulegast er það guðskristni í landinu og uppeldisstarfi skólanna og heimilanna, séu hjörtu kirkjunnar þjóna og prestakennaranna grómtekin af því og svo hugarfar kennara og annarra uppalenda.
Yndi hafði ég af því að benda prófessornum á þessar staðreyndir.
Prófessorinn kærði mig fyrir fræðslumálastjóra fyrir ósvífni í bréfi, sem ég hafði skrifað honum, en ekki fékkst hann til að sýna bréfið sjálft eða láta af hendi afrit af því, hver sem ástæðan kann að hafa verið. Sálufélagar prófessorsins hér í Eyjum glósuðu líka á bæjarstjórnarfundi um skammarbréf, sem ég hefði átt að senda formanni Fjárhagsráðs. Svo beisk var sál mín orðin, að ég hafði yndi af þessu öllu saman.
Og svo sendi ég formanni Fjárhagsráðs skeyti og benti á tvö félagsheimili á Vestfjörðum, sem fengið höfðu sementsleyfi vegna þess, að Sjálfstæðisflokkurinn átti þar undir högg að sækja um fylgi fólksins og atkvæðamagn. Þann sannleika vissi ég frá manni, sem starfaði í „innsta hringnum“, og vildi hjálpa mér í hvívetna, skildi hugsjón mína og framtaksþrá, en fékk engu ráðið. Nú var mér orðið sama á hverju valt. Ég taldi málstaðinn hafa allt að vinna, engu að tapa. Enga auðmýkt skyldi formaðurinn finna hjá olnbogabarninu, og ekki bættu 27 blaðadálkar Víðis úr skák, ef hann skyldi vera undir áhrifum höfundarins eða blaðaskrifa hans.
Formaður Fjárhagsráðs sendi mér varnarskeyti, sem ég á í fórum mínum. Þar reynir hann að bera hönd fyrir höfuð sér. Þá var mér skemmt. Það var gleggst merki þess, að dropi sannleikans hafði snortið samvizku guðfræðingsins og var tekinn að hola sálarbergið. Það er einmitt þannig, sem sannleikurinn frelsar mannssálina. Þetta vissi og skildi meistarinn mikli. Og þetta vissi og skildi hinn mikilhæfi formaður Fjárhagsráðs, þegar hann gaf sér tíma til að hugleiða fræðin sín og lét ekki mammonsamstrið leiða sig í gönur.
Já, í þessu tafli hafði ég engu að tapa nema fjármunum í sektir, -allt að vinna, og klögumálin gengu á víxl.
Formaður Fjárhagsráðs kærði svo loks þennan óþæga og hortuga Eyverja fyrir dómsmálaráðuneytinu og krafðist þess, að hann yrði dreginn fyrir lög og dóm, - fyrir „hið frjálsa framtak“ auðvitað! Þá gladdist ég verulega. Ég var sakfelldur fyrir að hafa eytt til skólabyggingarinnar án leyfa 40 smálestum af sementi. Það sement hafði ég notað til að steypa upp kjallarahæð skólabyggingarinnar.
Svo kom þá til kasta bæjarfógetans, Sigfúsar M. Johnsen, að halda réttarhöldin yfir sakborningnum.

Árið 1949. Fyrst fékk ég frest í málinu til þess að semja og leggja fram aðildarskýrslu eða greinargerð, svo sem venja er. Hana lagði ég fram í réttarhaldi 10. janúar 1949, og fer hún hér á eftir.

Greinargerðin:
Við réttarhald þetta leyfi ég mér að leggja fram eftirfarandi greinargerð vegna kæru háttvirts Fjárhagsráðs og beiðni um réttarrannsókn, sem er dags. 21. des. 1948, sökum þess að við höfðum látið dútla eilítið við kjallara gagnfræðaskólabyggingarinnar s.l. ár. Frá 21. febrúar til 11. apríl 1947 unnu nemendur mínir að því öðru hvoru ásamt mér að grafa fyrir undirstöðum gagnfræðaskólahúss hér. Við lukum ekki verkinu. Í maí sama ár hét kennslumálaráðherra ríkisstyrk til byggingarinnar, ef efni fengist. Sumarið 1947 var lokið við að grafa fyrir byggingunni. Um haustið veitti svo Fjárhagsráð efnisleyfi, sem nam 37,4 smálestum sements til byggingarinnar, svo að undirstöður yrðu steyptar og unnu verki bjargað frá tortímingu. Þetta sama ár fengum við kr. 50.000,00 styrk úr ríkissjóði til byggingarinnar, eða greiddan helming þess byggingarkostnaðar, sem þá var orðinn. Vegna óhagstæðrar veðráttu haustið 1947 og svo þess, hve seint sementsleyfið fékkst, gátum við ekki notfært okkur nema 20 smálestir af sementsleyfinu það haust. Við sóttum svo á ný um fjárfestingarleyfi vegna gagnfræðaskólabyggingarinnar fyrir tilskyldan tíma. Vorið 1948 sendi ég fjárhagsráði skeyti og bað um leyfi til þess að kaupa 100 smálestir sements úr farmi, sem hingað hafði flutzt. Fékk svohljóðandi skeyti frá fjárhagsráði dags. 30. marz: „Fjárfestingarleyfi gagnfræðaskóla afgreitt.“ Samkvæmt þessu skeyti festum við kaup á 150 smálestum sements og steypujárn var þegar fengið, allt samkvæmt löglegum leyfum. Síðar upplýsti Fjárhagsráð, að skeyti þetta hefði verið skakkt orðað, átti að vera óafgreitt fyrir afgreitt. Á þessum mistökum áttum við enga sök. Samt urðum við að þola það að vera gerðir svikarar um efniskaupin. Til þess að hnekkja þessu skakkt orðaða skeyti lét Fjárhagsráð nú nægja, að einhver hringdi til bæjarstjórans hér, herra Ólafs Kristjánssonar, og bannaði í nafni ráðsins að afhenda sement til Gagnfræðaskólabyggingarinnar. Þetta vil ég undirstrika. Hér fór afgreiðsla munnlega fram og skýtur það illa skökku við fullyrðingar háttvirts Fjárhagsráðs í beiðni þess um réttarrannsókn í máli þessu. Ég mótmæli því, að orð Fjárhagsráðs séu hafin yfir rétt sannleikans, ef þau fara í bág við hann.
Í apríl 1948 fór ég síðan til Rvíkur til þess að fá fjárfestingarleyfið afgreitt. Þá var mér synjað um leyfið. Síðast átti ég þá tal við háttvirtan formann Fjárhagsráðs, Herra Magnús Jónsson guðfræðiprófessor. Fullyrti hann þá, að fræðslumálastjóri hefði mestu um það ráðið, að okkur var synjað um fjárfestingarleyfið.
Yfir þessu kvartaði ég til fræðslumálastjóra.
Áður en ég kvaddi formann Fjárhagsráðs, fyrirskipaði hann að láta afhenda okkur þær 18 smálestir sements, sem við höfðum ekki getað notfært okkur haustið 1947 og hét mér því jafnframt, að við skyldum fá efnisleyfi, þegar að hausti liði, ef síldveiðarnar gengju vel. Þetta undirstrika ég.
9. júní 1948 hringdi fræðslumálastjóri til mín. Sagðist hann oftar en einu sinni hafa átt tal við Fjárhagsráð um efnisleyfi handa Gagnfræðaskólanum hér. Ekki man ég orðrétt, hvernig hann lét orð falla, en þau boð flutti hann mér, að Fjárhagsráð leyfði nú, að við mættum láta vinna að skólahúsinu eftir getu að lokinni síldarvertíð. Þetta þóttu mér góðar fréttir og alveg í anda þess heits, sem formaður Fjárhagsráðs hafði gefið mér. Hann hafði hér dregið fjöður yfir skilyrðið, þurrkað út orðið vel.
Fræðslumálastjóri hefur viðurkennt í símtali í haust, að boð þessi séu rétt eftir honum höfð.
Þessi skilaboð færði ég bæjarstjóra kaupstaðarins, hr. Ólafi Á. Kristjánssyni, og krafðist þess, að hann tæki þau jafn trúanleg sem ég, þótt munnleg væru. Það mun hann hafa gert, enda áður fengið munnleg boð frá háttvirtu Fjárhagsráði. 4. október s.l. lét ég svo skrá skilaboð þessi inn í fundargerðarbók byggingarnefndar gagnfræðaskólans.
Þessar ástæður færi ég fram fyrir því, að ég trúði, og trúi enn, að orð fræðslumálastjóra hafi verið á rökum reist og sannleikanum samkvæm:

  1. Ég hef nú veitt forstöðu framhaldsskóla hér á þriðja tug ára. Flest eða öll þau ár hefur hr. Helgi Elíasson fræðslumálastjóri haft meira eða minna með fræðslumálarekstur ríkisins að gera, ýmist sem fulltrúi fræðslumálastjóra eða fræðslumálastjóri. Ég hef aldrei orðið þess var, að hann færi með fleipur eða staðlausa stafi. Það kom því ekki til mála að véfengja orð hans eða tortryggja þau, enda þótt boð hans væru munnleg.
  2. Í öðru lagi ályktaði ég þegar, að háttvirt Fjárhagsráð hefði séð sig um hönd, iðrazt og veitt efnisleyfið skilyrðislaust, enda var fordæmið fyrir því, að það afgreiddi erindi sín einnig munnlega. Margar stoðir runnu því og hafa runnið síðan undir þessar ályktanir mínar um afturhvarf Fjárhagsráðs um efnisleyfið til handa Gagnfræðaskólanum. Hér skulu þær helztu tilgreindar:
  3. Háttvirt Fjárhagsráð hafði neitað bæjarsjóði Vestmannaeyja um öll fjárfestingarleyfi, svo sem fyrir sóttvarnarhúsi, elliheimili, þvottahúsi, fyrir sjúkrahúsi og verbúðarbyggingum, svo að hægt væri að hlynna sem bezt að sjómönnunum okkar og þeir gætu lifað mannsæmandi lífi í verstöðinni á vertíð.
  4. Eftir allar þessar fjárfestingarsynjanir hafði Fjárhagsráð veitt Laugarvatnsskóla fjárfestingarleyfi, sem reyndist síðar meira en hann gat notfært sér allan megin hlutann af s.l. sumri, samanber grein skólastjórans í Tímanum í haust, 239. tbl.
  5. Áður hafði Fjárhagsráð veitt Gagnfræðaskólanum hér efnisleyfi og skólinn fengið byggingarstyrk úr ríkissjóði. Hvaða réttlæti gat í því falizt að stöðva okkar byggingu til framdráttar öðrum, er síðar hófu byggingarframkvæmdir. Slík framkoma stjórnarvalda mun einsdæmi í landinu og skýlaust réttlætisbrot.
  6. Frétzt hafði, að háttvirt Fjárhagsráð hefði veitt leyfi til að byggja tvo skíðaskála við Ísafjarðardjúp, enda þingmaður Ísfirðinga í Fjárhagsráði.
  7. Frétzt hafði, að háttvirt Fjárhagsráð hefði veitt leyfi til að byggja tvö samkomuhús í Strandasýslu, enda þingmaður sýslunnar í Fjárhagsráði. Um atriðin í 6. og 7. lið hefi ég gert fyrirspurn til háttvirts Fjárhagsráðs með skeyti en ekkert svar borizt. Þögnin skoðast samþykki.
  8. Fjárhagsráð hafði veitt fjárfestingarleyfi til skólabygginga í Rvík, enda þótt teikningar væru ógerðar, - og eru það kannski enn?
  9. Árið 1947 öfluðu Vestmannaeyingar 1/10 hluta af gjaldeyri þjóðarinnar það ár. Mátti ekki í neinu sjá það við þá?
  10. Fjárhagsráð hafði loks veitt goodtemplurum hér efnisleyfi til byggingar stórhýsis, enda þótt 6 samkomusalir væru hér fyrir í bænum og 4 þeirra lítið notaðir mestan hluta ársins. Þar að auki er hér geysistórt veitingahús nærri fullsmíðað. Þetta gengi goodtemplaranna gleður okkur, en eigi að síður eru okkur jafntorskildar vísdómsleiðir háttvirts Fjárhagsráðs um úthlutun á sementspokum.
  11. Meðlimir háttvirts Fjárhagsráðs gátu fengið samvizkubit, iðrazt auðsjáanlegs misréttis, viljað taka sig á, gera rétt, gjalda hverjum sitt undir stjórn hins vísa formanns, sem setið hefur við fótskör meistarans um tugi ára. Þannig hefi ég ályktað í megindráttum umdeilt efnisleyfi Gagnfræðaskólans.

Nú hefir háttvirtu Fjárhagsráði þóknazt að kæra bæjarstjórann okkar og látið kveðja hann fyrir rétt, vegna þess að hann tók orð fræðslumálastjórans trúanleg, eins æðsta embættismanns íslenzka ríkisins, sem sízt gegnir óvirðulegra né ábyrgðarminna embætti en sjálft Fjárhagsráð. Hefir háttvirt Fjárhagsráð nokkurn rétt til að heimta orð slíks manns tortryggð?
Það vekur athygli, að gengið er framhjá mér um kæru, sjálfum „sökudólgnum“, sem krafðist þess, að bæjarstjóri tæki orð fræðslumálastjóra trúanleg og hefir útvegað fé til hinna „ólöglegu“ framkvæmda.
Er það furða þó menn spyrji: Getur ástæðan verið sú, að bæjarstjóri telst ekki eiga neinn „flokksbróður“ í Fjárhagsráði? Maður spyr mann.
Formaður Fjárhagsráðs hefur sjálfur tjáð mér, að fest hafi verið kaup á sjálfvirkri talsímastöð, sem kosta muni eina millj. kr. án hins minnsta leyfis Fjárhagsráðs. Eru þeir „sökudólgar“, sem hér eiga hlut að máli, lögsóttir?
Ég gæti unnað háttvirtum formanni Fjárhagsráðs, þeim merka manni og guðfræðingi, virðulegra og betra hlutskiptis á elliárum, en að gerast foringi fyrir ofsókn á hugðarmál æskulýðsins hér í Eyjum, því að það er Gagnfræðaskólabyggingin.
Okkar málstaður er heilagur, en málstaður háttvirts Fjárhagsráðs skammgallaður í meira lagi. Því meir vansæmandi verður ósigur þess, því lengur sem háttvirt Fjárhagsráð heldur áfram þessum ofsóknum. Fjársektir eða tugthúsvist eru okkur aukaatriði, gagnvart heilögum málstað. Mætti kosta meira. Við skríðum aldrei að knjám rangsleitninnar. Kosti, hvað það kosta vill. Ég krefst þess, að Vestmannaeyingar fái að njóta skýlauss jafnréttis við aðra þegna íslenzka ríkisins í einu og öllu og mótmæli eindregið tilraunum háttvirts Fjárhagsráðs til að hefta hér aðkallandi menningarframkvæmdir.

Vestmannaeyjum, 10. jan. 1949,
Þorsteinn Þ. Víglundsson.

Þessi greinargerð mín hlaut að leiða til þess, að formaður Fjárhagsráðs yrði líka kallaður fyrir rétt í Reykjavík, þó að ekki væri nema til þess að lýsa yfir því, að orð fræðslumálastjóra um sementsleyfið væru staðlausir stafir.
Svo bar það við 2. marz 1949, að ég náði símtali af formanni Fjárhagsráðs, guðfræðiprófessornum. Er ég nefndi nafn mitt, tók hann símann bókstaflega í sína þágu. Svo einkennilega vildi til, að formaðurinn hafði verið í réttarhaldi út af greinargerð minni stundu áður en ég náði tali af honum. Þar hafði hann m. a. verið áminntur um sannsögli, eins og gengur.
Þarna hellti hann sér yfir mig í símanum. „Eitt viðtalsbil,“ sagði símastúlkan, og formaðurinn hélt áfram að tala, svo að aldrei varð hlé á. - „Tvö viðtalsbil,“ sagði símastúlkan, og formaðurinn hélt áfram að ausa og úthúða. -„Þrjú viðtalsbil,“ sagði símastúlkan. Þá allt í einu varð hlé á, svo að ég hugðist koma að beiðni minni um sement. En þá var formaðurinn horfinn frá símanum, - hafði lagt heyrnartólið á að loknum austrinum.
Þessi atburður vakti mér kátínu. Þarna skaut formaðurinn mér ref fyrir rass: Hann lét mig sjálfan kosta allar skammirnar á sjálfan mig! Það var þó mátulegt á mig! Seinna frétti ég, að sama kátínan hefði vaknað þar suður frá, er formaðurinn í allri sinni mekt varð að arka til réttarhalds út af nokkrum sementspokum, sem við höfðum notað í frjálsu framtaki án hans leyfis. Ég sá ekki eftir aurunum fyrir svona nýstárlega skemmtun.
Allt vorið 1949 og fram á sumar rérum við að því öllum árum að fá sementsleyfi handa Gagnfræðaskólanum. Gripið var til allra mögulegra ráða. Leitað var liðsinnis, leitað eftir áhrifum hinna ólíklegustu manna. Aldrei virtist hinn þrítugi hamar vera brattari en nú eftir öll réttarhöldin. Formaður Fjárhagsráðs stóð þar fyrir eins og ljón á veginum. Enginn virtist þora að æmta eða skræmta gegn valdi hans. Allar óskir og öll orð hinna svokölluðu vinstri manna virtust verða að hjómi eða froðu, þegar prófessorinn andmælti.
Mátti nú bæn konunnar sér einskis? Höfðu áhrif hennar rokið út í veður og vind? Mátti hún sér einskis orðið gegn vilja og vild hins aldraða guðsþjóns? Enn trúði ég á máttinn þann. Einhvernveginn hlaut hún enn að bera sigur úr býtum.
Á lokadag eða 11. maí 1949 kvaddi bæjarfógeti mig fyrir sig og sýndi mér bréf frá dómsmálaráðherra, þar sem beðið var um áframhaldandi réttarhöld í sementsmálinu gegn mér og þess krafizt, að komið yrði fram ábyrgð á hendur okkur bæjarstjóra. Samkvæmt lögum um Fjárhagsráð gátu sektir numið allt að krónum 200.000,00 fyrir það að iðka frjálst framtak í landinu án efnisleyfa frá Fjárhagsráði. Þetta var mér tjáð en lögin sá ég aldrei. Hirti ekki um þau.

Hinn 20. maí var ég svo kallaður til réttarhalds.
Aldrei hafði ég fyrir rétt komið fyrr en í sementsmáli þessu og var þó nær fimmtugur að aldri. Og þó ég segi sjálfur frá, hafði ég alla tíð verið hinn löghlýðnasti þegn, aldrei brotið lög, aldrei brotið reglur, sem mér höfðu verið settar, aldrei sakfelldur fyrir eitt eða neitt. Nú fannst mér ég allt í einu vera sakfelldur fyrir að drýgja dáðir. Svona getur það verið, þegar val forustunnar mistekst.
Ég hugleiddi málið. Átti ég að bjóða þeim réttarsætt? Hún var mér ógeðfelld, já, hvimleiður skratti, því að í henni fólst nokkur viðurkenning á broti. En jafnframt var þeim nokkur vandi á höndum: Slá eða slá ekki á framrétta sáttarhönd.

Sigfús M. Johnsen, bæjarfógeti.








Sökudólgurinn.


Réttarhaldið hófst undir fjögur augu. Fyrst í stað ræddum við bæjarfógeti um heima og geima, m.a. um Tyrkjaránið, og svo bardagann milli Englendinga og Síðumanna hér við utanverðan hafnarvoginn sumarið 1514, líklega á túni Hafnarjarðarinnar. Vissulega vorum við báðir í essinu okkar, bæjarfógeti og ég, og þarna var Sigfús M. Johnsen raunverulega enginn dómari eða bæjarfógeti, heldur sögugrúskari og fræðaunnandi fróðleiksmaður, sem hugsaði og lagði mat á söguleg efni leitandi sannleikans í sögulegum efnum. Enn er hann mér þá minnisstæður.
Svo hófust þá réttarhöldin með bókun, spurningum og svörum, eins og gengur.
Þarna bauðst ég til þess að greiða hinu opinbera, íslenzka ríkinu, sem ég var að byggja fyrir, 4 krónur í réttarsætt fyrir þessar 40 smálestir af sementi, 10 aura á smálestina, hugsaði ég, en sagði ekkert meir að sinni.
- Þögn, algjör þögn. Bókun. -
Svo kom það: „ Heyrðu nú, Þorsteinn,“ sagði bæjarfógeti blíðlega og sérlega hógværlega, „heyrðu nú, þetta er smánarboð.“
„Það á að vera það,“ sagði ég heldur svona gustillur.
„Vísitalan er 300,“ sagði bæjarfógeti, „á þetta að vera með vísitöluálagi?“ spurði hann. „Það má vera það,“ sagði ég. „Þá fá þeir 30 aura á smálestina,“ hugsaði ég og beið framhaldsins.
„Nei, nei, heyrðu nú, Þorsteinn,“ sagði bæjarfógeti með óbreyttri hógværð, „ef þú gætir á það fallizt að bjóða þeim 20 krónur og svo vísitöluuppbót á þá tölu, skyldi ég mæla með því, að sættir mættu takast á milli ykkar.“
Mér varð orðfall um sinn. Ég velti þessu fyrir mér: Tuttugu krónur, fimmtíu aurar á smálestina, og svo með vísitöluuppbót, 150 aurar. Vissulega var nú þetta smánarboð, þó að sáttarboðið hefði óneitanlega hækkað æðimikið. Ég skildi, hvað bæjarfógetanum gekk til. Þarna vildi hann sigla milli skers og báru og reyna eftir mætti að fá sætt á málið með því að þoka mínu boði upp eftir föngum.
„Gátu þeir verið svona lítilþægir?“ hugsaði ég. Auðvitað stóð ég jafn eftir, þó að ég greiddi þeim 60 krónur í réttarsætt. En óneitanlega var þessi upphæð 15 sinnum hærri en upphaflega boðið mitt. Já, vissulega stóð ég jafn eftir, reiðubúinn að krafsa til mín allt það sement, allt það timbur og allt það járn, sem ég gæti með nokkrum ráðum klófest, hvað sem það kostaði mig og hvað sem öllum málsóknum og réttarhöldum liði.
„Ég fellst á þetta,“ sagði ég við bæjarfógetann.
Hann bókaði. - Upplesið. Staðfest. Rétti slitið.


III. hluti

Til baka