Blik 1967/Frumherjar - Merkir ættliðir II.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. júlí 2007 kl. 10:18 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. júlí 2007 kl. 10:18 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Árni meðhjálpari Einarsson Hann var yngstur hinna 18 barna hjónanna Einars og Vigdísar á Vilborgarstöðum.

Fyrri hluti nóvember-mánaðar 1848 var mikið um að vera á prestssetrinu Ofanleiti í Vestmannaeyjum. Undirbúin var dýrðleg brúðkaupsveizla þeirra Guðfinnu Jónsdóttur Austmann, prestsdóttur og fyrrverandi heimasætu þar, og Árna Einarssonar bónda og meðhjálpara Sigurðssonar á Vilborgarstöðum. Hinn 15. nóvember gaf síðan faðir brúðarinnar, séra Jón J. Austmann, sóknarprestur, brúðhjónin saman í heilagt hjónaband. Brúðguminn var þá 24 ára og brúðurin einu ári eldri, fædd á Þykkvabæjarklaustri 1823.

Þótt prestsdóttirin væri ekki gömul, hafði hún ratað í raunir, - og þær ekki svo litlar.
Tuttugu og eins árs að aldri hafði hún flutzt burt úr foreldrahúsum að Ofanleiti og ráðizt bústýra til Jóhanns Bjarnasen, ekkils í Kornhól. Allt lék í lyndi fyrir henni. Og svo varð hún ástfangin. Sumarið 1845 gerðist Jóhann Jörgen Johnsen, danskur maður ógiftur, verzlunarstjóri („factor“) við Brydeverzlun í Eyjum eða Austurbúðina. „Factorinn“ bjó vitaskuld í Danska-Garði, fast við Kornhól, sem var raunar hluti af „Garðinum“.
Ekki leið á löngu, áður en lifna tók heit ást í hjörtum þeirra Guðfinnu prestsdóttur, bústýru í Kornhól, og hins spengilega danska verzlunarstjóra. Árið eftir (1846) er prestsdóttirin talin vera „sjálfra sinna“ í Kornhól, enda þótt hún annist heimili ekkilsins.
²²²² Þegar líða tekur að jólum 1846, hefur prestsdóttirin iðulega hjá sér næturgest, sem naumast er í frásögu færandi.
Svo líður tíminn í ást og sæld og agnarlitlum syndum með í bland, eins og gengur.
Þegar leið á sumarið 1847 var prestsdóttirin farin að þykkna alláberandi undir belti. Jafnframt var það öllum Eyjabúum kunnugt, að verzlunarstjórinn og Guðfinna prestsdóttir voru heitbundin og höfðu afráðið sín á milli að eigast. Í september haustið 1847 var Fæðingarstofnunin („Stiftelsið“), fullgerð og viðbúin til að veita barnshafandi konum viðtöku. Þar hafði danski læknirinn Dr. P. A. Schleisner tryggt sér aðstoð tveggja mætra kvenna í Eyjum, Solveigar Pálsdóttur, hinnar lærðu ljósmóður, sem var hin trausta stoð sjálfs læknisins við störfin, og svo Guðfinnu Jónsdóttur Austmann. Hún var ráðin „Opvarteske“ við fæðingarstofnunina, (þ.e. þjónustustúlka).
Hinn 9. október (1847) varð svo Guðfinna prestsdóttir léttari, eða mánuði eftir að Fæðingarstofnunin tók til starfa. Hún fæddi einkarefnilegt sveinbarn, sem séra Jón afi þess, skírði fljótlega. - Sveinninn hlaut alnefni föður síns, var skírður Jóhann Jörgen (Johnsen).
Meðan allt þetta gerðist, hugsaði séra Jón, faðir Guðfinnu, ráð sitt. Miskunnarlaust beitti hann sér gegn því, að Guðfinna dóttir hans giftist barnsföður sínum. Já, Þar var „engin miskunn hjá Manga“, enda þótt prestur hefði oft áminnt sóknarbörn sín af prédikunarstólnum í Landakirkju um að auðsýna miskunn og tillitssemi hvert öðru í daglega lífi og samskiptum. „Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða“, hafði hann sagt og vitnað þannig í orð sjálfs meistarans. En þessi orð hans giltu víst ekki um ástarmál og hjúskaparheit!

Brátt sá prestur dóttur sinni út mannsefnið, sem hann gat fellt sig við. Það var bóndasonurinn Árni Einarsson bónda Sigurðssonar á Vilborgarstöðum.
Árni Einarsson var mikill efnispiltur, og hann hafði raunar litið prestsdótturina hýru auga á uppvaxtarárum þeirra í Eyjum. Þetta vissi prestur. Þess vegna mundi þar hægt um vik til að venda hug til ráðahagsins, ályktaði hann, ef aðeins dóttirin fengist með lagi til að hyllast að því mannsefninu. Gagnvart Árna naut prestur einnig vinsemda sinna við foreldra hans.
Og Guðfinna prestsdóttir varð að lúta og hlíða boði síns kynborna og kirkjulega föður í einu og öllu, - og þá líka í ástar- og hjúskaparmálunum. Þannig neyddist hún til að verða afhuga barnsföður sínum, sem hún unni hugástum.
Og svo var uppi fótur og fit á prestssetrinu Ofanleiti, því að undirbúin var dýrðleg giftingarveizla, sem sitja skyldi fjölmenni. Helztu menn og konur byggðarlagsins skyldu sitja þar til borðs og njóta blessunar með dýrindisréttum og dropa af víni.
Ekki mátti það heldur öllu lengur dragast að gifta Árna og Guðfinnu, svo að barnið, sem hún nú gekk með yrði ekki skráð hennar annað „óegtabarn“ í ministeríal-bókina, því að vissulega var hún komin langt á leið. Hjónin ungu settust svo að á Vilborgarstöðum, settust í bú Einars bónda og Vigdísar húsfreyju, foreldra Árna Einarssonar.

Eftir 6 vikur frá giftingardegi fæddi Guðfinna húsfreyja á Vilborgarstöðum Árna manni sínum stúlkubarn, sem brátt var vatni ausið og skírt Ólöf, - Ólöf Árnadóttir. Hún fæddist heima á Vilborgarstöðum 29. des. 1848 og andaðist stuttu eftir fæðingu.
Guðfinna Austmann húsfreyja á Vilborgarstöðum reyndist hinn mesti kvenskörungur, - búforkur svo að af bar, stjórnsöm, hjálpsöm og hjartahlý, eins og hún átti kyn til.

Árni Einarsson tók í rauninni við búsforráðum foreldra sinna þegar eftir giftingu haustið 1848. Næstu 4 árin er hann titlaður ábúðarmaður þar á Vilborgarstöðum. Eftir lát Einars bónda 1852 tók Árni að fullu við búi foreldra sinna og fékk síðar ábúð á þeirri Vilborgarstaðajörðinni, sem þau höfðu búið á, - en Vilborgarstaðajarðirnar eru 8 sem kunnugt er, - og bjó bar til æviloka.

Árni Einarsson var meðhjálpari í Vestmannaeyjum í hart nær hálfa öld, 1850- 1899, og þó öllu lengur, svo oft hafði hann annazt starfið fyrir föður sinn í forföllum hans sökum ellilasleika. Sáttasemjari í Eyjum var Árni bóndi í 25 ár, og hreppstjóri var hann þar um eitt skeið (1861-1864?). Í sóknarnefnd sat hann um tugi ára. Árni bóndi var varaþingmaður Vestmannaeyinga 1859-1874 og sat á alþingi árið 1861 sökum þess, að þingmaður kjördæmisins, séra Brynjólfur Jónsson, gat ekki komið því við að sitja það þing. Prestur fékk þá engan hæfan prest til þess að leysa sig af hólmi frá embættisönnum á þingtímanum.
Á yngri árum var Árni Einarsson vertíðarformaður um árabil á stærsta áttæring í Eyjum, Auróru, sem þau áttu saman með fleirum, systkinin hann og Kristín húsfreyja í Nýjabæ, eftir að seinni maður hennar, Þorsteinn alþingismaður Jónsson, féll frá (1886). Mörg vor og sumur var Árni Einarsson formaður á julum eða sumarbátum föður síns og svo á útvegi sjálfs sín, eftir að hann gerðist bóndi og útvegsbóndi á Vilborgarstöðum.
Íbúðarhús þeirra hjóna á Vilborgarstöðum, Árna og Guðfinnu, bar lengi vel af öllum eða flestöllum öðrum íbúðarhúsum í Vestmannaeyjum á búskaparárum þeirra þar, því að það var að öllu leyti timburhús, en flestallir þar aðrir bjuggu í torfbæjum á jörðunum. Einnig voru tómthúsin byggð úr torfi og grjóti og oftast langlélegustu vistarverurnar.

Skipasmiður var Árni bóndi ágætur og smíðaði marga vor- og sumarbáta heima á Vilborgarstöðum, eins og Lárus hreppstjóri á Búastöðum, nágranni hans og samborgari.
Skipaábyrgðarfélag Vestmannaeyja kaus Árna Einarsson trúnaðarmann sinn við virðingar á hinum tryggðu skipum, þegar félagið var stofnað 1862. Næstu 4 árin gegndi Árni bóndi þessu trúnaðarstarfi fyrir félagið. Aftur var hann kosinn virðingarmaður þess árið 1871-1872.
Þorsteinn héraðslæknir Jónsson getur Árna Einarssonar í Sunnanfara árið 1892. Læknirinn þekkti Árna Einarsson vel, því að þeir höfðu unnið saman að hrepps- og sýslumálum um tugi ára. Hann kveður svo að orði, að Árni bóndi hafi verið greindur vel, stálminnugur og hófsemdarmaður um allt, stilltur og ráðsettur, - og ,,hefur mannað öll sín börn mjög vel”, segir læknirinn. Hann endar grein sína með þessum orðum: „Telja má hann fyrir allra hluta sakir merkastan af bændum í Vestmannaeyjum”.
Árni bóndi þótti alltaf virðulegur meðhjálpari, og ber það út af fyrir sig persónu hans nokkurt vitni.
Á Alþingi fékk Árni því framgengt, að festargjaldið á Vestmannaeyjajörðunum var afnumið með lögum. Það var einskonar mútugjald til jarðeigandans, danska konungsins eða umboðsmanns hans. Séra Brynjólfur Jónsson lagði grundvöllinn að afnámi þess á alþingi 1859 (sjá Blik 1963, 30. bls.).
Árið 1859 barst Árna bónda konunglegur heiðurspeningur, sem var kallaður „ærulaun iðni og hygginda“.
Þá skal þess getið, að Árni Einarsson var á sínum tíma flokksforingi í Herfylkingu Vestmannaeyja undir yfirstjórn kaptein Kohl sýslumanns. Árni var þar fyrir 4. flokki og þótti þar vel til foringja fallinn.

Þessi mynd er tekin 14. október 1892 sunnan við Landakirkju. Brúðhjónin Kristján Ingimundarson og Sigurbjörg Sigurðardóttir eru á leið úr kirkju, eftir að séra Oddgeir Guðmundsen hefur gift þau. Þau eiga þá heima í Helgahjalli. Síðan voru þau hjón kennd við heimilið sitt Klöpp við Strandveg. – Á myndinni þekkist þetta fólk: - Frá vinstri: Jón sýslumaður Magnússon, síðar forsætisráðherra, stendur upp við kirkjuvegginn með harðan hatt á höfði. Hann gerðist sýslumaður í Vestmannaeyjum 3. júlí 1891. Næstur er Þorsteinn læknir Jónsson í frakka með harðan hatt og alskegg. Manninn með loðhúfuna og alskeggið þekkjum við ekki. En við vinstri hlið læknisins stendur Sigurður Sveinsson í Nýborg. Fremst á myndinni eru brúðhjónin Kristján og Sigurbjörg. Litli drengurinn er Sigurjón Kristjánsson sonur brúðhjónanna. Hann var fæddur 6. ágúst 1886 og þess vegna rúmlega 6 ára, þegar „pabbi og mamma giftu sig“. Maðurinn með stafinn i hendi, í frakka með loðhúfu á höfði er sóknarpresturinn séra Oddgeir. - Brúðurin klæðist brúðarklæðum Ragnhildar Þórarinsdóttur, konu Gísla Engilbertssonar verzlunarstjóra á Tanganum. Þau klæði eru nú geymd í Byggðarsafni Vestmannaeyja. Við setjum þessa mynd hér til þess að minna á hvernig suðurhlið Landakirkju leit út á þeim rum, þegar feðgarnir Einar Sigurðsson og Árni sonar hans voru meðhjálparar.

Hinir 1ærðu kirkjunnar menn titluðu ekki Árna Einarsson meðhjálpara heldur ,,kirkjuhaldara”. Í þeim titli fólst meira en meðhjálparastarfið eitt. Árni bóndi Einarsson var líka margt annað og meira Landakirkju og söfnuðinum en meðhjálpari. Hann var hinn alhliða starfskraftur kirkjunnar fyrir utan sjálfan prestinn, prestsstarfið.
Á messudögum og við aðrar kirkjulegar athafnir hóf hann að jafnaði starf sitt með því að opna hlerana, er þá voru fyrir gluggum Landakirkju. Þá opnaði hann hlera á turni kirkjunnar og hringdi klukkunum, því að hann var hringjari jafnframt. Hans var að kveikja á öllum kertum í kirkjunni, og þau voru þar víða. Þríarma kertastjakar úr tré stóðu út frá veggjunum uppi og niðri, framar og innar. Í þeim öllum voru kerti, sem meðhjálparinn tendraði. (Sjá þá í Byggðarsafni Vestmannaeyja).
Þegar allri kirkjuathöfn var lokið, fór meðhjálparinn um alla kirkjuna, slökkti á kertum og lokaði gluggahlerum. Milli athafna sá hann um ræstingu á kirkjunni. Það starf munu vinnukonur meðhjálparahjónanna hafa innt af hendi langoftast. Meðhjálparinn sá einnig um þvott á skrúða kirkjunnar og viðhald kirkjulegra muna. Hann gerði sjálfur við hinar veigaminni bilanir á áhöldum hennar án allrar sérgreiðslu fyrir þá þjónustu.

Meðhjálparinn lagði kirkjunni til allt þvottaefni og allar eldspýtur. Allt þetta starf fólst í því að vera kirkjuhaldari Landakirkju í Vestmannaeyjum í tíð þeirra feðga Einars Sigurðssonar og Árna Einarssonar.
Öll þessi trúnaðarstörf í þágu safnaðarins leysti Árni Einarsson af hendi af stakri natni og samvizkusemi um hálfrar aldar skeið, eins og áður segir.
Og hver voru svo launin fyrir öll þessi störf? - Kr. 27,50 á ári hverju síðustu 33 árin (1866-1899), en mun lægri þar áður.
Til gamans óska ég að geta hér smá-atriðis í sambandi við þessi árslaun „kirkjuhaldarans”.
Árið 1875 varð Aagaard sýslumanni og „reikningshaldara“ Landakirkju það á af einskærum misskilningi að greiða kirkjuhaldaranum aðeins kr. 26,76 í árslaun fyrir störf hans í þágu kirkjunnar. Í þeirri upphæð fólst einnig greiðsla fyrir þvottaefni og eldspýtur í þágu safnaðarins. Ekki var Árni Einarsson að fást um það, þó að hér skorti 84 aura á hin umsömdu árslaun. Hann lét það kyrrt liggja.
Eftir 11 ár uppgötvaði Aagaard sýslumaður mistök sín um þessa árlegu greiðslu til Árna Einarssonar kirkjuhaldara. - Auðvitað vildi sýslumaður þá strax bæta fyrir yfirsjón sína, jafnmikill gæða- og drengskaparmaður og hann var í öllu tilliti. Sýslumaður lét því kirkjusjóð greiða kirkjuhaldaranum launauppbót það ár, sem nam 84. 11 aurum eða samtals kr. 9,24. Þetta var árið 1886. - Þegar svo kirkjureikningarnir frá Vestmannaeyjum fyrir það ár bárust endurskoðanda kirkjureikninga landsins í Reykjavík, Indriða Einarssyni, var sem allt ætlaði af göflunum að ganga sökum þessarar umframgreiðslu til kirkjuhaldarans í Vestmannaeyjum.
Aagaard sýslumanni barst bréf frá endurskoðandanum, þar sem spurt er hvasst, hvernig á þessari aukagreiðslu standi. (Bréfið er dags. 13. ágúst 1887). Þess var krafizt, að sýslumaður sendi án tafar ítarlega skýringu á þessu óvenjulega fyrirbrigði.
Sýslumaður skýrir málið með hógværum orðum, telur þar upp allt það starf, sem Árni meðhjálpari (kirkjuhaldari) inni af hendi fyrir kirkjuna. Í árslaununum felist einnig greiðsla fyrir eldspýtur og þvottaefni í þágu kirkjunnar, segir hann. Í bréfi þessu viðurkennir sýslumaður yfirsjón sína og misskilning um árlega launagreiðslu til kirkjuhaldarans.
En þetta bréf nægði ekki endurskoðandanum. Í næsta bréfi til sýslumanns krafðist hann þess, að sérstaklega væri gefið upp, hve mikið væri greitt meðhjálparanum fyrir eldspýturnar, hve mikið fyrir þvottaefnið og hve margar krónur fyrir ræstingu á sjálfri kirkjunni. Allt skyldi þetta sundurliðað í reikningnum.
Loks hætti endurskoðandinn þessu rexi og meðhjálparinn við Landakirkju fékk framvegis eins og áður kr. 27,50 árslaun fyrir hin margvíslegu og mikilvægu trúnaðarstörf sín í þágu safnaðar og kirkju.br>

Heimili bóndahjónanna á Vilborgarstöðum, Árna og Guðfinnu, bar í ýmsu tilliti af flestum heimilum í Vestmannaeyjum í sinni tíð um mennilegan heimilisbrag og myndarskap, enda búið við góð efni. Aðeins kaupmaðurinn og sýslumaðurinn gátu þá veitt sér og skylduliði sínu þann munað um heimilisprýði og húsbúnað, sem einkenndi þetta Vilborgarstaðaheimili.
Þar ríkti sannkallaður bjargálnablær yfir heimilisháttum, mönnum og málleysingjum. Naumast komst prestsheimilið að Ofanleiti nema í hálfkvisti við það um húsbúnað og heimilisprýði. Þar var t. d. ,,stássstofa” með bólstruðum húsgögnum. Þar hékk stór spegill á vegg. Hann var í breiðri, gulllitaðri umgjörð og vakti aðdáun og umtal. Stofuborð úr mahoní stóð á miðju gólfi í ,,stássstofunni”. Margt annað var eftir þessu.²
Og svo áttu þessi hjón á Vilborgarstöðum miklu hjúaláni að fagna. Ekki átti Guðfinna húsfreyja minnstan þátt í því. Hún var artarleg drengskaparkona, sem hjúin mátu mikils og treystu. Hjá þessum hjónum sannaðist vissulega hið forna orð, að ,,dyggt hjú skapar bóndans bú”. Þegar athafnalíf þeirra hjóna var með mesta móti, höfðu þau allt að 17 manns í heimili. Þá var þröngt setinn bekkurinn í austurbænum á Vilborgarstöðum.

Hjónin Árni Einarsson og Guðfinna J. Austmann eignuðust 9 börn. Þau voru þessi:

  1. Ólöf, f. 29. des. 1848. Hún fæddist heima á Vilborgarstöðum en ekki í Stiftelsinu og lézt stuttu eftir fæðingu.
  2. Sigurður, f. 19. maí 1850. Hann lézt 19. sept. 1854.
  3. Einar, f. 16. okt. 1852.
  4. Sigurður, f. 22. des. 1853. Hann lézt 28. des. 1854.
  5. Jón, f. 24. maí 1855.
  6. Sigfús, f. 10. sept. 1856.
  7. Þórdís Magnúsína, f. 6. ágúst 1859.
  8. Lárus Matthías, f. 24. jan. 1862.
  9. Kristmundur, f. 2. júní 1863.

Árið 1854 gekk skæð barnaveiki í Vestmannaeyjum. Úr henni létust báðir Sigurðarnir, synir hjónanna. Sex af börnum þeirra náðu fullorðinsaldri. Þau voru öll vel gefin og mannvænleg og báru jafnan heimili sínu fagurt vitni um menningarlegt heimilislíf á Vilborgarstöðum, prúðmennsku og manndóm.
Fjórir bræðranna, þeir Einar, Kristmundur, Jón og Lárus urðu allir hver á fætur öðrum brautryðjendur eða frömuðir í æskubyggð sinni í fræðslumálum með því að vera fyrstu barnakennarar í Eyjum fyrstu 5 árin, sem þar var rekinn opinber skóli á síðari hluta 19. aldar. (Sjá Blik 1962, bls. 77-117).
Fimmti sonur hjónanna, Sigfús Árnason, sem sérstaklega verður getið hér nú, ruddi stórmerkar og mikilvægar brautir hér í Eyjum í tónlistar og sönglistarmálum. Hann var mikilhæfur og fjölhæfur starfsmaður, traustur og áreiðanlegur og minnti mjög á föður sinn í mörgu tilliti.
Barnalán hjónanna Guðfinnu og Árna spratt ekki hvað sízt af því, að þau báru hamingju til að gera heimili sitt að gróðrarreit hins mikilvæga óg sanna uppeldis. Af því hamingjutré féllu ávextir, sem glæddu og nærðu andlegt líf með íbúum Eyjanna um nær hálfrar aldar skeið.
Sonur Guðfinnu Jónsdóttur og Jóhanns Jörgen Johnsen, verzlunarctjóra og síðar kaupmanns í Hafnarfirði og á Papósi, ólst upp hjá móður sinni og stjúpa á Vilborgarstöðum. Á milli sonar og móður ríkti gagnkvæmur kærleikur og hlýja. Töldu kunnugir, að Guðfinna hefði unnað þessum syni meir en öðrum börnum sínum. Jóhann Jörgen varð hinn nýtasti þegn og kunnur athafnamaður í Eyjum, útgerðarmaður, bóndi og „vertshúshaldari“.
Guðfinna húsfreyja varð að sjá á bak þessum syni sínum 1893. Sjálf lézt hún svo 4 árum síðar eða 7. apríl 1897. Þá var hún 74 ára að aldri.

Bæði Eyjaskáldin, Gísli Engilbertsson og Sigurður Sigurfinnsson, ortu minningarljóð eftir Guðfinnu húsfreyju á Vilborgarstöðum. Ég leyfi mér að birta þau hér.

Hjónin í Austurbænum á Vilborgarstöðum Arni meðhjálpari og Guðfinna Jónsdóttir. Bærinn þeirra á Vilborgarstöðum var af timbri gerður algjörlega og einstakur að því leyti í Vestmannaeyjabyggð. Hann var rifinn um aldamót. Bær þeirra hjóna stóð norður af íbúðarhúsi Lofts Jónssonar, sem um langt skeið hefur haft byggingu fyrir Austurbæjarjörðinni. Eftir daga hjónanna Árna og Guðfinnu fengu hjónin Guðlaugur Vigfússon og Þórdís Árnadóttir meðhjálpara byggingu fyrir Austurbæjarjörðinni. Íbúðarhús Lofts Jónssonar stendur rétt vestur of Þerrihól. Norðan við hann er Mylluhóll eða Vindmylluhóll.

Gísli Engilbertsson kvað:

Stóð vel í stöðu,
studdi sinn maka.
Börnum blíð móðir;
beindi veg gæfu.
Ráðdeild og röksemd
héldust í hendur
hússtjórn að prýða.
Lagði lið veikum
og lítilmagna.
Fóstraði og fræddi.
Framför ei duldist.
Hjúkrandi handar
hjúin æ minnast;
góðkvendi gráta
grannar og vinir.
Að vilja guðs og vísdómsráði
hún vakir, - sker upp það er sáði,
því fögur blómstra frækorn dyggða
í friðarrunnum ljóssins byggða.
Þar krýpur sál að kærleiksbrunni
og kveður jörð og fólk, sem unni,
og vina sinna fagnar fundi
í fögrum himins náðarlundi.
G. E.

Guðfinna húsfreyja á Vilborgarstöðum var í sannleika sérstæður persónuleiki og næsta óvenjuleg gæðakona. Hún bjó við góð efni, eins og áður er að vikið. Þessar góðu efnahagsástæður notaði hún sleitulaust til hess að létta heimilisástæður samborgara sinna. Þau hjón ólu t. d, upp 7 börn að meira eða minna leyti. Eitt fósturbarnið var hinn kunni tómthúsmaður hér í bæ á sínum tíma, Árni Árnason á Grund, faðir Árna heitins símritara og þeirra systkina. Hann missti föður sinn, er sex-æringurinn Gaukur fórst við Klettsnef 13. marz 1874 með allri áhöfn. (Sjá Blik 1965, b1s. 95). Annar kunnur Vestmannaeyingur ólst upp hjá hjónunum, Sigurður Oddgeirsson prests Guðmundsen að Ofanleiti. Hann dvaldist hjá þeim í 7 ár á bernsku- og æskuskeiðinu.
Magnús heitinn Guðmundsson, sem bjó í Hlíðarási við Faxastíg (nr. 3), ólst upp hjá foreldrum sínum í Háagarði, sem er ein af Vilborgarstaðajörðunum. Hann sagði svo frá: „Um það leyti, sem móðir mín fæddi síðasta barnið, yngsta systkinið mitt, misstu foreldrar mínir einu kúna sína, svo að heimilið varð mjólkurlaust. Í Austurbænum hjá Guðfinnu og Árna voru þá tvær kýr mjólkandi. Guðfinna húsfreyja fékk því ráðið, að önnur kýrin var leyst úr fjósi og flutt í auða fjósið í Háagarði. Hjónin í Háagarði höfðu síðan kúna að láni allan veturinn og fram á vorið. Þá keyptu þau sér kú af landi.“
Guðmundur, fyrrum bóndi í Hlíð undir Eyjafjöllum, sagði þessa sögu:
„Á yngri árum mínum stundaði ég sjóróðra á vertíðum úti í Vestmannaeyjum. Eina vertíðina lág ég við á Vilborgarstöðum. Kom þá þar upp taugaveiki og veiktust þrír menn. Á heimili hjónanna Guðfinnu og Árna voru nær 20 manns. Guðfinna húsfreyja tók það ráð, að einangra sig með taugaveikissjúklingana og annast þá að öllu leyti undir læknishendi. Henni tókst þannig að hindra útbreiðslu veikinnar, svo að engir fengu hana aðrir en þessir þrír menn og komust allir til gáðrar heilsu aftur.“
Á jólum var oft mannmargt hjá hjónunum í Austurbænum á Vilborgarstöðum, Guðfinnu og Árna. Þá voru fjölskyldboðin. Föst venja var að bjóða hjónunum í Frydendal, Jóhanni Jörgen og Sigríði Árnadóttur, með alla drengina sína í veizlu einhvern jóladaginn. Þá var hangikjöt á borðum eða sauðasteik. Þetta árlega jólaboð hjá ömmu á Vílborgarstöðum var mikið tilhlökkunarefni drengjanna í Frydendal. Þarna voru þá einnig í sama jólaboðinu hjónin á Vestri-Löndum, Sigfús og Jónína, með börnin sín.
Ekki mundi með sanni sagt, að Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson hefði verið gjarn til oflofsins. Við lesum þetta háfleyga minningarljóð um Guðfinnu húsfreyju með athygli:

Lífið dauðans lögum hlýðir.
Lífið vekur upp þá dauðu.
Lífsins vonin lífið glæðir.
Lífið á við dauða í stríði.
Vetrarbragur er á öllu:
Andinn svalur, himinn dimmur.
Éljagangur grár og úfinn
grandar oft þeim beztu rósum.
Fimmtíu árin, - fátt í einu, -
fagurt rjóður stóð í blóma;
blóm þar fegurst uxu á Eyju;
einhver var þar tignarsvipur.
Rósin bar þar ein of öllum
aldingarðsins mörgu blómum.
Frá henni lagði ástarylinn;
öllum skýldi hún vel og lengi.
Enn bar hún af eyjarósum,
ellihélan lit þó breytti;
kostir voru eins og áður
æskunnar á björtum dögum.
Blómin daprast, bogna, hníga;
banaélið rós því felldi.
Rjóðrið saknar rósarinnar,
er ríkti í þessum aldingarði.
Breyting er á bænum orðin:
Bóndans höfuðprýði dottin;
móðir góð ei mælir lengur;
meinabótin sést hér ekki.
Húsfreyjan með hugarprýði
hnigin er að loknu starfi.
Handarvana höldur stendur,
höndina tók dauðans mundin.
Bæjarprýðin burt er horfin,
búið sínu skrauti rúið.
Burt er gestagleðin vikin;
gjöful hönd er köld og stirðnuð.
Sveitaprýðin frá er fallin;
fæstar hennar ganga í sporin.
Karlmannsdugur kærleik fylgdi,
kvenskörungamerki bar hún.
Lífið dauðans löngum hlýðir.
Lífið vekur upp þá dauðu.
Lífsins vonir lífið glæðir.
Lífið á við dauða í stríði.
S.

Árni Einarsson meðhjálpari andaðist 19. febrúar 1899 í Reykjavík, nærri 75 ára gamall. Hann mun hafa verið að leita sér lækninga, er hann lézt.
Feðgarnir Einar Sigurðsson og Árni Einarsson voru alls nær 90 ár hinir trúverðugustu þjónar Landakirkju og sóknarbarna hennar.
Við greftrun Árna meðhjálpara Einarsson var séra Friðrik Friðriksson í Reykjavík fenginn til að yrkja erfiljóð, sem ég leyfi mér að birta hér. Það felur í sér að viti kunnugra réttlátan og sannan dóm um hinn merka bónda og fórnfúsa starfskraft Landakirkjusafnaðarins um hálfrar aldar skeið ásamt mörgum öðrum trúnaðarstörfum, er hann hafði á hendi fyrir byggðarlag sitt og samborgara.

Kristmundur Arnason frá Vilborgarstöðum.
Mynd þessi er tekin vestur í Chicago 1896. Kristmundur fæddist að Vilborgarstöðum 2. júní 1864 og ólst þar upp í Austurbænum hjá foreldrum sínum. Hann vann þeim öll uppvaxtarárin kauplaust og var þeim stoð og stytta eftir að eldri börn hjónanna voru ,,flogin úr hreiðrinu". Vegna þessa ánafnaði Árni Einarsson, faðir hans, honum 5 hundruðin sín í jörðinni Hallgeirsey í Kross¬sókn í Landeyjum 24. jan. 1885. - Kristmundur Árnason var barnakennari í heimabyggð sinni veturinn 1882-¬1883. (Sjá Blik 1962, bls. 85). Hann fór til Ameríku fyrir aldamót. Þar dvaldist hann ýmist í Chicago, Los Angeles eða West-Selkirk, lengst af þó í Los Angeles. Þar giftist hann um aldamótin. Konan var heilsulítil og heimilisaðstæður erfiðar. Ekki er mér kunnugt, hvenær Kristmundur lézt. Hann kom heim til Eyja snögga ferð haustið 1907. Annars stundaði hann iðnaðarstörf vestan hafs.
Kristmundur Árnason var á lífi 1914.
Elfan dýpst að djúpi streymir,
dynur minnst, því lygn hún er.
Indælt hana ávallt dreymir,
er til hafs hún flýtir sér.
Sjálf hún speglar himin heiðan,
veitir landi björg og bót,
berst þó ávallt hafi mót.
Lund þín virtist lík því vera,
ljúf og djúp, en þó svo sterk;
á því léztu eigi bera,
er þú framdir dáðaverk.
Friðsamt var þitt hreina hjarta,
heilagt skein þar ljós guðs bjarta;
dagsverk þarft þú hafðir hér,
himinn bjó í sálu þér.
Guð' sé lof, hve langur dagur
lýð til gagns þér veittist hér;
guð' sé lof, nú ljómar fagur
lífsins morgunn fyrir þér;
guði' sé lof, sem blessun bar þér,
bót í sorg og gleði var þér,
guði' sé lof, sem glaða lund
gaf þér lífs að efstu stund.
Þó að börn þín sáran sakni,
systir öldruð þrái fund,
og hjá frændum ami vakni,
á þó gleðin þessa stund,
gleðin þinni ævi yfir,
álit, er sáðir, vex og lifir,
þroskast fyrir land og lýð;
lýsir æ þín minning blíð.
Eyjar fagrar úti' í sævi
aldrei munu gleyma þér,
þeim þú varðir allri ævi,
ávöxt bar þinn starfi ber.
Sæmdir þar og heiður hlauztu,
heilla þar og kærleiks nauztu;
starfi þinn í trú og tryggð
týnzt fær aldrei þar í byggð.
Föðurást og elsku hreina
öll þín börn þér þakka nú;
vilja barnabörnin reyna
breyta fagurt eins og þú. -
Ölll vér biðjum: Gef oss góði
guð, svo dafni landsins gróði,
marga verkamenn sem hann,
missi oss að bæta þann.
Hvílstu svo í herrans nafni,
himnadýrð þig gleður nú.
Hvílstu í drottins helgra safni,
hjarta barnsins áttir þú.
Sálarþrá í sælu fyllist,
sérhver und og harmur stillist,
frelsarann þú fékkst að sjá,
ferli hans þú gekkst hér á.
Veit oss, guð, að vinna og stríða,
veit oss, drottinn, sigri að ná,
veit í trú að vaka og bíða,
veit oss þig í dýrð að sjá.
Ver vor stoð í straumi tíða,
styrk oss veittu til að líða.
Lof sé þér um ár og öld
ævimorgna, lífs um kvöld.
Fr. Fr.

Endanleg skipti á dánarbúi Árna Einarssonar, meðhjálpara, fóru fram 28. des. 1900. Arfurinn nam 143 krónum og 74 ½ eyri á hvert barn þeirra hjóna, en þau voru þá 6 á lífi. Fyrir skiptafundinum lá bréf frá Árna föður þeirra, þar sem hann óskaði þess, að Kristmundur sonur hjónanna, fengi sérgreiðslu úr óskiptu búi þeirra fyrir það, hversu lengi hann hafði unnið foreldrum sínum launalaust, eftir að hin systkinin fluttust frá þeim og burt úr Eyjum.

Tilvísanir

¹ Fyrsta barnið, sem fæddist í Fæðingarstofnuninni, var meybarn. Það fæddist þar 25. sept. 1847 og var skírt Ólöf. Foreldrarnir voru hjónin í Brandshúsi (nú Batavía eða Heimagata 8), Sveinn Þórðarson og Ingveldur Guðbrandsdóttir. Sama dag fæddist þar sveinbarn, sem skírt var Benedikt. Foreldrar voru hjónin í Hólshúsi, Benedikt Benediktsson og Ragnhildur Stefánsdóttir. Þriðja og fjórða barnið, sem fæddust í Fæðingarstofnuninni voru tvö meybörn, Sophie Elisebet og Guðlaug. Þessi börn fæddust 8. október. Foreldrar Sophie Elisebetar voru hjón, sem þá bjuggu í Söelyst (Sjólyst), Anders Asmundsen, skipstjóri, og Ásdís Jónsdóttir. Síðar hjón í Stakkagerði. Soffía E. Andersdóttir varð kunn kona í byggðarlagi sínu, eiginkona Gisla Stefánssonar bónda, útgerðarmanns og kaupmanns að Hlíðarhúsi. Þau voru foreldrar séra Jes A. Gíslasonar og þeirra systkina. Guðlaug, sem einnig fæddist 8. okt., var dóttir ógiftra vinnuhjúa, Guðmundar Eiríkssonar og Kristínar Björnsdóttur. Fimmta barnið, sem fæddist í Fæðingarstofnuninni, var Jóhann Jörgen Johnsen. Hann var fæddur 9. október 1847, eins og að ofan greinir.

² Nokkrir þessara muna eru nú geymdir í Byggðarsafni Vestmananeyja.