Þór Ísfeld Vilhjálmsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. janúar 2024 kl. 11:01 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. janúar 2024 kl. 11:01 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þór Ísfeld Vilhjálmsson frá Burstafelli við Vestmannabraut 65a fæddist 30. nóvember 1945.
Foreldrar hans voru Vilhjálmur Árnason frá Burstafelli, verslunarmaður, framkvæmdastjóri, f. 19. febrúar 1921, d. 19. febrúar 1993, og kona hans María Gísladóttir húsfreyja, f. 6. mars 1923 í Neskaupstað, d. 11. janúar 2016.

Börn Maríu og Vilhjálms:
1. Óli Árni Vilhjálmsson, f. 18. október 1941, d. 24. desember 2021. Fyrrum kona hans Jenny Joensen. Kona hans Ólafía Skarphéðinsdóttir.
2. Þór Ísfeld Vilhjálmsson, f. 30. nóvember 1945. Kona hans Sólveig Adolfsdóttir.
3. Sæmundur Vilhjálmsson, f. 7. desember 1948. Fyrrum kona hans Elín Kristín Þorsteinsdóttir. Kona hans Fríða Jóna Ágústsdóttir.
4. Sigurbjörg Vilhjálmsdóttir, f. 2. nóvember 1956. Maður hennar Muggur Pálsson.
5. Vilhjálmur Vilhjálmsson, f. 5. mars 1963. Fyrrum kona hans Andrea Sigurðardóttir. Kona hans Ragnhildur Svansdóttir.

Þór var með foreldrum sínum í æsku.
Hann lauk skyldunámi í Gagnfræðaskólanum í Eyjum 1959, lauk námi í vélstjórn í Vélstjóraskólanum í Eyjum 1964 og skipstjórnarnámi í Stýrimannaskólanum í Eyjum 1967, og sat námskeið tengd sjávarafla og mannauðsstjórnarnámskeið í HÍ.
Hann varð sjómaður á 15. ári, var háseti, vélstjóri, stýrimaður og skipstjóri í 20 ár, var verkstjóri og síðar starfsmannastjóri hjá Vinnslustöðinni frá 1979 til 72 ára aldurs, var leiðbeinandi í meðferð sjávarafla á fiskvinnslunámskeiðum í Eyjum um árabil.
Þór sat í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja í 18 ár, þar af stjórnarformaður í 8 ár.
Hann var í stjórn Íþróttafélagsins Þórs 17 ára 1962, gegndi síðar starfi formanns í 9 ár frá 1985-1994. Hann sat í nefnd, sem kom að stofnun ÍBV-íþróttafélagsins og var kjörinn fyrsti formaður þess 1996 og gegndi því starfi til 2003, en síðan formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja til 2016. Hann varð svo aftur formaður ÍBV-íþróttafélags árin 2019-2022. Hann sat í stjórn Íþróttamiðstöðvar Vestmannaeyja í 16 ár og hefur verið fulltrúi Vestmannaeyja og Suðurlands í vinnuhópi ÍSÍ um ferðasjóð íþróttafélaganna frá stofnun sjóðsins 2007.
Þór hefur verið formaður Félags eldri borgara í Vestmannaeyjum frá 2018.
Viðurkennningar:
Silfur- og gullmerki KSÍ.
Silfurmerki HSÍ.
Heiðurskross ÍBV á sjötugsafmæli sínu.
Heiðurskross ÍSÍ 2017.
Þau Sólveig giftu sig 1965, eignuðust þrjú börn. Þau búa við Hraunslóð 1.

I. Kona Þórs, (23. október 1965), er Sólveig Adolfsdóttir húsfreyja, f. 1. október 1946 á Hlíðarenda á Ísafirði.
Börn þeirra:
1. Adolf Hafsteinn Þórsson bifvélavirki, f. 23. apríl 1966. Kona hans er María Sigurbjörnsdóttir.
2. María Þórsdóttir bókari, f. 6. janúar 1972. Fyrrum maður hennar Einar Guðnason.
3. Helga Sigrún Þórsdóttir sérkennari, umsjónarmaður, f. 15. nóvember 1978. Maður hennar Jónas Guðbjörn Jónsson.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.