Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Gyða í Mandal

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. apríl 2016 kl. 16:49 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. apríl 2016 kl. 16:49 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: '''Jón Sverrisson:'''<br> <center><big><big>'''Gyða í Mandal'''</big></big></center><br> ''Eftirfarandi gr...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Jón Sverrisson:

Gyða í Mandal


Eftirfarandi grein er rituð af Jóni Sverrissyni, en hann var sveitungi Gyðríðar. Jón kom til Eyja 1919 og var yfirfiskimatsmaður frá 1924-1945. Sonur Jóns, Karl varðstjóri í lögreglunni í Vm. fann þetta handrit í pússum föður síns og gaf leyfi til birtingar.

Hún er nú látin fyrir allmörgum árum, en minningarnar um hana hljóta að lifa lengi í hugum margra Skaftfellinga og að sjálfsögðu líka Vestmannaeyinga.
Gyðríður Stefánsdóttir hét hún og var fædd 20. júní 1863. Hún dó í Vestmannaeyjum 25. ágúst 1951. Foreldrar hennar voru Stefán Höskuldsson fæddur 1822 og kona hans Sigríður Einarsdóttir, fædd 1822. Hún var fædd og uppalin í Sauðhúsnesi í Álftaveri, V-Skaftafellssýslu.
Snemma á lífsleiðinni hefur hún þurft að byrja harða lífsbaráttu, því að hún var að ég held eina barn foreldra sinna sem á legg komst, ef hún hefur þá átt systkini. Ekki man ég að hafa heyrt þess getið. Mér sögðu samtíðamenn hennar, að Stefán faðir hennar hafi verið lamaður á fótum og þess vegna hafi hún á ungaaldri orðið að taka að sér flest erfiðustu störfin. Hún sýndi mikinn dugnað svo fólk undraðist afköst hennar og þrautseigju.
Foreldra sína missti Gyðríður með stuttu millibíli. Stefán faðir hennar dó 1882 og móðir hennar Sigríður, dó 1884.
Á árinu 1882 kom ungur maður, Árni Runólfsson frá Svínafelli í Skaftártungu, sem vinnumaður að Sauðhúsnesi. Hann var af góðu fólki kominn og álitinn myndar maður. Þau Gyðríður og Árni felldu hugi saman og byrjuðu búskap á Sauðhúsnesi og hefur Gyðríður þá verið um eða innan við tvítugt. Þau eignuðust sjö börn, tvö dóu ung.
Árni missti heilsuna snemma á búskaparárum þeirra, en lifði lítt eða ekki vinnufær til 26. janúar 1897. Þegar Árni missti heilsuna kom það í hlut Gyðríðar að verða aðal fyrirvinna fjölskyldunnar, ein síns liðs við mjög þröngan efnahag. Þegar Árni maður hennar dó kom hún börnunum til fósturs, þeim sem ekki höfðu þegar verið tekin af góðu fólki til þess að létta undir með heimilinu. Í þessu byggðarlagi var gott fólk og vildi hjálpa náunganum, þó flestir væru fátækir.
Gyðfríður fór nú í vinnumennsku, fyrir innan sveitirnar og síðan í nálægum byggðarlögum. Þegar ég fluttist í Álftaverið 1899, var hún farin þaðan. Fljótlega upp úr aldamótum, en hún skráð í Stakkagerði í Vestmannaeyjum og hefur sennilega búið í Eyjum eftir það.
Í ársbyrjun 1918 fer elsti sonur minn til vertíðardvalar í Vestmannaeyjum ásamt fleiri ungum mönnum úr Álftaveri. Þá er Gyðríður frá Sauðhúsnesi búandi þar og var almennt kölluð Gyða í Mandal. Þá er það hún sem tók á móti þeim öllum er þeir komu til Eyja, mjög aðþrengdir, hraktir og kaldir eftir erfitt ferðalag. Það var norðan rok og mjög hart frost. Báturinn lítill, sem flutti þá til Eyja, svo þeir hafa verið á dekki, flestir sennilega sjóveikir. Hún fór með þá alla heim í kjallarann í Mandal og gaf þeim mat og kaffi og veitti þeim alla þá fyrirgreiðslu sem henni var mögulegt.
Ég hef sannfrétt að þetta var alls ekki í fyrsta sinn sem hún hafði sýnt ungum sveitungum sínum móðurlega hlýju, þegar þeir komu oft illa til reika í alókunnugt umhverfi.

Ég fluttist til Vestmannaeyja vorið 1919 eftir að Kötlugosið 1918 hafði gert illbúanlegt í Álftaveri. Þá féll fénaður og land spilltist mikið um árabil. Þá kynntist ég Gyðu í Mandal vel og að góðu einu. Ég bjó í Eyjum í tuttugu og fjögur ár og allan þann tíma hélt Gyða áfram góðgerðastarfsemi sinni. Hún og Gunnar Ólafsson konsúll og útgerðarmaður voru að heita mátti samtaka um að greiða götu ungra manna úr Skaftafellssýslu, einkum þeirra sem komu í fyrsta sinn hingað, óráðnir og vegalausir. Hann með því að skaffa þeim vinnu og hún tók suma þeirra í fæði vetur eftir vetur, einkum þá úr Álftaveri.
Gyða í Mandal eyddi ekki því sem hún eignaðist um æfina til þess að kaupa glingur og skrautmuni. Nei hún varði því til góðgerða við gesti og gangandi.
Það er víst að þeir sem nutu og þeir sem kunnu að meta störf hennar munu minnast hennar með þakklæti og blessa minningu hennar.
Gyða eignaðist átta börn á lífsleiðinni. Þau sem upp komust og ég hafði kynni af eru allt myndar og dugnaðarfólk, en það eru:
Sigríður, húsmóðir, bjó í Vestmannaeyjum allan sinn búskap, eignaðist þrjú börn, allt myndar- og dugnaðarfólk. Meðal barna hennar er Jón Ísak Sigurðsson hafnsögumaður í Vm.
Jón bóndi í Holti, Álftaveri.
Stefán. yfirlögregluþjónn í Ve.
Árný, var kennd við Suðurgarð í Ve.
Um afdrif Ingibjargar og Guðmundar er mér ókunnugt.
Allt var þetta fólk góðir þjóðfélagsþegnar, sem munu eins og ég og aðrir þeir sem þekktu Gyðu og nutu kærleiksverka hennar, minnast hennar með þökk og virðingu fyrir þátt hennar á liðnum tíma.
Úr blöðum Jóns Sverrissonar