Vestmannaeyjaflugvöllur
Framan af tuttugustu öldinni voru flugsamgöngur sama og engar. Fyrsta flug til Eyja sem heppnaðist var árið 1928. Lenti flugvélin, sem var vatnaflugvél, í höfninni. Ekkert gerðist í málunum fyrr en árið 1945, þegar bygging flugvallarins hófst. Jóhann Þ. Jósefsson átti frumkvæðið í flugvallamálum Vestmannaeyinga, enda var hann alþingismaður þeirra. Hann, ásamt reyndum flugmönnum, gerði frumathuganir á skilyrðum á Heimaey til flugvallagerðar. Þeir komust að því að hagstæðast væri að byggja flugvöllinn austan Ofanleitis, þar eð austanátt var ríkjandi vindátt. Verkfræðingar voru sammála staðsetningunni og var tillaga til flugvallargerðar samþykkt á Alþingi 1944-45.
Fyrsta flugvélin lenti á flugbrautinni þann 14. ágúst 1946. Flugbrautin var þá 250 m löng. Það var flugvélin Piper Cub J-3 TF-KAK sem skráði sig á spjöld sögunnar þann dag. Áætlunarflug hófst skömmu eftir vígslu flugvallarins, sem var 13. nóvember 1946.